Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Svandís Íris Hálfdánardóttir

Aðventan, jólin og sorgin

Kerti á jólaborðAðventa, jól og áramót eru oft lang erfiðasta tímabil ársins fyrir syrgjendur. Í hugum margra eru jólin og áramótin hátíð fjölskyldunnar og gleðilegra samverustunda hennar. Á aðventunni kann að vera að syrgjendur langi helst að hátíðunum ljúki sem fyrst og desember hreinlega hverfi úr almanakinu.

Erfitt getur verið að heyra jólalögin hljóma hvert sem farið er og fólk að óska hvert öðru gleðilegra jóla. Ef til vill kemur einhver auga á tilvalda jólagjöf en gerir sér svo grein fyrir að ástvinurinn er ekki lengur á lífi til þess að njóta hennar.

Nokkur ráð til að komast í gegnum hátíðirnar:

 • Samverustundir fjölskyldunnar geta tekið á. Verið heiðarleg hvert við annað um tilfinningar ykkar. Ræðið saman um hvað þið viljið gera yfir hátíðirnar. Ekki setja markið of hátt, hvorki fyrir ykkur sjálf né fjölskylduna.
 • Engin ein rétt leið er til þess að fara í gegnum þessa hátíðisdaga. Sumir vilja fylgja fjölskylduhefðum, en aðrir breyta til. Það er allt í lagi að breyta aðeins út af vananum. Hugsið aðeins ein jól í einu og látið jólaundirbúninginn og fyrirkomulag hátíðanna ráðast af líðan ykkar núna. Á næsta ári er hægt að gera hlutina öðruvísi.
 • Einbeitið ykkur að því að gera það sem þið treystið ykkur til. Ekki hugsa um hvað þið „ættuð“ að gera. Veitið sjálfum ykkur leyfi til þess að gera ekki neitt. Þegar þið sem fjölskylda hafið ákveðið hvernig þið ætlið að haga hátíðunum látið þá aðra vita.
 • Við undirbúning jólanna er mikilvægt að gera aðeins það sem ykkur þykir gaman að gera. Leitið leiða til þess að komast hjá því sem vex ykkur í augum. Bakkelsið má kaupa. Mikilvægt er að leita eftir aðstoð við það sem er erfiðast, t.d. að biðja ættingja að kaupa jólagjafirnar eða skreyta jólatréð.
 • Það getur verið erfitt að versla fyrir jólin, en það getur hjálpað að byrja snemma eða taka einhvern með sem getur aðstoðað. Ættingjar og vinir gætu jafnvel keypt inn fyrir ykkur ef þau fá að vita hve erfitt þetta er.
 • Ef þið hafið ákveðið að skreyta heimili ykkar, fáið þá hjálp frá börnum, öðrum úr fjölskyldunni eða vinum. Það er í lagi að gera eitthvað öðruvísi en vanalega eða bara skreyta ekki neitt. Munið þó að kertaljós og notaleg tónlist auka á vellíðan.
 • Hugleiðið að fækka jólakortum í ár. Það er ekki nauðsynlegt að senda kort, sérstaklega ekki fólkinu sem þið hittið um hátíðirnar.
 • Hvernig ætlið þið að bregðast við þegar fólk óskar ykkur gleðilegra jóla? Hugleiðið fyrirfram hvernig þið ætlið að svara.
 • Ef til vill gerir það ykkur gott að þiggja matarboð hjá ættingjum eða vinum á hátíðunum. Ef þið ákveðið að halda matarboð heima hugleiðið þá hvort ástæða sé til að breyta aðeins út af venjunni, t.d. hafa eitthvað annað í matinn en venjulega.
 • Verið góð við ykkur sjálf og búist ekki við of miklu. Það er eðlilegt að gráta á ljósanna hátíð þegar sorg er í hjartanu. Það getur hjálpað öðrum að syrgja og sýnt þeim að það er í lagi að vera sorgmæddur, jafnvel á jólum.
 • Þegar jólin nálgast reynið þá að tjá einhverjum sem þið treystið tilfinningar ykkar, áhyggjur og þakklæti. Segið frá því sem ykkur veitist erfitt. Þiggið alla hjálp sem býðst. Frídagar verða oft til þess að tilfinning um missi margfaldast. Leyfið ykkur að finna fyrir þeim tilfinningum sem koma.
 • Mikill ys og þys fylgir oft jólahátíðinni. Þess vegna þurfa syrgjendur að hvíla sig eins vel og kostur er. Þeim veitir ekki af allri sinni orku.

Sumir halda að þegar nokkrir mánuðir eru liðnir frá andláti ástvinar séu syrgjendur að „komast yfir missinn“. En söknuðurinn eftir ástvininum verður fylginautur syrgjenda ævilangt. Reynslan hefur hins vegar sýnt að flestir muni geta notið hátíða eins og jóla, hátíðar ljóss og vonar.

Svandís Íris Hálfdánardóttir,hjúkrunarfræðingur á Líknardeild LSH í Kópavogi staðfærði með hliðsjón af bókinni: Bereavement Care (1993), Victoria Hospice Society, Kanada. Þennan texta er einnig að finna í bæklingi sem Ný dögun hefur gefið út. Hann liggur frammi á Líknardeild Landspítalans og á fleiri stöðum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3875.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar