Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Magnús Erlingsson

Hvað eiga blogg og kristniboð sameiginlegt?

Þúsundir Íslendinga eru með bloggsíðu þar sem þeir veita fólki svolitla innsýn í sitt persónulega líf og skoðanir. Stundum má skoða þarna ljósmyndir og jafnvel finna nýtilegar uppskriftir, líkt og 40 hvítlauksgeirakjúklinginn, sem ég sá hjá sr. Sigurði Árna. En í flestum tilfellum er fólk þarna að tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum líðandi stundar.

Það er sem sagt mikilvægt að tjá skoðanir sínar. Við viljum að rödd okkar heyrist í samfélaginu. Að taka þannig þátt í almennum umræðum er ein leiðin til að hafa áhrif því orð er jú til alls fyrst. Umræðan í netheimum hefur áhrif á skoðanir fólks og með tímanum verða teknar ákvarðanir í samfélaginu, sem byggjast á þessum skoðanaskiptum. Vandinn er kannski sá að mjög margt af því, sem bloggað er á netinu eru óáreiðanlegar upplýsingar. Netið er svolítið eins og skraf yfir kaffibolla. Menn láta vaða á súðum á milli þess, sem þeir leysa heimsgátuna.

Með vissri einföldun mætti segja að þarna væri kominn samkeppnisaðili við predikunarstólinn. Á meðan presturinn stendur í stólnum og predikar þá sitja hundrað manns við tölvuna sína og buna úr sér sínum andlegu predikunum. Má í raun kallast gott að fólk komi enn til kirkju að hlusta á prestinn, þessa einu rödd úr stólnum, þegar í boði eru þúsund ræður á netinu.

Blogg og predikun eiga það sammerkt að í báðum tilfellum er fólk að koma á framfæri einhverjum skilaboðum, einhverju sem því liggur á hjarta. Kostir bloggsins sem tjáningarmiðils fram yfir predikunarstólinn eru þeir að þar er boðið upp á samtal og athugasemdir.

Annar sunnudagur í nóvember er í kirkjunni helgaður kristniboði. Kristniboð er víst ekki það, sem kallað er heitt mál í þjóðfélaginu, það er ekki inn í umræðunni. Sumum finnst kristniboð jafnvel hallærislegt og gamaldags, ef ekki bara tímaskekkja. Af hverju kristniboð? Í raun mætti alveg eins spyrja: Af hverju blogga? Er það ekki rosalega fornaldarlegt að vera tjá öðrum skoðanir sína og sannfæringu?

Hvað eru bréf Páls postula annað en blogg þess tíma! Páll sagði að trúin kæmi af boðuninni. Þau orð eru jafn sönn í dag og þegar þau voru fyrst sögð. Áróður, auglýsingar, umtal, allt hefur þetta áhrif. Ef kirkjan vill hafa áhrif á hugsanagang fólks og sannfæringu þá verður hún að stíga fram og tala og boða kristna trú.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Hvað eiga blogg og kristniboð sameiginlegt?”

  1. Björn Erlingsson skrifar:

    Þakka góða áminningu. Blogginu má líkja við bréfin og við getum rétt gert okkur í hugalund hvílík andlegð auðlegð skapaðist af því að allir prestar kæmu sínu efni í blogg sem lesa mætti á netinu. Ég held að þessi þróun sé hafin með vefnum tru.is, en fleiri mættu leggja því lið og margir eru að gera gera góða hluti þar. Það þarf að gera vel á öllum stigum og klára skalan, börn og ungmenni sem og eldra fólkið er þarna líka, - þe í netheimum, en meir og minna afskekkt.
    Þakka þér enn og aftur, - með góðri kveðju Björn E

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4204.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar