Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir

Góðverkadagatalið

Jóladagatölin eru komin í búðir. Í Kirkjuhúsinu fást falleg dagatöl með helgimyndum, í Rúmfatalagernum fjölnota dagatöl með vösum fyrir nammi eða annað, í matvöruverslunum súkkulaðidagatöl með tannkremstúbu í kaupbæti.

Ég man hvað mér fannst spennandi að opna glugga á dagatalinu fyrir jól þegar ég var barn. Við vorum þrjú systkinin og því opnaði ég aðeins þriðja hvern dag. Sá sem var síðastur í röðinni og yngstur fékk að opna á aðfangadag. Það var tvöfaldur gluggi og sýndi mynd af Jesú í jötunni, Maríu og Jósef. Stundum breyttum við röðinni svo að aðrir fengju að opna á aðfangadag, því að það var auðvitað aðal myndin.

Synir mínir hafa löngum verið ginnkeyptir fyrir súkkulaðidagatölum. Sjálf er ég ekki hrifin af því að börn borði súkkulaði fyrir morgunmat og gróf því fyrir nokkrum árum upp gamalt, heimagert dagatal þar sem gert er ráð fyrir að „gjafir“ hvers dags séu hengdar upp fyrir 1. desember og síðan klipptar niður.

Aðventa er jólafasta - tími til að fasta, íhuga og biðja. Tími til að minnast boða Krists og gera gott. Í fyrra tók ég upp nýjan sið til að vekja heimilisfólk til umhugsunar um þetta og breytti jóladagatalinu í góðverkadagatal. Hver dagur, hver „gluggi“ á dagatalinu, færir nýtt verkefni til góðs. Ekki mjög stór, eitthvað sem við ráðum við, en samt nóg til þess að við þurfum að leggja okkur fram við að gera það.

Drengirnir mínir, sem nú eru hálfir á unglingsaldrinum, tóku þessu vel og kvörtuðu bara nokkrum sinnum yfir því að fá ekki súkkulaðidagatal. Í staðinn gaf hver morgunn færi á að rifja upp nauðsyn þess að lifa í samræmi við boðskap Krists, eins og Sigurbjörn Einarsson orðaði svo vel í sálmi 374:

Að létta bróður böl
og bæta raunir hans,
að seðja, gleðja, græða mein
sé gleði kristins manns.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Góðverkadagatalið”

 1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þetta er snjöll hugmynd og mig langar sannast sagna nokkuð að prófa þetta. Getur þú ekki gefið lesendum pistilsins nokkur dæmi um góðverk?

 2. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Þau eru frekar einföld og fara svolítið eftir getu einstaklinganna.
  Eitt er að fara með hjálparstarfsbaukinn til hjálparstarfs kirkjunnar. Annað að gleðja einhvern fjölskyldumeðlim á óvæntan hátt. Þriðja að hringja í afa eða ömmu og segja að þér þyki vænt um þau - eða fara í heimsókn til einhvers sem er veikur til að gleðja. Aðstoða fjölskyldumeðlim eða vin sem þarf hjálp (t.d. með því að fara út í búð fyrir einhvern sem kemst ekki sjálfur) osfrv.
  Það er hægt að safna flöskum og dósum til að gefa afrakstur til Rauða krossins og margt fleira, en fer eftir aldri og getu.

 3. árni.annáll.is - » Hvers konar jóladagatal? skrifar:

  […] Adda Steina skrifar fínan pistil um jóladagatal heimilisins þar sem súkkulaði og/eða fallegum myndum hefur verið skipt út fyrir náungakærleika og góðverk. Nú er rúm vika í að aðventan hefjist. Hvers vegna ekki að setjast niður eina kvöldstund og púsla saman svona dagatali fyrir fjölskylduna. Það gæti gert aðventuna að betri tíma. […]

 4. Dagný Halla Tómasdóttir skrifar:

  Ég hef verið með góðverkadagatal síðustu þrjár aðventur fyrir börnin mín og hyggst gera það aftur núna. Mér finnst aðalmálið vera að hafa góðverkin ekki of flókin svo að það náist að framkvæma þau samdægurs. Annars er ekki eins auðvelt og það lítur út fyrir að finna 24 einföld góðverk :-)

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4244.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar