Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Örn Bárður Jónsson

Í Rangoonum og Reykjavíkum heimsins

Þegar búddamunkarnir gengu þúsundum saman af yfirvegun og hógværð í friðsömum mótmælum um götur Rangoon í Burma á dögunum og mótmæltu spilltri stjórn landsins varð mér hugsað til mikilvægis heilbrigðrar trúar og trúarbragða í sérhverju þjóðfélagi

Þú tókst vonandi eftir því að ég notaði orðið heilbrigði í þessu sambandi. Vissulega er líka til óheilbrigð trú sem skilgreina má nánar sem öfgatrú og ennfremur sem bókstafstrú. Búddamunkarnir í Burma standa með þjóð sinni og boða lífsgildi eins og þeir hafa gert um aldir. Þeir eru að mínum skilningi fulltrúar heilbrigðrar trúar.

Allt of oft heyrum við neikvæðar fréttir af trúarbrögðum í fjölmiðlum. Heittrúaða múslima ber þar til að mynda oft á góma og svo eru einnig tínd til ýmis meint dæmi um það þegar kirkjan í heiminum eða önnur trúarsamtök eða trúarheildir fóru út af hinum rétta vegi í tilteknum málum. Og þá er gjarnan alhæft og fullyrt að allir kristnir menn eða allir fylgjendur tiltekinna trúarbragða séu einnar skoðunar. Alhæfingar eru yfirleitt vondar.

Fordæmi búddamunkanna er fagurt dæmi um trú sem vogar í kærleika. Hvað vilja gagnrýnendur trúarbragða segja um þátt þeirra í baráttunni fyrir réttlæti? Og hvað vilja þeir til dæmis segja um þátt kaþólsku kirkjunnar og Jóhannesar Páls II páfa í frelsun Póllands undir lok liðinnar aldar? Eða þátt lúthersku kirkjunnar í Austur-Þýskalandi fyrir fall Berlínarmúrsins? Eða áherslur Nelson Mandela í sáttargjörð í S-Afríku sem flestar má rekja til kristinna grunngilda? Allt of algengt er að einungis sé haldið á lofti hinu neikvæða sem getur hent öll félög eða samtök hvort sem þau teljast til trúarbragða, stjórnmálaflokka eða félaga. Í hvaða félagsskap manna sem er eru syndugir menn, ófullkomnir og fálmandi, karlar og konur, sem gera mistök, en hafa um leið mikla möguleika til að láta gott af sér leiða. Trúarbrögðin eru seld undir sömu örlög og önnur mannleg samtök.

Stundum er því haldið fram að allt muni verða betra verði trúarbrögðum útrýmt. Í því sambandi má spyrja: Hvernig tókst þeim stjórnmálaforingjum upp á liðinni öld, sem reyndu einmitt að banna alla trú og töldu að trúlaus skynsemi mannsins ein gæti fært þeim hamingjuna? Óþarfi er að rifja upp nöfn þeirra hér. Við munum þessa menn, mistök þeirra og glæpi gegn mannkyni.

Kristin trú hefur mótað okkar þjóðfélag í þúsund ár. Fyrstu menn sem hér stigu á land voru líklega kristnir munkar. Ísland er því hugsanlega eina landið í heiminum þar sem kristni hefur verið til staðar frá upphafi byggðar. Hingað komu ennfremur heiðnir menn í upphafi en þeir snerust flestir til kristni í tímans rás og hér þróaðist kristið samfélag.

Enn er samfélag okkar mótað af kristinni trú og gildum en á þó langt í land með að teljast fullkomið og verður það víst aldrei. En hver kynslóð verður að takast á við sín verkefni og leitast við að skapa hér réttlátt þjóðfélag umburðarlyndis, réttlætis og friðar. Í þeim efnum skipta heilbrigð trú og siður miklu máli, trúarleg gildi og trúariðkun. Fólk í öllum Rangoonum og Reykjavíkum heimsins þarfnast heilbrigðrar trúar.

- - -
Pistill ritaður fyrir Vesturbæjarblaðið í október 2007

Um höfundinn13 viðbrögð við “Í Rangoonum og Reykjavíkum heimsins”

 1. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Hverju voru munkarnir að mótmæla?

 2. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Voru þeir ekki að mótmæla ofríki og óstjórn herforingjastjórnar í landinu!

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Það má vera, en hvað hratt þessum mótmælum af stað?

 4. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Ætli þú verðir ekki að svar þessu bara sjálfur, Matthías. Auglóst er að eitthvað liggur undir hjá þér í þessum spurningum. Segðu bara hug þinn. Sannleikurinn er alltaf bestur.

 5. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Ég skal glaður svara þessu en gerði ráð fyrir að þú hefðir kynnt þér þessi mál.

  Mótmælin hófust þann 15. ágúst þegar yfirvöld í Myanmar hættu að niðurgreiða eldsneyti sem olli því að bensín og olía hækkaði um 100% í verði.

  Stúdentar og stjórnarandstæðingar hófu mótmælin en þau voru fljótt kveðin í kútinn þegar tugir mótmælenda voru handteknir. Þann 18. ágúst voru mótmælin leidd af munkunum, eins og við öll þekkjum enduðu þau með ofbeldi yfirvalda þann 26. september.

  Það er náttúrulega áhugavert af hverju þessi heilagleiki á að hvíla á fólki trúarinnar, af hverju finnst okkur eðlilegt að hikað sé við að beita ofbeldi gegn munki en ekki háskólanemanda?

  Hvað vilja gagnrýnendur trúarbragða segja um þátt þeirra í baráttunni fyrir réttlæti?

  Grein þín byggir á strámanni sem gengur út á að einhverjir haldi því fram að trúað fólk geti ekki gert nokkuð gott. Þetta er náttúrulega fyrra og jafnvel hörðustu andstæðingar trúarbragða hafa aldrei sagt nokkuð í þessa átt.

  Og hvað vilja þeir til dæmis segja um þátt kaþólsku kirkjunnar og Jóhannesar Páls II páfa í frelsun Póllands undir lok liðinnar aldar?

  Ætlum við leyfum kirkjunni ekki bara að njóta sannmælis en bendum um leið á ýmislegt annað sem hún ber ábyrgð á. Væri ekki dálítil hræsni fólgin í því að þakka trúnni allt það góða en neita að horfast í augu við það slæma sem henni tengist?

  Stundum er því haldið fram að allt muni verða betra verði trúarbrögðum útrýmt.

  Gætir þú nefnt eitt dæmi þar sem þessu er haldið fram? Ég held reyndar að flest yrði betra ef trúarbrögðum væri útrýmt en ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki er mögulegt að útrýma þeim nema með sama hætti og þeim var komið á - með ofbeldi. Slíkt get ég ekki liðið.

  En það er hægt að draga úr áhrifum trúar og trúarbragða með fræðslu og með því að koma í veg fyrir óæskilegan áróður, t.d. gagnvart börnum. Það tekur bara dálítinn tíma. Þessi athugasemd er lítill liður í því ferli.

  Verst er að efni hennar mun ekki koma lesendum Vesturbæjarblaðsins fyrir sjónir.

 6. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Mér finnst þessi fullyrðing þín frekar undarleg, Matti:

  Ég held reyndar að flest yrði betra ef trúarbrögðum væri útrýmt en ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki er mögulegt að útrýma þeim nema með sama hætti og þeim var komið á - með ofbeldi. Slíkt get ég ekki liðið.

  Trúarbrögð hafa fylgt manninum frá örófi. Hvernig getur þú fullyrt að þeim hafi verið komið á með ofbeldi?

 7. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Að sjálfsögðu hefði ég átt að segja að trúbrögðum hefði meðal annars verið komið á með ofbeldi”. Því þyrfti eflaust “meðal annars” ofbeldi til að útrýma trúarbrögðum.

  Það er varla hægt að deila um það að ofbeldi hefur töluvert komið við sögu.

  Ég ítreka að ég veit ekki til þess að nokkur telji það raunhæft markmið eða vilji stefna að því að útrýma trúarbrögðum. Þó hef ég lesið flest það sem háværir trúleysingjar hafa skrifað hér á landi og erlendis.

  Það er alveg nægilegt markmið að draga úr útbreiðslu þeirra og vera mótvægi við boðunina.

 8. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Ég hef enga þóknun á því að ranglát yfirvöld taki hart á trúleysingjum né nokkrum öðrum sem mótmæla ranglæti.

  Sjálfur tók ég virkan þátt í að mótmæla aðförinn að Falun Gong fólkinu sem hingað kom um árið og vildi með því standa vörð um rétt þeirra til að mótmæla. Þau eru ekki sömu trúar og ég og þið Vantrúar menn ekki heldur.

  Ég fagna heiðarlegri umræðu og vil að þú vitir að málflutningur ykkar Vantrúarmanna hefur meðal annars þau áhrif að efla mig og okkur kirkjufólk til enn virkari boðunar.

 9. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Ég hef enga þóknun á því að ranglát yfirvöld taki hart á trúleysingjum né nokkrum öðrum sem mótmæla ranglæti.

  Hvernig tengist þetta athugasemd minni?

  Sjálfur tók ég virkan þátt í að mótmæla aðförinn að Falun Gong fólkinu sem hingað kom um árið og vildi með því standa vörð um rétt þeirra til að mótmæla. Þau eru ekki sömu trúar og ég og þið Vantrúar menn ekki heldur.

  Hvernig tengist þetta athugasemd minni? Gaf ég í skyn að þú værir á móti mótmælum?

  Ég fagna heiðarlegri umræðu…

  Hvað átt þú við með “heiðarlegri umræðu”? Finnst þér það “heiðarleg umræða” að skrifa villandi grein í Vesturbæjarblaðið þar sem þú gerir “gagnrýnendum trúarbragða” upp skoðanir? Finnst þér það “heiðarleg umræða” að lesendur Vesturbæjarblaðsins munu aldrei sjá nokkra leiðréttingu á þessari grein?

  Er það “heiðarleg umræða” þegar prestur hvetur kollega sína á póstlista til að hundsa Vantrú? Nei, það er “engin umræða”.

  …og vil að þú vitir að málflutningur ykkar Vantrúarmanna hefur meðal annars þau áhrif að efla mig og okkur kirkjufólk til enn virkari boðunar.

  Er þetta “heiðarleg umræða”? Skiptir einhverju máli þó við sýnum fram á að “þið kirkjufólk” vaðið yfir fólk, meðal annars með því að aðgreina börn eftir trúarskoðunum í leik- og grunnskólum og valdið foreldrum sárindum? Er ykkur skítsama um slíkt, svo lengi sem þið getið áfram boðað ykkar tilteknu trú? Ég sé ekki betur.

  Hvað þýðir “enn virkari boðun”? Kristniboð sem beinist að enn yngri börnum? Hvað finnst þér þá um að Vantrú fari að ykkar fordæmi og herji á leik- og grunnskólana? Er það ekki bara sanngjarnt? Ég get glatt þig með því að við munum aldrei leggjast svo lágt, okkur þykir slíkt ósiðlegt.

  Það væri heiðarleg umræða ef þú ræddir þær athugasemdir sem ég gerði við pistil þinn. Þú gætir byrjað á því að ræða strámanninn sem ég nefndi, því enginn hefur talað um að trúfólk geti ekki gert nokkuð gott. Hvað með að fjalla um þá staðreynd að kaþólska kirkjan hefur ýmislegt slæmt á samviskunni líka - eða dugar þér að benda á hið góða.

  Þú gætir líka bent á þá sem tala um að allt verði betra ef trúarbrögðum verði útrýmt.

 10. Finnbogi Helgason skrifar:

  Takk fyrir góðan pistil Örn.

 11. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Matthías, þér var mikið í mun að koma því til skila að aðrir en búddamunkarnir hefðu byrjað mótmælin og ég gat ekki skilið þína ofuráherslu á það atriði öðru vísi en svo að ég hefði viljað fela það og væri þar með sama um hvernig farið hefði verið með þá mótmælendur. Fyrstu athugasemdum í síðustu viðbrögðum þínum ætti þar með að vera svarað af minni hálfu. Hafi ég misskilið þig þá verður þú bara að tjá þig skýrar því sá sem ætlar að koma einhverju til skila verður að tryggja að það skili sér óbrenglað.

  Hverjir vilja trúarbrögðin feig? Ég vil nú ekki ætla John Lennon slíkar öfgar (er reyndar hrifinn af honum sem listamanni á margan hátt, þó ekki allan) en söngur hans Imagine ýjar þó að því og segir jafnvel beint að við getum ímyndað okkur heim án trúarbragða. Söngkonan Björk hefur tjáð sig í þá veru að allt verði í fínu lagi ef trúarbrögðin hverfi. Og svo er það nú páfinn ykkar í London, Richard Dawkins, sem boðar nú hin síðari misserin stríð á hendur trúarbrögðum og segist hættur að umbera trúarbrögð og þar með er hann líklega hættur að umbera skoðanir annarra sem ekki falla að hans eigin. Mér finnst málflutningur ykkar Vantrúarmanna oft á tíðum vera á sömu nótum eða áþekkum.

  Varðandi „heiðarlega umræðu“ vil ég benda á að mér sýnist þetta nú vera vettvangur til þess svo fremi að menn missi ekki stjórn á sér og gjaldfelli þar með mennsku sína (ef menn hafa þá einhverja frummynd þess eða ímynd þess að vera maður). Og enda þótt ég hafi nú frekar latt presta heldur en hvatt til að auka umferðina á ykkar heimasíðu þá var það nú ekki til þess að hefta umræðu.

  Og ég spyr: Hvetjið þið eða letjið fólk til að lesa prédikanir presta eða skoða heimasíðu safnaða eða Þjóðkirkjunnar?

 12. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Matthías, þér var mikið í mun að koma því til skila að aðrir en búddamunkarnir hefðu byrjað mótmælin og ég gat ekki skilið þína ofuráherslu á það atriði öðru vísi en svo að ég hefði viljað fela það og væri þar með sama um hvernig farið hefði verið með þá mótmælendur.

  Mér var mikið í mun að koma því á framfæri hverjir hófu þessi mótmæli og af hverju þau hófust. Pistil þinn í Vesturbæjarblaðinu má skilja þannig að mótmælin hafi hafist vegna þess að munkar hafi viljað mótmæla spilltri stjórn landsins. Þetta er beinlínis rangt, þó mótmælin hafi vissulega færst yfir í almenn mótmæli gegn yfirvöldum þegar á leið.

  Og svo er það nú páfinn ykkar í London, Richard Dawkins,…

  Þetta er svo fyrirsjáanlegt að við höfum þegar svarað þessu, við erum ekki fylgismenn Dawkins.

  …sem boðar nú hin síðari misserin stríð á hendur trúarbrögðum og segist hættur að umbera trúarbrögð og þar með er hann líklega hættur að umbera skoðanir annarra sem ekki falla að hans eigin.

  Þetta finnst mér undarleg túlkun. Það sem Dawkins gerir er að gagnrýna trúarbrögð, hann beitir ekki ofbeldi og hann hefur hvergi haldið því fram að hann telji að mögulegt sé að útrýma trúarbrögðum.

  Mér finnst málflutningur ykkar Vantrúarmanna oft á tíðum vera á sömu nótum eða áþekkum.

  Það væri fróðlegt ef þú gætir rökstutt þetta með vísunum í málflutning okkar - hann er allur síðunni okkar.

  Og ég spyr: Hvetjið þið eða letjið fólk til að lesa prédikanir presta eða skoða heimasíðu safnaða eða Þjóðkirkjunnar?

  Þessu er auðsvarað, við vísum lesendum okkar reglulega á trú.is [t.d. hér, hér, og hér mælum við meira að segja með grein á trú.is - öll þessi dæmi eru frá þessu ári].

  Getur þú fundið einn pistil á trú.is þar sem vísað er (með vefslóð) á vantrú?

  Nei, það getur þú ekki. Þegar rætt er um Vantrú á þessum vettvangi er það gert undir rós.

  Ég þori alveg að fullyrða að Vantrú hefur staðið fyrir mun heiðarlegri umræðu heldur en kirkjan nokkurn tímann. Við höfum opið fyrir athugasemdir, við vísum á skrif þeirra sem við gagnrýnum og við birtum leiðréttingar þegar við förum rangt með.

  Í pistli þínum varstu svo bara að vísa á Lennon og Björk með þessum skrifum þínum.

  Hvernig tókst þeim stjórnmálaforingjum upp á liðinni öld, sem reyndu einmitt að banna alla trú og töldu að trúlaus skynsemi mannsins ein gæti fært þeim hamingjuna? Óþarfi er að rifja upp nöfn þeirra hér. Við munum þessa menn, mistök þeirra og glæpi gegn mannkyni.

  Telur þú virkilega að fasisma 20. aldar sé hægt að tengja við skynsemi?

  “Heiðarleg umræða”. Ég gæti grátið þegar tvö einföld íslensk orð eru misnotuð svona hrottalega.

 13. Gretar Einarsson skrifar:

  Þegar Matthías vísar í umræðu á vantru.is þá er vissulega rétt að hún er heiðarleg, en ekki heiðarlegri en annars staðarm, en hún er svo oft fráleit og furðuleg vanþekking á trú oft sjáanleg í málflutningi fólks þar inni. Einnig hef ég lesið þar ummæli sem eru særandi og meiðandi fyrir okkur trúað fólk. Að tala um hóp fólks, hver svo sem hann er og hvaða lífsskoðunum sem sá hópur fylgir, á móðgandi,meiðandi og lítilsvirðandi hátt, gerir það einfaldlega að verkum að ekki er hægt að taka mark á slíku hvað þá að maður fari að svari slíku. Hvernig getur Matthías fullyrt að ekki sé staðið fyrir heiðarlegri umræðu innan kirkjunnar um hin ýmsu mál? Hvað í ósköpunum veit hann um það?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3840.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar