Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Jóhannesson

Haltu mér, slepptu mér!

„Siðmennt giftir“

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, tilkynnti nú á dögunum um fyrstu „veraldlegu giftinguna“ sem fram fór á hennar vegum. Því var slegið upp í fyrirsögn að þetta væri í fyrsta sinn sem „Siðmennt giftir“. Þetta ber að leiðrétta. Þótt borgaralegar giftingar séu ekki nýtt fyrirbæri þá giftir Siðmennt enga enda hefur félagið ekki umboð til þess. Hins vegar var þarna um að ræða hátíðlega athöfn að fenginni lögformlegri hjónavígslu frá embætti sýslumanns. Ég samgleðst þeim hjónum sem þarna áttu í hlut, óska þeim til hamingju og bið þeim alls góðs í framtíðinni.

Forsendur kirkjulegrar athafnar

Siðmennt hefur lengi barist fyrir borgaralegum athöfnum. Eins og flestir vita byggir félagið „starfsemi sína á lífsviðhorfi óháðu trúarsetningum“, líkt og segir í stefnuskrá þess. Athafnir á þess vegum eru því guðlausar. Sú þverstæða að áðurnefnd athöfn skuli hafa farið fram í kirkju, í húsi sem hefur verið vígt undir og frátekið fyrir þjónustuna við Guð, vekur því óneitanlega undrun. Þar var um að ræða Fríkirkjuna í Reykjavík. Þó hefur komið fram að áður hafði verið leitað til þjóðkirkjupresta sem ekki sáu sér fært að veita lið í þessu máli. Burtséð frá því hvaða kirkju er um að ræða þá er kirkjuhús ævinlega tákn og samhengi hins kristna samfélags, orðs þess og atferlis, eins og biskup Íslands minnir m.a. á í hirðisbréfi sínu. Kirkjan virðir og tekur að sjálfsögðu alvarlega það fólk sem ákveður að standa utan þess samfélags, og býst hún ekki við neinu minna frá því sama fólki í sinn garð. Kirkjan gerir því ráð fyrir skilningi á því að athöfn í helgidómi kirkjunnar skuli vera á forsendum kirkjunnar sjálfrar.

Enda þótt kirkjan reyni í hvívetna að koma til móts við þá einstaklinga sem til hennar leita, en eru sprottnir úr öðrum jarðvegi en þeim kristna, getur kirkjan ekki fórnað sjálfri sér á eigin altari í viðleitni sinni. Í máli sem þessu hlýtur fólk að sjá og skilja að kirkjulegu umburðarlyndi og víðsýni eru takmörk sett. Hvorki prestar né aðrir geta gerst eigin herrar í krafti trúar sinnar. Að því sögðu ber að vara við því að virðing fyrir kristnum helgidómi og hlutverki hans sé lögð að jöfnu við vanvirðingu við það fólk sem ekki er kristið en leitar þó til kirkjunnar. Þar sem ég þykist viss um að Siðmennt skilji þarna réttilega á milli er undrun mín stórum meiri að félagið skuli kjósa að standa að sínum málum eins og raun ber hér vitni. Enda þótt Siðmennt kunni að bera takmarkaða virðingu fyrir kirkjunni þykir mér skrýtið að hún skuli ekki bera meiri virðingu fyrir eigin félagsskap og gildum. Þegar beðist er undan athöfn sem þessari þá er Siðmennt auðsýnd meiri virðing en hún auðsýnir kirkjunni – og eigin félagsskap.

Hús er ekki bara hús

Ef Siðmennt ætti sér húsnæði sem væri helgað guðlausri starfsemi þess þá er forvitnilegt að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort félagið tæki það í mál að skjóta skjólshúsi yfir kristilegt félag með kristilega athöfn – athöfn þar sem kross væri settur á borð í stað blóma, athöfn þar sem Guð væri lofaður, þar sem lesið væri úr ritningunni, bænir beðnar o.s.frv. Ef svarið er nei, sem ég býst við að það hljóti réttilega að vera, hlýtur það að vekja spurningar um trúverðugleika Siðmenntar, sem ég tel að hafi beðið hnekki í samhengi þessa máls.

Nú er þessi spurning gild, ekki aðeins í samhengi þessa máls heldur og í ljósi þeirrar staðreyndar að Siðmennt – sem stofnað var til sem mótvægi við íslensku Þjóðkirkjuna – hefur lengi deilt á grundvöll kristilegrar kirkju og starf hennar; auk þess sem það virðist vera augljóst markmið félagsins að lágmarka sýnileika trúar í samfélaginu. Það hlýtur því að vekja broslega athygli að félagið skuli athafna sig með þessum hætti í kristinni kirkju helgaðri þríeinum Guði, föður, syni og heilögum anda; og ekki aðeins það heldur og eftir forskrift kirkjulegrar athafnar. Siðmennt virðist þá ekki hafa meira ónæði af kirkjunni en svo að félagið telji sér fært að fá inni í kirkju með athöfn af þessu tagi og láti sér í léttu rúmi liggja þá þverstæðu sem það sér þó sjálft í þeirri staðreynd. Nú býst ég ekki við því að Siðmennt skrifi undir þessi orð mín og má þá vissulega spyrja hvað það sé til marks um af hálfu félagsins?

Enda þótt veraldlegir hlutir líkt og hús séu ekki heilagir í sjálfum sér þá verður kirkjuhúsið að heilögum vettvangi helgrar iðkunar þegar það hefur verið helgað Guði og frátekið fyrir þjónustuna við hann, og skiptir þá auðvitað máli hvað fram fer innan þess. En ef að hús er bara hús í samhengi þessa máls þá má spyrja áfram: Nú eru hjón frátekin fyrir hvort annað. Er karl samt bara karl og kona bara kona? Er þá allt leyfilegt innan vébanda hjónabandsins? Nei! Að sjálfsögðu ekki. Kirkjuhúsið sem slíkt ber ekki uppi lofgjörðina til Guðs, heldur er hún borin uppi af því sem fram fer innan þess. „Hús mitt á að vera bænahús“, sagði Jesús.

Guðleysi hýst í kirkju Krists

Nú skal það tekið fram að prestur og safnaðarstjórn Fríkirkjunnar í Reykjavík geta ráðstafað Fríkirkjunni að vild enda ekki bundin af þeim reglum sem Þjóðkirkjan starfar eftir. Þær starfsreglur minna hins vegar á að hver kirkja (þar með talin Fríkirkjan í Reykjavík) er vígð undir þjónustuna við Guð og því skuli ekkert fara fram í kirkju sem ekki samrýmist vígslu hennar. Það ætti því ekki að koma á óvart að prestur skuli ekki fallast á að að hýsa í kirkju athöfn sem er með öllu guðlaus í eðli sínu; athöfn sem úthýsir Guði úr eigin kirkju. Að guðleysingjar banki upp á kirkjudyr til að fá inni með tímamótaviðburði í sínu lífi kemur jafn mikið á óvart og að prestur skuli ljúka þeim upp. Engum er sómi sýndur með því.

Trúverðugleiki er fyrir miklu; það að standa fastur á sínum gildum og vera samkvæmur sannfæringu sinni. Trúverðugleiki verður prestum þeim mun mikilvægari í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á starfsumhverfi þeirra. Í dag skulu prestar annars vegar sýna trúmennsku við Drottin og hins vegar „sjálfsagðan“ sveigjanleika í þjónustunni í hans nafni. Þetta getur ekki alltaf farið saman. Hins vegar er þessi veruleiki til marks um þær breytingar sem hafa orðið á íslensku samfélagi, þar sem múrar hafa hvarvetna verið brotnir niður með þeim afleiðingum að fleira þykir sjálfsagt en rétt má telja. Þótt vilji kirkjunnar sé hér ríkur hljótum við að sjá að það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4763.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar