Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Óskar Hafsteinn Óskarsson

Svona hefur þetta alltaf verið

Nokkur orð um fordóma og umburðarlyndi.

Pabbi, eru brúnu karlarnir í Apríku vondir?”„Nei”, sagði pabbi,„af hverju spyrðu? Af því að það er ein brún stelpa í leikskólanum og hún er góð.”

Hér er vitnað í samtal mitt og dótturinnar fyrir nokkrum árum. Tilefni gafst ekki til að spyrja þá stuttu hvaðan hún fékk þá hugmynd að brúnu karlarnir gætu verið vondir. Kannski var hún sprottin úr samræðum leikskólafélaganna, hugsanlega úr sjónvarpinu og ekki er heldur ólíklegt að skýringin sé umræðuskortur heima fyrir. Líklega var spurningin með þessum formerkjum til komin vegna þess að maður þekkir ekki, sér sjaldan eða ekki og óttast það óþekkta. Í prestastétt voru miklar deilur fyrir nokkrum áratugum um það hvort vígja ætti kvenpresta. Með Biblíuna að vopni var um langa hríð reynt að koma í veg fyrir þann óskunda að fá konur í prestastétt. „Ég ætla sko ekki að láta konu jarða mig,” var haft eftir örvæntingarfullu sóknarbarni. Og eldri presturinn sagði í kollega hópi: „Bíddu, hef ég þá verið að vinna kvenmannsverk öll þessi ár.” Talað var um vígslu kvenpresta sem andlega kynvillu. En þegar Biblíulegu rökin reyndust haldlaus þá var hefðin ein eftir. Svona hefur þetta alltaf verið. Óþarft er að fjölyrða um hve kirkjan okkar hefur eflst gríðarlega og opnast bara við það að fá konur í prestastétt. Og fá eru þau í dag sem munu halda því fram að það hafi verið mistök að opna fyrir konur í hóp hinna vígðu þjóna kirkjunnar.

Fátt nýtt undir sólinni

Að undanförnu hefur talsverð umræða átt sér stað í samfélaginu um hjónaband samkynhneigðra. Þar hefur m.a. Biblíunni verið haldið á lofti og einstökum ritningarstöðum til að verja hjónabandið fyrir samkynhneigðum. Rétt eins og gert var til að koma í veg fyrir vígslu kvenpresta. Nú hefur prestastefna komist að þeirri niðurstöðu, að fengnu áliti sérfróðra bíblíufræðinga, að ekki sé hægt að nota Biblíuna gegn samkynhneigðum ekki frekar en það var hægt til að koma í veg fyrir vígslu kvenpresta. Hjónabandið stendur þá orðið eitt eftir í umræðunni og dæmi eru um að sumir telji að aðild samkynhneigðra að hjúskaparsáttmálanum kasti rýrð á þeirra eigin hjónaband. Rétt eins og hjá prestinum sem hafði þá bara verið að vinna kvenmannsverk öll þessi ár. Sagan endurtekur sig. Enn og aftur erum við minnt á hve fátt er nýtt undir sólinni. Hefðin er aftur komin til sögunnar. Prestvígsla samasem karl, hjónaband samasem karl og kona. Svona hefur þetta alltaf verið. Svipað viðhorf birtist líka býsna oft í afstöðunni til innflytjenda. „Ég kann vel við útlendinga, þetta er ágætis fólk, en…” Svona hefur þetta alltaf verið – viðhorfið býr til girðingar og múra, með því að segja allt gott EN… Fordómarnir búa með okkur öllum. Þess vegna er það virðingarvert þegar fólk segir: „Ég bara viðurkenni það að ég uppfull/fullur af fordómum út í þetta.” Þá er nefnilega hægt að taka fordómana á dagskrá og vinna með þá. Fordómarnir eru auðlind sem fela í sér ótrúleg tækifæri, því þá má virkja til góðs. Við þurfum stöðugt að vinna í því að tefla fordómunum í tvísýnu, eins og mig minnir að Gunnar Hersveinn, heimspekingur, hafi komist að orði.

Svipmyndir af umburðarlyndi

Umburðarlyndi er vinsælt í umræðunni en er því miður oft teygt og togað og misbeitt. Stundum er látið í veðri vaka að það að yppta öxlum og vera skoðanalaus í einu og öllu sé umburðarlyndi. Það var talað um umburðarlyndi þegar hætt var að borða svínakjöt í mötuneytinu í einum grunnskóla í Reykjavík vegna þess að þar tilheyrðu nokkrir nemendur trúfélagi sem bannar neyslu svínakjöts. Og það er talað um umburðarlyndi þegar foreldrar segja að þau vilji ekki ala börnin sín upp í trú, því þau eigi sjálf að fá að velja. Í skjóli umburðarlyndis er rætt um að banna að kenna kristin fræði í skólum og taka út ákvæði í stjórnarskránni þar sem segir að ríkið skuli styðja þjóðkirkjuna. Árásir hafa líka orðið á þjóðsönginn vegna þess að þar er minnst á Guð. Og nýjasta dæmið birtist í viðbrögðum fólks við hugmynd að bæjarmerki fyrir Hvalfjarðarsveit, sveitina sem forðum fóstraði sr. Hallgrím Pétursson, eitt mesta trúarskáld þjóðarinnar. Í merkinu var hvalur og krosstákn og ýmsir brugðust ókvæða við því að verið væri að blanda trú inn í merki sveitarfélags. Hvað verður um þjóð sem ekki þorir að viðurkenna jarðveginn og menninguna sem hún er sprottin úr? Er hægt að afsala sér uppruna sínum? Það hefur stundum verið kallað umburðarlyndisfasismi. Þá snýst umburðarlyndið upp í andstæðu sína. Kristin trú og kristið siðgæði eru samofin menningu okkar. Að horfa fram hjá þeirri staðreynd er eins og að neita því að horfast í augu við sjálfan sig og skilja hver maður er. Og hlutlaust uppeldi er ekki til. Að ýta kristinni trú út í horn þegar við viljum skilja uppruna okkar, sögu og menningu, er eins og að ætla sér að blása lífi í manneskju þegar búið er að taka úr henni lungun og hjartað.

Að grípa til grjótsins

Um umburðarlyndi segir orðabókin: Mildi, það að taka vægt á yfirsjónum eða andstöðu annarra. Það er sem sagt ekki að gefa eftir skoðanir sínar og lífssýn, heldur vera tilbúin að ræða þær, rökstyðja og jafnvel endurskoða – en líka hlusta á skoðanir annarra og virða þær þó þær séu fullkomlega í andstöðu við manns eigin. Virðing fyrir eigin lífssýn er forsenda þess að við getum nálgast aðra af sömu virðingu. Í skjóli hins pólitíska réttrúnaðar, bókstafstrúar, hefða og ýmis konar mannasetninga er gjarnan farið að reisa þröskulda og veggi. Það sýnir sagan okkur. Við erum oft svo snögg að grípa til grjótsins. Við hættum að líta á manneskjuna sem manneskju, heldur eitthvað allt annað: Fyrirbæri, prósentu, ógn, aðskotadýr, dópista eða syndasel. Og þá er voðinn vís. „Ég hef ekkert á móti þessari manneskju en…” Geðsjúkdómar, veikindi, útlit, uppruni, yfirsjónir, mistök; stundum þarf svo lítið til að við förum að setja okkur í dómarasæti og hefja steinana á loft.

Ögrum hefðinni, truflum fordómanna!

Hin sjálfsagða krafa um að fá að vera metin sem manneskja á oft undir högg að sækja. Fjölmenning og fjölbreytileiki reyna á og gera sérstakar kröfur til okkar um mildi og virðingu. Ef fordómarnir komast óáreittir á flug þá er umburðarlyndið í hættu og þá er stutt í að mennskan sýni sínar ljótustu hliðar. Múslimar, Pólverjar, Tælendingar,„brúnu karlarnir í Apríku”; fólk sem sprottið er úr allt öðrum jarðvegi en við sjálf. Svona fólk og hinsegin fólk. Tækifærin sem felast í flórunni og fjölmenningunni snúast um að takast á við sjálfan sig sem manneskju, setja spurningarmerki við girðingar og múra samfélagsins, ögra hefðinni og trufla fordómanna. Þar er frelsarinn ævarandi fyrirmynd. Fyrir honum var manneskjan alltaf í fyrirrúmi burt séð frá því hver hún var eða hvaðan hún kom. Hann kom til þeirra sem samfélagið fyrirleit og viðurkenndi þau sem aðrir útskúfuðu eða litu framhjá. Frelsarinn sýnir í verki að Svona hefur þetta alltaf verið – viðhorfið stenst ekki ef það brýtur á fólki og leiðir til þess að réttlæti og virðingu fyrir manneskjunni sé ýtt til hliðar.

Um höfundinn9 viðbrögð við “Svona hefur þetta alltaf verið”

 1. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Það er áhugavert að í pistli sem fjallar um fordóma og umburðarlyndi er að finna stæka fordóma gagnvart þeim sem vilja hlutlausa skóla. Einnig er furðulegur skortur á umburðarlyndi gagnvart þeim íslendingum sem ekki játa kristna trú.

  Það er kolrangt að verið sé að berjast fyrir því að kennslu um kristin trúarbrögð og sögu kristinnar trúar úr skólum. Í raun er furðulegt að þurfa að lesa svona rugl enn og aftur, því þetta hefur verið leiðrétt ótal sinnum síðustu ár.

  Samt eru alltaf einhverjir fulltrúar Þjóðkirkjunnar sem sjá sér hag í því að fara með ósannindni um málflutning þeirra sem vilja trúboð úr skólum.

  Af hverju í ósköpunum ætti íbúar sveitarfélags sem ekki aðhyllast kristni að sætta sig við að trúartákn sé gert að merki sveitarfélagsins á 21. öldinni?

  Ég get ekki lesið greinina öðruvísi en tilraun höfundar til að forðast umburðarlyndi og gera þá sem fara fram á slíkt tortryggilega. Slíkur málflutningur er að mínu mati til skammar.

 2. Kristján Hrannar Pálsson skrifar:

  Sæll Óskar

  Ég vil gera athugasemd við orð þín um að aðskilnaður ríkis og kirkju sé hluti af umburðarlyndisfasismanum. Í fyrsta lagi brýtur það gegn jafnræðisreglu að trúlausum skuli vera skylt að greiða sóknargjaldið hvort sem það renni þá HÍ eða trúfélags, eins og þú að sjálfsögðu veist. Ein aðalrökin sem maður heyrir þjóðkirkjupresta nota fyrir stuðningi ríkisins er að hún eigi svo langa og samofna sögu með þjóðinni, “svona hefur þetta alltaf verið.”

 3. Lárus Viðar Lárusson skrifar:

  Að ýta kristinni trú út í horn þegar við viljum skilja uppruna okkar, sögu og menningu, er eins og að ætla sér að blása lífi í manneskju þegar búið er að taka úr henni lungun og hjartað.

  Þetta er alveg rétt og fólk mætti þekkja sögu kristinnar kirkju á Íslandi betur. Ekki er hægt að skilja hvernig Íslendingar voru kúgaðir miskunnarlaust á öldum áður af erlendu yfirvaldi nema skilja ítök kirkjunnar. T.d. hvernig lútherska “siðbótin” leiddi af sér hinn ferlega Stóradóm sem kostaði marga Íslendinga lífið fyrir litlar sakir.

 4. Óskar Hafsteinn Óskarsson skrifar:

  Gott kvöld.
  Ég þakka viðbrögð við pistlinum. Alltaf notalegt að finna að einhver sýni áhuga á manns eigin vangaveltum að ég tali nú ekki um þann sóma sem mér er sýndur með því að fá efnislega gagnrýni á pistilinn. Leitt þykir mér ef málflutningurinn
  er til skammar, hef reyndar áður verið sakaður um slíkt en af öðru tilefni og því kynni einhverjum að þykja að ekki sé úr háum söðli að detta. Ásakanir um skort á umburðarlyndi gengst ég við þegar í stað en segi mér til málsbóta að ég hef mjög einbeittan vilja til að minnka þann skort.
  Matthías segir: ,,Það er kolrangt að verið sé að berjast fyrir því að kennslu um kristin trúarbrögð og sögu kristinnar trúar úr skólum. Í raun er furðulegt að þurfa að lesa svona rugl…”
  Á mínum prestskaparárum, sem reyndar eru ekki mörg, hef ég margsinnis tekið þátt í umræðu við kennara, foreldra og fleiri sem vilja kennslu í kristnum fræðum út úr skólunum. Um þetta hef ég einnig lesið í dagblaðsgreinum og annars staðar. Reyndar er það svo í allnokkrum skólum sem ég þekki til að kennsla í kristnum fræðum er engin, eða nánast engin. Ruglaður kann ég vel að vera en reynsla mín og umræður við fólk tala sínu máli og á því byggi ég mál mitt. Hins vegar hlýt ég að staldra við þegar rætt er um hlutlausa skóla. Ég er nú bara svo vitlaus að ég hélt að slíkt væri ekki til! En ef svo er, hvar eru þá þeir skólar og hvernig starfa þeir? Í prinsippinu er ég sammála því að trúboð eigi ekki heima í skólum. En hlýt þó að minna á að þögn og áróður gegn tam trú getur líka verið trúboð. Hlutleysið er vandmeðfarið! Auðvitað er íbúum sveitarfélags frjálst að velja þau tákn í bæjarmerki sitt sem þeim helst þóknast. En af því að sveitarfélagið var nú einmitt Hvalfjarðarsveit þá gat varla komið á óvart að krosstáknið kæmi til álita. Reyndar hefði mér fundist það einkar vel við hæfi í ljósi sögunnar, því mér finnst endilega að bæjarmerki eigi öðrum þræði að vera vísun í landslag, menningu og sögu viðkomandi svæðis. Fælnin við krossinn er hins vegar engin ný bóla og á því miður alltof oft ekkert skylt við umburðarlyndi, en það er önnur saga.
  Þegar umburðarlyndi snýst í andhverfu sína er stundum talað um umburðarlyndisfasisma. Á þetta benti ég í pistlinum. Að mínu mati er aðskilnaður ríkis og kirkju alls ekki hluti af umburðarlyndisfasisma, henn gæti þvert á móti orðið gott fyrirkomulag sem skapaði breiða sátt í samfélaginu. Hins vegar geta umræðurnar um aðskilnað ríkis og kirkju oft einkennst af umburðarlyndisfasisma og þar eru öfgarnar vissulega beggja vegna. Svo er reyndar dálítið deilt um það hvað eiginlegur aðskilnaður feli í sér og sambærilegar umræður frá nágrannalöndum sýna að túlkunin er mismunandi. En það er líka önnur saga.

  Og nú eru þessi viðbröð líklega orðin það löng að engin nennir að lesa þau til enda og er því mál að linni.

  Góða nótt.

 5. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  “Um þetta hef ég einnig lesið í dagblaðsgreinum og annars staðar”

  Viltu vera svo vænn að benda á eina blaðagrein sem skrifuð hefur veið á Íslandi síðustu árin þar sem þess er krafist að hætt verði að kenna um kristni og sögu hennar?

  Hins vegar hlýt ég að staldra við þegar rætt er um hlutlausa skóla. Ég er nú bara svo vitlaus að ég hélt að slíkt væri ekki til!

  Skólar eiga ekki að boða neina tiltekna trú, þeir eiga að vera hlutlausir í trúmálum. Mér finnst fróðlegt að þér þyki sú hugmynd framandi. Nema þú sért að snúa út úr orðum mínum.

  En hlýt þó að minna á að þögn og áróður gegn tam trú getur líka verið trúboð.

  Er það virkilega? (M.ö.o. þú ert ekki að segja neitt nýtt). Þú og biskup lítið báðir hjá þriðju leiðinni. Þetta er ekki bara spurning um þögn eða kennslu, því það er líka til eitthvað sem heitir gagnrýni á trúarbrögð (þetta kemur allt fram í greininni sem ég vísa á).

  Þegar umburðarlyndi snýst í andhverfu sína er stundum talað um umburðarlyndisfasisma

  Þú tiltekur engin dæmi þar sem umburðarlyndi snýst í andhverfu þína, þú tiltekur bara tilvik sem þú ert ekki sammála. Þegar þú ert sammála kröfum um umburðarlyndi í tilteknu máli er umburðarlyndi fínt, þegar skoðun þín er skoðun meirihlutans, þá er umburðarlyndi fasismi!

  Málflutningur þinn gengur einfaldlega ekki upp. Þú þarft að gera upp við þig hvort líka eigi að sýna þeim sem ekki aðhyllast kristna trú umburðarlyndi.

 6. Kristján Hrannar Pálsson skrifar:

  Það er heldur enginn að tala um útrýmingu kristninnar í trúarbragðafræðslu grunnskólanna. Bara það að kenna að “kristnir menn trúa því að….” í staðinn fyrir “Jesús dó á krossinum” væri stórt skref í rétta átt. Eða kennslubækur í trúarbragðafræði sem væru ekki samdar af prestum. Eða námsskrá sem í stæði að börn þyrftu ekki að læra kristnar bænir á unga aldri eða fara í kirkju.

  Og hér með er ég þó ekki að afneita sambandi kirkjunnar við sögu landsins þó margir vilji ranglega halda annað. Bara að þetta hróplega óréttlæti fengi ekki að grassera í skólakerfinu lengur - ég bið ekki um meira.

  Jú, kannski að ríkið hætti að eyða milljörðum í þjóðkirkjuna - sem mér sýnist við reyndar vera sammála um, sem betur fer.

 7. Grétar Einarsson skrifar:

  Takk fyrir góðan pistil Óskar. Skorinorður að vanda og málfutningur þinn gengur alveg ágætlega upp. Margt mætti segja en ég vil leggja nokkur orð í belg (umræðunnar vegna) um kennslu um trúarbrögð í skólum og aðskilnað ríkis og kirkju. Ég biðst fyrirfram afsökunnar ef ég misbíð einhverjum eða ef einhverjum finnist ég vera yfirfullur af fordómum. Ég vil líka taka það fram að ég játa kristna trú, er í “þjóðkirkjunni” og ástunda trú mína og tek hana mjög alvarlega.
  1.Það á ekki að stunda trúboð í skólum reknum af ríkinu. Það á að kenna um trúarbrögð af fólki sem hefur fengið sérstaka menntun á því sviði en ekki bara af einhverjum sem hefur ágæta þekkingu á sögu eða öðrum fögum. Það á alls ekki að kenna trúarbrögð sem hyndurvitni, lygi eða falsanir eða eitthvað í þá áttina. Né heldur á að kenna að ein trú (eða er kannski réttara að nota orðið “lífsskoðun” svona til að rétttrúnaður í nafni umburðarlyndis og opins fjölmenningarsamfélags sé virtur?) sé réttari eða æðri en önnur. Í slíkri kennslu ber að sýna virðingu gagnvart trú eða trúleysi barnanna og foreldra þeirra. Trúin er sannleikur fyrir mörgum sem og trúleysi er sannleikur margra. Þetta ber að virða að fullu. Ég held að flestir geti verið sammála um þetta.
  2.Það hefur engum tekist að sannfæra mig um nauðsyn aðskilnaðs ríkis og kirkju. Það eru ágæt rök með og á móti. Hvað varðar skattpeninga almennt þá ættum við skattgreiðendur að fá að hafa miklu meira um það að segja í hvað peningarnir okkar fara yfirleitt. Verði hins vegar af aðskilnaði ríkis og kirkju (sem mér þykir nú líklegt að verði í náinni framtíð, í nafni umburðarlyndis og framfara myndu sumir segja), þá tel ég að við eigum að ganga alla leið og afnema alla trúarhátíðisdaga sem rauða frídaga í almanakinu. Ef ríkið lísir yfir trúleysi sínu með því að taka “þjóðkirkjuna” (innan gæsalappa af sérstökum ástæðum sem ég tilgreini ekki hér) út af “sakramenti” sínu (stjórnarskránni) væri það hámarks hræsni af hendi þess (ríkisins) að vilja svo halda í hátíðsdagana. Það væri til að tjónka við græðgi kaupmanna og annarra mammonsdírkenda og finnst nú æði mörgum nóg um nú þegar (afsakið fordómana). Við getum svo sem rifist um uppruna og sögu þessara hátíða og einstakra daga en flesta þeirra (að minnsta kosti jól, páska og hvítasunnu) tengjum við kristni. Þetta ætti að uppfylla kröfu trúleysingja. Þar með yrðu engir trúarlegir hátíðsdagar, einungis veraldlegir. Eða ættum við, í nafni umburðarlyndis og opins fjölmenningasamfélags, að ganga alla leið í hina áttina og hafa helstu hátíðisdaga allara annarra trúarbragða, sem eiga sér söfnuð hér á landi, sem frídaga svo allir geti samglaðst öllum á öllum hátíðisdögum allra!Eða hvað???

 8. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Alveg er það merkilegt að vilja tengja hátíðisdaga við samband ríkis og kirkju.

  Fyrir mig og aðra trúleysingja væri það algjörlega sársaukalaust þó kristnir hátíðisdagar væru ekki lengur lögboðnir frídagar. Það er svo aftur á móti spurning um kjarasamninga hve marga frídaga fólk tekur og hvenær það tekur þá.

  Sjálfur myndi ég sleppa páskafríinu og lengja sumarfrí á móti. Jólin myndi ég halda hátíðleg, trúmenn geta haldið sína kristsmessu mín vegna - bara ekki rugla henni saman við jólin okkar hinna.

 9. Grétar Einarsson skrifar:

  Það kann að vera merkilegt að tengja saman kristilega hátíðisdaga við samband ríkis og kirkju, en ég tel þó að þessir hátíðisdagar séu einmitt nátengdir sambandi ríkis og kirkju sem opinberir hátíðisdagar. Þ.e.a.s að vegna stöðu “þjókirkjunnar” sem “ríkiskirkju” eða sem stjórnarskrár varins trúfélags, er ríkið að sjálfsögðu að segja að það bindi sig við ákveðna trú. Þar með er eðlilegt að hátíðisdagar þeirrar trúar séu opinberir frídagar. Verði skil þarna á milli, sem er þá yfirlísing ríkisins um að það sem slíkt sé trúlaust, er eðlilegt að þessir dagar falli niður. Það er svo annað mál hvað aðilar vinnumarkaðarins, þ.m.t. ríkið, myndu gera í þessu sambandi varðandi kjarasamninga. Mér þykir þó líklegt að það heyrðist ramakvein um mismunun frá einhverjum aðilum, ef ofangreindir héldu áfram í þá trúarlegu hátíðisdaga sem nú eru.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7763.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar