Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Svavar A. Jónsson

Sótsvartur mannskilningur og hjarnbjartur

Stundum heyri ég að í kristinni trú sé lítið gert úr manneskjunni með því að skilgreina hana sem syndara. Það kann að vera skiljanlegur misskilningur hafi menn ekki gert sér grein fyrir myndinni allri. Ég skal fúslega viðurkenna að mannskilningur kristindómsins væri sótsvartur ef öll sagan væri sögð með ofangreindu. Útlitið er hreint ekki gott sé maðurinn syndari og punktur. Sé því gleymt að samkvæmt kristinni kenningu eru allir menn syndarar - og samkvæmt þeirri sömu kenningu elskar Guð einmitt þennan syndara.

Hann elskar okkur eins og við erum. Einmitt þess vegna er boðskapur kristninnar um manneskjuna svo stórkostlegur. Við þurfum ekki að fegra okkur. Við megum koma fram fyrir Guð í öllu okkar óöryggi. Við þurfum ekki að réttlæta okkur. Guð sér um þá hlið málanna.

Sumarið er tími brúðkaupanna. Hjónavígsluheitin sem hjónin gefa hvort öðru í kirkjum landsins eru miklu meira en loforð og skuldbindingar. Ef manneskja gefur mér það loforð að elska mig gegnum súrt og sætt og þykkt og þunnt ævina á enda er það líka róttæk viðurkenning á mér sem einstaklingi. Sé hún tilbúin að lofa mér þetta miklu enda þótt hún viti að ég sé langt frá því að vera fullkominn.

Þannig er miskunn Guðs. Hann vill elska okkur, annast okkur, bera okkur á örmum sér, deila með okkur kjörum í myrkri og ljósi, ekki vegna þess að við höfum unnið okkur inn prik hjá honum umfram aðra heldur vegna þess að hann hefur ákveðið að elska okkur. Í skjóli þessa skilyrðislausa kærleika Guðs gefst okkur einstakt tækifæri til að þroska okkur, helgast og fullkomnast, vaxa til hans. Það er verkefni sem tekur ævina alla.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Sótsvartur mannskilningur og hjarnbjartur”

 1. Nils Gíslason skrifar:

  Sæll Svavar.
  “Hann vill elska okkur, bera okkur á örmum sér, deila með okkur kjörum í myrkri og ljósi, ekki vegna þess að við höfum unnið okkur prik hjá honum umfram aðra heldur vegna þesss að hann hefur ákveðið að elska okkur.”
  Hverjir eru þessir “okkur” Er það Bin Laden eða börn skírð af presti á Íslandi?
  Ég veit að biskupinn sagði að ” “Heimurinn er ekki aðeins heimur á heljarþröm á hraðfara glötunarvegi, heldur hólpinn heimur”
  er hólpinn heimur, kenning þjóðkirkjunnar eða mistök biskups?
  Ég les: “En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.” Er ekki grundvallar skilyrði? Þarf ekki iðrun trú og fyrirgefningu til að verða lýður Guðs?
  Ég skil þetta ekki alveg.
  Kær kveðja og þakkir.
  Nils Gíslason

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3103.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar