Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Pétur Björgvin Þorsteinsson

Guðsþjónustan = Kærleiksþjónustan

Haft er eftir Martein Lúter að ef að allir þjónuðu náunga sínum þá væri heimurinn fullur af guðsþjónustu. Þar sem ég sat á ráðstefnu á Þrándheimi síðasta vetur fékk ég að heyra þessa tilvitnun aftur. Fyrirlesaranum var nokkuð niðri fyrir því hún hafði áhyggjur af því að liturgían gæfi fólki jafnvel kost á því að flýja veruleikann, gleyma hörmungum náungans í guðsþjónustunni í stað þess að gera eitthvað í hlutunum. Guðsþjónustuna mætti aldrei skilja frá kærleiksþjónustunni né öfugt.

Mikið var ég sammála þessum skörulega djákna sem þarna flutti ræðu. Hún heitir Anne Hirsch og er sjúkrahúsdjákni á St. Olav sjúkrahúsinu. Þegar ég nýverið las yfir glósur mínar frá fyrirlestri hennar varð þessi litli pistill til. Hugsaður til umhugunar um tengsl kærleiksþjónustu og guðsþjónustnnar.

Í guðsþjónustunni sem og í kærleiksþjónustunni mætum við Guði. Um leið og enn frekar er það hann sem kemur til okkar, við eigum samfélag í hans nafni hvort með öðru. Þetta samfélag á sér stað á sunnudegi eða hvaða degi vikunnar sem er. Þetta samfélag á sér stað í messunni eða hvar sem er. Og saman skapa þessi samfélög, guðsþjónustan í kirkjunni og kærleiksþjónustan á götunni, hið kristna samfélag. Kærleiksþjónustan hefst með sendingunni í guðsþjónustunni, nær út á götuna og endar í fyrirbæninni í guðsþjónustunni. Eitt samfélag, söfnuðurinn eitt í Kristi.

Í huga mér varð fyrsta fullyrðing hennar um að litúrgían gæti verið leið fyrir fólk til að flýja hörmungar heimsins smáleg miðað við næstu spurningu sem hún setti fram í þessu samhengi. Því hún spurði hvort verið gæti að kirkjurýmið væri þannig hannað að við þessi ófötluðu, vel stæðu, sem hefðum það svo gott gætum sótt kirkju án þess að nokkuð sýnilegt minnti okkur á hörmungar þessa heims eða þær áskoranir sem náungi okkar býr við? Mér var brugðið.

Þar sem ég sat og hlustaði á ræðu hennar öðlaðist ég nýja sýn á hlutum eins og hjólastólabraut upp að altari kirkjunnar: Hjólastólabrautin sem tákn um að upp að altarinu eru allir velkomnir, líka þeir sem geta ekki gengið á tveimur jafnfljótum þangað upp. Sálmabækur fyrir sjónskerta og sæti í kirkjunni þar sem er betri lýsing, ábendingar um hvernig samstilla megi heyrnartæki við hljóðkerfi, leikhorn fyrir minnstu börnin, skiptiborð aðgengilegt á snyrtingu í anddyri kirkjunnar … Allt skilaboð frá kirkjunni um að hér séu allir velkomnir. Þetta þýðir fyrir okkur að hugsunin„Já en þetta eru svo fáir” verður að víkja. Því að þetta snýst þá ekki um hver notar viðkomandi þjónustu heldur skilaboðin: Allir velkomnir, kærleiksþjónustan sýnileg í kirkjurýminu. En auðvitað gildir hér eins og alltaf: Samhengið þarf að vera rétt, merki sem sýna að þú sért velkomin(n) verða að vera í takti við viðhorf þeirra sem mæta þér í kirkjunni.

Það er náðin sem gerir okkur það mögulegt. Afstaða kristins einstaklings að hann sé af náð hólpinn orðinn. Hann er ekki betri en einhver, hefur ekki staðið sig betur en einhver né uppfyllt ákveðin skilyrði heldur tekur Guð á móti honum opnum örmum: Barnið mitt þú ert velkomið eins og þú ert.

Og í ljósi náðarinnar stöndum við öll jafnfætis. Við göngum veginn saman með Kristi og hann gefur okkur þann kraft sem við þurfum til samstöðu. Þannig verður samfélagið sterkt því að ef ég hrasa þá réttir þú mér höndina svo að saman getum við gengið áfram. Og í slíku samfélagi erum við vitnisburður um kærleika Krists, sýnum í verki að við erum eitt í Kristi. Og slík samstaða nær út fyrir borgarmúrinn. Við hugsum hnattrænt og tökum skrefin heima fyrir í því samhengi.

Neyðin á sér margar hliðar og hún er helsta áskorunin fyrir þetta samfélag jafningja. Því er þörf á guðfræði sem bíður upp á form trúarlífs þar sem að hið daglega líf og trúarlífið í guðsþjónustunni haldast í hendur. Sá sem sækir guðsþjónustuna þarf að fá kraft og bjartsýni til að ganga aftur út í hið daglega líf sem hluti af samfélagi sem hefur kraft, þor og áræði til þess að standa saman í gegnum súrt og sætt. Þannig að við eignumst lífsfyllingu sem er full af lífi og rúmar líf hvers og eins.

En slíkt er ekki mögulegt án þess að við sameinumst í syndajátningunni í messunni. Við játum syndir okkar, mistök okkar og hugsunarleysi, við játum samstöðuleysið sem veldur því að aðrir eru utanveltu, þeim ekki sinnt. Og þeir sem mættir eru í messuna játa syndir þessa kristna samfélags sem er brotlegt og breyskt. Og við hugsum til þeirra sem eru í guðsþjónustu dagsins en einnig þeirra sem ekki gátu mætt þennan daginn. Þetta verður sérstaklega skírt í fyrirbæninni þar sem við leggjum neyð og þjáningu systkina okkar í trúnni, mannkynsins alls í hendur Drottins.

Mér þykir ljóst: Ef við sem kirkja viljum áfram vera trúverðug og þjóna Drottni hér á jörð þá þurfum við að taka okkur tak og muna að opin kirkja þýðir meira heldur en að stungið sé lykli í skrá og hurð lokið upp.

Um höfundinn9 viðbrögð við “Guðsþjónustan = Kærleiksþjónustan”

 1. Þorgeir Arason skrifar:

  Bestu þakkir, Pétur Björgvin, fyrir þennan athyglisverða pistil. Hann vekur mann sannarlega til umhugsunar um tengsl kærleiksþjónustu og lítúrgíu - og hvað orðin “allir velkomnir” í auglýsingum kirkjunnar merkja í raun og veru.

 2. Kristján Hrannar Pálsson skrifar:

  Sæll Pétur

  Mér fannst merkilegt að lesa bæði tilvitnun þína í Lúter sem og “Guðsþjónustuna mætti aldrei skilja frá kærleiksþjónustunni né öfugt.” Nú skil ég þau orð sjálfsagt á sama veg og þú, að kærleiksþjónusta sé óhjákvæmilegur fylgifiskur guðsþjónustu, en ekki öfugt (þó Lúter hafi þó lagt þunga áherslu á gildisleysi kærleiksboðunar án guðs), en ég hef aldrei skilið hvers vegna kærleiksboðunin þarf svo oft að hafa guði með í spilinu.

  Þessu mætti líkja við ef kirkjan væri sífellt að boða mikilvægi þess að spenna beltin ef það stæði í Biblíunni. Hvers vegna þarf ég að vera góður við náungann í nafni guðs? Myndi kærleiksboðun án trúarbragða ekki ná til fleiri einstaklinga og stæði samt alveg jafn vel undir sér? Það er nefnilega stutt á milli þess að boða _kristilegan_ kærleik og boða kristilegan kærleik því Guð segir það. Hljómar þetta ekki hjákátlega?

  Málsgreinarnar “Þannig verður samfélagið sterkt því að ef ég hrasa þá réttir þú mér höndina svo að saman getum við gengið áfram. Og í slíku samfélagi erum við vitnisburður um kærleika Krists,” er einnig nokkuð hæpið. Hjálpsemi almennings á Íslandi er sjaldnast einhver vitnisburður um kærleika Krists, né kærleika Seifs, Gáttaþefs eða nokkurs annars, heldur yfirleitt hin náttúrulega hvöt mannsins að hjálpa náunganum. Guðir koma þar málinu ekkert við.

  Bestu kveðjur
  Kristján

 3. Vésteinn Valgarðsson skrifar:

  Ég þakka þér líka kærlega fyrir, Pétur, að veita okkur leikmönnum opinskáa innsýn í eðli kærleiksþjónustunnar.

 4. Pétur Björgvin skrifar:

  Komið þið sælir Þorgeir, Kristján Hrannar og Vésteinn og þakka ykkur fyrir ykkar innlegg. Það er gott og gilt að fá umræðu hér á vefnum um þessar vangaveltur.

  Tvennt langar mig að nefna núna í þessu samhengi. Það fyrra er að þegar ég tala um að þú réttir mér höndina svo báðir getum við staðið er ég að reyna að vísa til þess að við eigum að mínu áliti að horfa á okkur mannfólkið sem jafningja, ekki ég sem aumka mig yfir þig, eða þú sem aumkar mig yfir þig, heldur við tökum höndum saman. Að sjálfsögðu eigum við mismunandi upplifun að baki og ekki allir verið svo heppnir að upplifa slíkt samfélag.

  Hitt sem ég vil nefna eru tengsl guðsþjónustunnar og kærleiksþjónustunnar. Hér er ég að tala út frá kristnum skilningi og í þeim guðfræðiskilningi sem viðkomandi erindi var. Því er reynt að nálgast sjálfsskilning okkar sem tilheyrum kristinni kirkju á þennan hátt, en sá sjálfsskilningur útilokar ekki öðru vísi sjálfsskilning annarra. Þannig að ef einstaklingur getur í eigin mætti út frá sínum sjálfsskilningi hjálpað öðrum án allrar aðkomu Guðs eða guða, þá er það hans mál. Ég get það ekki, ég þarf í Jesú nafni á Guði að halda.

 5. Kristján Hrannar Pálsson skrifar:

  Sæll aftur

  Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þetta svar. Þú skrifar að við eigum að horfa á mannfólkið sem jafningja, og því er ég alveg sammála.

  Færi ég í messu einhvern sunnudaginn fengi ég aðeins staðfestingu á því að vera góður við náungann o.s.frv., en hvers vegna Guð og Jesús þurfa alltaf að vera í spilinu eru ónauðsynlegar hækjur, svipað og þú færir í islamska messu eða sætir samkomur hjá afrískum töfralæknum.
  Allt þetta tal um að trúin gefi styrk er líka nokkuð loðið í ljósi orða þinna um að þú þurfir á þeim feðgum Jesúsi og Guði að halda til að hjálpa öðrum. Það er veikleikamerki að þurfa alltaf að gefa hjálp í nafni trúarbragða, þú hlýtur að viðurkenna hækjunot þín af þeim í því samhengi.

  Kveðja
  Kristján

 6. Pétur Björgvin skrifar:

  Ætli það sé ekki einmitt þetta sem skilur okkur að Kristján og þakka þér fyrir að halda áfram að skrifa viðbrögð hér á síðuna.

  Upplifun mín af sambandi mínu við Jesú er á mjög persónulegum nótum og það samband gefur mér kraft til þess að takast á við verkefnin á hverjum degi, ekki bara þau sem snúa að því að hjálpa öðrum heldur einnig þeim sem snúa að öllu öðru. Nú ef það er í þínum augum veikleikamerki þá er það einfaldlega sú mynd sem þú hefur af mér. Það breytir því ekki að Guð er engin hækja sem ég hef þörf á að styðjast við heldur traustur klettur sem ég fæ staðið á.

  Hitt er að ég sæki engan styrk í samkomu sem haldin er á grunni annarra trúarbragða en reikna fastlega með að til dæmis sá sem er Búddha trúar sæki styrk í sína trúarathöfn. - Semsagt hver eftir sínu höfði! Og ef þú velur aðra leið þá er það þín leið, leið sem ég hins vegar get ekki hugsað mér fyrir mig, ég þarf á minni trú að halda. Taktu eftir MINNI TRÚ, ekki trú einhvers annars, ekki því að einhver annar trúi fyrir mig, segi mér hvað ég eigi að trúa, heldur minni persónulegu trú.

 7. Kristján Hrannar Pálsson skrifar:

  Sæll Pétur,

  Þetta er einmitt það sem mér finnst svo skrýtið. (Nú erum við ef til vill komnir út fyrir efnið, ég vona þó að þetta fái að standa.)

  Að þú, ásamt svo mörgum öðrum vestrænum kristnum mönnum séuð í þessu sambandi við Jesús og Guð á meðan trúaðir í öðrum heimshlutum eru í sambandi við sína guði er svo afkáraleg og smá heimsmynd. Þeir þurfa á sínum máttarvöldum að halda við kærleiksboðun, og þú á Jesú og Guð. Trúað fólk um allan heim þykjast geta sannað tilvist máttarvalda sinna á forsendum meints sambands síns við þá, og það boðar allt kærleik í nafni þeirra.

  Eru:

  a) allir þessir guðir til?

  b) aðeins einn af þessum guðum til og allir hinir hafa rangt fyrir sér?(Hver svo sem það væri)

  c) enginn af þessum guðum til?

  d) um hina meintu þörf mannsins fyrir trúarbrögð að ræða og allir geta þess vegna haft bæði rétt og rangt fyrir sér? Og hvers vegna er þá tilgangur með því að flokka það undir trúarbrögð lengur?

  Þú skrifar: “Taktu eftir MINNI TRÚ, ekki trú einhvers annars, ekki því að einhver annar trúi fyrir mig, segi mér hvað ég eigi að trúa, heldur minni persónulegu trú.”

  Hver sagði þér hverju þú ættir að trúa? Enginn? Varla. Þú hefur alist upp í vestrænu, kristnu samfélagi (geri ég ráð fyrir) og ert þess vegna kristinn. Ef “þú” hefðir alist upp í múslimaríki (ef þá væri hægt að tala um þig sem sömu manneskju með tilliti til mótunar samfélagsins), værirðu þá ekki örugglega múslimi? Eða þættistu geta séð hinn eina “rétta” guð, s.s. hinn kristna?

  Mætti gagnrýna þig fyrir að prófa ekki að leita á náðir annarra guða til að veita þér styrk og hjálp? Er það þín skoðun að kristnin sé betur til þess fallin en önnur trúarbrögð? Eða er einungis um landfræðilegan- og menningarlegan mismun að ræða? (Þessum spurningum er m.a. varpað upp í bókinni Sagan af Pí, þar sem Pí aðhyllist öll helstu trúarbrögð heimsins við mikla gagnrýni klerka þeirra.)

  Allar þessar spurningar hljóta að vakna þegar trúarbrögð eru gagnrýnd. Kristin trú státar sig af því að eiga svörin við lífinu; fyrir mér vekur hún aðeins upp illsvaranlegar spurningar.

  Bestu kveðjur
  Kristján

 8. Pétur Björgvin skrifar:

  Sæll Kristján og takk fyrir elju þína í athugasemdaskrifum.

  Þetta er rétt til getið hjá þér, ég er fæddur og alinn upp við kristin gildi og kristna trú. Hver trúarafstaða mín væri ef ég hefði fæðst annars staðar get ég með engu móti áætlað.

  Mér þykir leitt ef þér finnst mín heimsmynd afkáraleg, ég reyni að horfa á heimsmynd þeirra sem skilgreina sig trúleysingja eða guðleysingja sem heimsmynd sem stendur jafnfætis minni heimsmynd. Það breytir ekki tilkalli minnar trúar til hins eina sanna sannleika, enda er það eðli heimsmyndar / trúarbragða að gera tilkall til sannleikans.

  Þú spyrð hvort allir þessir guðir séu til. Því vil ég svara m.a. með tilvitnun í Biblíuna: ,,Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa” þar sem minn Guð gerir tilkall til tilbeiðslu til sín um leið og ekkert er útilokað um tilvist annarra guða. Hér vil ég líka minna á að til eru guðlaus trúarbrögð. Þar með tel ég mig líka hafa svarað spurningu þinni um hvort aðeins einn af þessum guðum sé til og en þar með ekki sagt að allir hinir hafa rangt fyrir sér? Ég er ekki í því hlutverki að ákveða fyrir Guð hvort hann vill taka sér margar birtingarmyndir og hvort til dæmis Guð Abrahams sem er líka Guð gyðinga, Guð Múslíma og Guð Kristinna geri upp á milli þessara hópa.

  Þú veltir því líka upp að verið geti að enginn af þessum guðum sé til, þetta sé í raun uppspuni. Svar mitt er einfalt: Minn Guð er til.

  Þú vitnar líka í síendurtekna umræðu um það sem þú kallar ,,hina meintu þörf mannsins fyrir trúarbrögð” en ég held að réttara væri að tala um rannsóknir sem hafa sumar hverjar sýnt þörf mannsins fyrir trú, ekki trúarbrögð. Áhugaverð umræða en sjálfum þykir mér erfitt að ætla að hægt sé að sýna fræðilega fram á þessa þörf þó svo að hægt sé að sýna fræðilega fram á tilfinningar einstaklinga gagnvart trú.

  Þá spyrð þú hvort gagnrýna mætti mig fyrir að prófa ekki að leita á náðir annarra guða til að veita mér styrk og hjálp? Ef þú ert trúboði annarrar trúar þá gerir þú það væntanlega, sannfærður um ágæti þinnar trúar að sama skapi og þú gagnrýnir mig yfirleitt fyrir að þurfa á guði að halda til að veita mér styrk og hjálp, nokkuð sem þú átt nægar byrgðir af sjálfur ef ég skil þig rétt?

  Að sjálfsögðu er það mín skoðun að kristnin sé betur til þess fallin en önnur trúarbrögð? Slíkt er eðli trúaðs einstaklsins sem játar eina trú.

  Sagan af Pí er fábrotin og sérstök, skal reyna að skrifa um hana við tækifæri út frá mínu sjónarhorni en það verður ekki fyrr en í haust.

  Takk fyrir umræðuna

  Bestu kveðjur
  Pétur

 9. Grétar Einarsson skrifar:

  Guð og Jesús Kristur eru alltaf í “spilinu” hjá okkur sem kristinnar trúar eru um allan heim. Hvernig í ósköpunum má það á annan hátt vera? Það er nú alveg grundvallar atriði að menn skilji það!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6680.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar