Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Lydía Geirsdóttir

Milljarður manna á flótta árið 2050

Á dögunum kom út skýrsla frá hjálparstofnuninni Christian Aid í Bretlandi, þar sem farið er yfir hvernig loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á flóttamannastrauminn í heiminum. Talið er að allt að 1 milljarður manna gæti hrakist á flótta af þessum orsökum fram að árinu 2050 ef ekkert verður að gert til þess að stöðva hlýnun jarðar.

Í dag eru um 160 milljónir manna flóttamenn. Við heyrum slíkar tölur og getum ómögulega gert okkur grein fyrir þeirri þjáningu sem í þeim felast. Til þess að reyna að skilja hvað það þýðir að vera flóttamaður bið ég þig að ímynda þér hvernig þér myndi líða ef þú þyrftir að flýja heimili þitt. Ástæðan gæti verið jarðskjálfti, flóð, pólitísk eða trúarleg afstaða þín, húðlitur þinn eða jafnvel stríð. Þú getur sama og ekkert tekið með þér, kannski myndaalbúmið, en allar eignir sem þú ert búinn að vinna hörðum höndum fyrir, verður þú að skilja eftir. Allt sem fyllir okkar daglega líf, nýja eldhúsinnréttingin, leikföng barnanna og flottu nýju spariskórnir verður að engu þegar þú þarft að bjarga lífi þínu. Í þeirri ringulreið sem fylgir gætir þú orðið viðskila við fjölskyldu þína, misst sjónar af börnunum þínum og jafnvel öllum þeim sem standa þér nær. Þú veist ekki hvað morgundagurinn ber með sér, í raun hefur allt þitt líf splundrast. Hvernig myndi þér líða?

Fátækir súpa seyðið – og við á endanum
Ef ekkert verður að gert verður það sem hér er lýst raunveruleiki fyrir allt að einn milljarð manna á næstu 40 árum. Enn og aftur er þetta svo gríðarlegur mannfjöldi að við getum ekki gert okkur grein fyrir því. Þetta mun hafa áhrif á okkur líka, beint og óbeint. Og hver veit nema við gætum orðið meðal þessa fjölda? Ennþá eru það þó íbúar í fátækum löndum sem upplifa afleiðingar hlýnunar jarðar. Í Malí er draumurinn að komast til Evrópu, hefja nýtt líf þar sem allir virðast ríkir. Í landinu er varla hægt að stunda landbúnað lengur, linnulausir þurrkar gera ræktun ómögulega. Á einungis 80 árum hefur rigning í Malí minnkað um helming og þegar rignir, þá rignir eldi og brennisteini. Því er spáð að jafnvel 1/3 hluti jarðar muni skrælna í gríðarmiklum þurrkum um næstu aldamót. Hvað áhrif það mun hafa á íbúa á þessum svæðum er eitthvað sem við getum velt fyrir okkur. Kannski finnst okkur hér á Íslandi að þetta sé þróun sem ekki snertir okkur. En bara eitt til að hugsa um - hvaða áhrif hefði skrælnuð jörð á þriðjungi jarðar á matvælaverð hér hjá okkur?

Stærsta orsökin liggur hjá okkur
Verði ekkert að gert, er þetta framtíðin sem blasir við okkur. En við ætlum varla að gera ekki neitt. Hlýnun jarðar er ekki eitthvað sem við getum ýtt frá okkur og vonað að þessi eða hinn muni leysa vandamálið einhvern tíma síðar. Það er ábyrgð hvers og eins okkar að haga okkur þannig að jörðin okkar eigi sér bjarta framtíð. Það er margt sem við getum gert til þess að draga úr koldíoxíðsmengun sem einstaklingar og þjóð. Við getum tildæmis hjólað, gengið og ekið saman í auknu mæli. Framtak Kolviðar www.kolvidur.is, er gott dæmi, sem gerir okkur kleift að koltvísýringsjafna útblástur okkar. Þar er tækifæri sem við ættum öll að nýta okkur. Það sem er mikilvægt að hafa í huga er það að Vesturlandabúi sleppir allt að 24 sinnum meiri koltvísýringi út í andrúmsloftið en Afríkubúi. Það þýðir að það erum við sem erum að skapa vandann og það á kostnað annarra þar sem fátæku löndin eru þau fyrstu til að súpa seyðið af hlýnuninni. Dr. Peter Glick rannsakar loftslagsbreytingar meðal annars í Malí. Orð hans eru mjög lýsandi fyrir stöðuna: „Ef þú keyrir bíl inn í stofuna hjá nágranna þínum, þá væntanlega skuldar þú honum eitthvað fyrri skemmdirnar, sérstaklega ef hann er ótryggður.”

Hjálparstarf kirkjunnar hvetur þig til að huga að þínum þætti í hlýnun jarðar. Við Íslendingar ættum ekki að eiga þátt í því að splundra lífi manna, hvorki annarra né okkar eigin.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2790.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar