Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Lydía Geirsdóttir

Fair Trade fyrir börn heimsins

Þann 12. maí, er alþjóðlegi Fair Trade dagurinn. Líklegast fór það framhjá flestum því við höfum um margt annað að hugsa í dag. En tugir milljóna manna út um allan heim fagna, því Fair Trade hefur gjörbreytt lífi þeirra. Fair Trade hugtakið er í raun mjög einfalt og það er að borga bændum og framleiðendum í þróunarlöndum sanngjarnt verð fyrir afurðir sínar. Það er ekkert flóknara en það. Þeir rækta kaffið og við drekkum það með góðri samvisku.

100 börn deyja meðan þú lest þessa grein

Það eru alltaf börnin sem fara verst út úr fátækt og börn í þróunarlöndum eru fórnarlömb alþjóðlegra viðskiptahátta. Foreldrar fá smáaura fyrir vinnu sína og framleiðslu sem þýðir að börnin þurfa að taka þátt í að sjá fyrir fjölskyldunni. Heil samfélög verða svo fyrir barðinu á rokkandi heimsmarkaðsverði og geta alveg lagst í rúst. Lækkandi heimsmarkaðsverð á til dæmis bómull hefur gert milljónir smábænda út um allan heim gjaldþrota, leiðandi þá í skuldafen sem engin leið virðist vera úr. Og 30.000 börn deyja á hverjum einasta degi vegna fátæktar. Við skulum skoða þetta aftur, þrjátíu þúsund börn!!! Það eru 1.250 börn á klukkustund, 21 barn á mínútu og um 100 börn sem hafa dáið á meðan þú lest þessa grein. Það sem er enn sorglegra er það að við getum komið í veg fyrir þetta. Þetta þarf ekki að gerast.

126 milljónir barna við hættuleg störf

Alþjóðavinnumálastofnunin áætlar að um 126 milljónir barna á aldrinum 5 til 15 ára vinni við hættuleg störf og þar að auki ólöglegar aðstæður. Einnig er áætlað að 73 milljónir af þeim séu yngri en 10 ára. Starfsviðið er landbúnaður þar sem framleitt er kaffi, kakó, ávextir, sykur, bómull og áfram má telja. Fílabeinsströndin framleiðir helming af öllu kakói sem er notað í súkkulaði í heiminum. Áætlað er að allt að 200.000 börn yngri en 15 ára vinni við kakórækt við mjög slæmar aðstæður, mörg þeirra sem þrælar sem hafa verið seld eða þeim rænt og flutt þangað frá nágrannalöndum. Einnig er vefnaðar- og sportvöruiðnaðurinn ákafur þátttakandi þegar um barnavinnu er að ræða.

Fair trade virkar ef þú kaupir rétt

Fair Trade er farvegur til þess að ráðast gegn fátækt í heiminum. Þú og ég getum breytt heiminum og það byrjar með því að velja Fair Trade-vottaðar vörur úti í búð. Við vitum það öll að ef við kaupum kaffi eða handklæði á nokkrar krónur, er næsta ómögulegt að framleiðandi geti framfleytt sér á slíkum viðskiptum, sérstaklega þegar við drögum álagningu verslunarinnar frá, flutningskostnað, skatta og gjöld. Með því að kaupa Fair Trade-vottaðar vörur getum við verið 100% viss um að barn hefur ekki framleitt vöruna og þar að auki tryggjum við að framleiðendur og bændur fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína og vörur.

ÞÚ getur breytt heiminum

Í dag er hægt að kaupa nánast allt með Fair Trade-vottun. Nær 1 milljón smábænda í þriðja heiminum framleiðir Fair Trade-vottaðar vörur. Á Íslandi erum við langt á eftir öðrum vestrænum löndum varðandi vöruúrval og þekkingu almennings á því hvað það þýði að kaupa inn með sanngirni að leiðarljósi. Þetta þarf að breytast. Það er von Hjálparstarfs kirkjunnar að íslenskir verslunarmenn eigi eftir að sjá sér hag í að bjóða Fair Trade-vörur. Þótt við eigum langt í land þá fást Fair Trade-vörur nú þegar víða í búðum s.s. kaffi, te, sykur, súkkulaði og bráðlega einnig föt þar sem sú bómull sem er notuð, er framleidd á sanngjarnan hátt.

Ekki góðgerðastarf heldur sanngirni

Að lokum erum það við, neytendur, sem höfum ábyrgðina og valdið í okkar höndum. Það erum við sem borðum súkkulaði, drekkum kaffi og þurrkum okkur með handklæðum. Hugsaðu þig um næst hvaðan þetta allt kemur, hver ræktaði kaffið þitt og saumaði sængurfötin þín? Ert þú sanngjarn í viðskiptum? Ekki gleyma að ÞÚ getur breytt heiminum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3100.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar