Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Reynisson

Tíu kristin heilræði í kjörklefanum

Á laugardaginn kemur göngum við Íslendingar til alþingiskosninga. Hvað og hverja við kjósum fer eflaust eftir ýmsu, pólitískri skoðun og innrætingu og grunngildum svo sem trúargildum.

Fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum haustið 2004 settu Samtök kirkna í Bandaríkjunum, National Council of Churches fram tíu heilræði fyrir kristna menn til að vega og meta frambjóðendur og flokka. Þessi tíu heilræði bandarísku kirkjusamtakanna eru fróðleg fyrir íslenskt kirkjufólk sem vill meta íslenska stjórnmálaflokka út frá kristnum grunngildum. Heilræðin tíu eru þessi:

 1. Stríð er andstætt vilja Guðs: Enda þótt stundum geti verið réttlætanlegt að beita valdi sem hinsta úrræði þá blessar Kristur friðflytjendur, sbr. sæluboðin. Við þörfnumst leiðtoga sem sækjast eftir friði með réttlæti og leita lausna á ágreiningi á friðsaman hátt.
 2. Guð kallar okkur til að lifa í samfélagi sem einkennist af friði og samvinnu: Við þörfnumst leiðtoga sem vilja byggja upp samfélög okkar og hindra ofbeldi.
 3. Guð skapaði okkur hvert fyrir annað – öryggi okkar hvílir á velferð náunga okkar á heimsvísu. Við þörfnumst utanríkisstefnu sem byggir á samvinnu og hnattrænu réttlæti.
 4. Guð kallar okkur til að vera málsvarar hinna veiku. Við leitumst við að minnka bilið milli ríkra og fátækra.
 5. Sérhver manneskja er sköpuð í mynd Guðs og hefur skilyrðislaust gildi. Við vinnum að jafnri stöðu kynþátta og jöfnum tækifærum fyrir alla.
 6. Jörðin heyrir Guði til og er góð í sjálfri sér. Við vinnum að réttlæti í umhverfismálum og að axla ábyrgð sem ráðsmenn sköpunarverksins.
 7. Ritningarnar kenna kristnum mönnum að bjóða útlendinga velkomna. Við þörfnumst sanngjarnrar löggjafar um innflytjendamál og að vera laus við útlendingahatur eða hræðslu.
 8. Þeir sem fylgja Kristi eru kallaðir til að lækna sjúka. Við viljum nægjanlega, ódýra og aðgengilega heilsuvernd fyrir alla.
 9. Við leitum eftir betrun en ekki endurgjaldi í sakamálum.
 10. Við viljum jöfn tækifæri til menntunar og nægjanlega fjármuni til að styðja við börn og barnafjölskyldur.

Frekari upplýsingar um kosningaheilræði bandarískra kirkna er að finna á slóðinni:
http://www.ncccusa.org/electionyearprinciplesguide.pdf

Um höfundinn12 viðbrögð við “Tíu kristin heilræði í kjörklefanum”

 1. Bernharður Guðmundsson skrifar:

  Þetta voru (boð)orð í tíma töluð og eiga sannarlega við er við gerum upp hug okkar í kjörklefanum á laugardag. Það virðist ekki vera mikill munur á baráttumálunum hér og í Bandaríkjunum eftir þessum lista að dæma og sýnir það kannske hin djúpstæðu áhrif hnattvæðingarinnar.
  Bestu þakkir

 2. » Tíu kristin heilræði í kjörklefanum Um lífið og tilveruna skrifar:

  […] Halldór Reynisson skrifar um tíu kristin atriði til umhugsunar fyrir kjósendur á www.tru.is. Þau eru fengin frá samtökum kirkna í Bandaríkjunum sem settu þau fram fyrir kosningarnar 2004. Þarna eru dregin fram kristin grunngildi sem eiga ágætlega við hér á Fróni. […]

 3. Jón Valur Jensson skrifar:

  Hér vantar málsvörn fyrir hina ófæddu – er hennar ekki þörf í þessu 21. aldar samfélagi?! Eins og það var JESÚS sem var “getinn af Heilögum Anda,” þannig var það Halldór Reynisson, sem getinn var strax við upphaf lífs hans við frjóvgunina. Í 1. kafla Lúkasarguðspjalls (39-44, sbr. 1.56) getum við líka séð vitnisburð um tilvist hins ófædda sem persónu. “Ljúk upp munni þínum fyrir hinn mállausa,” segir í Orðskviðunum (31.8). Meðan fóstur í móðurkviði eru ofsótt af ættingjum sínum og tortímt af heilbrigðisstéttum, verða kristnir menn þá ekki að stíga fram, þeim til varnar? Ber ekki kirkjunni að halda hátt á loft kröfunni um lífsvernd fyrir hina ófæddu? Væri það ekki í samræmi við hennar eigin yfirlýsingar? VAKNIÐ, prestar og kirkjufólk, og gerum þetta að lifandi baráttumáli lifandi kristindóms á Íslandi.

  Ég hef skrifað nokkrar vefgreinar um þetta á Moggabloggi mínu – http://jonvalurjensson.blog.is – t.d. 9. maí 2007 (með gagnrýni á ríkisstjórnarflokkana sem unnið hafa gegn kristnum siðagildum í þessu o.fl. málum), 6. maí (um bænir fyrir ófæddum) og 5. maí (um það hvernig minn eigin stjórnmálaflokkur brást gersamlega, þegar reynt var að ýta þar á eftir mjög mjúkri tillögu um lífsverndarmál, en hann reyndist heyrnarlaus á það hæverska ákall; afleiðingin er sú, að ég kýs hann ekki lengur).

 4. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Þarfar reglur og góðar út af fyrir sig, en það gæti verið nokkuð snúið fyrir hina óákveðnu að ákveða sig í kjörklefanum á laugardaginn, ef á að taka mið af þessum boðorðum við kjörið, þar sem flestir flokkar þykjast hafa þetta að leiðarljósi. Mér sýnist samt á þessu, sem við jafnaðarmenn séum á réttri leið. Það hefði samt verið nær, ef þeir, sem sömdu þetta, hefðu krafist þess, að stjórnmálamennirnir sjálfir færu eftir þessu, áður en kjósendurnir færu að dæma eftir þessum boðorðum. Þá liti heimurinn öðru vísi út, en hann gerir í dag, og auðveldara fyrir fólk að dæma menn af verkum sínum og gefa þeim einkanir í kjörklefanum.

 5. Vésteinn Valgarðsson skrifar:

  Mér sýnist Halldór skrifa um sjónarmið sem ég er sammála, að því undanskildu að ég sleppi guði úit úr myndinni. En ég er hræddur um að það sé álitamál hvaða flokka fólk ætti að kjósa út frá þessu. Í besta falli mætti deila endalaust um þetta, held ég. Segjast ekki allir vera á móti stríði, líka þeir sem heyja það? Segja ekki allir að stefna þeirra hindri ofbeldi? Hnattrænt réttlæti, er það að hlífa saklausum við átökum eða er það að refsa skúrkum? Segjast ekki allir vera sanngjarnir í innflytjendaamálum og ábyrgir í umhverfismálum og vilja betrun í sakamálum?
  Jón Valur nefnir fósturvísa og fóstur. Ég held að ef maður lítur á fóstur sem manneskju, þá ætti punktur númer 5 að spanna það.
  Hvað varðar bilið milli ríkra og fátækra, heilsuvernd fyrir alla og aðgengi allra að menntun, þá er því ósvarað hvernig á að sjá fyrir þessu, með skattheimtu (réttindum) eða ölmusu (miskunn).
  Þessi upptalning einkennist fyrst og fremst af atriðum sem hvert um sig er ómótmælanlegt. Það er sama hvaða flokk maður styður, maður þykist alltaf finna flestu eða öllu þessu stað í stefnu hans. Þetta er einmitt eitt grundvallaratriðið í kristninni, og eitt af því sem hefur gert henni kleift að aðlagast jafn effektíft og hún hefur gert, að fólk getur stutt flestar skoðanir og stefnur sem er með tilvísunum í Jesú eða Biblíuna, og þá gildir einu hvort fólk er til hægri eða vinstri eða hvað.

 6. Linda skrifar:

  Ég er sammála þessu og tek undir með Guðbjörgu að jafnaðarstefnan virðist vera á réttri leið varðandi réttlæti og sanngirni.
  www.vonin.blog.is

 7. árni.annáll.is - » Kjörklefaheilræði skrifar:

  […] Halldór Reynisson tók saman pistil á dögunum um kristni og pólitík. Þar setur hann fram tíu kristin heilræði sem má hafa í huga í kjörklefanum. Annað heilræðið er þetta: Guð kallar okkur til að lifa í samfélagi sem einkennist af friði og samvinnu: Við þörfnumst leiðtoga sem vilja byggja upp samfélög okkar og hindra ofbeldi. […]

 8. Torfi Stefánsson skrifar:

  Mér sýnist stefna Vinstri-grænna samrýmast þessum sjónarmiðum best.
  Andstaða gegn stríðinu í Írak (1-3), sósíalismi (4), taka vel á móti útlendingum (5,7), umhverfisvernd (6), velferðarmál, áhersla á endurhæfingu sakamanna en ekki refsingu, og menntun (8-10).

  V fyrir vinning: X-V

 9. Vésteinn Valgarðsson skrifar:

  Það er einmitt það sem ég meina. Ég held líka að VG skili þessu best — en ég efast um að hinn kristni Björn Bjarnason sé sama sinnis, eða þá Geir Waage eða Jón Valur Jensson — svo ég nefni dæmi. Ég held að hver velji flokk eða skoðun, og ef fólk er kristið þá finnur það skoðunum sínum stað í kristni án mikilla erfiðleika. Fyrir það fyrsta er hægt að túlka siðalögmál kristninnar og Biblíunnar á svo til hvern þann veg sem hentar fólki, eins og dæmin sanna, og sama þótt fólk sættist á að hverju sé rétt að stefna, þá er kristni síður en svo afdráttarlaus þegar kemur að leiðum að takmarkinu. Þannig að þótt mér finnist það rétt að við eigum að vera góð hvert við annað, þá segir það ekki hvað guð vill að ég kýs, er það?

 10. Halldor Bjornsson skrifar:

  Þessi bandarísku kirkjusamtök (NCC) eru reyndar ekki dæmigerð fyrir bandarískar kirkjur. Víða meðal íhaldsamari kirkna voru ráðin mun einfaldari í þessum kosningum: “Guð vill að þú kjósir Bush”. Sömu aðilar fara ófögrum orðum um NNC, telja þá til frjálslyndra vinstri sinna, og miðað við athugasemdir #8 og 9 hér að ofan þá virðist NCC meira segja vera vinstra megin við miðju á litla Íslandi. Ég sá í fyrra ágætt viðtal á Charlie Rose við séra Gregory Boyd höfund bókarinnar um “The myth of a christian nation: How the quest for political power is destroying the church” (http://www.charlierose.com/shows/2006/08/17/2/a-conversation-with-pastor-gregory-boyd), en í viðtalinu ræðir sr. Boyd meðal annars aðdraganda kosninganna 2004, og þá hugmynd að republikanar ættu öll kristileg atkvæði.

 11. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Ég er nú ósammála því að þau séu ekki dæmigerð fyrir bandarískar kirkjur. Það eru kirkjur af protestant, anglíkönskum, rétttrúnaðar, evangelical, lútherskum, blökkumannakirkjur og kirkjur eins og Kvekarar í þessum samtökum, yfir 100.000 söfnuðir með samtals um 45 milljón meðlimi.
  Gallinn er bara sá að við heyrum aðeins í þeim íhaldssamari. Þess vegna heldur fólk að allir bandaríkjamenn búi á Biblíubeltinu og séu repúblikanar.

 12. Jón Valur Jensson skrifar:

  Heil og sæl aftur. “Jón Valur nefnir fósturvísa og fóstur. Ég held að ef maður lítur á fóstur sem manneskju, þá ætti punktur númer 5 að spanna það,” segir Vésteinn í innleggi nr. 5 og vísar til 5. heilræðisins. Þetta er rétt, og það hljóðar svo: “Sérhver manneskja er sköpuð í mynd Guðs og hefur skilyrðislaust gildi.” Þetta er meginreglan þar (feitletruð), en undir stendur: “Við vinnum að jafnri stöðu kynþátta og jöfnum tækifærum fyrir alla.” Ef menn eru sammála því, að meginreglan nái líka yfir ófædd börn/fóstur í móðurkviði, þá er raunar miklu meiri ástæða til að hafa aukalínu um þau þarna undir, því að um 40-50 milljónum þeirra er tortímt á ári hverju í heiminum, en það slær öllum þjóðamorðum við í gervallri mannkynssögunni, jafnvel þegar verst lét.

  Reyndar fellur fósturvernd einnig undir 4. heilræðið: “Guð kallar okkur til að vera málsvarar hinna veiku.” Ófædd börn eru veik og smá. Undir þessari meginreglu stóð: “Við leitumst við að minnka bilið milli ríkra og fátækra,” en annaðhvort þar eða á eftir 5. heilræðinu sýnist mér alger nauðsyn að nefna vernd hinna ófæddu, því að enginn annar hópur hér á jörðu liggur undir öðrum eins árásum á lífshelgi sína.

  Með þökk fyrir umræðuna.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6556.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar