Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Þeir er mest vilja í gegn gangast

Á Alþingi sumarið 1000 fól helsti höfðingi kristinna manna, Síðu-Hallur, heiðnum höfðingja, Þorgeiri Þorgeir Ljósvetningagoða, að segja upp lög, ein fyrir kristna og önnur fyrir heiðna. Þorgeir lá undir feldi nær sólarhring og flutti þingheimi ræðu áður en hann sagði upp lögin. Margir telja ræðuna eina þá bestu sem flutt hefur verið á íslenskri grund. Í henni eru meðal annars þessi orð samkvæmt Íslendingabók Ara fróða:

„En nú þykir mér ráð að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorir tveggja hafi nakkvað síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“

Ég ætla ekki að íhuga hér þá niðurstöðu Þorgeirs að best væri að hafa ein lög og einn sið í landinu heldur þau tilmæli hans að láta þá ekki ráða er mest vildu í gegn gangast.

Þegar mál eru tekin til umfjöllunar í fjölmiðlum er gjarnan valin sú leið að velja viðmælendur með sem andstæðastar skoðanir. Þá er helst von á fjörugum skoðanaskiptum. Vinir mínir í hópi blaðamanna viðurkenna þetta margir hverjir. Umræðan þurfi að hafa skemmtanagildi. Enskir menn kalla þetta „infotainment“ til að gefa til kynna að um sé að ræða blöndu af skemmtun og upplýsingamiðlun. Það er oft görótt blanda og hefur þær afleiðingar að almenningur þekkir illa málin sem verið er að fjalla um, heldur aðeins öfgar þeirra til beggja átta. Fólk stendur í þeirri trú að valkostirnir séu aðeins tveir og þannig fá þeir að ráða, sem mest vilja í gegn gangast.

Mér fannst þetta koma vel í ljós eftir hina margfrægu Prestastefnu á Húsavík. Fólkið í landinu virðist telja að einungis sé um tvennt að velja í afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðar. Annað hvort gefi kirkjan þá saman í hjónaband eða samkynhneigð sé hafnað. Það er mikil einföldun og raunar afbökun á því sem fór fram á stefnunni.

Það sem gerðist á Prestastefnu er að mikill yfirgnæfandi meirihluti presta samþykkti ályktun kenningarnefndar Þjóðkirkjunnar um staðfesta samvist, en þannig nefnist hjúskapur samkynhneigðra samkvæmt gildandi hjúskaparlögum. Mér fannst margt merkilegt í ályktuninni. Þá voru samþykkt drög helgisiðanefndar að blessunarathöfn staðfestrar samvistar. Það er líka merkilegt og með því að lýsa sig reiðubúna til að blessa sambúð samkynhneigðra er íslenska Þjóðkirkjan í því skrefi að ganga jafnlangt og þær kirkjur sem lengst hafa gengið í álfunni.

Tillögu um að óska eftir því við Alþingi að það samræmi hjúskaparlög og lög um staðfesta samvist þannig að vígslumönnum skráðra trúfélaga verði heimilt að annast hjónavígslu samkynhneigðra var á hinn bóginn algjörlega hafnað. Sú tillaga gekk töluvert lengra en álit kenningarnefndar og í raun er með henni verið að fara fram á að hjónabandinu, einhverri elstu stofnun samfélagsins, sé gjörbreytt og gert kynhlutlaust. Prestar landsins voru ekki tilbúnir að stíga svo stórt skref, alla vega ekki að sinni. Innan stjórnmálaflokkanna hefur ekki verið mikil umræða um slíkar breytingar og heldur ekki innan kirkjunnar.

Nú liggur fyrir að kirkjan blessar samvist samkynhneigðra. Ég veit að margir hefðu viljað sjá stærri skref en málinu er ekki lokið. Álit kenningarnefndar er að sögn biskups Íslands málamiðlun og grundvöllur áframhaldandi samtals. Þeir voru ekki látnir ráða sem mest vildu í gegn gangast. Hitt verður að koma fram að þegar fyrir liggur sú opinbera afstaða Þjóðkirkjunnar að hún blessi samvist samkynhneigðra eru engin rök fyrir öðru en að vígslumenn hennar geti gefið þá saman að lögum, gift þá, ef menn vilja nota það orðalag. Næstu daga mun biskup Íslands láta gera könnun meðal presta kirkjunnar til að sjá hversu margir þeirra eru reiðubúnir að framkvæma lagalegan hluta hjúskaparstofnunar samkynhneigðra. Frekari tíðinda er því að vænta.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Þeir er mest vilja í gegn gangast”

 1. Páll Heimir Einarsson skrifar:

  Mér leikur forvitni á að vita hvort niðurstöður könnunar þeirrar sem biskup íslands mun gera, verði gerðar lýðum ljósar. Ég spyr vegna þess að það gæti sparað samkynhneigðum sporin í leit þeirra að vígslumönnum kirkjunnar sem tilbúnir eru að blessa samvist samkynhneigðra. - Það eina sem mér finnst sorglegt í því róti sem þessi svokallaða umræða hefur valdið er að það virðist sem öllum sé sama um þá staðreynd að það er hvergi að finna þá afmörkun að hjónaband eigi aðeins við um tvo einstaklinga af gagnstæðu kyni. Hefð miðaldasamfélagsins var að hjónaband snérist um að framleiða verðandi hermenn t.þ.a. vernda hagsmuni ríkjandi stétta en þar er ekki um eiginlega guðfræði að ræða. En hverjum er ekki sama þegar kirkja hefðarinnar er mikilvægari en kirkja trúarinnar!?!

 2. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Sæll, Páll Heimir. Ég veit ekki annað en að könnunin verði gerð í nafnleynd. Hún er ekki gerð til að finna hverjir séu tilbúnir að blessa samvist samkynhneigðra heldur til að annast lögformlegan hluta slíkrar hjúskaparstofnunar. Það liggur fyrir að Þjóðkirkjan blessar staðfesta samvist. Ég er þeirrar skoðunar að fyrst kirkjan er tilbúin að blessa séu engin rök fyrir því að annast ekki þennan lögformlega hluta. Einhverjir prestar geta á hinn bóginn ekki veitt slíku sambandi blessun Guðs samvisku sinnar vegna og finnst mér mjög mikilvægt að þeir séu ekki á neinn hátt þvingaðir til þess. Punktarnir sem þú kemur svo fram með hjónabandið eru athyglisverðir en búast má við því að hjónabandið og eðli þess verði áberandi í umræðunni á næstunni.

 3. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  Það er mikilvægt að fá fram þessa túlkun þína Svavar:

  Fyrst kirkjan blessar staðfesta samvist og hefur nú um það opinbert ritual, er eðlilegt að hún gangi einnig frá löggerningi þessa hjúskapar, eins og þegar um karl og konu er að ræða.

  Ég er reiðubúin að tala fyrir eftirfarandi tillögu á kirkjuþingi í október:

  “Kirkjuþing samþykkir að beina þeim tilmælum til Alþingis, að inn í 4. grein laga um staðfesta samvist nr. 87/1996 verði bætt heimild til löggiltra vígslumanna trúfélaga um að framkvæma löggerning staðfestrar samvistar, samkvæmt samþykki/beiðni viðkomandi trúfélags”

  Eðlilegt væri að svona tillaga yrði kynnt í söfnuðum og rædd á prestastefnu 2008 og afgreidd á kirkjuþingi 2008. Með slíkri heimild inn í lög um staðfesta samvist væru athafnir sam- og gagnkynhneigðra orðnar hliðstæðar.

  Eftirfarandi skilgreiningar myndu þá gilda:

  Hjúskapur: Notað um lögformlega sambúð skv. lögum nr. 31/1993 og 87/1996.

  Hjón: Nær yfir hjúskap, þ.e. lögformlega sambúð á grundvelli laga nr. 31/1993 og 87/1996, sbr. lög 65/ 2006: „Hugtakið hjón í lagatexta ber ætíð að skýra svo að það taki bæði til karls og konu í hjúskap og tveggja einstaklinga í staðfestri samvist.“

  Að stofna hjúskap: Hjón stofna sjálf til hjúskapar síns og velja hvort það er gert borgaralega eða innan trúfélags.

  Hjónaband: Nær yfir hjón að lögum 31/1993

  Staðfest samvist: Nær yfir hjón að lögum 87/1996

  Löggerningur: Merkir frágang lögformlegra gagna hjóna, ýmist í kirkjulegri eða borgaralegri athöfn.

  Blessun/fyrirbæn hjóna: Er kirkjuleg athöfn (lat: benedictio) eftir borgaralega hjúskaparstofnun. Beðið fyrir þeim ásetningi hjóna að lifa saman í hjónabandi eða staðfestri samvist.

  Kirkjuleg vígsla hjóna: Merkir athöfn þar sem bæði er gengið frá löggerningi og beðið fyrir (lat: benedictio) hjónum.

  Lútersk vígsla hjóna í kirkju er blessunarathöfn (lat: benedictio) þar sem presturinn er bæði fulltrúi hins borgarlega og kirkjulega. Hann gegnir þá því tvíþætta hlutverki að sjá annars vegar um borgaralega staðfestingu hjúskaparins og biðja síðan Guð um að blessa hjónabandið eða staðfestu samvistina.

 4. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Mjög upplýsandi að fá þessar skilgreiningar fram, Hulda. Þakka þér fyrir þær. Og eins og ég segi sé ég engin rök lengur gegn því að þeir prestar sem það vilja fái rétt til að annast hinn lögformlega hluta á hjúskaparstofnun samkynhneigðra. Mér fyndist í raun að það þyrfti ekki að vera flóknara en skrifleg tilkynning frá yfirvöldum til presta um þann rétt, fyrst kirkjan er búin að samþykkja formlega drög að blessun slíks hjúskapar.

 5. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  Ég er ósammála þessu síðasta atriði hjá þér Svavar. Það ætti EKKI að afhenda prestum vígsluréttinn, heldur ættu trúfélögin að hafa um þetta lögsögu(eins og hugmynd mín að tillögu hér ofar gengur út á).

  Þetta er mikilvægt svo prestar geti haft svigrúm til samviskufrelsis, þ.e.að koma að/koma ekki að vígslu fólks sem þeir telja ekki samrýmast trú sinni, en samkvæmt trúfrelsi og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar er ekki hægt að skikka presta til þess sem þeir telja andstætt eigin trúarskoðun, en það getur t.d. átt við endurgiftingar fólks (sbr kröfu I.Kor 7.10 sem finna má einnig í öllum samstofna guðspjöllunum)

  Mikilvægi lögsögu kirkjunnar felst þá einnig í því að svo lengi sem fólk getur leitað til presta sem ekki neita, þá er ekki hægt að væna Þjóðkirkjuna um mismunun. Þess vegna er mikilvægt að kirkjan en EKKI einstaka prestar hafi heimildina í sínum höndum. Þannig heldur kirkjan sjálf utan um þá sem hafa vígsluréttinn fyrir hennar hönd, því prestar eru jú bæði f.h. kirkju og ríkis sem vígslumenn, en ekki BARA að sinna sifjaréttarlegum löggerningi þegar þeir vígja fólk í hjúskap. Mér finnst prestar svolítið hafa gleymt þessu atriði: Að hlutverk þeirra er jú fyrst og fremst kirkjulegt þegar þeir vígja fólk í hjúskap.

  Hins vegar álít ég að sérstaklega þurfi að skoða 180 gr. alm. hegningarlaga m.t.t. neitunar einstaka presta. Þar veltur allt á skilgreiningu “þjónustu” í skilningi ákvæðisins.

 6. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Þetta er rétt hjá þér, Hulda. Það þarf að huga að rétti þeirra sem ekki vilja koma að hjúskaparstofnun samkynhneigðra samvisku sinnar vegna, bæði einstakra presta og trúfélaga. Það á náttúrlega miklu fremur við um trúarlegan þátt slíks gjörnings en hinn lagalega.

 7. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  Einmitt Svavar, en af því að við viðurkennum samviskufrelsið sem hluta trúfrelsis, þá hlýtur sú ábyrgð að fylgja, að kennimenn útskýri sín guðfræðilegu rök.

  Það er nefnilega svo ósköp dapurleg guðfræði ef menn segja bara nei eða já í skoðanakönnun!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4322.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar