Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Sólskinsgrauturinn

Ég á mér dýrmæta minningu sem mig langar að deila með ykkur. Þegar ég var lítil, bjó amma mín hjá okkur. Hún var mikil listakona, nánast skapandi á öllum sviðum lista. Hún var leikkona, söngkona, gerði leikmyndir, leikbúninga og alls konar þjóðbúningafígúrur sem hún seldi. Amma var hreint út sagt heilt ævintýri. Hún gætti mín og bræðra minna þegar pabbi og mamma voru að vinna. Þetta var engin venjuleg pössun. Við sungum uppspunnar óperur í eldhúskróknum, bjuggum til listaverk, settum upp leikrit á pallinum, hlustuðum á endalausar skemmti- og fróðleikssögur sem hún bjó til jafnóðum. Með henni höfðum við ferðast til ótal landa í hverju einasta hádegi. Við áttum okkar eigin söng sem hún hafði búið til um okkur nöfnurnar tvær.

Eitt var vandamál og það var að fá mig til að borða. Ég var eitt af þeim börnum sem sagt var að lifði á loftinu. Ég borðaði helst ekki neitt. Sleikti í mesta lagi smjör af brauði eða sósu af diski. Annað fór helst ekki ofan í mig. Þetta var meira en nokkur amma gat þolað.

– Hvað viltu borða, Ella mín? spurði amma þegar ég kom á fætur.„Æ, ég veit það ekki,” svaraði ég alltaf. Amma dró fram alls konar matvæli, hafragraut, eggjaköku, skyr, súrmjólk, brauð… en ekkert þóknaðist mér að borða. Ég sat með báðar hendur undir kinn og beið eftir því að„matartíminn” liði hjá.

Eitt sinn spurði amma mig ekki hvað ég vildi borða. Hún lét mig setjast við matarborðið svo fór hún í vaðstígvélin sín og fór út í garð á morgunsloppnum sínum með stóran pott í hendi. Hún stillti sér upp með pottinn beint fyrir framan eldhúsgluggann svo ég sá hana vel. Það var sumar og sól og ekki bærðist strá fyrir vindi. Allt í einu teygði hún handlegginn hátt upp í loftið og togaði í eitthvað sem ég gat alls ekki séð hvað var. Hún setti það ofan í pottinn. Ég hljóp að glugganum, opnaði hann og spurði hana hvað hún væri að gera.

,,Ég er að ná í nokkra sólargeisla,” sagði hún og brosti og þegar amma brosti var eins og gardínur hefði verið dregnar frá glugga. Það birti alls staðar í kringum hana. Þegar hún taldi sig vera komna með nóg af sólargeislum ofan í pottinn flýtti hún sér að setja lok á hann og hljóp inn. Hún skellti pottinum á eldavélina. Því næst náði hún í nokkur epli og apríkósur og skar niður af hjartans list. Hún setti eplin í pottinn og alls konar annað góðgæti. Síðan hrærði hún þessu öllu saman. Ég horfði á hana hugfangin.

,,Ég er að gera sólskinsgraut handa þér,” sagði amma og brosti til mín. Í honum eru sólargeislar, epli og margt fleira hollt og gott.

Brátt var sólskinsgrauturinn tilbúinn og hún náði í ausu og jós á disk fyrir mig.

Ég get sagt ykkur að þennan graut borðaði ég upp til agna. Betri mat hafði ég aldrei á ævi minni fengið.

Síðar hefur minningin um sólskinsgrautinn öðru hvoru skotist upp í huga minn og mér finnst ég geta yfirfært hana yfir á svo margt í lífinu. Við stöndum mjög oft frammi fyrir hlutum sem okkur þykja leiðinlegir, erfiðir eða kvíðvænlegir, rétt eins og litlu lystarlausu barni líður þegar það á að borða matinn sinn. Með nokkrum sólargeislum er auðveldara að takast á við verkefnið. Þá á ég við að við þurfum að geta fundið styrk okkar í einhverju sem gleður okkur setja sætt með súru. Þetta er lífsleikni gleðinnar og þakklætisins. Hugsi hver út frá sínu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3055.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar