Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Árni Svanur Daníelsson

Puntstrá

Ég var staddur í Skálholti á dögunum og sat undir kirkjuvegg ásamt yngri dótturinni. Hún er níu mánaða gömul og er enn að uppgötva heiminn. Stúlkan kom auga á nokkur grasstrá og hún vatt sér úr pabbafangi til að skoða þau nánar. Að hætti ungbarna voru fingurnir notaðir fyrst. Hún renndi þeim í gegnum grasið, fann áferð með fingurgómum og milli fingra og ofan á hendi. Og svo var eitt álitlegt strá gripið til að skoða nánar og að sjálfsögðu stinga upp í sig.

StráleikurManst þú hvernig tilfinning er að velta puntstrái og öxum milli fingurgómanna? Þekkir þú ennþá áferð grassins sem grær undir kirkjuveggnum?

Getur verið að sum okkar sem eldri erum höfum gleymt þessari fyrstu upplifun og tapað þeirri þekkingu á náttúrunni? Að fingurnir séu þeim mun kunnugri tölvulyklaborðum og farsímum?
Eru það góð skipti ef svo er?

Dóttirin minnti mig á þetta og fékk mig til að hugsa. Um leið varð stundin áminning um undur sköpunar og mikilvægi þess að uppgötva hana upp á nýtt – og helst á hverjum degi. Og um mikilvægi þess horfa á hið smáa. Þetta reyndist mér holl áminning, nú við upphaf sumars, þegar allt er að springa út og svo margt er að sjá og uppgötva.

„Nema þér verðið eins og börn …“ segir Jesús. Kannski er þar verið að minna okkur á undur og mikilvægi uppgötvunarinnar. Kannski felst örlítið himnaríkisminni í stundunum undir kirkjuveggnum og í grasinu þar sem við rennum fingrum gegnum grasið, finnum áferðina og nærveru þess sem skapar og viðheldur alla tíð.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Puntstrá”

 1. Gunnar Rúnar Matthíasson skrifar:

  Ég þakka hugleiðinguna. Við lestur hennar varð mér hugsað til myndarinnar “Being There” sem mörg okkar muna þó hún sé að nálgast 30 ára afmælið.
  Þar verður sannleikur einfaldleikans að endurvekjandi nýjung sem opnar augu fólks og lyftir einföldum garyrkjumanni upp á forsetastall.

  Sannleikurinn sem leiddi allt hans álit, og aðkomu að því sem undir hann var lagt, var sannleikur garðyrkjunnar sem hugaði að heilbrigði rótarinnar og gaf síðan rými til vaxtar.

  Ég fór að hugsa um hvort ég man í reynd hvernig það er að velta puntstrái milli fingra mér. Hugurinn sagði að ég myndi það því hann geymdi hugmyndina í sér. Hjartað tekur hjinsvegar ekki alveg í sama streng og spyr, að teknu tilliti til mikillar farsíma og tölvunotkunar minnar, hvort að rótfesti mín sé orðin “þráðlaus” og hvort slík rótfesti væri mér nóg!

  Mig langar að fara og velta puntstrái á milli fingra mér. Ég vil prófa að hugleiða þar og þá það sem ég dagsdaglega er að fást við. Hver veit nema ég fái þá séð hluti í öðru ljósi, og fái leiðsögn til að styðja og verja rými mitt og annara til vaxtar og þroska.

  Bestu kveðjur
  Gunnar Rúnar

 2. Sigríður M. Jóhannsdóttir skrifar:

  Þetta er mjög góð hugleiðing og minnir okkur á við við verðum að hugsa um það sem nærri okkur er og hvernig við lifum í þessu þjóðfélagi okkar.

  Minnir mig á einfaldleiki lífsins eru tengdar nátturinni og það að sjá lífið vaxa og þroskast.

  Hvað er fallegra en að sjá lítil börn takast á við einfaldleika lífsins og það hvað lítið atvik getur glatt.

  bestu kveðjur Árni fyrir góða hugvekju
  Sigga Magga

 3. Þorkell skrifar:

  Falleg hugleiðing og þörf áminning.

 4. Anna Sigríður Pálsdóttir skrifar:

  Þakka fyrir fallega og vekjandi hugleiðingu. Ég er einmitt þessa daga að skoða örlitla fingur nýfædds barnabarns míns, undur sköpunarinnar og ég á erfitt með að skilja af hverju ég gef mér ekki meiri tíma til að njóta þess sem Guð hefur fært tíl mín. Ég er að fara í frí á sunnudag og þakka fyrir þessa góðu gjöf sem áminning þín er. Ég tek hana með mér í hjartanu.

  Guð blessi þig Árni Svanur

  Anna Sigíður

 5. ingi hrafn skrifar:

  Sæll vertu árni minn. Þegar ég hélt Sýningu
  niðri ráðhúsi reykjavíkur. þá var ég með kirkjumyndir.Stundum fynnst mér eins og guð sé með mér þegar ég mála kirkjumyndirnar.manni fynnst eins og guð sé með manni.ég trúi á Guð.
  ég byð mikið fyrir henni mömmu minni. eftir að hún fékk krabbameinið þá fynnst mér eins og bænirnar mínar hjálpi henni.mamma er blómarengill
  mér þykir vænt um hana:ég fór mikið í Hallgrímskirkjun og landakotskirkju að byðja f henni mömmu minni.Mamma segir oft þú ert sá eini sem hlustar á Mig,hún talði um krabbameinið sem hún var að berjast Við, ég sagði hvernig hefði ég orðið án þín elsku mamma mín:mér þykir svo vænt um þig.svo brast ég í grát;mér Þykir vænt um mömmu;ég vona að guð hjálpi henni með lífið.
  kær kveðja ingi hrafn ykkar

 6. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Takk fyrir þetta Árni Svanur.
  Þú segir að 9 mánaða gömul dóttir þín sé ennþá að uppgötva heiminn. Þó eitthvað sé ég eldri en hún, þá vill þannig til, að ég er einnig ennþá að uppgötva heiminn - eða er það kannski heimurinn sem ennþá er að uppgötva mig!?
  Kveðja af Hvalfjarðarströnd.

 7. Gunnar Jóhannesson skrifar:

  Já, það er rétt sem þú segir Árni Svanur. Hið hversdagslega á sviði daglegrar tilveru sem það sem mestu varðar. Einmitt þar er Guð að verki, í hinum smáa, litla og einfalda. En þar er líka mesta hættan á að gleyma Guði og týna honum.

  Ég lá á spítala fyrir skemmstu í á aðra viku. Það var til þess að minna mig á hvað mestu máli skiptir. Það er ekki það sem við ætlum alltaf. Hið smáa og hversdagslega verður í huga manns það sem lífið snýst um - eins og það á að vera. Að elda hafragraut fyrir börnin sín á morgnana verður að dásamlegasta og mikilsverðasta dagsverkinu. Jafnvel þótt maður sé illa sofinn og þreyttur og börnin erfið. Maður sér slíka hluti í öðru ljósi þegar maður fær ekki lengur að gera þá.

  Guð er að verki í puntstrái líka; í hinu hversdagslega. Það er auðveldast að gleyma hinu hversdagslega.

  Takk fyrir pistilinn
  Með góðri kveðju
  GJ

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6499.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar