Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þórhallur Heimisson

Er Guð með í svona messum?

Í dag er mikið lagt upp úr því að fá sem flesta til kirkju. Það er auðvitað gott í sjálfu
sér, því varla viljum við kristnir menn að kirkjurnar séu tómar og illa sóttar. Enn síður viljum við að kirkjan sé einhver afgreiðslustofnun eins og pósthúsið sem annast tímamótaathafnir fyrir almenning er sækir þjónustuna eins og af gömlum vana. En gæti það verið að á stundum verði höfðatalningin aðalatriðið, það að fá sem flesta hausa í kirkjuna, á meðan sá sem þar ætti að vera í forgrunni gleymist?

Þúfan sem velti þessu hlassi af stað í huga mér í dag voru orð dóttur minnar einnar fyrir nokkru einn sunnudagsmorgun þegar við vorum að hlusta á morgunfréttir og borða morgunmat. Í fréttunum var verið að segja frá miklu fjöri sem væntanlegt var í kirkjulífinu þann daginn, allskonarstuðmessum og messustuði. Að ólgeymdum veisluföngum sem boðið var upp á eftir messurnar. Allt hljómaði þetta spennandi og vonandi voru allar þessar ágætu messur vel sóttar og öllum til gleði.

Dóttir mín spurði mig sem sagt, „er Guð með í svona messum“? „Auðvitað“, svaraði ég að bragði og hrökk við, enda sjálfur alvanur að standa fyrir poppmessum og rokkmessum og stuðmessum.

Til að fá fólkið í kirkjuna. Skárra væri það nú!

Auðvitað er Guð með í svona messum.

Með það hljóp dóttir mín út í sólina.
En… spurningin hefur ekki látið mig í friði.

Snýst þetta allt orðið um að fá fólkið til kirkju, með öllum ráðum? Með pulsum og ís, eða hestum og hoppiköstulum eða poppgoðum og frægu fólki? Svona er þetta að verða t.d. í hjónavígslunum þar sem fjörið og hressleikinn og frumleikinn skiptir oft öllu - presturinn er þar gjarnanaukapunt í tilefni dagsin- tala nú ekki um hinn kristna boðskap. Ég get nefnt sem dæmi fyrir nokkru þegar ég var að gifta einn frægan. Glamor-Bandið spilaði auðvitað undir, og alltmulig stuð átti að setja svip sinn á athöfnina. Þegar ég var að æfa parið og kom að ávarpinu, spurði brúðguminn mig vinalega hvort ekki væri í lagi að félagi hans myndi spila á gítar, „impróvísera“ undir  ávarpinu og ritningarlestrinum. Hann hafði nefnilega nýlega farið í brúðkaup og fundist ræðan hjá prestinum vera svoddan „downer“ í annars góðri athöfn. Man ekki hvernig ég klóraði mig út úr þessu, en ég slapp þó við undirleikinn og komst að með downerinn.

Sem sagt: Hvers vegna erum við að blanda Guði í þetta stuð allt? Er ekki næsta skref að sleppa Guði og vera bara í kirkjustuði (þ.e. ekki með Guði í stuði)? Sleppa downernum?

Eða … sakna fleiri en ég messunnar sem er bara messa til einskis annars en að vera messa. „Baramessa“. Ekki til að vera í stuði eða gera e-ð flott, heldur bara, bara til að vera með Guði.

Hundleiðinlegt auðvitað. Enda kemur eflaust enginn í slíka messu. Nema Guð. En er þá ekki eitthvað að ef enginn nennir að koma í kirkjuna, bara til að hitta Guð?

Um höfundinn4 viðbrögð við “Er Guð með í svona messum?”

 1. Þorgeir Arason skrifar:

  Bestu þakkir fyrir þennan vekjandi og skemmtilega pistil!

 2. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Þakka þér fyrir þarfan pistil, Þórhallur. Satt segirðu, mörgum ykkar presta, veit ég, finnst stundum eins og þið séu frekar trúðar í sirkus heldur en prestar í athöfnum, sem eiga að heita alvarlegar, og ætlast er til, að sé tekið sem slíkum. þegar þið fáið t.d. listann yfir lögin, sem á að spila í brúðkaupum, og því miður stundum jarðarförum líka. En því miður vill það verða á þessum síðustu og verstu tímum, að sekúlaríseringin í kirkjuathöfnum og þjóðlífinu öllu er svo yfirþyrmandi, að manni ofbýður hreint. Þú ert alls ekki sá einasti, sem saknar “gömlu, góðu messunnar”. Þó að mér finnist stundum gaman að hlusta á gospellög, þá geta þau verið þreytandi og leiðinleg til lengdar, svo að ekki sé minnst á slíkar messur og athafnir, fyrir miðaldra manneskju eins og mig. Mér finnst alltaf stórlega vanta eitthvað í slíkum messum. Við skulum bara vona, að fólk snúi blaðinu við og fari aftur til upprunans, og þetta sé aðeins stundarfyrirbrigði, sem gangi yfir, og fólki fari að finnast vanta einhverja dýpt í athafnirnar og færi þær nær Guði aftur, og færi sjálft nær Guði í leiðinni, þar sem því finnist vera eitthvað tóm vera í lífinu án hans. Ekki veitti af, eins og heimurinn er orðinn. Ennú aftur kærar þakkir fyrir skemmtilegan og þarfan pistil.

 3. Nils Gíslason skrifar:

  Sæll Þórhallur. ég og fjölskylda mín hefur farið í Guðs hús að jafnaði oftar en tvisvar í viku í yfir 30 ár. Af hverju? á sunnudögum mætir um helmingur safnaðarins. Hvað gerðist ef svo færi í þinni kirkju?
  Vinsamlega ekki túlka þetta sem grobb eða íkjur, spurningin er, af hverju þetta er svona þar sem ég sæki kirkju.
  Nú flokkast sú kirkja sem ég sæki, sem mjög íhaldssöm, en hvað dregur söfnuðinn í guðs hús?
  Svar mitt er, að ég fer í guðs hús af svipaðri ástæðu og ungur maður fer að heimsækja kærustuna sína, ég elska Guð. Það er yndisleg tilfinning að fara í Guðs hús og eiga þar samfálag við Guð ásamt öðrum sem koma þar í sama tilgangi. Við syngjum lög og texta sem eru okkur kærir. Það er lesið hvað hann (Guð) hefur lagt okkur til af visku og kærleika í Orði sínu og þá langar okkur til að syngja meira, biðja til hans og lofa hann.
  Sjaldan tekst að ljúka stundinni á minna en einum og hálfum klukkutíma, það er svo yndælt að hittast og eiga samfélag við kærastann sinn og manni liður vel í brjóstinu. Þetta er eins og nægtarborð þar sem sál mans fær saðningu. Næringin er bragðgóð og full fjörefna og þangað leitar sálin.
  Við í minni kirkju erum svo heppin að þurfa aðeins að þóknast einum herra, það er sá sem Orð Guðs boðar okkur. Við erum frjáls, eins og segir; Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok¨”
  Spurning mín til þín er hver er þin herra, hverjum þjónar þú er það þjóðkirkjan, Lúterstrú, siðir og venjur, eða það sem þú heldur að þeir sem koma í kirkjuna þína vilja?
  Hvað vill Guð?
  Með kærri vinarkveðju.
  Nils Gíslason

 4. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Þakka þér fyrir þetta góða bréf. Það er einmitt þessi umræða sem ég er að kalla eftir með þessum pistli mínum. Hvers vegna komum við til kirkju og hvert er hlutverk kirkjunnar okkar? Ég er sjálfur alinn upp við það að sækja kirkju frá því er ég man eftir mér - mínar fyrstu bernskuminningar eru frá kirkjunni. Sjálfur kem ég í kirkjuna til að hitta vin minn - Guð minn - og það gera Guði sé lof margir aðrir - rétt eins og þú! Þeim Guði reyni ég að þjóna af veikum mætti.
  Með kveðju, Þórhallur Heimisson.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4725.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar