Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Bardagabörn á nútímaskálmöld

Fyrir rúmum fimmtán árum hélt Arthur Mortens fyrirlestur í Kennaraháskóla Íslands þar sem hann talaði um nýja tegund barna„The fighting child.” Í okkar hugum, sem vorum í kennaranámi á þeim tíma, var þetta fjarlægt, þó við teldum líklegt að slík börn gætu orðið þannig einhvern tímann í framtíðinni. En framtíðin var í órafjarlægð, óraunveruleg og tengd eilífðinni. Við, kennaranemarnir ræddum, málin og könnuðumst jú öll við óþekkt og virðingaleysi. Við höfðum heyrt eldri kennara tala um að börnin væru erfiðari og agalausari en áður, en af bardagabörnum höfðum við ekki heyrt. Einhverjir mundu eftir slagsmálum á skólalóðum frá eigin barnæsku þar sem krökkum (og þá einkum drengjum) laust saman í bræðiskasti. Slagsmálahundar hafa alltaf verið til.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem við kennaranemar fengum, voru þessi svokölluðu bardagabörn töluvert áberandi vestan hafs og greinilegt var að vandamálið ætti eftir að ná hingað líka. Ekki man ég lengur hvernig lagt var til að við tækjum á bardagabörnum framtíðarinnar enda tel ég að umræðan hafi verið hálf fjarstæðukennd í okkar eyrum þá.

Tíu árum síðar, eða í kringum 2000, varð ég sjálf áþreifanlega vör við bardagabörnin. Ég verð að viðurkenna að þó ég hafi fengið minn undirbúning í Kennaraháskólanum á sínum tíma, varð mér illilega brugðið. Ég minntist þá orða Arthurs Mortens. Ég var vör við það í æskulýðsfélaginu sem ég starfaði í á þeim tíma að krökkunum þótti eðlilegt að láta refsa þeim, félögum sínum, sem höfðu gert eitthvað alvarlegt á þeirra hlut. Ég heyrði krakkana tala um að þessi eða hinn kæmist ekki út úr húsi vegna þess að það ætti að berja hann eða hana. Svo virtist að um skipulegar hefndaraðgerðir væri að ræða. Réttlætiskenndin birtist í formi hefndar.

Í fyrstu taldi ég að þetta ástand væri eingöngu bundið við þann borgarhluta þar sem ég starfaði. Ég gerði því óformlega könnun hjá unglingum í mínu nærumhverfi og bjuggu á hinum og þessum stöðum borgarinnar. Allir þeir sem ég talaði við könnuðust við setningar á borð við þessar:„Það á að berja Siggu af því hún talaði illa um kærastann hennar Gunnu.” Eða„ég get vel látið berja Óla, ég þekki miklu fleiri krakka en hann og get vel safnað liði.”

Ég hef orðið vör við að krakkar hafi safnað liði, verið með barefli á borð við golfkylfur og ógnað„brotlegum” félaga sínum. Hér virðast bæði kynin koma að máli.

Svo virðist sem lögreglan sé farin að líta á ofbeldishótanir unglinga alvarlegum augum. Hér áður fyrr hefði líklega eingöngu verið talið að um hættulaust krakkarifrildi sé að ræða. Nú vinnur lögreglan að því að koma í veg fyrir að ógnunum og hótunum sé framfylgt og má segja að hér gegni hverfislögreglan miklu hlutverki. Verði foreldrar eða forráðamenn barna varir við slíkar hótanir, hvort sem það er á netinu eða munnlega, ber að taka þær alvarlega og hjálpa börnunum að vinna úr sínum málum á friðsaman og árangursríkan hátt.

Hvað er það sem gerir unglinga þannig að þeim finnist sjálfsagt að hóta að beita hópofbeldi gagnvart einum brotlegum einstaklingi? Úr hvaða jarðvegi sprettur þessi hugsanagangur? Höfum við gleymt að þjálfa börnin okkar í því að fyrirgefa, sættast og ræða friðsamlega um hlutina? Hafa aðstæður barna breyst svo hratt að við sem eigum að ala þau upp vitum ekki hvar vítin eru til þess að varast þau. Getur verið að þau verndandi gildi sem voru í þjóðfélaginu- eftir skálmöld- séu að gleymast?

Erum við að gleyma einhverju?

Um höfundinn2 viðbrögð við “Bardagabörn á nútímaskálmöld”

  1. Pétur Björgvin skrifar:

    Þörf áminning, sérílagi til okkar sem störfum í kirkjunni - af hverju náum við ekki til fleiri einstaklinga úr þessum hópi?

  2. » Bardagabörn Í dagsins iðu skrifar:

    […] Ég mæli með pistli Elínar Elísabetar um Bardagabörn á nútímaskálmöld. Þörf áminning. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4020.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar