Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Gleðidagar

Páskavakan að kvöldi laugardagins á sér afar fornar rætur. Það var skírnarhátíð frumkirkjunnar. Hún fer fram um miðnætti. Mikilvægustu þættirnir eru tendrun páskaljóssins, lestrarnir sem rekja hjálpræðissöguna, minning skírnarinnar og páskamáltíðin. Þetta er sterk og hrífandi guðsþjónusta.Víða er hátíðarmessa páskanna kl. 8 að morgni. Kirkjuganga í dagrenning á páskadagsmorgni er yndisleg. Páskaljósið er tendrað þegar páskaguðspjallið er lesið og stendur síðan og logar í kórnum við hverja messu allt til uppstigningardags, þar sem það er slökkt þegar lesið er í lexíunni að Jesús hvarf sjónum þeirra. Eftir það er það aðeins tendrað við skírn - og jarðarför.

„Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!“ Þetta er sigursöngur páskanna. Í Austurkirkjunni eru þessi orð dagleg kveðja fólks er það hittist alla gleðidagana, en svo nefnast dagarnir fjörutíu frá páskum til uppstigningardags. Við höfum átt þessa kveðju í liturgíu okkar kirkju. En jafnframt skulum við muna, að öll tilvera kirkjunnar er eiginlega páskaprédikun, ítrekun gleðifréttar páskadagsmorguns.

Sérhver sunnudagur árið um kring er páskadagur, fyrsti dagur hverrar viku, þar sem kirkjan, vinir Jesú og lærisveinar koma saman til að minnast Jesú og mæta honum, við skírnarlaug og altarisborð. Sérhver sunnudagur er páskadagur, dagur nýs upphafs, nýrrar byrjunar, dagur vonar, er við setjum okkur fyrir sjónir þetta undur að Kristur er upprisinn!

Kærleikurinn er sterkari en hatrið, já, sterkari en dauðinn, og mun hafa síðasta orðið en ekki forlögin, lögmálið, dauðinn. Og þessvegna dirfist kirkjan að tala um lifandi von við látinna gröf, tala um upprisu og eilíft líf og endurfundi ástvina. Kristur er sannarlega upprisinn! Úr sorginni og harminum rís huggunin, vonin, fyrirgefningin. Kristur er upprisinn og hann er að verki í heiminum okkar í orði sínu og anda.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3580.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar