Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Örn Bárður Jónsson

Að þegja hefir sinn tíma

Yfirskrift þessa pistils vísar til þeirrar spöku bókar Gamla testamentisins er ber heitið, Prédikarinn. Ein þekktustu orð þeirrar bókar eru þessi: Öllu er afmörkuð stund.
Þetta er raunsæ bók þar sem höfundurinn veltir fyrir sér listinni að lifa og þeirri þraut að vera manneskja.

Grafið undan lýðræði?

Mér komu þessi orð yfirskriftarinn í huga í kjölfar þess að Hafnfirðingar létu í ljós skoðun sína á stækkun álversins í Straumsvík. Yfirskriftin tengist þó ekki Hafnfirðingum heldur öðrum, því varla voru orð formanns kjörstjórnar um úrslitin hljóðnuð, þegar stjórnmálamenn, blaðamenn og bloggarar, voru hver um annan þveran farnir að leita leiða til að ógilda kosninguna eða finna út með hvaða hætti mætti breyta henni á næstu mánuðum eða misserum. Þegar almenningur hefur talað og úrslit liggja fyrir þá er það nú svo þar sem lýðræði er að menn verða að una þeim. Auðvitað er hægt að vera tapsár eða sigurviss eftir því hvorum megin menn skipuðu sér í fylkingu en að láta sér það til hugar koma að breyta úrslitum með einhverjum klækjum á ekkert skylt við lýðræði. Slíkt mætti fremur telja til gjörræðis eða valdníðslu. Í þessum efnum eiga menn bara að þegja og una úrslitunum. Vel má vera að setja þurfi skýrari lög um íbúakosningar. Þá gerir Alþingi það bara í fyllingu tímans. En að öðru leyti verða menn að kunn að þegja á réttum tíma.

Kyrrir dagar

Svo var það önnur umræða sem birtist í Fréttablaðinu, miðvikudaginn 4. apríl, í miðri kyrruviku eða dymbilviku og snerist um það hvort halda mætti skemmtanir á föstudaginn langa, hvort úrslit Fyndnasta manns Íslands og X-factor þáttanna mætti fara fram að kvöldi þess dags. Vitnað var í presta sem voru hneykslaðir og einnig til þess að Biskupsstofa hefði sýnt því skilning að nú væru breyttir tímar.

Og það er einmitt það sem stendur upp úr: Nú eru breyttir tímar. Nú eru runnir upp þeir tímar að allir dagar eru eins, engir dagar hafa meiri helgi en aðrir. Allt verður alltaf að vera skemmtilegt, alltaf! Og hvar endar þetta? Hvert leiðir þessi lífsskoðun á endanum? Leiðir hún ekki til einsleitni, tilbreytingaleysis, leiðinda? Þeir sem alltaf þurfa að njóta skemmtunar, alla daga, allt árið, deyja þeir ekki á endanum úr leiðindum? Lífið er fjölbreyttara en svo að alltaf eigi að vera skemmtun. Og enn vitna ég í Prédikarann: „að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma“. Lífið byggist upp á andstæðum stefjum en ekki einsleitni. Hvernig hljómar annars lag sem leikið er á eina nótu og alltaf í sama takti? Prófaðu!

Boð og bönn

En svo er það hitt að ekki er hægt að banna smekkleysu eða sljóleika gagnvart blæbrigðum lífsins. Hvorki löggjafinn né kirkjan getur til dæmis bannað fíflalæti á föstudaginn langa. En þeir sem slíkt stunda fara þeir ekki á mis við eitthvað himneskt, eitthvað djúpt í mannlegri reynslu og reisn? Þögnin hefur þýðan róm og kyrrðin kallar með sérstökum hætti. Hefurðu hlustað á kyrrðina tala í ómi mildrar þagnar?

Ég man það vel úr bernsku minni hversu dapurlegur þessi langi föstudagur var í hugum okkar
barnanna. En eftir á að hyggja þá hafði alvaran góð áhrif. Föstudagurinn langi var og er áskorun til allra um að íhuga hin döpru stef tilverunnar, þjáninguna, dauðann og sýna samstöðu með þeim sem líða. Dagurinn er djúpur í inntaki sínu og hefð. Trúðar tralla og leika sér alla daga og þannig verður það liklega um ókomin ár. En reynum samt að fara ekki á mis við blæbrigði lífsins. Látum ekki daga lífs okkar lit sínum glata.

Og nú þegar þetta birtist á prenti er kyrravikan að baki og páskarnir líka með sigurboðskap sinn. Og þá er ástæða til að fagna og jafnvel tralla, því lífið hefur sigrað dauðann! Þá er ekki lengur hægt að þegja enda segir Prédikarinn: „að tala hefir sinn tíma . . . að faðmast . . . að dansa . . . að elska hefir sinn tíma.“

Lífið er undursamlegt meðal annars vegna þess að allt hefur sinn tíma!

Ritað fyrir Vesturbæjarblaðið í apríl 2007

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3457.