Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Kristjánsson

Þurfamenn í allsnægtum

Í fyrsta Passíusálmi er eitt erindi sem oft er notað sem borðsálmur. Hér í prófastsdæminu er það siður að syngja það eða lesa við máltíðir á fundum og ráðstefnum, versið er þannig:

Þurfamaður ert þú mín sál
þiggur af drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt
fyrir það honum þakka skalt.

Þetta er í eina skiptið sem orðið þurfamaður kemur fyrir í Passíusálmunum. Þurfamaðurinn, sem hér er ávarpaður, er sál mannsins.

Séra Hallgrímur vissi fullvel hvað það merkti að vera þurfamaður. Hér á Hvalsnesi var hann í hópi hinna fátæku þegar hann hóf hér prestsskap um miðja sautjándu öld. Um það eru ýmsar heimildir. Hér biðu hans kröpp kjör og harður kostur.

Þess vegna er það áhugavert til umhugsunar hvað það merkir á tímum allsnægta og auðlegðar að syngja um sál mannsins sem þurfamann. Er það svo? Er það söngur sem hæfir okkar tímum?

Séra Hallgrímur tjáir sig þarna út frá eigin kjörum. Þau Guðríður voru allslaus af þessa heims gæðum þegar þau komu á þennan stað fyrir milligöngu Brynjólfs biskups Sveinssonar sem hafði mikið álit á Hallgrími frá kynnum þeirra ytra. Það átti hins vegar ekki við um alla, m.a. ýmsa þá sem hér bjuggu og taldir voru stórbokkar. Sagan segir að meðal annars af þeim sökum hafi reynst erfitt að fá presta til að þjóna þessu prestakalli sem var auk þess langrýrast í Kjalarnessprófastsdæmi.

Hallgrímur átti engra kosta völ og var vígður til Hvalsness og tók hér við þjónustu. Því fór fjarri að allt léki í lyndi fyrir þeim þau sjö þar sem þau voru hér, m.a. misstu þau Steinunni dóttur sína á fjórða ári. Hallgrímur orti um hana tvö erfiljóð. Annað þeirra hefst með þessum þekktu orðum: “Nú ertu leidd mín ljúfa / lystigarð Drottins í…” Hér sem endarnær yrkir Hallgrímur af næmleika og einlægni sem hvort tveggja einkenndi ljóð hans og sálma. Hann hjó auk þess steininn yfir leiði Steinunnar sem nú prýðir kór kirkjunnar.

Snorri Hjartarson orti ódauðlegt ljóð um þessa kirkju með tilvísun til steinsins sem Hallgrímur hjó á leiði dóttur sinnar:

Kirkja við opið haf
Í kórnum lýt ég að skörðum
steini, fer augum og höndum
um letrið, um helgan dóm
Sé lotinn mann, heyri glamur
af hamri og meitli, sé tár
hrökkva í grátt rykið
Sé hann hagræða hellunni á gröf
síns eftirlætis og yndis
og finnst ljóðið og steinninn verða eitt
Ég geng út í hlýan blæinn
og finnst hafið sjálft ekki stærra
en heilög sorg þessa smiðs.

Hallgrímur átti sannarlega samleið með sóknarbörnum sínum í fátækt og basli daglegs lífs. Hann þekkti kjör þeirra, bænda og fiskimanna, og það átti án efa sinn þátt í að greiða kveðskap hans leið til þjóðarinnar. Hér deildi hann örlögum með þeim öreigalýð sem fátt eitt átti annað en angistina í brjósti sínu, ótta við yfirgangsmenn sem lutu engum lögum og reglum í þessu samfélagi nema þeim sýndist svo og hentaði, hér bjó hann meðal þeirra umkomulausu sem áttu allt sitt undir veðrum og vindum, fiskigengd og grassprettu. Hans heimur var ekki annar. Nema ef vera skyldi heimur skáldskaparins.

Í skáldskapnum býr mikill leyndardómur. Það á einnig við um kvæði og sálma séra Hallgríms. Fáum hefur tekist eins og honum að yrkja sig inn í sál þessarar þjóðar. Í það minnsta hefur fáum skáldum – ef nokkru – hlotnast að eignast trúnað þjóðarinnar í sama mæli og hann.

Enn er sálmurinn “Allt eins og blómstrið eina” sunginn yfir moldum Íslendinga, með íslenskum ferðamönnum og kórum berst kveðskapur hans um víða veröld; Passíusálmarnir eru fluttir í kirkjum og fjölmiðum á föstunni í sívaxandi mæli. Hallgrímur á því enn erindi til fólks, annar lærdómur verður ekki dreginn af þessum staðreyndum.

Þótt margt sé framandi í ljóðum hans og sálmum, svo sem myndir og hugtök trúarinnar þá breytast frumtáknin ekki. Í einföldum táknum og myndum trúarinnar líður tíminn hægt en það dýpsta hefur gildi frá kynslóð til kynslóðar. Myndin sem brugðið er upp með orðunum “Láttu Guðs hönd til leiða hér” er enn í fullu gildi, “Vertu Guð faðir faðir minn” sömuleiðis. Dæmin gætu verið mörg.

En samt er Hallgrímur og hugarheimur hans fjarlægur okkur. Trú hans er trú sautjándu aldar, barokkbúningur trúarskilningsins er búningur löngu liðins tíma, orð og hugtök, ljóðform og myndmál er arfur genginna kynslóða. Og kannski er Hallgrímur enn fjarlægari okkar kynslóð en nokkurri annarri kynslóð. Eða hversu vel túlka Passíusálmarnir trú samtímans? Myndi Hallgrímur skilja guðfræði, trú og kirkju samtímans? Yfir því má lengi velta vöngum. En vel að merkja: Í því efni gegnir sama máli um Hallgrím og aðra sem hafa náð til samtíðar sinnar að þeir hafa um leið náð til allra tíma að einhverju marki.

Hallgrímur er ekki eign neinnar einnar kynslóðar, sá arfur sem hann hefur skilið eftir sig er fjársjóður allra þeirra sem vilja njóta. Hver kynslóð þarf að nálgast þennan auð með sínum hætti og brjóta af honum umbúðir liðins tíma og leysa úr læðingi þann kraft sem býr í list skáldsins.

Það er sálin sem er þurfamaður í þessum heimi. Hallgrímur yrkir ekki um ytri kjör sín heldur innri, um tilvist sína, um mannúð og mennsku, um trú sína og efa, um sorg sína og síðast en ekki síst um vonina. Sálin er hinn mikli þurfamaður, þarfir hennar voru mönnum ljósar á tímum Hallgríms, þær vógu þyngra en þarfir líkamans. Í þessum villugjarna heimi var sálin leitandi að athvarfi, skjóli og hvíldarstað þar sem henni var óhætt hvað sem á bjátaði, á þeirri leið var henni órótt uns hún fann athvarf í trúnni á Guð. Það var markmiðið: að finna Guð og eignast frið við hann. Í þeirri leit var Jesús hinn eini og sanni bandamaður, með því að feta í fótspor hans var manninum borgið um tíma og eilífð.

Það er ekki stíll nútímaskálda og yrkja um sálina sem þurfamann, við lifum ekki á tímum þurfandi sálna heldur á tímum þegar hagkerfið er yfirfullt af tilboðum og önnum kafið við að uppfylla meira og minna tilbúnar gerviþarfir mannsins. Við lifum á afþreyingartímum þegar líkami og sál er hvort tveggja þreytt af ofsæld og ofmettun. Eða kannski það sé ekki svo, kannski eigum við það sameiginlegt með Hallgrími að leita þess sem máli skiptir í lífinu, þeirra gilda sem blífa, hvort sem er í örbirgð eða ofgnótt.

Passíusálmarnir draga upp mynd af píslargöngu Jesú, en þeir draga einnig upp mynd af lífssýn Hallgríms: lífið er fylgd í fótspor hans sem er á leið til krossins, fótmál fyrir fótmál. Skref fyrir skref í fótspor hans sem leiðir manninn rétta leið, um það snýst málið í list Hallgríms. List hans og trú renna í einum farvegi.

Það er áhugvert og gefandi að eiga samtal á eigin forsendum við heim Hallgríms, um trú og trúarskilning, um líf og lífsgildi.

Einn þeirra sem það hafa gert er aufúsugestur hér í dag, Megas. Hann hefur sungið til Hallgríms og um Hallgrím og opnað nýjar dyr inn í heim Passíusálmanna.

Í þeim heimi eru við öll þurfamenn, en verðum samt auðugri af kynnum okkar við séra Hallgrím.

Ávarp flutt á tónleikum Megasar á menningardegi í Hvalsneskirkju 23. okt. 2005.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Þurfamenn í allsnægtum”

  1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

    Takk fyrir þennan fína pistil.

  2. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

    Þakka þér fyrir skemmtilega og fræðandi pistla um Passíusálmaskáldið, Gunnar. Það er alltaf gaman að lesa þessu líkt. Varðandi Hallgrím og Brynjólf biskup, þá komst ég nú að því við lestur heimilda, meðan ég var að skrifa bókina um Brynjólf, að samkomulagið var nú ekki alltaf sem bezt hjá þeim blessuðum stundum. Magnús Jónsson, prófessor, skýrir greinilega frá því í bókum sínum um Hallgrím. Hallgrímur reyndi líka ansi mikið á þolrifin í velgjörðamanni sínum, meira en góðu hófi gegndi, og margir hafa velt því fyrir sér, hvers vegna Brynjólfur var svo þolinmóður, sem raun bar vitni um. Ég hygg, að mágkona Brynjólfs, föðursystir Hallgríms, hafi átt þar einhvern hlut að máli. Hvað Passíusálmana snertir, þá lít ég svo á, að þeir, hver og einn, sé eins og prédikun út af fyrir sig. Það sézt á uppsetningunni að mörgu leyti. Ég geri samt ráð fyrir, að ef Hallgrímur hefði haft tíma til að yrkja þá í dag vegna anna, þá hefði hann tekið mið af nútímanum og vandamálum nútímans, því að í sálmunum er ekki síður að finna ádeilur á samtíma skáldsins, heldur en uppbygging sálarinnar. Að því leyti til er hann ekkert ólíkur ykkur prestunum, þegar þið eruð að segja samtímanum til syndanna í prédikunum ykkar. Eða finnst þér það ekki? Að síðustu tel ég svo sálina ekki síður þurfamann í dag heldur en á 17. öld, þrátt fyrir allar allsnægtirnar og vellystingarnar, því að mér finnst fólk ekkert hamingjusamara eða ánægðara fyrir því. Þess vegna einmitt finnst mér sál manna í dag þurfamenn. Ekki satt?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4458.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar