Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Arna Grétarsdóttir

Fjölskylda á föstu

Sonur minn fermdist í fyrra og við foreldrar hans gáfum honum fartölvu í fermingargjöf. Það var ekkert annað á óskalistanum hjá drengnum en fartölva. Dýr var óskin en ekkert var of mikið handa barninu sem var alltaf með 10 í kristinfræði og tók fermingarfræðsluna mjög alvarlega og sannfærði foreldra, afa og ömmur og nánustu skyldmenni um gildi kristinnar trúar og mátt bænarinnar með löngum og sérlega sniðugum ræðum. Sonurinn náttúrulega óskabarn og fékk því óskafermingargjöf!

Næstum því ár er liðið og ég uppgötvaði í upphafi föstutímans að ég hafði varla séð soninn frá því hann fermdist. Fermingargjöfin góða tók allan hans tíma. Við vorum í fyrstu frekar róleg yfir þessu, nýjabrumið hlaut að fara af þessu. Hann mætti nú fjórum til fimm sinnum á fótboltaæfingar í hverri viku, tók góð próf í skólanum og skilaði verkefnum á réttum tíma. Drengurinn í góðum félagsskap, gerðarlegir piltar, vinir hans, duglegir að læra, þeir keppa sín á milli um háar einkunnir og um það hver er bestur í boltanum og hver skorar hæst í tölvuleikjunum. Hvað ætti ég svo sem að hafa áhyggjur? En áhyggjur hafði ég nú samt.

Næstum því allt síðasta ár er ég búin að tuða og hóta því að nú fari að líða að því að ég skammtaði tíma á netinu. Drengurinn var fjótur að koma í veg fyrir að svo myndi verða og sýndi mömmu sinni tölvuleikinn, umhverfið og sannfærði, alla vega um tíma, að þessi sérstaki netleikur væri mjög þroskandi og þyrfti mjög langan tíma í spilun.

Ekki leið langur tími þar til ég fór aftur að tuða og hóta. Nú sagðist ég ætla að slökkva á nettengingunni. Svarið kom frá mínum eldklára syni um hæl. “Er ég ekki að læra heima, ég fer alltaf á æfingar, ég er ekki í neinu rugli…..”. Ég kolféll, auðvitað var drengurinn í góðum málum, ég vissi það. Eyddi kannski aðeins of miklum tíma í tölvunni, en það voru nú smámunir, ég ætti nú að þakka Guði fyrir velgerðan og gáfaðan son í staðin fyrir að vera alltaf þessi áhyggjufulla tuðandi mamma.

Í upphafi föstutímans gerði ég þá merku uppgötvun þegar ég íhugaði síðasta ár að vandamálið lá í raun og veru ekki hjá syni mínum eða tölvunni, heldur hjá sjálfri mér. Ég saknaði einfaldlega stráksa. Auðvitað er hann að eldast og vaxa frá okkur foreldrunum. En hann vex ekki frá fjölskyldunni, hann verður alltaf hluti af henni.

Fastan í ár var því helguð fjölskyldunni. Ég fór að fara markvisst niður í herbergi til sonar míns og spjalla í smástund, ég hætti að kalla á hann, segja honum að koma upp, ákvað að hætta að hóta og tuða og fór þess í stað niður í herbergi til hans settist hjá honum og bað hann að segja mér frá hinu og þessu. Pabbi hans gerði slíkt hið sama og nú er svo komið að sonur minn heittelskaði er farinn að standa óumbeðinn upp frá tölvunni og spjalla. Hann er aftur farinn að spila á spil við 11 ára gamla systur sína. Pabbi hans búinn að kenna honum nýtt borðspil. Og ég hin áhyggjufulla móðir þakka Guði fyrir þann íhugunartíma sem fastan. Ég hef séð sjálfa mig í spegli og lifað það að fjölskylda á föstu er fjölskylda í hendi Guðs sem leiðir og styður í gegnum amstur hversdagsins. Því hvíli ég róleg, þó stundum sé ég enn áhyggjufull, í þessum orðum Davíðs sálmaskálds: „Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.“ (Sl. 13.6)

Um höfundinn3 viðbrögð við “Fjölskylda á föstu”

  1. Irma Sjöfn skrifar:

    Takk fyrir góðan pistil, sneisafullur af nærgætnum orðum og góðum hugsunum.

  2. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

    Þetta finnst mér frábær nálgun á tölvuveruleikanum á heimilinu og fjölskyldulífi. Takk fyrir

  3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

    Ég verð að taka undir þetta, takk fyrir pistilinn Arna. Fínt líka að fá svona innlegg í umræðuna um tölvunotkun ungs fólks í dag.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4434.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar