Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Blessaðar fermingarnar

Nú eru fermingarnar að hefjast. Í síðustu viku vorum við með munnleg próf í fermingarfræðslu Akureyrarkirkju. Þegar ég kom í Safnaðarheimilið mátti heyra nokkra fermingardrengi æfa sig á því að syngja „Heims um ból“. Það var fagur söngur og munaði engu að ég kæmist í jólaskapið.

Fermingar eru töluvert á milli tannanna á fólki. Talað er um gjafaflóð, óþarfa veislutilstand, óhófleg fjárútlát og hræsni. Spjótunum er einkum beint að fermingarbörnunum. Þó eru það ekki þau sem gjafirnar kaupa, veislurnar halda eða peningunum eyða.

Ég man vel eftir fermingardeginum mínum. Ég vaknaði til hans fullur tilhlökkunar. Mér fannst athöfnin í kirkjunni heldur löng en leið furðuvel í henni. Það voru kökur í veislunni. Ég fékk leðurlíkisjakka og stereógræjur. Mér fannst ég hafa fullorðnast töluvert þegar fermingardagurinn var að kvöldi kominn. Samt var ég seinþroska og er enn. Stelpurnar voru yfirleitt miklu þroskaðri en strákarnir, andlega og líkamlega. Þó að ég muni ekki mikið úr kverinu mínu, „Kristin trúfræði“, fékk ég aldrei á tilfinninguna að ég væri að hræsna með því að láta ferma mig.

Mér finnst ósanngjarnt að ætlast til þess að fermingarbörnin verði að hálfgerðum englum við ferminguna. Og verði þau það ekki þykir mörgum fínt að gefa í skyn að þau séu að hræsna.

Er ekki sjálfsagt að halda unglingum veglegar veislur? Hverjir hafa ekki gaman af því að fá góðar gjafir? Af hverju er aldrei óskapast yfir því að fólk haldi upp á sextugsafmæli og sagt „hann er nú bara að þessu gjafanna vegna“?

Þegar boginn er spenntur of hátt við fermingarnar held ég að sjaldnast sé við fermingarbörnin að sakast. Nær væri að beina spjótunum að okkur, fullorðna fólkinu og þeirri neysluhyggju sem tröllríður öllu hér á landi.

Ég er líka svo undarlega innréttaður að ég lít ekki á borgaralega fermingu sem samkeppni við kirkjulega. Miklu frekar að ég sjái hana sem samherja. Án þess að ég hafi kynnt mér mikið það sem börnin læra í undirbúningi borgaralegrar fermingar sé ég ekki annað en að þar fræðist börnin um mikilvæg siðfræði- og heimspekileg efni. Ég er viss um að þau sem fermast borgaralega verða fyrir hollum áhrifum og góðum og veitir ekki af því nóg er um skaðlega áhrifavalda í samfélagi okkar.

Auðvitað er munur á kirkjulegri og borgaralegri fermingu. Í kirkjunni viljum við leiða börnin til Jesú Krists og glæða með þeim vitundina fyrir góðum Guði, sem ætíð er til staðar fyrir þau. Aðalatriðið er að það takist.

Fyrir nokkrum árum hitti ég æskuvin minn á Laugaveginum í Reykjavík. Hann sagði sínar farir ekki sléttar. Hafði lent í dópi og var svo langt leiddur að ekkert blasti við nema sjálfstortíming. Vinur minn dreif sig í meðferð. „Þar fann ég dálítið sem ég hélt að ég ætti ekki,“ sagði hann við mig. Þetta sem hann fann varð honum til bjargar, að hans sögn. Það var trúin.

Hann hélt að hann ætti hana ekki en hún var búin að vera þarna alla tíð, gegnum öll þessi ár og allar hans hremmingar.

Einnig birt á bloggi höfundarins.

Um höfundinn12 viðbrögð við “Blessaðar fermingarnar”

 1. Bernharður Guðmundsson skrifar:

  Þetta voru orð í tíma töluð, Svavar , og full ástæða að koma völdum köflum úr þessum pistli, á framfæri í Mbl eða Fréttablaðinu. Því hvers eiga börnin að gjalda? Eins og þú bendir á, gangast þau ekki fyrir eyðslunni. Enginn spyr brúðhjón eða fimmtugsafmælisfólk hvort þau séu að þessu vegna gjafanna. Og ef það væri svo að gjafirnar væru hvatinn , hafa krakkarnir unnið fyrir þeim með stífu námi ( yfirleitt!) í heilan vetur.Þakka þér fyrir, þetta er ekki í fyrsta skipti sem þú vekur máls á brýnu máli .

 2. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Hræsnin er sú að stór hluti fermingarbarnanna er alls ekki kristinn. Ef við skoðum Trúarlíf Íslendinga 2004 þá sjáum við á bls. 30 að aðeins 32,8% þeirra sem voru 13-17 ára tóku undir þá skoðun að: “Til er kærleiksríkur guð sem við getum beðið til.” Krakkar sem trúa þessu ekki getur maður varla kallað kristin. Samt eru þau látin (þrýstingur frá félagshópnum) fermast. Mér finnst óhætt að kalla það hræsni.

 3. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Ef Hjalta finnst smekklegt að kalla fermingarbörn hræsnara verður líklega svo að vera. Hann telur sig líka þess umkominn að dæma um trú þeirra.

  Þegar menn vitna í kannanir er ekki verra að skoða þær aðeins. Þannig er það ekki rétt hjá Hjalta að 32,8% unglinga á 13 - 17 ára aldri hafi tekið undir þá skoðun að til sér kærleiksríkur guð sem hægt sé að biðja til. Hið rétta er að 32,8% unglinga á þessum aldri telja þá fullyrðingu komast næst því að lýsa skoðun þeirra á Guði. Aðrir völdu aðrar fullyrðingar sem í boði voru. Þau sem völdu aðrar fullyrðingar en Hjalti kaus að nefna þurfa ekkert endilega að vera minna kristin en hin.

  Hjalti hefði líka mátt geta þess að í sömu könnun kemur fram að 82% unglinga á aldrinum 13 - 17 ára játa kristna trú.

 4. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ef Hjalta finnst smekklegt að kalla fermingarbörn hræsnara verður
  líklega svo að vera.

  Ég kallaði fermingarbörn ekki hræsnara. Ég
  sagði að það væri hræsni að láta þau fermast. Hver ákveður það
  að láta ferma börn svona snemma, þegar þau hafa ekki þroska til þess að
  skera sig úr hópnum? Eins og stendur í Námsskrá
  fermingarstarfanna
  á blaðsíðu 20:

  Áhrif félagshópsins eru
  hvað sterkust í 8. og 9. bekk. Þá staðreynd er mikilvægt að nýta sér í
  fermingarstörfunum.

  Þannig er það ekki rétt hjá Hjalta að 32,8% unglinga á 13 - 17
  ára aldri hafi tekið undir þá skoðun að til sér kærleiksríkur guð sem
  hægt sé að biðja til. Hið rétta er að 32,8% unglinga á þessum aldri telja
  þá fullyrðingu komast næst því að lýsa skoðun þeirra á Guði. . Aðrir
  völdu aðrar fullyrðingar sem í boði voru. Þau sem völdu aðrar fullyrðingar
  en Hjalti kaus að nefna þurfa ekkert endilega að vera minna kristin en
  hin.

  Staðreyndin er sú að þetta er hin klassíska kristna hugmynd.
  Minna en 40% tóku undir þetta. Og þó svo að við gerum ráð fyrir að
  “kærleiksríka-svarið”, “tilgangs-svarið” og “skapara-svarið” skarist ekkert á,
  þá eru það einungis 63,2%. Hvað er hlutfall fermingarbarna hátt? Síðan má
  auðvitað benda á Trúarlíf Íslendinga frá 1987, sem birtist árið 1990
  í ritröð Guðfræðistofnunar HÍ. Þar kom fram að einungis 44,5% litu á
  Jesús sem son guðs og frelsara. Ertu kristinn ef þú trúir því ekki?

  Hjalti hefði líka mátt geta þess að í sömu könnun kemur fram að
  82% unglinga á aldrinum 13 - 17 ára játa kristna trú.

  Þegar menn
  vitna í kannanir er ekki verra að skoða þær aðeins. Á bls. 28, sem þú
  vitnar þarna í, stendur: “Þeir sem telja sig vera trúaða (sp. 13) voru spurðir
  þessarar spurningar.” Þar sögðust 63% á aldrinum 13-17 vera trúuð. 82% af
  þessum 63%
  sögðust vera kristin. 82% * 63% = 52%. Aðeins 52% unglinga
  á aldrinum 13-17 ára játa kristna trú.

 5. Torfi Stefánsson skrifar:

  Það er ekki sama hvaða tölur eru skoðaðar, Svavar minn.
  Hjalti vitnar í þær niðurstöður að 52,8% unglinga á aldrinum 13-17 ára segja að Guð sé annað hvort tilbúningur mannanna eða engin fullvissa fyrir tilvist hans.
  Ef þessi niðurstaða er borin saman við sambærilega könnun Björns Björnssonar og Péturs Péturssonar frá árinu 1986 þá trú unglinganna minnkað um 17,5% á 18 árum. Trúleysi og efahyggja hafði að sama skapi aukist, trúleysið um tæp 10% og efahyggjan um 6,6%.

  Þessi útkoma sýnir svo ekki verður um villst að rúmlega helmingur ungmenna fermist af einhverjum öðrum ástæðum en vegna einlægrar trúar sinnar.
  Sérstaka athygli vekur að svo margir sem 26,4% nýfermdra ungmenna segja Guð vera tilbúning. Ekki lýsir það nú miklum árangri í fermingarfræðslu kirkjunnar.

  Í könnun sem gerð var árið 2000 meðal framhaldsskólanema þar sem 284 nemendur, 16 og 18 ára (f. 1981 og 1983) voru spurðir, þ.e. ungmenni sem fermdust um miðja tíunda áratuginn, kemur fram að 51,8% þeirra sögðust trúa á persónulegan hátt en einungis 21,5% sögðust vera kristinnar trúar.

  Rannsakandi dregur þá eðlilega ályktun af þessu að fermingarundirbúningurinn skili takmörkuðum árangri og standi ekki undir markmiðum hvað þá væntingum.
  Fleiri þættir könnunarinnar styðja þetta. T.d. er spurt beint út um hvort fermingarundirbúningurinn hafi haft áhrif á trúarafstöðu ungmennanna. Heil 64,1% sögðu að hann hefði ekki haft nein áhrif.

  Þá er spurt um ástæðu þess að viðkomandi fermdust. Flestir svara af hefð eða 46,8% en aðeins 26,8% segjast hafa fermst vegna trúar sinnar.
  Þegar spurt er um trúarlífið er útkoman enn verri fyrir kirkjuna. 40,1% segist sjaldan biðja og 28,2% aldrei. 18,3% biðst fyrir nokkrum sinnum í mánuði en 12,7% daglega.
  Þátttaka í guðsþjónustum er lítið skárri. 38,4% sækir kirkju á hátíðum, 20,8% aldrei og 16,9% sjaldnar en einu sinni á ári. 16,5% sækir kirkju einu sinni á ári.
  Einungis 2,8% sækir kirkju einu sinni í mánuði og 2,1% einu sinni í viku.
  Einnig var spurt um kristilegt félagsstarf og sögðust aðeins 3,9% taka þátt í slíku en 96,1% ekki.
  Niðurstaðan er í stórum dráttum sú að einhvers konar trú er fyrir hendi en sárafáir sækja guðsþjónustur eða taka á annan hátt þátt í kirkjulegu starfi.
  Þetta sýnir að árangur fermingarundirbúningsins er lítill. Fermingin er frekar útskrift úr kirkjunni en trúarleg athöfn.

 6. Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

  Ég sé að aðrar ástæður en ólæsi á kannanir hljóta að valda því að Hjalti fór frjálslega með niðurstöður úr umræddri trúarlífskönnun. Þegar ég fékk út þessi 82% (eða öllu heldur sagðist geta búist við þeirri niðurstöðu frá Hjalta) notaði ég sömu aðferð við lestur á könnunni og hann í fyrra innleggi sínu. Ég sleppti því samhengi sem spurningin stóð í, sem er auðvitað ótækt og gott ef við getum verið sammála um það.

  Ég er ekki viss um að hægt sé að mæla trú fólks með skoðanakönnunum og ég er heldur ekki viss um að trú sé fólgin í vitsmunalegri tileinkun kennisetninga. Kristið fólk trúir með ýmsu móti og ekki er hægt að búast öðru en að börn og unglingar séu skammt á veg komin í sínum trúarþroska. Stundum finnst mér við gera þær kröfur til fermingarbarnanna að þau verði nánast fullmótuð í trúarlegu tilliti við fermingu eða verði að “hálfgerðum englum” eins og ég orðaði það í pistlinum.

  Ég er sammála sr. Torfa um að kirkjan þurfi að nýta betur það einstaka tækifæri sem fermingarfræðslan er. Ég tel að það geti hún ekki nema miða fræðsluna við það sem börnin geta tileinkað sér og að tekið sé tillit til þess hvar þau eru stödd á vegi trúarinnar.

  Fermingin er sjaldnast uppljómun. Takist vel til er hún einn kafli í trúarþroskasögu einstaklingsins. Því þroskaverkefni er langt frá því lokið við fermingu heldur stendur það ævina alla.

 7. Jón Valur Jensson skrifar:

  Könnunin náði til 13-17 ára barna. Það er EKKI fermingaraldurinn, strangt til tekið. Margir unglingar flosna upp frá kristinni trú eftir ferminguna, enda lítið gert til að halda sambandi við þau, og foreldrarnir eru margir hverjir í efnishyggju munns og maga og sýna ekki það góða fordæmi að sækja kirkju. Það er auðvitað óbein yfirlýsing um, að þau gefi lítið fyrir kristindóminn.

  En Hjalti Vantrúarmaður talar hér eins og honum er lagið, enda í sífelldri áróðursbaráttu fyrir trúleysi og gegn kristnum sið.

  “Til er kærleiksríkur guð sem við getum beðið til” sögðu 39,4% þessara 13-17 ára. “Guð hlýtur að vera til, annars hefði lífið
  engan tilgang” sögðu 19,2% til viðbótar, en þetta er mjög sterk yfirlýsing um, að Guð skipti þau afar miklu máli; kristnir menn ekkert síður en aðrir geta vel tjáð sig þannig. “Guð hefur skapað
  heiminn og stýrir honum” sögðu 9,4%. Þetta er líka afstaða kristinna manna. Samtals eru þetta 68%. Einhverjir þeirra, sem hafa þessa afstöðu, hafa þó enga vissu fyrir því að guð sé til eða telja engan annan guð til en þann “sem manneskjan sjálf hefur búið til,” því að hóparnir með þessi tvenn viðhorf voru 19,7+26,2% aðspurðra (=45,9%, nema sumir séu þar tvítaldir vegna eigin flokkunar í báða þessa hópa); en 68% + 45,9% er meira en 100%, þannig að einhver skörun er þarna.

  Svo ber líka að líta til þess, að 16% þjóðarinnar eru utan Þjóðkirkjunnar, þannig að þessi skoðanakönnun á ekki endilega beint við um hennar fermingarbörn. Mörg börn (meirihlutinn) í 16% hópnum eru reyndar í kristnum trúfélögum, en sum eru það ekki og ýmis þeirra alin upp í trúleysi.

  Könnunin vekur vissulega áhyggjur, en kemur mér þó ekki á óvart. Kirkjunum helzt allt of illa á sínu fólki, það þarf að gera þær aðlaðandi fyrir unglinga, vettvang félagsstarfs, alveg eins og verið er að bjóða fram safnaðarheimilin til mömmumorgna, AA-funda, starfs eldri borgara o.m.fl. Eru prestar hræddir við unglingana? Þið eigið að efla félagsstarf krakka, frjálsa sköpun, myndlist, leiklist og tónlistarstarf (ekki bara með hátíðlegum hætti í guðsþjónustunni), aðra tómstundavinnu, t.d. frímerkjasöfnunarhópa, stýrða tölvuhópa (ekkert rusl, takk!) og málfundastarf, sem þroskar ungt fólk. Hafa líka hæfileikakeppni í söng o.fl., fundi um hagsmuna- og áhugamál unglinga, ræðukeppni o.m.fl. Ef Múhameð kemur ekki til fjallsins, verður bjargið að koma til Múhameðs! Já, hættum að úthýsa unglingunum, þá fara þeir kannski að finna fyrir umhyggju kirkjunnar, og annað leiðir nánast af sjálfu sér, því að auðvelt er að tengja svo sumt af þessari starfsemi (t.d. söng- og leikhópa) inn í helgidagastarf kirkjunnar. Good luck!

 8. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Svavar:

  Ég sé að aðrar ástæður en ólæsi á kannanir hljóta að valda því að Hjalti fór frjálslega með niðurstöður úr umræddri trúarlífskönnun.

  Ég fór ekki frjálslega með niðurstöðurnar.

  Þegar ég fékk út þessi 82% (eða öllu heldur sagðist geta búist við þeirri niðurstöðu frá Hjalta) notaði ég sömu aðferð við lestur á könnunni og hann í fyrra innleggi sínu. Ég sleppti því samhengi sem spurningin stóð í, sem er auðvitað ótækt og gott ef við getum verið sammála um það.

  Þú sagðist reyndar ekki geta búist við þessari niðurstöðu frá mér. Þú sagðir að ég hefði ekki getið þess að niðurstaðan sýndi fram á að 82% unglinga á aldrinum 13-17 ára játuðu kristna trú. En þetta var allt of lúmkst og óljóst stílbragð. Ég er viss um að fleiri en ég hafi misskilið þetta.

  Ég er ekki viss um að hægt sé að mæla trú fólks með skoðanakönnunum…

  Ef einhver segist í könnun ekki trúa á tilvist guðs, segist trúa því að Jesús hafi bara verið venjulegur maður, segist ekki trúa á líf eftir dauðann, segist trúa því að biblían sé bara samansafn af goðsögum, er þá ekki nokkuð ljóst að sá einstaklingur er ekki kristinn?

  Ég held að svarið sé augljóslega “Já”. Auðvitað er þetta aldrei 100% öruggt, en fólk sem segir að guð sé hugarburðr og að Jesús hafi bara verið maður er ekki kristið í neinum eðlilegum skilningi þess orðs.

  ….og ég er heldur ekki viss um að trú sé fólgin í vitsmunalegri tileinkun kennisetninga.

  Virkilega? Þannig að það að vera kristinn hefur ekkert að gera með tileinkun kennisetninga eins og þrenningarkenningarinnar, tilvistar guðs, upprisu Jesú og svo framvegis? Hvað þýðir það þá að vera kristinn?

  Kristið fólk trúir með ýmsu móti og ekki er hægt að búast öðru en að börn og unglingar séu skammt á veg komin í sínum trúarþroska.

  Hvað þýðir það að vera “skammt á veg komin í sínum trúarþroska”? Að trúa ekki á tilvist guðs?

  Jón Valur:

  Margir unglingar flosna upp frá kristinni trú eftir ferminguna, enda lítið gert til að halda sambandi við þau, og foreldrarnir eru margir hverjir í efnishyggju munns og maga og sýna ekki það góða fordæmi að sækja kirkju. Það er auðvitað óbein yfirlýsing um, að þau gefi lítið fyrir kristindóminn.

  Og hvaða heimild hefurðu fyrir því að “[m]argir unglingar flosna upp frá kristinni trú eftir ferminguna”? Lumarðu á einhverri könnun eða ertu bara að tala ex cathedra?

  “Til er kærleiksríkur guð sem við getum beðið til” sögðu 39,4% þessara 13-17 ára. “Guð hlýtur að vera til, annars hefði lífið
  engan tilgang” sögðu 19,2% til viðbótar, en þetta er mjög sterk yfirlýsing um, að Guð skipti þau afar miklu máli; kristnir menn ekkert síður en aðrir geta vel tjáð sig þannig. “Guð hefur skapað
  heiminn og stýrir honum” sögðu 9,4%. Þetta er líka afstaða kristinna manna. Samtals eru þetta 68%.

  Þú hefur ruglast aðeins, þetta eru heildartölurnar. Tölurnar fyrir hópinn 13-17 ára eru:

  kærleiksríkur guð: 32,8%
  hugarburður: 26,4%
  engin vissa: 26,4%
  tilgangur: 16,8%
  skapar og stýrir: 13,6%
  ekkert af framantöldu: 8,8

  Þannig að ef engin skörun er á milli guða-svaranna þriggja (mjög ólíklegt) þá eru það 63,2% sem trúa á einhvers konar guð. En í Trúarlífi Íslendinga 1986-7 (í 3. hefti ritraðar Guðfræðistofnunar HÍ) telja Björn Björnsson og Pétur Pétursson að trúin á kærleiksríkan guð samræmist best kristinni kenningu (bls 40).

  Einhverjir þeirra, sem hafa þessa afstöðu, hafa þó enga vissu fyrir því að guð sé til eða telja engan annan guð til en þann “sem manneskjan sjálf hefur búið til,” því að hóparnir með þessi tvenn viðhorf voru 19,7+26,2% aðspurðra (=45,9%, nema sumir séu þar tvítaldir vegna eigin flokkunar í báða þessa hópa); en 68% + 45,9% er meira en 100%, þannig að einhver skörun er þarna.

  Í Trúarlífi Íslendinga frá 1986-7 var mesta skörunin á milli guða-svaranna þriggja. Heil 9,3% völdu alla þrjá! (bls 11)

  Svo ber líka að líta til þess, að 16% þjóðarinnar eru utan Þjóðkirkjunnar, þannig að þessi skoðanakönnun á ekki endilega beint við um hennar fermingarbörn. Mörg börn (meirihlutinn) í 16% hópnum eru reyndar í kristnum trúfélögum, en sum eru það ekki og ýmis þeirra alin upp í trúleysi.

  Reyndar eru 18% þjóðarinnar ekki meðlimir í Þjóðkirkjunni. Þegar þessi könnun var framkvæmd var sú tala hins vegar 14%.

  En gefum okkur að allir þessir unglingar sem trúa ekki á guð séu utan Þjóðkirkjunnar. Þá eru þetta um það bil 25% þeirra sem fermast sem trúa ekki á tilvist neins konar guðs! Ætli þeir myndu fermast ef fermingin væri ekki á þeim tíma sem “[á]hrif félagshópsins eru
  hvað sterkust”?

 9. Jón Valur Jensson skrifar:

  16% landsmanna eru ekki í Þjóðkirkjunni.

  Í næstsíðustu setningu Hjalta segir hann: “Þá eru þetta um það bil 25% þeirra sem fermast sem trúa ekki á tilvist neins konar guðs!” – en þar er hann að miða við könnunina meðal 13–17 ára, sem er ekki sambærilegt við afstöðu 14 ára fermingarbarna, sem fengið hafa sína fermingarfræðslu. Já! ég stend við þessi orð mín: “Margir unglingar flosna upp frá kristinni trú eftir ferminguna,” þetta þekki ég af eigin reynslu og annarra, og Hjalti er í litlu sambandi við samfélag sitt, ef hann sér þetta ekki. Þarna hafa einmitt verið sóknarfæri fyrir vantrúarmennina, rétt eins og fyrir æsingaflokka í stjórnmálum áður fyrr: Ómótaðir, óreyndir, lítt upplýstir, en greindir, fróðleiksfúsir og áhrifagjarnir unglingar gleypa við alls konar theoríum og ekki sízt ef hægt er að tengja það einhverri réttlætiskennd, jafnvel þótt afvegaleidd sé eða fremur hillingarmynd og blekking heldur en raunsætt réttlæti.

  Hitt er annað mál, að líklega hef ég farið línuvillt með niðurstöðurnar, ef þær eru sem sé 63,2% fremur en 68% (þarf að skoða það betur). En þegar Hjalti telur sér heimilt, út frá einhverju sem Björn Björnsson og Pétur Pétursson hafa sett á prent, að telja einungis að “trúin á kærleiksríkan guð samræmist best kristinni kenningu” og að hægt sé að ýta annarri tjáðri afstöðu frá sem ókristinni, þá er það einungis hans eigin ósannaða afstaða. Krakkar á þessum aldri vilja oft tjá sig á “cool” máta og mörgum þeirra e.t.v. fjarri skapi að lýsa trú sinni með einhverjum “gamaldags tilfinningasömum hætti,” sem fylgdi reyndar ekki síður hinni ofurvæmnu, rómantísku nýguðfræði (sem var um leið ofurbjartsýn á manninn, eðli hans og gæzku) heldur en réttri kristinni trú. Ég stend við það, að menn geta vel tjáð ósvikna kristna trú með öðrum hætti en þeim að velja endilega þennan tjáningar-valkost um hinn kærleiksríka Guð.

 10. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Jón Valur

  16% landsmanna eru ekki í Þjóðkirkjunni.

  82.09% landsmanna eru í Þjóðkirkjunni. Því eru 17.91% landsmanna utan Þjóðkirkjunnar. Það er léleg nálgun að færa það í 16%.

  Já! ég stend við þessi orð mín: “Margir unglingar flosna upp frá kristinni trú eftir ferminguna,” þetta þekki ég af eigin reynslu og annarra, og Hjalti er í litlu sambandi við samfélag sitt, ef hann sér þetta ekki.

  Jón Valur. Ég fermdi í fyrra, fósturdóttir mín fermdist hjá Þjóðkirkjunni. Í dag játar hún að hún var alls ekki kristin þegar hún fermdist. Af hverju fermdist hún þá hjá Þjóðkirkjunni? Væntanlega vegna þess að hún vildi ekki skera sig úr hópnum.

  Þarna hafa einmitt verið sóknarfæri fyrir vantrúarmennina, rétt eins og fyrir æsingaflokka í stjórnmálum áður fyrr: Ómótaðir, óreyndir, lítt upplýstir, en greindir, fróðleiksfúsir og áhrifagjarnir unglingar gleypa við alls konar theoríum og ekki sízt ef hægt er að tengja það einhverri réttlætiskennd, jafnvel þótt afvegaleidd sé eða fremur hillingarmynd og blekking heldur en raunsætt réttlæti.

  Ólíkt Þjóðkirkjunni förum við ekki með okkar málstað í grunnskóla (hvað þá leikskóla), þannig að það er út í hött að tala um Vantrú á þennan máta.

  Ég stend við það, að menn geta vel tjáð ósvikna kristna trú með öðrum hætti en þeim að velja endilega þennan tjáningar-valkost um hinn kærleiksríka Guð.

  Útúrsnúningar. Það er í besta kalli barnalegt að telja þá kristna sem ekki trúa á Guð né Jesús og upprisuna. Ef svo, þér er hugtakið kristinn marklaust og út í hött að hafa hér Þjóðkirkju.

 11. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  16% landsmanna eru ekki í Þjóðkirkjunni.

  Aftur ferðu “líklega” línuvillt með niðurstöðurnar. Samkvæmt Hagstofu Íslands (hagstofan.is) þá voru 82,09% landsmanna skráð í Þjóðkirkjuna 1. des 2006.

  Í næstsíðustu setningu Hjalta segir hann: “Þá eru þetta um það bil 25% þeirra sem fermast sem trúa ekki á tilvist neins konar guðs!” – en þar er hann að miða við könnunina meðal 13–17 ára, sem er ekki sambærilegt við afstöðu 14 ára fermingarbarna, sem fengið hafa sína fermingarfræðslu. Já! ég stend við þessi orð mín: “Margir unglingar flosna upp frá kristinni trú eftir ferminguna,” þetta þekki ég af eigin reynslu og annarra, og Hjalti er í litlu sambandi við samfélag sitt, ef hann sér þetta ekki.

  Eins og mig grunaði þá eru einu rök Jóns Vals fyrir því að það sé stórkostlegt brotthvarf frá kristinni trú hjá 15-17 ára krökkum reynsla Jóns. Það er lítið að marka innsæi fólks í svona málum Jón, það er skynsamara að halda sig við kannanir.

  Þarna hafa einmitt verið sóknarfæri fyrir vantrúarmennina, rétt eins og fyrir æsingaflokka í stjórnmálum áður fyrr: Ómótaðir, óreyndir, lítt upplýstir, en greindir, fróðleiksfúsir og áhrifagjarnir unglingar gleypa við alls konar theoríum og ekki sízt ef hægt er að tengja það einhverri réttlætiskennd, jafnvel þótt afvegaleidd sé eða fremur hillingarmynd og blekking heldur en raunsætt réttlæti.

  Sjáðu nú til Jón Valur, Vantrú hefur ekki verið sækjast í “ómótaða, óreynda, lítt upplýsta, en greinda, fróðleiksfúsa og áhrifagjarna unglinga sem gleypa við alls konar theoríum”, en ég veit ekki betur en að Þjóðkirkjan leggi einmitt mikla áherslu að ná til þessa unglinga, og má þar meðal annars nefna Trójuhestinn “lífsleikni”. Svo ekki sé minnst á að Þjóðkirkjan reynir að ná til áhrifagjarnra barnanna með sínar “theoríur” í grunn- og leikskólum.

  Ef það væri í raun og veru stórt brotthvarf unglinga frá kristinni trú þá er ástæðan frekar sú að á þessum tíma fer fyrst að móta fyrir almennilegri gagnrýninni hugsun og kristin trú stenst ekki minnstu skoðun.

  Hitt er annað mál, að líklega hef ég farið línuvillt með niðurstöðurnar, ef þær eru sem sé 63,2% fremur en 68% (þarf að skoða það betur). En þegar Hjalti telur sér heimilt, út frá einhverju sem Björn Björnsson og Pétur Pétursson hafa sett á prent, að telja einungis að “trúin á kærleiksríkan guð samræmist best kristinni kenningu” og að hægt sé að ýta annarri tjáðri afstöðu frá sem ókristinni, þá er það einungis hans eigin ósannaða afstaða.

  Þeir eiga líklega við að það sé líklegra að fólk sem hefur ekki kristna guðsmynd (s.s. deistar) velji hina möguleikana.

  Krakkar á þessum aldri vilja oft tjá sig á “cool” máta og mörgum þeirra e.t.v. fjarri skapi að lýsa trú sinni með einhverjum “gamaldags tilfinningasömum hætti,” sem fylgdi reyndar ekki síður hinni ofurvæmnu, rómantísku nýguðfræði (sem var um leið ofurbjartsýn á manninn, eðli hans og gæzku) heldur en réttri kristinni trú. Ég stend við það, að menn geta vel tjáð ósvikna kristna trú með öðrum hætti en þeim að velja endilega þennan tjáningar-valkost um hinn kærleiksríka Guð.

  Ég er sammála því að það er hugsanlegt.

  En segðu mér eitt Jón Valur, er fólk kristið, sem viðurkennir ekki að Jesús hafi verið sonur guðs og frelsari?

 12. Jón Valur Jensson skrifar:

  Svar við lokaspurningunni: Nei, það getur þá naumast talizt kristið. Karl Rahner talar þó um “nafnlausa kristna menn”, sem aldrei hafa heyrt af Kristi, og ég er sammála honum. Hvernig kemur það þá heim og saman við það, að fólk, sem viðurkennir ekki, að Jesús hafi verið [réttar orðað: sé (frá eilífð)] sonur Guðs og frelsari, sé (nánast skv. skilgreiningu) ekki kristið? Jú, ég tek orðin “viðurkennir ekki” í merkingunni: “hafnar því”. Þeir, sem hafna eindregið (positively, affirmatively) guðdómi eða Guðssonareðli Krists og að hann hafi verið frelsari, þeir eru ekki kristnir. En hinir “nafnlausu kristnu” hafna því ekki; þeir hafa kannski aldrei heyrt af Kristi, en eru opnir fyrir einum æðstum anda, guði, yfir allri tilverunni OG FYRIR ÞEIM LEIÐUM SEM SÁ GUÐ KANN AÐ HAFA ÞEIM MANNI OG ÖÐRUM MÖNNUM TIL HJÁLPRÆÐIS, FRELSUNAR. Í reynd (þótt þeir viti ekki af því – eru bara opnir fyrir því) er þessi leið Guðs JESÚS KRISTUR (hann er “vegurinn”, hann er “dyr sauðanna”, hann einn er meðalgangarinn algildi). Því geta þessir menn kallazt “(nafnlausir) kristnir”.

  Unglingar, sem velja einhverja aðra játningu en þá, “að Jesús hafi verið/sé sonur Guðs og frelsari,” eru ekki endilega að HAFNA þessu, heldur kjósa sér helzt einhverja aðra tjáningu. Slík afstaða af þeirra hálfu þarf því ekki að fela í sér andstöðu við kjarnaatriði kristinnar trúar.

  PS. Ég tók ekki eftir svörunum, sem bætzt höfðu við, fyrr en nú; kem kannski aftur til að svara fleiri atriðum.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6647.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar