Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Ægisson

Aska

Nú er að byrja sá hluti kirkjuársins sem nefnist langafasta eða sjöviknafasta. Verið er að minna á dagana 40, sem Jesús dvaldi í eyðimörkinni, eftir að hafa verið skírður í ánni Jórdan.
Þetta er jafnframt undirbúningstími, þar sem kristinn söfnuður íhugar af alvöru þá atburði, sem leiddu til aftöku meistarans á föstudaginn langa fyrir bráðum 2000 árum. Og til að undirstrika þetta, breytist liturinn, sem undanfarið hefur verið grænn, í fjólublátt, sem er merki iðrunar og íhugunar.

Fram að siðbreytingunni, í byrjun nýaldar, var rómversk-kaþólska kirkjan eina trúfélag kristinna manna í Vestur-Evrópu, og voru föstur stundaðar á vegum hennar á miðöldum, ekki síður en nú. Dæmi um það er víða að finna í gömlum íslenskum ritheimildum. Heiti föstudagsins kom inn í málið fyrir tilstilli Jóns biskups helga Ögmundssonar í byrjun 12. aldar, þegar lögð voru af hér dagaheiti tengd goðum fornnorræns átrúnaðar. Áður hét þetta frjádagur, og var helgaður konu Óðins, Frigg, að talið er; suðurgermanir könnuðust við hana undir nöfnunum Friia og Frea.

Langafasta hefst samkvæmt venju á miðvikudegi í sjöundu viku fyrir páska, þ.e.a.s. á öskudag, sem getur verið á bilinu 4. febrúar til 10. mars. Nafnið á rætur í því, að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag. En aska hefur löngum verið tákn hins óverðuga, eins og víða má sjá í Biblíunni og nægir þar að vitna í Mósebók: „Æ, ég hef dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.“

Í augum margra kristinna eru framundan sjö helgustu vikur ársins. Þó verður að segjast eins og er, að þessi föstutími, svokallaði, nú á dögum, á tölvuöld eða geimöld, er lítið annað en orðin tóm hjá meginþorra Íslendinga. E.t.v. sökum þess, að hér er að mestu við lýði evangelísk-lúthersk trú, og hefur verið það eftir 1551. Við siðbreytinguna lagðist nefnilega margt af, sem áður hafði verið stundað. Hefðbundið bann við neyslu kjötmetis á langaföstu virðist þó hafa verið í gildi sem óskráð lög töluvert eftir siðbreytingu, að því er Árni Björnsson þjóðháttafræðingur segir í bókinni Hræranlegar hátíðir.

Pína og dauði Jesú

Íslensk kirkja heldur enn þennan föstutíma í heiðri, þótt ekki sé lagst í beinan meinlætalifnað. Í stað þess er pínu Jesú og dauða sérstaklega minnst. En sterk hefð var einnig fyrir því á kaþólskum tíma að hugleiða efni píslarsögunnar; að sjálfsögðu. Hins vegar breyttist ýmislegt með tilkomu passíusálmanna 50, sem voru ortir árið 1659 en fyrst prentaðir árið 1666 og hafa komið oftar út en nokkurt annað rit á Íslandi, eða um 80 sinnum, og verið þýddir á dönsku, ensku, færeysku, hollensku, kínversku, latínu, norsku, ungversku og þýsku. Og þetta er sko engin venjuleg bók. „Í hálfa þriðju öld hefur Hallgrímur lagt fyrstu hendingarnar á varir barnsins og Passíusálmarnir verið lagðir á brjóst flestra Íslendinga þegar líkaminn var nár. Vaggan og gröfin hafa helgast af stefjum hans og munu enn gera meðan kristni helst í landinu,“ ritaði Sigurbjörn Einarsson í formála Passíusálma 1943. Og vissulega eru það orð að sönnu.

Óaðskiljanlegur hluti þess ferlis hefur frá árinu 1944 verið lestur passíusálmanna á Rás 1. Frumkvæði að því átti Magnús Jónsson, prófessor og þáverandi formaður útvarpsráðs. Fyrstur til að lesa passíusálmana þar var áðurnefndur Sigurbjörn Einarsson, þá dósent við guðfræðideild Háskólans og síðar biskup Íslands. Útvarpslesturinn miðast reyndar við níuviknaföstu og lýkur að kvöldi laugardags fyrir páska.

Passía
Orðið „passía“ er komið úr latínu og merkir „þjáning“. Af því orði er heiti sálmanna dregið; í þeim er rakin píslarsaga meistarans. Því má kannski segja, að hin líkamlega fasta kaþólskra manna hafi vikið eða breyst með tilkomu evangelísk-lútherskrar kristni og orðið meira á andlegum nótum, með aðalfæðu í áðurnefndu snilldarverki Hallgríms Péturssonar frá 17. öld.

Síðasta vika þessa föstutíma nefnist dymbilvika, efstavika, helgavika eða kyrravika. Hún byrjar með pálmasunnudegi og lýkur á sjálfan páskadag, þegar við minnumst og höldum upp á sigur lífsins yfir dauðanum, og öllu er fagnað með hvítum eða gullnum lit, því til ítrekunar eða staðfestingar.

Árið 1979 samdi maður nokkur, Peter Shaffer, leikritið Amadeus, sem árið 1984 var fært í kvikmyndabúning. Þemað er mannleg öfund. Tónskáldið Antonio Salieri öfundar Wolfgang Amadeus Mozart fyrir snilligáfuna. Honum finnst að Mozart eigi þetta ekki skilið, af því að hann er svoddan gaur, ódannaður sprelligosi. Hann skilur ekkert í almættinu að gefa þessum pilti slíka hæfileika, í stað þess að láta hann sjálfan, fyrirmyndarborgarann, eignast eitthvað af þessu, eða allt, svo að hann gæti lofað Guð í tónlist.

En Drottinn elskaði Mozart. Millinafnið Amadeus þýðir „elskaður af Guði“.

Hér er eins og fyrrum við mannlega náttúru að kljást. Innst inni eigum við erfitt með að sætta okkur við það að Guð elski líka annað fólk og að það skari ef til vill fram úr okkur á einhverjum sviðum. Salieri varð það reiður út í óverðskuldaða snilligáfu Mozarts, að hann ákvað að hefna sín … á Guði. Þannig opinberar lífið okkar sem breyskar manneskjur. Það flettir ofan af okkur. Eins og gerðist með Salieri.

Það er gott að fá að vera maður sjálfur, í stað þess að vera að öfundast út í aðra, eða reyna að sýnast eitthvað annað en maður er. Þess vegna á lexía dagsins að kenna okkur að vera auðmjúk. Þannig byrjum við hina eiginlega föstu. Í hjartanu.

„En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt, svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér,“ segir líka meistarinn.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4634.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar