Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Lydía Geirsdóttir

Allir hagnast nema bóndinn

Undanfarnar þrjár vikur hef ég verið að ferðast um Úganda, Malaví og Mósambík þar sem Hjálparstarf kirkjunnar er með ýmis verkefni. Þetta er fyrsta ferð mín á vettvang verkefna Hjálparstarfsins og ég varð enn hrifnari af þeim en ég hafði verið, af því sem ég hafði lesið um þau. Þau staðfestu fyrri reynslu mína, hve ótrúlega mikil áhrif þróunarsamvinna hefur og hvað margt smátt getur orðið eitt stórt. Í mörg ár hefur Hjálparstarf kirkjunnar meðal annars aðstoðað þorp víðsvegar um Afríku um aðgang af hreinu vatni til drykkjar og ýmissa annarra nota s.s. ræktun. Ég sá greinilegan mun á uppskeru sem vatni hafði verið veitt á, þökk sé verkefninu, og hinum sem uxu upp í þurrki og hita. Það var dásamlegt að sjá þá góðu uppskeru sem nú bíður vinnslu.

Viðskiptahættir skipta miklu máli

BeðEn til þess að ná hámarksárangri í því að lyfta fólki upp úr örbirgð þurfa oft margir þættir að spila saman. Bændurnir í Malaví höfðu stigið stórt skref frá því að vera alfarið háðir veðri með uppskeruna, þeir nutu fjölbreyttara fæðis af því þeir höfðu nú fengið vatn í fiskiræktartjarnir og til að halda skepnur. Hreinlæti var meira með fræðslu, kamra- og vaskagerð svo fólk gæti þvegið sér.

Vegna þessa var heilsan marktækt betri meðal þeirra sem taka þátt. En ef við hugsum lengra er góð uppskera einungis byrjunin. Til þess að geta keypt nauðsynjavörur og borgað skólagöngu barna sinna þarf að selja afurðina. Það er oft flókið mál fyrir bændur í afskekktum þorpum þar sem engin farartæki eru til staðar til þess að koma vörum á markað. Þessum þorpum stendur oft ekkert annað til boða en að selja kaupendum sem ferðast um héruðin með það markmið að kaupa sem mest á lægsta mögulega verði.

Slíkur kaupandi ræður verðinu því bændurnir hafa engan annan kost ef þeir vilja koma vörum sínum í verð. Vörurnar eru svo seldar áfram fyrir mun hærra verð til stórra fyrirtækja sem leggja enn meira á vöruna á leið til neytandans. Allur hagnaður fer til milliliða, allir hagnast nema bóndinn sem heldur áfram að strita ár eftir ár.

Sanngjörn viðskipti sem þú getur stundað

Það er þó til annar kostur í dag sem Hjálparstarf kirkjunnar hefur unnið að því að kynna á Íslandi. Fyrir fáum árum urðu Alþjóðlegu Fair Trade-samtökin til upp úr starfi fjölda smærri samtaka í Evrópu og víðar, sem starfað höfðu mislengi. Fair Trade-samtökin vinna að því að skapa bændum á afskekktum svæðum, milliliðalausan aðgang að kaupendum sem eru viljugir til að kaupa góða vöru á sanngjörnu verði. Samtökin styðja bændurna til að bæta framleiðslu sína og fylgja eftir stöðlum. Fair Trade-merktar vörur fást nú loksins í stórmörkuðum á Íslandi auk sérverslana.

Í dag framleiða og selja meira en 800.000 samvinnuhópar vörur sínar með Fair Trade merkingu. En sem komið er eru þeir bændur sem Hjálparstarfið vinnur með t.d. í Malaví, ekki hluti af því. En það er eitthvað sem við hvetjum þau til að stefna að. Þú getur stutt við þetta mikilvæga starf með því að velja Fair Trade-merktar vörur næst þegar þú ferð að versla og með því að hvetja aðra til þess að gera það sama. Án kaupenda virkar Fair Trade ekki.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4006.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar