Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Vigfús Bjarni Albertsson

Trú og meðferð II

Trú hefur verið mikið í umræðunni á síðustu dögum í tengslum við hlutverk hennar í meðferðarstarfi. Í raun krefst þessi umræða svara við því hver er mannskilningur okkar ?

Trúarþel (Spirituality) í AA hefur verið nefnt trúarþel ófullkomnunar (Spirituality of Imperfection). Hugtakið, Spirituality of Imperfection, er stundum notað í umræðunni erlendis um tengsl meðferðar og trúar. Það að standa í þéttskipuðu herbergi og segja “ég heiti Jón og er alkóhólisti” er trúarþel (spirituality) sem er samsett af, auðmýkt, þakklæti, umburðarlyndi og fyrirgefningu. Sögulega hefur verið talað um að Spirituality of Imperfection hafi byrjað með játningunni að maðurinn sé ekki Guð og höfnun á tilraunum hans til þess. Maðurinn þarf Guð til breytinga. Frá tímum eyðimerkurfeðranna til siðbreytingarinnar hefur þessi hugmynd sífellt verið áréttuð og endursköpuð, AA er eitt dæmi um þetta.

Annar mannskilningur
AA hreyfingin féll ekki af himnum ofan heldur er mótuð í ákveðnum hefðum og hugmyndum en þó ekki endilega í samræmi við tíðaranda fjórða áratugs tuttugustu aldar sem er upphafstími AA. Menning 18. og 19. aldar setti einstaklinginn í öndvegi. Sú hugsun að hafna skyldi öllu sem ekki væri hægt að sanna var að byrja að þróast. Menningarfræðingurinn Ernest Kurtz segir í bók sinni Not-God að í tíðaranda 18. og 19. aldar hafa verið að mótast nútímahugsun og merking lífsins þróaðist meira út í það að vera framleiðsla. AA hreyfingin kemur fram á þeim tíma þegar frjálslynda guðfræðin var allsráðandi. Jesús var siðferðileg fyrirmynd og syndin var afleiðing vanþekkingar. Í raun var að þróast hreyfing, AA, sem hafði annan mannskilning en tíðkaðist.

Ekki ný átök
Innan kirkjunnar var að gerast svipuð þróun þar sem Karl Barth gefur út sína frægu bók 1919 Commentary on Paul’s Epistle to The Romans. Var þarna að vakna andstæða við að samræma kristindóminn algjörlega að vísindahyggjunni og bjartsýnishyggju og voru Karl Barth og fylgisveinar hans að leita aftur í siðbreytingar arfleiðina um áhersluna á ritninguna sem kennivald.

Howard Clinebell bendir á í bók sinni Understandig and Counseling Persons with Alcohol, Drug, and Behavioral Addiction að átökin um æðri mátt og breytingar í lífi fólks hafi snemma byrjað. Ágústínus og Pelagíús tókust á um mannskilning og stöðu okkar frammi fyrir Guði. Pelagíus var talsmaður þess að maðurinn gæti náð siðferðilegri fullkomnun ef hann bara reyndi nóg en Ágústínus hafnaði slíku. Minna slíkar umræður líka á átök Lúters og Erasmus og nútímatal um tengsl meðferðar og trúar.

Æðruleysisbænin
Stofnendur AA gerðu sér ekki grein fyrir í hvaða hugmyndastraumum þeir stóðu í. Þeir vildu nýta æðri mátt og höfðu komist að því að mannskepnan getur ekki lifað án þess. Rök, skynsemi og eigin vilji duga ekki. Þeir voru að kljást við fíkn sem hafði þræltekið hug þeirra. Þeir þurftu á æðri mætti að halda sem gætti stutt breytingar sem kemur svo vel fram í æðruleysisbæninni. Sú bæn var fengin að láni frá Reinhold Niebuhr sem var einn af leiðtogum ný-rétttrúnaðarins í Bandaríkjunum. Sagðist hann hafa skrifað þessa bæn sem hluta af predikun sem hann flutti í Heath Evancelica United Church in Heath, Massachusetts.
Annar afar mikilvægur trúarleiðtogi sem síðar hafði mikil áhrif á AA var Dr. Frank Nathan Daniel Buchman. Hann var leiðtogi fyrir hreyfingu sem hét Oxford Group eða Oxford hópurinn. Fyrrnefndur var lúterskur prestur og hafði orðið fyrir áhrifum af hörmungum Fyrri Heimsstyrjaldar. Vildi hann kalla fólk til að lifa undir ríki Krists. Hafði hann bakgrunn bæði sem trúboði í Kína og að vinna við fátæktarþjónustu í Phildelphiu. Það sem var sagt að hefði einkennt störf hans var að hann vildi að þjónusta væri sem mest á jafningjagrundvelli. Lagði hann áherslu á að virkja fólk til að hjálpa hvort öðru (mutual-assistance philosophy). Er slík hjálparaðferð kjarninn í trúarþeli (spirituality) AA. Annar kjarni í hugmyndum Buchman var að breyta einstaklingum með hjálp æðri máttar.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Trú og meðferð II”

  1. Adda Steina skrifar:

    Á BBC vefnum er greint frá rannsókn við Stanford háskóla þar sem þeir sem sækja AA fundi eru 30 % líklegri til að falla ekki aftur eftir meðferð. Niðurstaða rannsakenda er að trú skipti máli.
    http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/6309619.stm

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3454.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar