Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bernharður Guðmundsson

Afi í Garðahverfi og bóndinn í Malawi

Afi minn var fæddur og uppalinn á Skriðufelli í Þjórsárdal, þeim bæ á Suðurlandi sem fjærst liggur frá sjó. Þau amma bjuggu síðan á Bala í sömu sveit og búnaðist vel með kýr, kindur og hesta enda landmiklar og landgóðar jarðirnar í Gnúpverjahreppnum.

Svo veiktist amma heiftarlega af barnsfararsótt og læknar sögðu að vegna bágrar heilsu yrðu hún framvegis að búa þar sem auðvelt væri að ná til læknis. Bóndi í Hreppum gat ekki á þeirri tið hugsað sér að flytja á mölina en þeim tókst að finna litla jörð rétt hjá Garðakirkju ekki langt frá Hafnarfirði og hófu þar búskap.

Landlítil kot

Vandinn var þó að kotin þarna voru svo landlítil og rýr að þau báru aðeins það skepnuhald 1-2 kýr sem þurfti til einkanota fjölskyldunnar. Útræði var aðaltekjustofninn, allir bændurnir voru trillukarlar. Afi kunni ekki að róa né að sinna færum eða netum, kunni ekkert til sjómennsku. En hann kunni að framleiða mjólk og vinna afurðir úr henni eins og gert hafði verið um aldir á Íslandi. Með því að stækka túnið til hins ítrasta og með því að bera vel á og geta slegið það tvisvar tókst honum að hafa sjö kýr í fjósi. Með því að reka þær á þrennskonar haga yfir daginn, tókst honum að auka nyt þeirra og bragðgæði mjólkurinnar verulega. En það voru engin mjólkurbú til þess að taka við mjólkinni, það vantaði leiðir til þess að koma afurðunum til neytenda sem greiddu fyrir þær það fé sem þurfti honum og fjölskyldu hans til framfæris.

Afi sá möguleikann í þéttbýlinu í Hafnarfirði. Hann barði upp hjá fjölda fólks þar og bauðst til að færa þeim mjólkurskammt reglubundið. Þetta bar árangur. Á hverjum degi fór afi og Gráni gamli með kerruna fulla af 2-5 lítra mjólkurbrúsum og dreifðu þeim til viðskiptavina um allan Fjörðinn. Afi og amma voru kattþrifin, mjólkin frá þeim var bragðgóð og ekki súr, þau þvoðu alla brúsana áður en þeir voru fylltir með vægri lýsólblöndu því að engin var gerilsneyðingin í þann tíð . Brátt setti amma upp lítið hænsnabú og eggin voru flutt til neytendanna. Þeim búnaðist vel, hýstu bæinn Katrínarkot fallega, fóru útreiðartúra á hverjum sunnudegi og nutu lífsins á sinn hátt. Síðar var sett upp mjólkurbú í Hafnarfirði og mjólkurbíllinn kom á bæina á hverjum morgni. Og nú er Garðabær að skipuleggja mikla íbúabyggð þar sem kotin í Garðahverfi voru áður. En það er nú önnur saga.

Mikið þróunarstarf

Mikið þróunarstarf hefur verið unnið í löndunum í suðri. Vatnsveitur, tækniþekking og margskonar starfsþjálfun hefur eflt landbúnað, smáiðnað og fiskveiðar. Margskonar afurðir eru framleiddar þar enda veðurfar víða mjög hagstætt og launakostnaður í lágmarki.

En það hefur oft láðst að vinna þróunarsstarfið til enda, sem sé að skapa leiðir til þess að koma afurðunum á markað við mannsæmandi verði.

Þessvegna hafa stórfyrirtæki getað tekið bændur þar syðra í einskonar gislingu. Þau lána gjarnan fé til þess að koma framleiðslunni af stað og sitja síðan ein að markaðsmálunum og bjóða oft svo lágt verð fyrir hana að ekkert svigrúm er til þess fyrir framleiðendur að ná fjárhagslegu sjálfstæði. Þarna skapast nútíma þrælahald.

Kraftmikil hreyfing

Nú er kraftmikil hreyfing komin á laggir til þess að bæta úr þessum vanda og vinnur að svonefndum sanngirnisviðskiptum. Fair Trade er það kallað á alþjóðamálinu Það byggist á því að kaupendur hér nyrðra taka að sér að kaupa tilteknar vörur um visst árabil á því verði sem framleiðendur þurfa að fá til þess að geta eflt framleiðslu sína og lifað mannsæmandi lífi. Seljendur syðra lofast hinsvegar að halda við umsömdum gæðum og magni á vörunni. Sem sé einföld en sanngjörn viðskipti eins og okkur finnst sjálfsögð hér um slóðir og  eru undirstaða framfara og velmegunar. Þarna eru hinsvegar viðskiptin milli heimshluta þar sem hefð er fyrir því að féfletta framleiðsluaðilann og kaupendur eru svo langt í burtu að framleiðendur geta ekkert gert af eigin rammleik til að koma vörunni á markað.

Þessvegna er bóndinn í Malawí í langtum verri stöðu en afi var í Garðahverfinu, hann gat þó farið sjálfur með mjólkina á markað. Malawibóndinn er í rauninni  í engri stöðu, hefur enga möguleika til að bæta kjör sín nema ytri aðstoð berist og það gerist við sanngirnisviðskipti og því markaðsstarfi sem þróunarstofnanir vinna að nú.

Sanngirnisviðskipti
Sanngirnisviðskiptin eru hrein og klár viðskipti tveggja aðila báðum til hagræðis

Kirkjurnar hafa tekið mjög rösklega í taumana víða um lönd og hjálparstarfið á þeirra vegum. Það byrjar gjarnan með því að kirkjurnar kaupa einvörðungu kaffi, te og sitthvað sem borið er fram í kirkjukaffinu vinsæla sem kynnir sanngirnisviðskiptin og gefur fordæmi.

Hjálparstarf íslensku kirkjunnar hefur nú tekið forystu að sanngirnisviðskiptum og veitir allar nánari upplýsingar. Grafarvogskirkja setur nú upp söluborð með Fair Trade vörum eftir messu sem hefur vakið mikla athygli. Þar er fordæmi. Allmargir matvörumarkaðir hafa Fair Trade vörur til sölu að undirlagi Hjálparstarfsins. Þær eru helst að finna  meðal lífrænt ræktaðrar vöru, t.d. í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og víðar. Fair Trade merkið er greinilegt á þessum vörum. Þær eru stundum ögn dýrari en hinar sem fluttar eru inn eftir að framleiðendur hafa orðið að þiggja verð fyrir neðan alla sanngirni. En einmitt þar getur okkar skerfur legið- að borga sanngjarnt verð fyrir góða vöru beint úr suðri.

Hann naut einmitt þess, hann afi minn í Katrínarkoti, eins og forfeður okkar flestra.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Afi í Garðahverfi og bóndinn í Malawi”

  1. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

    Athyglisverður og skemmtilegur pistill. Kærar þakkir fyrir hann. Það hefur löngum verið erfitt að vera bóndi hér uppá Íslandi, ekki síst hérna í gamla daga. Mér virðist líka eftir lýsingum að dæma á aðstæðum hins afríska bónda og hirðingjanna þar, að það sé margt líkt með þeim og forfeðrum okkar hérna uppá skerinu. Hvað lífið í Hafnarfirði snertir, þá var það að mörgu leyti erfitt. Margir lifðu í svokallaðri þurrabúð, eins og afi minn, sem þar bjó með ómegð mikla, þótt aldrei skorti hann neitt, að sögn föður míns, sonar hans, og aldrei þyrfti hann að leita á náðir bæjarins. Það er vel af sér vikið.Fólkið reyndi að gera sitt besta til að komast af. Við mættum vera þess minnugri í nútímanum, hvernig líf forfeðra okkar var, og vera þakklátari en við erum fyrir það líf, sem við eigum í dag, og þær gjafir sem okkur eru gefnar. Hvað “fair trade” snertir, þá finnst mér það vera þarft verkefni og bráðnauðsynlegt fyrir fólkið þarna suðurfrá og alveg þess virði að styrkja. Ekki veitir af. Kærar þakkir fyrir pistilinn.

  2. árni.annáll.is - Sarpur » Garðahverfi og Malawi skrifar:

    […] Hjálparstarf kirkjunnar hefur lagt áherslu á sanngjörn viðskipti (fair trade) upp á síðkastið. Í tilefni af því höfum við birt nokkra pistla á trú.is. Sá nýjasti er eftir Bernharð Guðmundsson sem ber saman búskap afa síns í Garðahverfi og bænda í Malawi: Mikið þróunarstarf hefur verið unnið í löndunum í suðri. Vatnsveitur, tækniþekking og margskonar starfsþjálfun hefur eflt landbúnað, smáiðnað og fiskveiðar. Margskonar afurðir eru framleiddar þar enda veðurfar víða mjög hagstætt og launakostnaður í lágmarki. […]

  3. pb.annáll.is - Sarpur » Bernharður og bændur á Íslandi og Malaví skrifar:

    […] Bernharður Guðmundsson ritar aldeilis ágætan pistil á trú.is þar sem hann segir frá því sem afi hans í Katrínarkoti átti sameiginlegt með bóndanum sem reynir að koma afurðum sínum í verð í Afríku nútímans. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4253.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar