Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Um eðli kirkjunnar sem stofnunar

Þýski guðfræðingurinn Eilert Herms lítur svo á að kirkjan lúti sömu lögmálum og aðrar stofnanir samfélagsins. Kirkjustjórnin ber ábyrgð á viðhaldi, ræktun og þróun kirkjunnar og því ber henni að setja sér eigin reglur sem tryggja velferð hennar og þess hlutverks sem henni er falið að sinna. Ef við virðum þennan þátt kirkjulegs starfs er tryggt að kirkjan sem stofnun getur sinnt boðunarhlutverki sínu og kærleiksþjónustu. Kirkjan má ekki vanrækja hinn stjórnunarlega þátt í starfi sínu, sérstaklega ef hugað er að því hve fjölþætt og margslungið nútímasamfélag er. Herms gagnrýnir með því viðhorfi vissa rangtúlkun á hinu spámannlega embætti kirkjunnar.

Það vill oft gleymast að kirkja og kristni er ætluð venjulegu fólki með venjuleg vandamál og venjulega galla. Hennar er hvorki að stofna guðsríki á jörð né setja heilagleika Guðs svo á oddinn að almenningi sé gert erfitt fyrir að starfa innan vébanda hennar. Með því væri allri starfsemi kirkjunnar sem stofnunar teflt í tvísýnu. Herms leggur á það áherslu að hið spámannlega embætti sé fólgið í fyrirmyndinni sem kirkjan eigi að geta verið í samtímanum.

Umburðarlyndi

Í þessu samhengi fjallar Herms um hugtakið umburðarlyndi. Spámannlegt embætti kirkjunnar, sem felst í sjálfsgagnrýni og gagnrýni í garð annarra í uppbyggilegum skilningi, er auðvelt að misskilja. Forðast þarf tvenns konar misskilning. Annars vegar þann að fjölbreytileika í lífsskoðun sé hafnað. Hins vegar að leggja hið spámannlega embætti að jöfnu við afstæðishyggju. Kirkjan stendur fyrir viss gildi sem útiloka slíka afstöðu. Afstæðishyggja leiðir til þess að hugmyndir um sannleika verða einkamál.

Í þessu samhengi bendir Herms á að friður hafi ríkt í evrópskum þjóðfélögum af þeirri einföldu ástæðu að opinberar stofnanir stjórnmála- og efnahagslífsins hafi ekki krafist þess að meðlimir þeirra hafi sömu trúar- eða heimspekisannfæringu. Þjóðfélögin hafi verið opin fyrir því að menn með andstæðar skoðanir geti unnið saman. En það er mikill misskilningur að umburðarlyndi þýði skoðanaleysi, því að enginn er laus við innri sannfæringu. Staðreynd er að allar ákvarðanir í efnahagslífi, vísindum og stjórnmálum byggjast á persónulegri sannfæringu um hvað sé rétt gildismat. Öll umræða um hlutleysi ríkisins gagnvart persónulegri sannfæringu einstaklinga hindrar að tekist sé á við ólíkar skoðanir og að gerð sé grein fyrir þeim undirstöðum sem hópar og einstaklingar byggja á. Umburðarlyndi felur ekki í sér skeytingarleysi um skoðanir annarra, því að það jafngilti skeytingarleysi um velferð náungans.

Krafan um algjört hlutleysi gagnvart gildismati annarra getur leitt af sér almennt málleysi um grundvallargildi siðrænnar hegðunar bæði innan og utan einkalífsins. Í stað almennrar siðvitundar verður velferð þess efnahagslega hagsmunahóps, sem tiltekinn einstaklingur er í, meginmælikvarðinn. Þetta sjónarmið kemur skýrt fram í þeirri afstöðu að trúin sé að öllu leyti einkamál hvers manns. Kirkjan verður að standa vörð um það að trúarsannfæringin móti allt líf og gildismat mannsins.
Herms á hér ekki við að siðvitund kristinna manna lýsi sér í því að allir kristnir einstaklingar eigi að fylgja sömu meginreglum, heldur í því að lífsafstaða þeirra sé fólgin í þeirri fullvissu að heimurinn eigi upphaf sitt og tilgang í þeim guði sem opinberaði sig í Jesú Kristi.

Málstofa trúarinnar
Kirkjan verður að vera málstofa trúarinnar þar sem kristinn einstaklingur getur íhugað með öðrum trú sína og trúarreynslu. Herms tekur hér upp áherslu Schleiermachers. Kristinn maður verður að geta tekist á við misjafnt gildismat og gert grein fyrir því í hverju trú hans er frábrugðin annarri trú og lífsskoðun. Þessa aðgreiningu verður kristinn einstaklingur að geta rökstutt og varið svo að trúvörn verði hluti af lífi trúarinnar. Kristin trú byggist á umburðalyndi sem virðir skoðanir annarra án þess að þurfa að tileinka sér þær eða vísa þeim á bug með skeytingarleysi afstæðishyggjunnar. Kirkjan sem stofnun verður því að gera ljósa grein fyrir kenningum sínum, afmarka svið sitt innan þjóðfélagsins og skýra sem best hvað sé að finna innan vébanda hennar.

Þessa skyldu þarf kristinn maður og kirkjan öll að axla í fjölhyggjuþjóðfélagi nútímans svo að þegnar samfélagsins, þar á meðal þeir sem í kirkjunni eru, eigi auðveldara en ella með að ná áttum.

Stefnuleysi og skeytingarleysi

Misskilin hlutleysisstefna veldur stefnuleysi sem elur af sér skeytingarleysi í garð náungans. Kirkjan verður því að rækta formlegan hluta kirkjustarfsins sem málstofu trúarinnar. Þetta á jafnt við um guðsþjónustuna, lagalega skilgreiningu á starfi safnaðarstjórnar og það starf sem fram fer í söfnuðunum. Forsenda og markmið safnaðarstarfsins er kristinn lífsskilningur og boðun hans. Þess vegna þarf að laga stjórn og stofnun kirkjunnar að skilyrðum hvers tíma. Til þess að það takist verður markmið kirkjunnar að vera skýrt. Markmið kirkjunnar felst í fræðslustarfi hennar og þjónustuhlutverki. Fræðslustarfið stefnir að því að koma boðskap fagnaðarerindisins til skila á þann hátt að hlustandinn skilji efni þess sem markmið kristinnar trúar. Til að ná þessu marki verður við boðun fagnaðarerindisins að nota það málfar sem nútímamaðurinn skilur — og leggur Herms áherslu á að það, sem sagt er, sé skiljanlegt en ekki einungis fallegt.

Þetta er því aðeins kleift að hinn kristni vitnisburður sé ljós.

Kenningin er tvíþætt, annars vegar útlegging trúarvitnisburðarins sjálfs eins og hann er opinberaður í Kristi og honum miðlað til okkar í ritningunni og játningum kirkjunnar og hins vegar hugleiðing trúarinnar um sjálfa sig og daglega reynslu hennar. Fræðslan hefur að markmiði að hjálpa hinum trúaða að laga trúarsannfæringu sína að daglegri reynslu.

Fræðslustarf kirkjunnar beinist bæði inn á við, að undirstöðum trúarlífsins, og út á við, að stuðningi við einstaklinginn í daglegri baráttu hans. Því verður kirkjan að gera sér glögga grein fyrir þeim aðstæðum sem meðlimir hennar búa við. Augljóst er að prédikunin getur einungis mætt þörfum trúaðs manns að hluta. Eins og svo oft áður varar Herms hér við því að ætla að með fræðslustarfi getum við unnið verk Guðs, við höfum einungis fyrirheitið um að hann noti verk okkar þegar og þar sem hann vill. Það er mikið fagnaðarerindi fyrir allt safnaðarstarf, því að hlutverk kirkjunnar er ekki að frelsa manninn, heldur að fræða hann.

Herms leggur áherslu á að menntunin beinist að því að greina og meta á gagnrýninn hátt hina kristnu hefð, þannig að hún nýtist ekki einungis í einkalífi, heldur einnig í öllu starfi.19 Nám guðfræðingsins beinist að því að tileinka sér þær vinnuaðferðir sem þróast hafa í guðfræði í tengslum við ritskýringu, kirkjusögu, samstæðilega og kennimannlega guðfræði o.s.frv. Í raun miðast öll fræðsla kirkjunnar við að gera manninum grein fyrir hvert sé verk Guðs og hvert sé verk mannsins, hvert samhengið sé á milli lögmáls og fagnaðarerindis, trúar og verka, endurlausnar og þjónustu. Þetta verkefni kirkjunnar er þeim mun brýnna sem fjölhyggjan eykst, en henni fylgir áttleysi í gildismati. Heimurinn verður æ minni og með opnun markaða munu landfræðilegir svo og þjóðlegir eiginleikar ekki hafa jafn mikið gildi fyrir líf einstaklingsins og áður. Sem þjóðkirkja verður kirkjan að laga sig að hinni nýju stöðu, og eigi hún að standa verður hún að virða sig sem stofnun og þau lögmál sem gilda um stofnanir. Kirkjan verður að skilgreina hlutverk sitt, starf og markmið, til þess að geta veitt þá þjónustu sem hún er kölluð til.
Þannig tekst henni að miðla kristnum sjálfsskilningi til samfélagsins og jafnframt að vera sá vettvangur þar sem trúin lærir að tjá sig. Ætli hún að ná þessu marki verður hún að skynja sig sem hluta þess samfélags er hún starfar í og hafna þar með hugsuninni um sjálfa sig sem eyland í hafi fjölhyggjunnar.

Þessi pistill er fenginn úr bókinni Ríki og kirkja (Hið íslenska bókmenntafélag: 2006).

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4044.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar