Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Axel Árnason Njarðvík

Ó, Jósef, Jósef hvar er þig að finna!

Það eru fáir sem leiða hugann til Jósefs festarmanns Maríu Guðsmóður. Samt er vert að leiða huga til hans og þeirrar aðstöðu sem hann var kominn í endur fyrir löngu. María reynist þunguð áður en þau komu saman eins og segir í Matteusarguðspjalli. Jósef hafði ráðið það með sér, að skilja við Maríu í kyrrþey af þeim sökum, en hefði hann gert það opinberlega hefði María væntanlega verið grýtt, samkvæmt siðvenjunni! Það má segja að Jósef hafi, af karlmennsku sinni kastað karlrembunni fyrir róður með því, að hann sýndi af sér aðra hegðun en samfélagið kallaði eftir hjá festarmönnum í þessari stöðu. í raun var fáheyrt að menn gerðu annað en viðtekin venja bauð upp á.

Það er nú svo, að menn rata í ýmsan vanda og enn verri er sá vandi sem maður ber enga ábyrgð en lendir í. Með Jósef í huga, þá vill það oft gleymast hve stóran þátt hann lék í þeirri atburðarrás sem spratt af stað, eftir að engillinn vitraðist Maríu um fæðingu frelsarans. Það var Jósef sem leiddi asnann sem bar Maríu til Betlehem. Það var Jósef sem aðstoðaði Maríu við fæðinguna. Það voru hendur hans sem tóku á móti barninu nýfædda og vafði það reifum og lagði það í jötu. Það var hann sem tók á móti hirðunum og vitringunum. Það var hann sem flúði með Maríu og barnið til Egyptalands undan Heródesi konungi. Og það var hann sem með Maríu ól upp drenginn. Hann gekk honum í föður stað. Án Jósefs hefði Guð sjálfur verið kominn í vanda!

Jósef er okkur þannig fjölbreytilegt umhugsunarefni á helgum jólum. Hann skipti um skoðun og breytt áformum sínum í ljósi nýrra upplýsinga, sem engill að vísu, færði honum í draumi. En okkur dreymir líka ýmislegt og margt vitrast okkur er við sofum en þá hefur annað ekki áhrifa á hug okkar. Það er erfitt að greina raunveruleikann milli svefns og vöku. Það er gjarnan sagt svo að englar séu sendiboðar Guðs og það eru þeir. Og þeir eru víða og fara víða en það þarf kyrrlátt líf til að taka eftir þeim og hlusta á það sem þeir hafa að segja. Okkur er sagt frá því í guðspjallinu að engillinn hafi sagt Jósef að barnið væri af heilögum anda. En um leið er verið að segja okkur frá því sama. Barnið er af heilögum anda. Vegur sá boðskapur eitthvað í huga okkar?

Í sömu andrá munum við eftir viðbrögðum Heródesar. Hann vildi drepa barnið og sendi sveina sína til þess.

Sagan um Jósef og viðbrögð hans getur þannig nýst okkur til að setja boðskap jólana í samhengi. Hvað merkir annars orðið Jósef? Nafnið merkir megi Guð auka, þar sem Guð er frumlagið eða með öðrum orðum: Getur Guð unnið í gengum okkar líf, okkar hegðum og framtak í þeim takti sem Jósef vann forðum? Spurningar vakna sem snúa að þeim kjarna sem líf okkar sprettur af.

 • Hvert er viðmið okkar í lífinu?
 • Hver eru gildin í lífi mínu?
 • Hvar beiti ég mér?
 • Hver er ábyrgð mín?
 • Vinn ég að tilveru komandi kynslóða eða er ég fullur karlrembu líka þeirri sem grýtir óborið líf og móður þess?

Í raun eru þetta pólitískar spurningar sem vakna, vegna þess að kristin trú er pólítískur boðskapur eðli sínu. Af mörgu er að taka í þessum efnum og sérhver maður, hvar í flokki sem hann stillir sér og leitar merkingar í, þá þarf sérhver að spyrja sig og svara grundvallar spurningum sem eru trúarlegar í eðli sínu og ekki missa sjónir á svörunum.

 • Hvers konar manneskja er ég?
 • Er líf mitt verðugt?
 • Lifi ég til góðs?

Vinn ég ljósins verk meðan dagur er?

Eða sækir óvinurinn að mér sem öskrandi ljón?

Í hinu eilífa og tímanlega, sjáum við hvernig tilveran snýr. Ágústus keisari er til á hverri tíð, menn sem hafa VALD í höndum sér. En það líður undir lok, hverfur- en oft sinnis haga menn sér eins og að þeir þekki ekki sögu VALDSINS. Veldi rísa og hníga- fær blóðtappa og missir allan mátt.

En Jóesf laut öðru veldi, veldi sem lifir og ríkir, og nær að umbreyta fólki til góðs og gerir alla hluti nýja. Immanúel: Guð er með oss.
Og það vissi Jósef.
Og þetta þarft þú líka að vita og tileinka þér.
Þess vegna leitast þú við að verða mennskari. Þess vegna heldur þú jólin heilög.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Ó, Jósef, Jósef hvar er þig að finna!”

 1. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Þetta er athyglisverður og umhugsunarverður pistill. Það er alltof lítið talað um Jósef og hvern þátt hann átti í atburðarrásinni um jólin. Það er svo margt, sem skyggir á hann, en hann er gott fordæmi fyrir hinn skyldurækna mann, sem fórnar sjálfum sér og sínum eigin hagsmunum af kærleika til konunnar, sem hann fastnaði sér, og lætur sér á sama standa - á endanum, hvernig hún varð barnshafandi. Hann vildi standa sína plikt gagnvart Guði og gagnvart konunni, sem hann elskaði, þegar hann lærði að skilja hlutverk sitt í áætlun Guðs. Engin furða, þótt hann hafi orðið einn af dýrðlingum kaþólsku kirkjunnar og klausturregla heitin eftir honum. Hann er fyllilega þess verður, að hans sé einnig minnst og dreginn meira fram í dagsljósið, þótt guðspjöllin séu að vísu næsta fáorð um hann og hans viðveru í lífi Maríu og jólabarnsins, eftir að Jesús verður 12 ára, og Jósef hverfi raunar alveg úr sögunni fljótlega, hvernig sem á því kann að standa. María hlýtur þó að hafa haft hann til að hjálpa sér við uppeldið á syni sínum, þótt þess sé ekki getið í guðspjöllunum. - Kærar þakkir fyrir þennan eftirtektarverða pistil.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3164.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar