Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Benedikt Jóhannsson

Fjölskyldan og jólin

Á aðventunni förum við að hugsa til jólanna og búa okkur undir þau. Mikið er um að vera í kirkjum landsins og fólk sækir helgistundir og tónleika. Ljósaskreytingar eru settar upp og jólin undirbúin á ýmsan hátt. Allt á líka að verða hreint og fínt fyrir jólin, en mig grunar þó að vegna annríkis á heimilum sé þó t.d. ekki farið eins vel yfir eldhússkápana og áður var gert.

Varðandi heimilislífið er þó mest um vert að samskiptin gangi vel í fjölskyldunni og hún geti átt góðar samverustundir yfir hátíðirnar. Á Fjölskylduþjónustu kirkjunnar verðum við vör við að margir vilja greiða úr erfiðleikum í fjölskyldunni fyrir jólin og aðsóknin til okkar eykst þegar líður að aðventu. Kannski má segja að fólk vilji þá gera eins konar jólahreingerningu í fjölskyldunni. Við verðum líka vör við að ef hjón og sambúðarfólk eru komin í skilnaðarhugleiðingar leggja þau sig gjarnan fram um að láta samabandið ganga í það minnsta fram yfir hátíðar. Þó ekki væri nema barnanna vegna.

Um leið og jólin eru helg trúarhátíð þá eru þau líka mikilvæg fjölskylduhátíð. Flestir vilja eyða jólunum heima hjá sínum nánustu og talað er af samúð um þá sem ekki eiga þess kost. Í sjálfu jólaguðspjallinu er meðal annars fjallað um þann fögnuð sem fylgir þeirri guðs gjöf þegar að nýtt barn fæðist í heiminn og fjölskylda verður til í orðsins fyllstu merkingu. Góðar samverustundir með fjölskyldunni um jólin eru ríkulegur gleðigjafi, en samsvarandi sárt getur það einnig verið ef eitthvað skyggir á í fjölskyldunni um jólin, svo sem sjúkdómar óregla eða söknuður eftir nýlega látnum ástvini. Eftir skilnað foreldra getur einnig verið erfitt að púsla tíma barnanna saman um jólin svo vel fari á og allir séu sáttir.

Einmitt við slíkar aðstæður finnum við hvað góð samskipti við okkar nánustu skipta miklu máli og hve veraldlegt ríkidæmi og hlutir skipta í raun litlu, meðan við höfum skjól yfir höfuðið og í okkur og á. Hugur gefandans til okkar skiptir meira máli en gjöfin sjálf. Höfum þetta í huga og eins segir í dægurtextanum: “Ég gleymdi einni gjöfinni ég gleymdi sjálfri mér”.

Það skyldi þó ekki vera að ein skýringin á aukinni tíðni þunglyndis meðal önnum kafinna vesturlandabúa sé sú að í kapphlaupi okkar eftir sífellt meiri efnislegum gæðum höfum við gleymt að gefa okkur hvort annað. Hugleiðum það og hvernig við getum gefið okkar nánustu hlýju, hvatningu og uppörvun sem lýsir upp vegferð okkar um skammdegið. Til þessa þurfum við tíma. Gerum hátíðarnar og helgidagana í raun og veru helga með því að taka frá tíma sem við helgum þeim sem eru okkur kærust og leitum um leið eftir blessun hins æðsta yfir líf okkar.

Búðu vel um bæinn þinn lága
blíðlega skaltu hvert atriði fága.
Dásamaðu hið daglega smáa
sem dýrðina gefur því eilífa háa.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4672.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar