Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Úlfar Guðmundsson

Ungum er það allra best

Ég gladdist yfir því að lesa í Mbl. umfjöllun um vandaða útgáfu af Heilræðavísum Hallgríms Péturssonar.  Sannlega vildi ég taka undir með Guðrúnu Helgadóttur að börn hefðu gott af því að læra þessar vísur.

Mbl. hefur á undanförnum mánuðum oftsinnis vikið að breytingum á þjóðfélaginu og haft af því áhyggjur.  Breyting á þjóðfélaginu gerist hægt og tekur gjarnan tvær kynslóðir og stundum erfitt að fylgjast með jafnharðan.   Mörg merki eru sjáanleg um breytingu og ber þar hátt notkun eiturlyfja, agaleysi, ofsaakstur og tilefnislausar ofbeldisárásir á borgara sem vekja undrun lækna á Slysavarðstofu sem þó eru ýmsu vanir og fleira mætti telja.  Morgunblaðið spurði í leiðara í sumar hvort nokkur breyting hefði orðið í uppeldismálum sem gæti skýrt þetta.

Morgunblaðið gerði síðan nú í haust ítarlega úttekt þrjár helgar í röð á stöðu barna í okkar samfélagi og var þar flest vel gert.  Ekki man ég þó eftir því að Guð hafi verið nefndur á nafn eða trúarlegt uppeldi.

Sannleikurinn er þó sá að breyting hefur orðið á trúaruppeldi heimilanna á undanförnum áratugum.  Mörg börn eru óvön allri tilbeiðslu og við prestarnir rekumst á börn sem kunna enga bæn.  Þetta er að vísu mjög misjafnt en þarna hefur orðið breyting.

Ég hef haldið víða fram í ræðum að fyrir áratugum síðan voru foreldrar, jafnvel af menntamönnum, gerðir óöruggir um kristið uppeldi barna sinna.  Hugsunin var þá sú að sýna skyldi hlutleysi og börnin gætu síðan valið hverju þau vildu trúa þegar þau væru orðin stór.  Þetta er algjör firra og róttækur grundvallarmiskilningur.  Nánast jafn vitlaust og halda því fram að ekki skuli kenna börnum að tala fyrr en þau séu orðin stór og geti þá valið sér móðurmál.  Dæmið gengur ekki upp og grundvallar næmisskeið bernskunnar, sem er svo frjótt og kraftmikið, er vannýtt.  Nýtist næmisskeið bernskunnar ekki verður erfitt fyrir það að bæta síðar á lífsleiðinni.

Foreldrar þurfa að setjast niður með börnum sínum áður en þau fara að sofa og fara með vers og Faðir vor.  Síðan er gott að nota signingu meira á heimilum og signa börnin og eins að kristin hjón signi hvort annað fyrir svefninn.  Þetta tekur enga stund en hefur mikil áhrif til góðs.  Eins er þarflegt að taka upp örstutta borðbæn við aðalmáltíð dagsins t.d. Guð blessi matinn. Amen.  Það hjálpar til að allir setjist samtímis að borði og rétt er að slökkva á sjónvarpi og útvarpi á meðan.

Litlum börnum er eðlilegt að biðja og best er að byrja á því strax þegar þau eru lítil.
Misfellur dagsins eru jafnaðar og allt verður gott.   Börnin fá tilfinningu fyrir því sem heilagt er og læra að bera virðingu fyrir höfundi lífsins.  Breytnin síðar meir endurspeglar síðan lífsviðhorfið sem myndast smám saman en ekki öfugt.  Helgun og trúarleg virðing gefur því slagkraftinn sem dugar til góðrar breytni en það þarf eins og við vitum ekki svo lítið til.

Það leiðir til vandræða þegar enginn þorir að nefna Guð eða kristna trú á nafn.  Þar er þó sterkustu forvörnina að finna sem sýnir sig best þegar í óefni er komið.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Ungum er það allra best”

 1. Matti skrifar:

  Litlum börnum er eðlilegt að biðja og best er að byrja á því strax þegar þau eru lítil.

  Getur höfundur vísað á rannsóknir sem styðja þessa fullyrðingu eða er hann einungis að halda því fram að auðvelt sé að sannfæra börn um að eðlilegt sé að biðja? Eru dæmi þess að börn biðji til yfirnáttúruvera án þess að nokkur hafi kennt þeim það eða þau hafi séð það áður?

  Væri höfundur ósammála þeirri fullyrðingu að lítil börn eigi auðvelt með að meðtaka þá hugmynd að bæn sé kjánaleg ef þeim er innrætt að ekki sé hægt að tala við ósýnilegar andaverur því þær séu ekki til?

  Myndi höfundur jafnvel taka undir með mér um að lítil börn séu trúgjörn og auðvelt sé að sannfæra þau um hvað sem er. Þætti höfundi t.d. eðlilegt að kenna litlum börnum stjórnmálaþulur á sama tíma og þau læra bænir?

  Helgun og trúarleg virðing gefur því slagkraftinn sem dugar til góðrar breytni en það þarf eins og við vitum ekki svo lítið til.

  Getur höfundur vísað á rannsóknir sem styðja þá fullyrðingu sem þarna kemur fram, um að helgun og trúarleg virðing hafi úrslitaáhrif á góða breytni? Eru þessi áhrif nýlega tilkomin eða hefur þetta alltaf verið svona?

  Það leiðir til vandræða þegar enginn þorir að nefna Guð eða kristna trú á nafn. Þar er þó sterkustu forvörnina að finna sem sýnir sig best þegar í óefni er komið.

  Getur höfundur bent á gögn sem styðja þessa fullyrðingu?

 2. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Ég þakka þér áhugann Matti og rita þér af þessu tilefni.
  Í ofangreindum pistli er ég að tjá trú mína, sannfæringu og reynslu af kristnum trúararfi allt frá bernsku. Það er reynsla mín af því að fara með bænir með börnum að þau eru tilbúin til þess og finnst gott að beðið sé með sér.
  Ég tel að börn verði fyrir áhrifum af sínu umhverfi og því viðmóti og atferli sem þau mæta og gildi þar einu hvort um meðvitaða innrætingu sé að ræða eða ekki. Ég tel að hægt sé að beina huga þeirra til margra átta og hafa áhrif á þau bæði til góðs og ills. Einmitt þess vegna skiptir máli hvað fyrir þeim er haft.
  Persónulega hef ég ekki áhuga á að kenna börnum stjórnmálaþulur og geri mikinn greinarmun á þeim og bænum til Guðs og tel að ekki eigi að rugla þessu saman.
  Áhrif helgunar á góða breytni eru að mínu mati augljós flestum mönnum. Þau eru ekki nýtilkomin heldur hefur svo verið um aldir. En það er sannarlega ævilangt verkefni að glíma við góða hegðun og Jesús gerir þar alvarlegri kröfur heldur en allir aðrir t.d. þegar hann segir: “Verið þér því fullkomnir, eins og yðar himneski faðir er fullkominn.” (Mt. 5:48) Því miður þá sýna kristnir menn ekki alltaf af sér þá breytni sem er verðug og jafnvel Páll postuli segir þau frægu orð: “Hið góða sem ég vil það gjöri ég ekki. En það vonda, sem ég ekki vil, það gjöri ég.” (Róm 7:19)
  Verkefnið er bæði snúið og alvarlegt og hefur sannarlega gengið illa hjá mönnum að uppfylla lögmál kærleikans, enda drápu stjórnmálamenn yfir 200 milljónir manna á síðustu öld. Það munu vera um 6000 manns á dag þannig að 11. sept. nær ekki meðaltalinu. það hefði ekki þótt gott hjá kirkjunni og veit ég ekki um aðra öld blóðugri.
  Ég er sannfærður um að mikill munur er á breytni fólks eftir lífsviðhorfi þess. Greinilegur er þessi munur á kristniboðsakrinum þar sem hjátrú og ótti hverfur en öryggi og innri gleði koma í staðinn. Varðandi niðurlagsorðin þá hefur það eftir minni reynslu sýnt sig að mun betri árangur hefur náðst í því að lækna fólk af áfengissýki og fíkniefnum með því að rækta trúarlega þáttinn eins og gert hefur verið með 12 spora kerfinu.

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Ég þakka höfundi svarið, ljóst er að fullyrðingar hans byggja á tilfinningu en ekki gögnum.

  Ótal rannsóknir sína fram á að tilfinningar hans eru ekki réttar, a.m.k. ekki algildar. Til að mynda er í þessari grein fjallað um “árangur” AA og 12 spora kerfisins. Bendi á heimildaskrá síðunnar, hún er byggð á alvöru rannsóknum. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að heittrúaðir Bandaríkjamenn eru jafn líklegir eða líklegri en trúleysingar til að a) skilja við maka sinn b) halda framhjá maka sínum c) fremja glæpi og d) nota klám.

  Það að til sé fullt af góðu trúfólki jafngildir því ekki að trúfólk sé betra fólk en það fólk sem ekki trúir.

 4. Úlfar Guðmundsson skrifar:

  Sæll og blessaður Matthías.
  Ég tek tilvitnuð gögn þín með hæfilegum fyrirvara. Menn geta auðveldlega tínt saman ýmis konar gögn til þess að styðja sínar eigin fullyrðingar og óskhyggju. En þú segir að fullyrðingar mínar í greininni byggi á minni tilfinningu og það er rétt hjá þér en ég hefði þó kallað það mína reynslu. Sannleikurinn er að ég hef fylgst með mörgum sóknarbörnum mínum sem farið hafa í áfengismeðferð s.l. 35 ár og reynsla mín er þessi. Trúin hefur hjálpað fólki til þess að slíta sig frá viðjum fíkniefna.

  Síðan get ég alveg fúslega viðurkennt að hegðun og breytni margra þeirra sem telja sig kristna er ekki endilega betri en annarra. Í greininni bendi ég raunar á hvað okkur mönnunum gengur almennt erfiðlega að breyta rétt. Það sem kristinn arfur hefur þar til úrbóta er að fólk helgist. Það er að trúin hafi áhrif á fólkið og breyti hegðunarmynstri þess. Til þess höfum við kristnir menn fræðslu, tilbeiðslu og iðkun trúarinnar. Það hefur reynst vel yfir aldirnar og sýnt árangur en til þess að trúin komi að nokkru gagni þarf að iðka hana. Jafnvel tiltölulega lágt siðferðisstig meðal þjóða hefur kostað vinnu og fórnir. Ekkert í þeim efnum gerist af sjálfu sér. Einmitt þess vegna hef ég ritað þessa grein fyrst og fremst til kristinna foreldra til þess að benda þeim á að iðka þessa gömlu leið kristinna manna allt frá barnæsku og ég er sannfærður um að ef vel tekst til þá gerir það gagn og hefur áhrif til góðs. Heimilið og heimilisguðrækni er þar mikilvægasti og áhrifaríkasti vettvangurinn.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5251.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar