Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þórhallur Heimisson

Gullna reglan og innflytjendur

Gullna reglan svokallaða er ein megin undirstaða siðfræði Vesturlandabúa eins og ég hef áður bent á hér á tru.is. Hana er að finna í ræðu Jesú Krists í Matteusarpguðspjalli og hún hljóðar þannig með orðum hans:

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra

Í ljósi þessarar grundvallarreglu er sorglegt hvernig heyrst hefur talað um innflytjendur í skúmaskotum hér á landi að undanförnu. „Þessir“ innflyjendur eru sagðir „pakk“, það þarf að vernda börnin okkar fyrir „þeim“, „þeir“ eru allir nauðgarar og glæpamenn, best væri setja „þá“ í gám og senda þá burt af landi … og margt hefur verið sagt þaðan af verra. Saga 20. aldarinnar sýnir hvert slík orðræða leiðir.

En þegar „Við“ flytjum til útlanda ætlumst „Við“ til að vel sé á móti okkur tekið. Um 20-30.000 Íslendingar búa erlendis. Ekki viljum við að þeir séu úthrópaðir glæpamenn eða þeirra menning fyrirlitin. Sjálfur hef ég búið í ein 7 ár á erlendri grundu. Vinátta heimamanna og viðmót var mér þá ómetanlegt. Sömuleiðis gat áhugaleysi og fyrirlitning sumra á okkur Íslendingum sært mig djúpt.

„Þeir“ sem hingað flytja til „Okkar“ auðga landið og menninguna. „Við“ ættum að taka á móti „Þeim“ eins og við vildum að „Þeir“ tækju á móti „Okkur“ eða bönum okkar þegar við flytjum erlendis til náms og starfa. Og „Við“ ættum reyndar að ganga skrefinu lengra. „Við“ og „Þau“ erum jafn ólík eða lík hvert og eitt eins og við erum mörg. Tökum vel á móti fólki sem vill auðga okkur með reynslu sinni, menningu sinni og trú. Umfram allt, virðum hvort annað sem manneskjur, sem börn Guðs, hvort sem við erum kristin eða múslímar, frá Íslandi, Litáen, Póllandi, Ísrael, Palestínu, Danmörku eða Filipseyjum. Hættum að skipta þeim sem hér búa í „Við“ og „Þessir hinir“.

Það er að segja, ef við viljum að Gullna reglan sé áfram leiðarljós okkar í þessu landi.

Um höfundinn10 viðbrögð við “Gullna reglan og innflytjendur”

 1. Lárus Viðar Lárusson skrifar:

  Tökum vel á móti fólki sem vill auðga okkur með reynslu sinni, menningu sinni og trú.

  Ég er algjörlega sammála Þórhalli hér í þessum pistli að taka eigi vel á móti innflytjendum. En mér leikur forvitni á að vita hvort að þetta viðhorf eigi líka að gilda í garð trúleysingja sem hingað vilja flytja. Því eins og biskup Þjóðkirkjunnar hefur sagt í predikun:

  Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum.

  Er nokkuð vit í því að flytja inn slíkan ófögnuð?

 2. Gunnlaugur Þór Briem skrifar:

  Heyr heyr!

  Afar þarft skref í þessa átt væri einmitt að leggja af þann leiða vana að kalla almennt heilbrigt siðgæði „kristið“ siðgæði. Það er þjóðþrifaverk að hreinsa burt það viðhorf að kristið fólk sé öðru fólki siðbetra … ekki satt?

 3. Skúli skrifar:

  Þessu hefur verið svarað fyrir alllöngu.

 4. Gunnlaugur Þór Briem skrifar:

  „Þessu hefur verið svarað fyrir alllöngu.“

  Er það?

  Lárus Viðar vísaði í orð biskups þar sem trúleysi var sagt „ógna mannlegu samfélagi.“

  Pistill þinn fjallar um allt önnur ummæli og reynir að hrekja að þau séu neikvæður dómur yfir trúlausu fólki. Jafnvel þótt vörn stæðist fullkomlega bæri hún engan veginn í bætifláka fyrir þessi ósanngjörnu orð biskups um okkur meinta ógnvalda samfélagsins, aðflutta eða heimaræktaða. Biskup segir samfélaginu stafa ógn af trúleysi, og það eru hörð orð hvort sem ógnin telst felast í siðleysi eða einhverri annars konar skaðsemi.

  Pistillinn svarar því ekki athugasemd Lárusar Viðars.

  Ég vísaði í það að mjög víða er orðalagið „kristið siðferði“ notað þegar átt er við almennt viðtekið heilbrigt siðferði; aðalnámsskrá er nærtæka dæmið nú þegar Vinaleið er til umræðu, en þetta gerist mun víðar. Það að hugtakið „siðferði“ sé hvarvetna spyrt saman við kristni styrkir þá sorglegu trú margra einfaldra sálna að „þetta múslimapakk sem veður hingað inn“ sé eitthvað lakara en við hin — þau áhrif eru til staðar jafnvel þótt kirkjan sé sjálf laus við þá trú.

  Pistill þinn kemur engan veginn inn á skaðsemi þessa óþarfa orðavals fyrir ímynd ókristinna nýbúa. Hann svarar því ekki athugasemd minni heldur.

  Þú reyndir að sýna fram á að það væri „ekki kenning kirkjunnar“ að trúlaust fólk sé siðlaust. Jafnvel þótt pistillinn hefði fært fullkomnar sönnur á þá staðhæfingu hefði hann samt engan veginn svarað ofangreindum athugasemdum.

 5. Grétar Einarsson skrifar:

  Nú væri gaman ef Gunnlaugur Þór gæti sýnt hvar í KENNINGU kirkjunnar segir að trúlaust fólk sé siðlaust?

 6. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Það er ástæða til að minna á hluta af því sem Skúli skrifar í færslunni sem vitnað er til hér að ofan:

  Trúin er hluti af tilveru mannsins – ekki endilega kristin trú, heldur sá eiginleiki að bindast einhverju sér æðra – eða hreinlega það að játast ákveðnum grunnforsendum svosem “trúleysinginn” Hume lagði til grundvallar þekkingarkerfi sínu. Þetta þrennt [ást, trú og siðgæði] helst í hendur í þeirri merkingu að við þurfum á öllu því að halda til þess að geta lifað góðu lífi.

 7. Lárus Viðar Lárusson skrifar:

  Það er hægt að finna ýmislegt í kenningu kirkjunnar Grétar. Ásgborgarjátingin segir í 20. grein.

  …án heilags anda eru hæfileikar manna fullir af óguðlegum ástríðum og of veikir til að geta unnið góð verk frammi fyrir Guði. Auk þess eru þeir undir valdi djöfulsins, sem rekur menn til margvíslegra synda, til óguðlegra skoðana, til augljósra glæpa, svo sem augljóst er meðal heimspekinganna, sem að vísu reyndu að lifa heiðarlegu lífi, en gátu það samt ekki, heldur ötuðu þeir sig mörgum augljósum glæpum. Slíkur er breyskleiki manns, þegar hann er án trúar og án heilags anda og stjórnar sjálfum sér með mannlegum kröftum sínum.

 8. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Tökum nú höndum saman í stríðinu gegn kynþáttafordómunum og þjóðernishyggjunni. Ég vildi frekar sjá hér raunverulega umræðu um hvernig við getum unnið því máli brautargengi sameiginlega en deilur um skilgreiningar trúaðra og trúleysingja á eigin siðferði.

 9. Gunnlaugur Þór Briem skrifar:

  Grétar vill að ég sýni hvar í kenningu kirkjunnar segir að trúlaust fólk sé siðlaust. Af hverju kemur í minn hlut að sýna það? Ég hef ekki haldið slíku fram.

  Ég sagði það bara til óþurftar að tala um „kristið“ siðgæði þegar raunverulega er átt við almennt heilbrigt siðgæði.

  Þótt ekki sé ætlunin að koma höggi á ókristið fólk með þeirri orðnotkun, þá er hún áburður í þann súra sálarjarðveg sem nýbúahatur þrífst í.

  Eins og ég sagði áður: „þau áhrif eru til staðar jafnvel þótt kirkjan sé sjálf laus við þá trú.“

  Ef grunnstoðir þjóðfélagsins (s.s. barnaskólar) senda þau skilaboð, beint eða óbeint, að kristni sé nauðsynleg undirstaða siðgæðis, þá er ókristnum (nýbúum eða rótgrónum, trúlausum eða annarrar trúar) óleikur gerður.

 10. bragi skrifar:

  Fínt innlegg hjá þér um þetta mál. Flest fólk hvaðanæva að úr heiminum er gott fólk og við eigum að koma vel fram við þau sem til okkar koma. Það er hinsvegar rangt að úthrópa fólki sem rasista ef að það tjáir hug sinn með þeim hætti að þau hafi áhyggjur af einhverri þróun eða breytingar á samfélagsgerðinni (sem gætu jafnvel verið varanlegar) eins og sumir talsmenn Frjálslynda flokksins hafa talað fyrir. Fyndist fólki það í lagi ef að íslenska væri aðeins töluð af 60% landsmanna eftir um 20 ár og hugsanlega aðrar breytingar í takt við það? Ég spyr sjálfan mig slíkra spurninga - en gerir það mig að rasista? Sitt sýnist hverjum. Það virðist vera gífurleg hræðsla við það að ræða þetta mál og svarið virðist vera að láta eins og ekkert nema gott eitt getur komið af innstreymi útlendinga til landsins. Hinir sem tjá sig opinberlega um sínar vangaveltur eru úthrópaðir.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6926.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar