Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ásta Rut Ingimundardóttir

Farandheilsugæsla og næringarmiðstöðvar

Nú er Mobile Clinic eða farandheilsugæslan byrjuð. Hún er í raun bíll sem fer um til að hafa eftirlit og koma með birgðir í„feeding center” eða næringarmiðstöð þar sem munaðarlaus og mjög fátæk börn frá sex mánaða til fimm ára fá frían mat þrjá daga vikunnar. Birgðirnar samanstanda af maísmjöli, sykri, matarolíu, sápu og fleiru. Tilgangur með þessu starfi er að næra börnin, fyrirbyggja sjúkdóma og fræða aðstandendur þeirra. Næringarmiðstöðvarnar eru staðsettar við kirkjur í litlum þorpum um allt land. Landinu er síðan skipt í 3 svæði; norður-, suður- og miðhluta og í hverjum þeirra eru 30-40 næringarmiðstöðvar. Hver hluti hefur sinn bíl sem ferðast um svæðið og tekur hver ferð tæpar 3 vikur. Heimsóttar eru 2-3 miðstöðvar á hverjum degi. Farandheilsugæslan er starfrækt á tímabilinu október til apríl en þá er svokallað hungurtímabil í suðurhluta Afríku þar sem uppskeran er búin. Með okkur í ferðunum eru aðstoðarmaður og bílstjóri.

Starf okkar felst í að athuga hvort allt sé til staðar sem á að vera þar. Þarna á að vera skýli eða kirkja, eldhús, klósett, baðherbergi, ruslagryfja o.fl. Við eigum að skrá það niður og hvernig okkur finnst aðstæðurnar vera þ.e. hvort þetta sé viðunandi. Hefðum við ekki fengið að fara með innfæddum hjúkrunarfræðingi fyrstu þrjá dagana erum við ekki vissar um að okkur hefði fundist neitt af þessu viðunandi. Þegar við erum búnar að skoða þetta allt er stuttur fundur með fólkinu sem tekur þátt í verkefninu. Fundurinn fer reyndar fram á chichewa, tungumáli innfæddra, svo við skiljum ekki mikið. Við verðum bara að fylgjast með hvenær verið er að biðja svo við getum sýnt viðeigandi hegðun. Á þessum fundum þurfum við ekki að segja mikið annað en að heilsa og kynna okkur sem er eiginlega það eina sem við kunnum að segja á chichewa. Eftir fundinn byrjar ballið því þá flykkjast allir að með börnin til að fá ókeypis læknisaðstoð eða hjúkrunaraðstoð þar sem enginn læknir er á staðnum. Þar sem lyfin eru einnig ókeypis vilja allir nýta sér þjónustuna þrátt fyrir að meirihluti barnanna sé ekki bráðveikur. Mörg þeirra eru vannærð og með öndunarfæra- og meltingarfærasýkingar eins og algengt er hjá börnum á þessum aldri. Malaría er algeng í Malaví og eru börn sem hafa verið með hita oftast meðhöndluð þrátt fyrir að ekki sé vitað hvort þau séu sýkt. HIV er einnig algengur sjúkdómur en sjaldnast greindur hjá þessum börnum. Hér sjáum við einnig tilfelli sem sjást ekki á Vesturlöndum. Við höfum t.d. skoðað börn yfir tveggja ára sem eru ekki farin að ganga eða tala, með vatnshöfuð eða þroskaheft án nokkurrar greiningar. Við skoðum 15-40 börn í hverri næringarmiðstöð, sjúkdómsgreinum þau, gefum lyf og skráum allt niður. Þau tilfelli sem við getum ekki greint eða meðhöndlað vísum við áfram á sjúkrahús. Samskipti við fólkið geta verið svolítið erfið þar sem við þurfum túlk til að tala við það.

Í ferðunum gistum við ýmist á gistiheimilum eða heima hjá prestinum í héraðinu. Þegar við fórum með innfædda hjúkrunarfræðingnum fyrstu 3 dagana gistum við hjá presti. Húsið var mjög fínt, byggt úr múrsteinum þó það hafi haft stráþak og ekkert rafmagn. Þegar við komum byrjaði presturinn á að sýna okkur hreykinn að hann væri búinn að steypa gólfið hjá sér (í vor þegar þau voru hjá honum var víst moldargólf). Þegar við vorum að fara að sofa kom í ljós að við áttum að sofa í stofunni og það á gólfinu. Við reyndum að láta á engu bera þótt okkur væri nú ekki vel við kóngulærnar sem skriðu um stofuna. Þar sem við vorum bara með eina dýnu til að deila tókum við pullurnar úr sófunum og notuðum þær líka. Við erum afar fegnar að hafa tekið með okkur íslensk rúmföt því þá er bara hægt að skríða inn í sængurverið og svo vöfðum við flugnanetinu um hausinn. Við sváfum bara ótrúlega vel þarna og urðum ekki varar við nein skordýr. Haninn byrjaði reyndar að gala upp úr 3 (og því miður var hann inni í húsinu) en þar sem við höfðum farið að sofa um 21:00 slapp það alveg. Núna erum við búnar að fara í eina ferð, gist við hinar ýmsu aðstæður en höfum þó alltaf möguleika á að fara á gistiheimili ef okkur líst ekki á aðstæður.

Fríða Björk Skúladóttir
Ásta Rut Ingimundardóttir
Bjarnheiður Böðvarsdóttir

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2906.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar