Trúin og lífið
Lífið og tilveran


Leita

Guðrún Helgadóttir

Eins og ég sá - sé hann

Heiðruðu áheyrendur:

Það er mér mikill heiður að fá að vera hér með ykkur í dag og fá tækifæri til að færa dr. Sigurbirni Einarssyni þakkir fyrir langa samfylgd á lífsins vegferð. Næsta víst er að hann undrast það nokkuð sjálfur að ég skuli tala um samfylgd, þar sem leiðir okkar hafa ekki legið saman í þeim skilningi sem allajafnan er lagður í það orð. Í því felst gjarnan gagnkvæm vinátta þar sem einn gefur öðrum og báðir hafa hag og gleði af. Ekki get ég ímyndað mér að ég hafi gefið heiðursgesti okkar hér í dag eitt eð neitt, en því meira hefur hann gefið mér. Og fyrir það er mér ljúft að þakka af veikum mætti.

Enginn mér ókunnur maður hefur haft eins mikil áhrif á viðhorf mitt til lífsins og hann, og ekki veit ég hvort honum þykja það góð tíðindi. Ég hlýt því að skýra þau lítillega. Ég þótti víst fremur bráðþroska barn. sem ég veit ekki hvort er kostur eða löstur, og var mjög snemma læs. Barnæska mín var á ytra borðinu í engu frábrugðin æskuárum annarra barna á hamrinum í Hafnarfirði, en í hugarheimi lítillar stelpu var ýmislegt á reiki. Einhver skortur á samastað í tilverunni gerði snemma vart við sig. Ég stundaði nám í grunnskóla St. Jósefssystra án þess að tilheyra kaþólskri trú. Amma mín hélt að okkur kristinni trú, en fjölskyldan fór aldrei til kirkju. Ég sótti saumaklúbb KFUK eingöngu af því að mér þótti gaman að sauma. Staða mín í samfélaginu þótti mér viðlíka ruglingsleg. Faðir minn varð móðurlaus í spönsku veikinni og ólst upp hjá vandalausum og var fátækur sjómaður, móðir mín rak ættir til stórbænda i Rangárvallasýslu og steig aldrei fæti niður á bryggju eins og aðrar konur gerðu. Alþýðuflokkurinn átti engan stuðning á heimilinu. Sjálfri þótti mér ég fremur tilheyra heldra fólki í bænum en sauðsvörtum almúganum.

En snemma fór ýmislegt að trufla þessa óreiðu. Á hverjum morgni hlýddu St. Jósefssystur okkur yfir Balslevs biblíusögur og mér þótti margt sem Jesús sagði stórmerkilegt. En þegar ég hlustaði á sunnudagsmessurnar í útvarpinu með ömmu, fannst mér stundum erfitt að skilja það sem prestarnir sögðu. Nema þegar séra Sigurbjörn messaði. Þá fannst mér allt svo augljóst og skýrt. Og ég var ekki ein um það. Hann varð snemma mikils metinn á heimili mínu. Hann var einhvern veginn engum líkur. Og mér leið alltaf miklu betur þegar ég hafði hlustað á hann. Hann lækkaði smám saman í mér rostann og kenndi mér að engin mannvera er öðrum æðri.

En ég las líka Morgunblaðið og sá mér til mikillar furðu að ekki voru allir jafn hrifnir af honum. Ég ræddi málið við ömmu. Ég skil þetta ekki, sagði ég. Hann sem talar eins og Jesús.

Ég hef líklega verið þrettán ára þegar sú stóra stund rann upp að ég sá dr. Sigurbjörn í eigin persónu. Ástæðan fyrir því var sú að ég hafði skrifað skáldsögu ! Á heimili mínu var til bók sem bar heitið Við Babýlonsfljót og var ræðusafn Kajs Munk í þýðingu dr. Sigurbjörns. Útgefandi var bókaútgáfan Lilja. Og ég sá í hendi mér að þarna var hugsanlegur útgefandi ! Ég brá mér því af bæ og tók mér far til Reykjavíkur og mér er sérstaklega minnisstætt að ég fór þessa för í fyrstu nylonsokkunum sem ég eignaðist lærimeistara mínum til heiðurs. Og á Freyjugötuna komst ég eftir nokkrar vegvillur í stórborginni. Aldrei held ég að hjartað í mér hafi slegið jafn hratt og þegar ég stóð þarna frammi fyrir honum sjálfum með hugverkið í sjö bláum stílabókum. Hann tók mér svo ljúfmannlega að ég róaðist fljótlega. Hann var bæði góður og fallegur. Mér fannst ég aldrei hafa séð fallegri mann. Mér fannst hann fallregri en Tyrone Power.

Ekki kom til útgáfu. Astrid Lindgren sagði mér eitt sinn söguna af því þegar bókaforlagið Bonnier hafnaði útgáfu á Línu langsokk, og hún bætti við: Þeir sáu eftir því. Ekki held ég að bókaútgáfan Lilja hafi haft sömu sögu að segja, en heimsóknin á Freyjugötu er mér ógleymanleg.

17. júní 1948 talaði dr. Sigurbjörn í Hafnarfirði. Ég á enn úrklippu úr ræðu hans úr einhverju blaði sem hljóðar svo: Það er vissulega margt uggvænlegt í samtíðinni. En eitt er ég hræddastur við, og það er — hræðslan. Hræðslan hefur valdið meiri óhöppum en vísvitandi hatur eða grimmd. Því féll þýska þjóðin í fang Hitlers, að hún hafði látið tryllast af ofboðshræðslu við bolsévika og Gyðinga. Hræðslan olli hermdarverkum galdraaldar. Þessi orð urðu mér hrein opinberun, sem og öll þjóðmálabarátta hans síðar. Það voru ekki margir guðsmenn sem höfðu þrek og þor til að taka afstöðu í umdeildum þjóðmálum, né getu til að skila henni á kjarnmiklu máli og heitum tilfinningum. Hefði margur mátt af læra.

Og ég drakk í mig allt sem hann sagði. Stjórnmálaskoðanir mínar voru aldrei í andstöðu við kristna trú, heldur runnu saman við hana í eðlilegum farvegi. Afskipti mín af málefnum kirkjunnar á Alþingi voru á tíðum flokksfélögum mínum nokkurt undrunarefni, en það rann ekki upp fyrir mér fyrr en ég settist niður og samdi þetta ræðukorn að öll voru þau á einhvern hátt tengd dr. Sigurbirni. Þegar ég einhverju sinni heimsótti Skálholtsstað, hjartabarn séra Sigurbjörns, sýndist mér að ekki færi vel um bókasafn staðarins. Og af alkunnum hroka rauk ég í blöðin og lýsti þessari skoðun minni svo kröftuglega að séra Heimi Steinssyni, sem þá sat staðinn, mislíkaði við mig. Við sættumst þó heilum sáttum og ég er ekki frá því að eitthvað hafi verið hugað að safninu.

Einhverju sinni er ég sat í Hallgrímskirkju sá ég fyrir mér að íslenskum listamönnum yrði falið að myndskreyta hið mikla guðshús og væri við hæfi að passíusálmar séra Hallgríms prýddu það. Ég flutti um þetta þingsályktunartillögu sem reyndar var samþykkt eftir nokkra andstöðu, sem ekki síst kom frá starfsmanni kirkjunnar sjáfrar. Þar réð vafalaust pólitísk staða mín meiru en andstaða við málið. Hræðslan er enn söm við sig. Ég ber þó enn þá von í brjósti að einhvern tíma verði rykið dustað af ályktuninni og hið mikla guðshús og minning séra Hallgríms hljóti verðuga umgjörð. Og kirkja dr. Sigurbjörns.

Eitt er þó það verk sem tókst eins og til var ætlast, en það var gjöf Alþingis til þjóðarinnar á þúsund ára minningarhátíð kristnitöku á Íslandi. Hið mikla rit Kristni á Íslandi í fjórum bindum kom út á afmælisárinu og hefur hlotið verðugt lof allra sem um það hafa fjallað.

Tel ég mig hafa átt nokkurn þátt í að ritið varð ekki hefðbundin saga um presta og preláta, heldur fjallar það um áhrif kristni og kirkju á alla þætti þjóðlífsins í þau þúsund ár sem liðin eru frá kristnitökunni. Eiga þeir fræðimenn sem að verkinu komu miklar þakkir skildar, en þeir fengu líka algjört frelsi frá afskiptum Alþingis af efni ritsins. Þar voru orð dr. Sigurbjörns um hræðsluna í heiðri höfð. Þar var ekkert að óttast.

Heiðruðu hlustendur. Ég vona að mér verði fyrirgefin þessi sundurleitu orð. Erindi mitt hingað var afar persónulegt. Ég er hér til að þakka dr. Sigurbirni Einarssyni fyrir að hjálpa mér til að finna mér samastað í tilverunni, fyrir að reka óttann úr brjósti mér, fyrir að auka mér þrek til að hafa skoðanir og standa við þær þó að á móti blási, fyrir alla hlýju í minn garð hvenær sem við hittumst á förnum vegi. Hjartans þakkir fyrir að gefa mér tækifæri til þess.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1487.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar