Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Einar Steingrímsson

Uppeldishættir og árangur

Uppeldishættir og leiðir að góðu uppeldi eru þættir sem hafa verið mikið til umfjöllunar síðustu ár og jafnvel áratugi og hefur mikið verið skrifað og fjallað um uppeldishætti og þær leiðir sem vænlegastar eru til árangurs.

En hvað er uppeldi? Uppeldi eru samskipti fullorðinna og barna sem hafa það að markmiði að barnið nái að verða þroskaður ábyrgur einstaklingur. Þannig á að nást með aga og uppeldi að barnið læri samskiptareglur, siðræn gildi og sjálfsaga.

Sem betur fer þá eru flestir foreldrar þannig úr garði gerðir að þeir vilja börnum sínum aðeins það besta en er það nóg? Nei, það er ekki nóg að vilja börnum sínum aðeins það besta heldur verðum við að gefa börnunum okkar aðeins það besta. Þá er ég ekki að tala um veraldlega hluti sem fást keyptir fyrir peninga og mölur og ryð eyðir, heldur er ég að tala um mun dýrmætari hluti. Ég er að tala um ást, kærleika, nærveru og síðast en ekki síst tíma. Gefum við börnunum okkar tíma?

Þátttaka

Ég tel uppeldi snúast að stórum hluta um að taka þátt. Taka þátt í því sem börnin okkar og unglingarnir eru að gera. Sama hvert sem litið er þá finnst mér eins og foreldrar hafi engan tíma fyrir börnin sín lengur, megi ekki vera að því að hugsa um þau og sinna þeim. Það er t.d. sorglegt hve stór hluti leikskólabarna eru 9-9,5 klst. í vistun á leikskólum. Ef að barn vaknar klukkan 7 á morgnanna og er sofnað klukkan 20.30 á kvöldin (sem er nokkuð eðlilegt að ég tel) þá er barnið upp undir 70% af vökutíma sínum í vistun á leikskóla. Svo er ekki eins og tíminn eftir leikskólann sé alltaf einhver gæðatími hjá fjölskyldunni. Það þarf að hendast í búðina og kaupa inn, búa til matinn og slíkt. Á meðan eru börnin oft annaðhvort fyrir framan sjónvarpið eða í tölvuleikjum. Svo má ekki gleyma þeim börnum sem eru sótt á leikskólann, það er farið beint með þau í pössun á líkamsræktarstöðinni þar sem þau eru næsta einn og hálfa tímann. Svo er komið heim og borðað og svo kemur jafnvel barnapían því foreldrarnir þurfa að fara aftur í vinnuna eða eru að fara í bíó eða eitthvað, þá eru börnin í vistun eða pössun jafnvel yfir 90% af vökutímanum sínum. Svo tölum við um að við séum fjölskylduvænt þjóðfélag!

Þrennt skiptir höfuðmáli

Það er í raun þrennt sem skiptir höfuðmáli í uppeldi skv. kenningum sem grundvallaðar eru á kenningum bandaríska sálfræðingsins og fræðimanneskjunnar Diönu Baumrind:

 1. Hegðunarstjórnun, þar sem eru sett skýr mörk og reglum er framfylgt. Þetta vísar til þess hvernig foreldrar stjórna hegðun barna sinna, t.d. með því hvernig þeir setja þeim skýr mörk og reglur.
 2. Stuðningur og samheldni fjölskyldu, þar sem allir taka þátt. Fjölskyldan gerir eitthvað saman sem heild og sýnir þannig stuðning hvert við annað. Foreldrar hvetja börn sín til þess að standa sig vel í t.d. námi og veita þeim stuðning.
 3. Viðurkenning foreldra, þar sem börn eru hvött til þess að tjá sig og þar sem hlustað er eftir röddum og tilfinningum barnanna og unglinganna. Foreldrarnir taka hugrenningum barna sinna vel og sýna þeim þannig virðingu. Andstæða viðurkenningarinnar er sálræn stjórnun foreldranna sem er þegar foreldrar ásaka oft börn sín og gera lítið úr hugmyndum þeirra og skoðunum og eru stöðugt að setja út á börnin og ráðskast með líf þeirra.

Líklega eru flestir sammála því, að foreldrar og/eða forráðamenn eru einn áhrifamesti þátturinn í umhverfi og uppeldi barna og unglinga. Þessi stóri þáttur er fjölbreytilegur með ýmsum kostum og göllum hver um sig. Foreldrarnir eru misjafnir eins og þeir eru margir og beita mismunandi uppeldisaðferðum sem hafa mismunandi áhrif.

Samvistir

En börn og unglingar vilja samvistir við foreldra sína og vilja láta hlusta á sig og vilja fá að taka þátt í því sem gerist innan veggja heimilisins. Því er ómetanlegt að gera eitthvað saman sem fjölskylda. T.d. setjast niður og spila, fara í göngutúr. Hlusta á tónlist með unglingunum. Syngja með börnunum, lesa fyrir þau og spyrja þau út í söguna sem lesin var og leyfa þeim að tjá það sem þau upplifa og skynja. Fara með kvöldbænir með börnunum, við skírn þá gangast foreldrar undir þá ábyrgð að ala börn sín upp í kristinni trú og uppfræða þau um trúna og kenna þeim bænir.

Börnin þrá samvistir við fullorðna, samvistir sem eru ekki á grundvelli þess fullorðna, heldur á grundvelli barnsins. Það eru ótal atriði sem hægt er að gera saman sem kosta ekki neitt, en eru óendanlega dýrmætar stundir, því þessar stundir safnast inn í banka minninganna. Banka sem mikið er leitað í, sérstaklega á erfiðum tímum. Hvað er þá mikilvægara en að eiga góðar og fallegar minningar sem ylja manni um hjartaræturnar með þeim manneskjum sem eru okkur dýrmætastar, börnum okkar og foreldrum okkar.

Náum áttum og áttum okkur á því hvað er dýrmætast, áttum okkur á því hvað það er sem skiptir okkur mestu í lífinu þegar öllu er á botninn hvolft. Hvort er dýrmætara veraldlegur auður eða börnin okkar?

Um höfundinn12 viðbrögð við “Uppeldishættir og árangur”

 1. Matti skrifar:

  …við skírn þá gangast foreldrar undir þá ábyrgð að ala börn sín upp í kristinni trú og uppfræða þau um trúna og kenna þeim bænir.

  Gerir höfundur sér grein fyrir því að þó þetta sé skilningur kirkjunnar er þetta langt frá því að vera skilningur afar margra foreldra sem skíra börnin sín.

  Könnun Þjóðkirkjunnar bendir til að einungis helmingur þjóðarinnar játi kristna trú, samt láta langflestir foreldrar skíra börnin sín. Það má því ljóst vera að foreldrar sem ekki játa kristna trú en skíra samt börn sín eru ekki að skíra börn sín til að ala þau upp í kristinni trú - heldur einungis vegna hefðar. Skírn er í langflestum tilvikum nafngift hér á landi.

  Barnaskírn gefur Þjóðkirkjunni ekki opið skotleyfi á öll börn sem gengið hafa í gegnum það ritúal.

 2. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Sæll Matti.
  Ég reikna með að þú sért að vitna í könnunina frá 2004. Þar voru þeir sem sögðust vera trúaðir (rúml. 68%) spurðir nánar og af þeim segist ákveðinn fjöldi játa kristna trú (um 75%). Af þessu mætti því draga þá ályktun að a.m.k 50 % af þeim sem svara könnunni allri af líti á sig sem trúaða kristna einstaklinga en við getum ályktan um þau sem ekki voru spurð. Ég hefði frekar kosið að allir væru spurðir um síðara atriðið en svo var ekki.

  Ég get heldur ekki tekið undir að foreldrar sem skíra börn sín hafi enga ábyrgð gagnvart trúaruppeldi þeirra. Það er skýrt í skírnarritúalinu og á að koma fram í viðtölum presta við foreldra skírnarbarna. Ef einhverjir gera sér ekki grein fyrir því er það augljóslega hvatning til okkar að efla fræðsluna.

  Orðalag eins og “opið skotleyfi á börn” þykir mér ekki vel við hæfi í ábyrgri samræðu.

 3. Gunnar Einar Steingrímsson skrifar:

  Sæll Matti.
  Ég var að benda á að fara með kvöldbænir með börnum getur verið tími/stund þar sem foreldrar og barn ná saman, líkt og að fara í göngutúr, syngja, lesa o.s.fr.
  Skírn er fyrst og fremst trúarleg athöfn (sem vissulega á sér langa hefð). Öllum foreldrum sem láta skíra börn sín (til kristinnar trúar) ætti að vera það ljóst. Við skírn þá gangast foreldrar undir þá ábyrgð að ala börn sín upp í kristinni trú og uppfræða þau um trúna og kenna þeim bænir hvað sem svo þér kann að finnast. Þetta er fyrst og fremst trúarleg athöfn.

  Hinsvegar er það eflaust rétt að efla þarf víða skírnarfræðslu til foreldra til þess að þau geri sér grein fyrir því hvað skírn er.

 4. Matti skrifar:

  Ég reikna með að þú sért að vitna í könnunina frá 2004. Þar voru þeir sem sögðust vera trúaðir (rúml. 68%) spurðir nánar og af þeim segist ákveðinn fjöldi játa kristna trú (um 75%). Af þessu mætti því draga þá ályktun að a.m.k 50 % af þeim sem svara könnunni allri af líti á sig sem trúaða kristna einstaklinga en við getum ályktan um þau sem ekki voru spurð. Ég hefði frekar kosið að allir væru spurðir um síðara atriðið en svo var ekki.

  Það segir sig sjálft að þeir sem ekki eru trúaðir (tæp 32%) geta ekki verið kristnir og því skil ég ekki alveg innlegg þitt, þú ert bara að endurtaka það sem ég sagði. Það er afar eðlileg túlkun að rétt um helmingur þjóðarinnar telji sig kristna einstaklinga ef mark er hægt að taka á könnuninni.

  Ég get heldur ekki tekið undir að foreldrar sem skíra börn sín hafi enga ábyrgð gagnvart trúaruppeldi þeirra.

  Tja, þegar staðreyndir sýna að fólk sem ekki telur sig kristið lætur samt skíra börn sín er ljóst að þetta fólk er ekki að skíra börnin með sama markmið og presturinn sem sér um athöfnina

  Það er skýrt í skírnarritúalinu og á að koma fram í viðtölum presta við foreldra skírnarbarna. Ef einhverjir gera sér ekki grein fyrir því er það augljóslega hvatning til okkar að efla fræðsluna

  Þessu get ég verið sammála, auðvitað á kirkjan að auka fræðslu til foreldra sem láta skíra börn sín, benda þeim á að skírn sé ekki nauðsynleg forsenda nafngiftar og að með því að skíra börnin séu foreldrar að samþykkja kristniboð í skólum.

  Skírn er fyrst og fremst trúarleg athöfn (sem vissulega á sér langa hefð). Öllum foreldrum sem láta skíra börn sín (til kristinnar trúar) ætti að vera það ljóst.

  Ekki loka augunum fyrir hefðinni, á Íslandi er það hefð að skíra börn, alveg eins og það er hefð að jarða að kristnum hætti, jafnvel þó fólk sé hundheiðið.

  Það eina sem ég er að benda á í þessu samhengi er að kirkjan ætti að fara gætilega í því að draga einhverja ályktun út frá því að fólk hafi látið skíra börn sín, sérstaklega þegar rannsóknir kirkjunnar benda til þess að einungis helmingur þjóðarinnar segist játa kristna trú.

  Ég get alveg tekið undir megnið af greininni hér fyrir ofan. En ég geri samt athugasemd við túlkun kirkjunnar á skírn barna hér á landi. “Opið skotleyfi” þykir mér sanngjörn túlkun, því starfsmenn Þjóðkirkjunnar vísa æ oftar til skírnarinnar þegar kemur að því að réttlæta barnastarf kirkjunnar í opinberum skólum og leikskólum.

 5. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Það segir sig sjálft að þeir sem ekki eru trúaðir (tæp 32%) geta ekki verið kristnir og því skil ég ekki alveg innlegg þitt, þú ert bara að endurtaka það sem ég sagði. Það er afar eðlileg túlkun að rétt um helmingur þjóðarinnar telji sig kristna einstaklinga ef mark er hægt að taka á könnuninni.

  Nei, það er ekki eðlileg ályktun. Fjöldi fólks telur sig kristinn en lítur ekki á sig sem trúaðan. Mögulega er það vegna þess að það leggur einhverja merkingu í að vera trúaður sem það leggur ekki í að vera kristið.

  Varðandi það að draga ályktun um allt úrtakið miðað við þá sem svöruðu spurningunni um kristna trú: Út frá aðferðafræði við úrvinnslu á tölfræðigögnum þá er hæpið að draga ályktun um hóp sem ekki hefur verið spurður.

 6. Matti skrifar:

  Þetta þykir mér afar hæpið Steinunn, ég hef ekki enn hitt þann einstakling sem segist kristinn en ekki trúaður, marga hef ég rekist á sem segjast trúaðir en ekki kristnir. Þeir sem telja sig menningarlega kristna, en ekki trúarlega, falla samt í þann hóp sem ég nefndi, þ.e.a.s. foreldra sem skíra börn sín útaf hefð en ekki trú og hafa þar með ekki hugsað skírnina sem trúarlega athöfn með trúarlega merkingu.

  Það er samt skrítið að þegar talan hentaði fannst Dr. Pétri Péturssyni ekkert óeðlilegt að nota niðurstöður þessara spurningar til að fullyrða að mikill meirihluti þjóðarinnar telji sig kristinn. Þegar í ljós kom að um mistúlkun á gögnum var að ræða og niðurstaðan er ekki jafn jákvæð fyrir Þjóðkirkjuna er þessi spurning ekki lengur marktæk!

 7. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Er þetta ekki tilbrigði við s.k. „false alternative“ (veit því miður ekki hvað þetta kallast upp á íslensku) rökvillu hjá þér Matti? Mér virðist þú gefa þér að annað hvort beri fólk börn til skírnar út af hefð eða trú, en gerir ekki ráð fyrir þeim möguleika að kannski þurfi eitt ekki að útiloka annað.

 8. Gunnar Einar Steingrímsson skrifar:

  Ég er alls ekki að loka augunum fyrir hefðinni. Engu að síður þá er skírn fyrst og fremst trúarleg athöfn, um það verður ekki deilt.

 9. Matti skrifar:

  Nei, þetta er ekki tilbrigði við rökvillu Árni Svanur og satt að segja furðulegt að þurfa að rökræða þetta. Auðvitað þarf eitt ekki að útiloka annað, hvar held ég því fram? Trúað fólk skírir börnin sín vafalítið afar margt útaf hefðinni, en fólk sem ekki játar kristna trú skírir börn ekki á trúarlegum forsendum, þeim forsendum sem Þjóðkirkjan gefur sér.

  Engu að síður þá er skírn fyrst og fremst trúarleg athöfn, um það verður ekki deilt.

  Ekki í huga afskaplega margar foreldra. Ég trúi því varla að ég sé að rökræða þetta. Auðvitað er Þjóðkirkjan í dálítið erfiðri aðstöðu því eflaust segja fáir ykkur sannleikann - en kannanir ykkar ættu að gefa ykkur ansi góða vísbendingu. Það þýðir ekki bara að loka augunum þegar niðurstaðan hentar ekki.

  Næst munið þið eflaust halda því fram að kirkjubrúðkaup sé fyrst og fremst trúarleg athöfn!

 10. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Ég stend við fyrri orð um að menn geti skilgreint sig kristna en ekki trúaða. Ég hef verið að vinna að eigindlegri rannsókn (ólokið)þar sem mismunandi hópar eru spurðir um þessi atriði og það sem þar kemur fram þykir mér styðja mína fullyrðingu.
  Það þýðir ekki að þetta fólk sé alls ekki trúað heldur að yfirlýsingin “ég er trúaður” hefur í þeirra huga sterkari merkingu, t.d. með tilvísun til heitrar trúar, en svo að þeir samsami sig með henni.

 11. Matti skrifar:

  Ég stend við fyrri orð um að menn geti skilgreint sig kristna en ekki trúaða.

  En er eitthvað að marka slíka skilgreiningu? Er það ekki svipað og segjast kristinn en trúa ekki á upprisu Jesú (gaman væri að vita hve margir falla í þann flokk)?

  Ég stend við það sem ég sagði, þeir sem telja sig “kristna en ekki trúaða” líta varla upp til hópa á skírn “fyrst og fremst sem kirkjulega athöfn”.

 12. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Þessi málflutningur hefur ekki sannfært mig svo að við verðum þá bara að vera ósammála um það.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4372.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar