Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Reynisson

Um trúvæðingu og Vinaleið í skólum

Nokkuð hefur verið rætt um „Vinaleiðina“ sem einstaka söfnuðir Þjóðkirkjunnar hafa boðið upp á í nokkrum grunnskólum. Hefur hún verið gagnrýnd með þeim rökum að um trúboð væri að ræða.

Hvað er Vinaleiðin?

Vinaleiðin er verkefni sem var þróað í samvinnu kirkju og skóla í Mosfellsbæ. Frumkvöðull þeirra starfsemi var Þórdís Ásgeirsdóttir djákni og leikskólakennari.

Í verkefninu felst að eiga samleið með barninu, hlusta og mæta því á sínum eigin forsendum og setja sig í spor þess. Þessi stuðningur hefur einnig verið nefndur sálgæsla. Stuðningurinn eða sálgæslan er ólík meðferð á þann hátt að skjólstæðingnum, í þessu tilviki barninu er hjálpað til að finna sínar eigin lausnir. Í meðferð grípur meðferðaraðilinn meira inn í með sínar lausnir. Vinaleiðin er ávallt kynnt foreldrum og forráðamönnum barna og byggir á trúnaði. Þó getur þagnarskyldan og sú upplýsingaskylda er hefur meðferð barnsins að leiðarljósi tekist á og er barninu gerð grein fyrir því. Ef um meiri háttar vanda er að ræða er barninu komið til meðferðaraðila, s.s. sálfræðings í samvinnu við skólann. Að þessu leyti svipar Vinaleiðinni til annarra faghópa innan skólans, t.d. námsráðgjafa. Þá má á það benda að Vinaleiðin er visst framhald þess samstarfs sem tekist hefur með kirkju og skóla við áföll og missi.

Munur er á trúboði og þjónustu

Nokkurs misskilnings gætir í gagnrýni á Vinaleiðina. Hún er þjónusta við náungann en ekki boðun. Sá munur byggir á því að starf kirkjunnar hefur frá öndverðu verið með þrennum hætti:
Í fyrsta lagi hefur kirkjan frá upphafi vissulega boðað trú á Guð eins og hann birtist okkur í Jesú Kristi. Um það verður ekki deilt.

Í annan stað hefur kirkjan ávallt lagt áherslu á fræðslu um trúarsannindin. Með tíð og tíma varð sú áhersla upphafið að fyrstu háskólum Evrópu, og lærdómi hér á landi á þjóðveldisöld og síðar. Fræðslan var rík hjá siðbreytingarmönnum og allar götur síðan með þeim árangri að Íslendingar voru flestir læsir og skrifandi á síðustu öldum. Rætur íslensks skólastarfs eru þannig að finna í fræðsluhefð kirkjunnar.

Í þriðja lagi hefur þjónusta við náungann alltaf verið talin einn af hornsteinum kirkjunnar. Þá er ekki spurt um trúarskoðanir. Sagan um miskunnsama Samverjann segir að sérhverjum skal hjálpað, jafnvel þvert á trúarviðhorf. Vestrænt heilbrigðiskerfi og spítalar sækja einmitt í þann arf.
Starf kirkjunnar kemur því fram með ólíkum hætti þótt samhengi sé á milli. Náunganum skal þjónað án tillits til aðgreiningar. Og samt er það trúin á Krist sem er hvati þeirrar þjónustu. Fræðsla kirkjunnar byggir á skynsamlegri þekkingarleit, einnig þegar fjallað er um trúarsannindin.

Gagnrýni á Vinaleiðina

Í Morgunblaðinu 14. október s.l. er Vinaleiðin gagnrýnd á eftirfarandi hátt:

 1. Þjóðkirkjan er að stunda trúboð innan grunnskólans.
 2. Það er óhæft að hægt sé að senda barn í trúarlegt sálgæsluviðtal án þess að samþykki foreldra/forsjármanna liggi fyrir.
 3. Prestar og djáknar eiga ekki að hafa skrifstofu innan skóla.
 4. Einkaviðtöl við börn eru alltaf meðferðarúrræði. Prestar og djáknar eru ekki meðferðaraðilar.

Varðandi trúboðið skal bent á aðgreind verkefni kristinnar kirkju, auk þeirrar stefnu Þjóðkirkjunnar að eiga samstarf við skólann á hans eigin forsendum.

Um það að senda barnið í trúarlegt sálgæsluviðtal þá er því til að svara að hún þarf ekki að vera trúarleg að öðru leyti en því að það er prestur eða djákni sem hlustar. Hér má benda á ákveðna hliðstæðu við störf sjúkrahúspresta. Víst eru þeir fulltrúar kristninnar, en þeim ber að virða trúararf skjólstæðinga sinna og veita stuðning á forsendum þeirra.

Um aðstöðu í grunnskólum: Það leiðir af sjálfu sér að vilji skólarnir bjóða nemendum upp á sálgæslu þá hlýtur hún að vera innan veggja skólans.

Að einkaviðtöl við börn séu alltaf meðferðarúrræði er ekki hægt að fallast á, sbr. framangreindan skilning á sálgæslu og meðferð. Við prestar og djáknar teljum þá sálgæslu sem við veitum vera til þess að hlusta og styðja á forsendum skjólstæðingsins sjálfs. Þá er það hluti af okkar námi að greina alvarleg tilvik þar sem við vísum skjólstæðingum áfram til meðferðaraðila.

Það fólk sem að Vinaleiðinni kemur hefur fengið faglega þekkingu í sálgæslu, auk þess að hafa mjög mikla reynslu af störfum með börnum. Innan Þjóðkirkjunnar er mikill reynslubrunnur varðandi barnastarf og þeir sem starfa með börnum lúta sérstökum siðareglum. Þar er einnig mikil þekking á sorg og áföllum, ekki síst barna. Þá skal á það minnt að einn helsti gúrú sálgæslufræða hjá námsráðgjöfum, Carl Rogers, var prestur.

Sú gagnrýni sem fram er komin á Vinaleiðina stafar af misskilningi á þjónustu kirkjunnar. Þó skal hlustað á alla gagnrýni því hún brýnir Þjóðkirkjuna í fagmennsku. Loks má minna á þörf barna fyrir stuðning á tímum „hins magnaða nihilisma samtímamenningar„ svo vitnað sé í Pælingar Páls Skúlasonar heimspekiprófessors. Þeirri þörf vill Þjóðkirkjan sinna nú þegar bernskan á undir högg að sækja.

Um höfundinn18 viðbrögð við “Um trúvæðingu og Vinaleið í skólum”

 1. Matti skrifar:

  Er eitthvað villandi við þennan samanburð?

 2. Birgir Baldursson skrifar:

  Ég minni á orð síra Skúla Ólafssonar:

  „Bænin er líka ákaflega mikilvæg í allri sálgæslu.“

  Tekið héðan: http://skuli.annall.is/2003-10-22/23.09.43

 3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Það er ástæða til að halda líka til haga því sem Skúli segir í framhaldi af þessari tilvitnun:

  Ég hef átt bænastundir með fólki, trúuðu og trúlausu, á mjög erfiðum stundum í lífi þess …

 4. Birgir Baldursson skrifar:

  Ég var einmitt að spá í það að setja þetta framhald með í tilvitnun mína, vegna þess að það styður mál mitt enn frekar. Bænahald er staðreynd í sálgæslu, meira að segja þegar um trúlaust fólk er að ræða. Hvernig getið þið þá haldið því fram að sálgæsla fari ekki fram á trúarlegum forsendum. Eru bænir ekki trúarleg athöfn í ykkar skilningi?

 5. Gunnar Jóhannesson skrifar:

  Sálgæsla er ekki einnar gerðar nema að því leytinu til að fyrirmynd allrar kristinnar sálgæslu er sá kærleikur sem Jesús hvetur okkur til að auðsýna öðru fólki. Þar fyrir utan getur sálgæsla tekið á sig margvíslegar myndir í ljósi þess í hvaða aðstæðum hún er unnin og hver á í hlut. Reyndar er engum skylt að þiggja þá samfylgd sem sálgæsla er sé honum hún boðin. Trú er hvorki forsenda þess að vera boðið né að geta þegið sálgæslu því að kærleikurinn fer ekki í manngreinarálit og hann er skilyrðislaus. Þess vegna getur boðun aldrei verið upphafsreitur né takmark sálgæslu. Út frá sjónarhóli þess sem veitir sálgæsluna snýst hún um að vera til staðar á forsendum þess sem þiggur sálgæsluna en hún er samt ætíð unnin á grundvelli manngæsku og kærleika, og þar er Kristur fyrirmyndin. Að því leytinu til er um að ræða kristna sálgæslu. En það merkir ekki kristna boðun.

  Sálgæsla snýst ekki um að gera heldur að vera; ekki að gera eitthvað ákveðið á einhvern fyrirfram gefinn hátt heldur að vera til staðar, hlusta, styðja og leiða og leiðbeina í ljósi kærleikans sem gerir ekki upp á milli fólks, hvorki í ytra né innra tilliti, hvorki í ljósi útlits né skoðana, trúarskoðana sem annarra. Í þeim skilningi skilningi snýst sálgæsla ekki um að snúa fólki í þessa áttina eða hina heldur að vera til staðar fyrir fólk þar sem það er og eins og það er. Þetta er óumdeilt hvað snertir alla ábyrga sálgæslu. Halldór Reynisson gerir mun betur grein fyrir þessu í sinni ágætu grein.

  Vissulega eru bænir hluti þess mengis sem sálgæsla er og ekki lítill þáttur í gefnu samhengi og aðstæðum. Að biðja er trúarleg athöfn, vissulega. En grundvallaratriði í sálgæslu er að lesa inn í aðstæður og hlusta eftir tilfinningum og virða þær, rétt eins og skoðanir. Þegar um sálgæslu er að ræða mundi engum detta í hug að þröngva bænum upp á fólk, það mundi einungis hafa neikvæð og skemmandi áhrif og væri vanvirða við þá sem eiga í hlut. Ég get mér þess til að Skúli sé hér að vísa til þess að hann hafi annað hvort talið það óhætt að bjóða tilteknu fólki að biðja með sér (trúuðu sem guðlausu) og að það hafi þegið það, eða þá að þetta tiltekna fólk hafi beðið hann að biðja með sér. En það er djúpt í vasann kafað ef það á að snúa þeim vitnisburði með neikvæðum hætti upp á það sem hér er til umræðu. Eða er Birgir Baldursson að halda því fram að sr. Skúli Ólafsson hafi með einhverjum hætti þvingað guðlaust fólk til þess að fara með bænir.

  Ef að mál Birgis Baldurssonar er að bæn sé mikilvæg í sálgæslu þá er það rétt og hann þarf í sjálfu sér ekki að styðja þá staðreynd á þessum vettvangi. En ef að mál hans er það að bæn sé undantekningarlaust (grundvallandi) þáttur í allri sálgæslu án tillits til þess sem sálgæsluna þiggur þá er ekkert sem styður það nema hans eigin orð.

  Grundvallarþáttur allrar sálgæslu er kærleikur. Ekkert tekur honum fram, hvorki bæn né annað, ekki einu sinni trú. Kærleikurinn er mestur. Og kærleikurinn fer ekki í manngreinarált. Sálgæsla sem ekki er unnin á forsendum kærleikans er ekki sálgæsla. Og í allri sálgæslu er horft í þarfir þess sem þiggur, ekki þess sem veitir.

  Gunnar Jóhannesson

 6. Birgir Baldursson skrifar:

  En ef að mál hans er það að bæn sé undantekningarlaust (grundvallandi) þáttur í allri sálgæslu án tillits til þess sem sálgæsluna þiggur þá er ekkert sem styður það nema hans eigin orð.

  Ég hef reyndar hvergi haldið því fram að svo sé og óþarfi að gera mér upp þá skoðun.

  Bíðum hægir eftir grein Sigurðar Hólm Gunnarssonar, Þjóðkirkjan segir Vinaleið vera trúboð, sem birtast mun í Mogganum á næstu dögum. Tilvitanir í Þjóðkirkjufólk í þeirri grein ættu sýna, svo ekki verður í efa dregið, að sálgæsla er ekkert annað en trúboð (í merkingunni trúarleg innræting).

 7. Arnold Björnsson skrifar:

  Gunnar skrifar:

  Vissulega eru bænir hluti þess mengis sem sálgæsla er og ekki lítill þáttur í gefnu samhengi og aðstæðum. Að biðja er trúarleg athöfn, vissulega. En grundvallaratriði í sálgæslu er að lesa inn í aðstæður og hlusta eftir tilfinningum og virða þær, rétt eins og skoðanir

  Hvers vegna eiga foreldrar að treysta því að ekki sé um trúarinnrætingu að ræða í þessum viðtölum? Hvort það er farið með bænir eða ekki?

  Gunnar skrifar:

  Þegar um sálgæslu er að ræða mundi engum detta í hug að þröngva bænum upp á fólk, það mundi einungis hafa neikvæð og skemmandi áhrif og væri vanvirða við þá sem eiga í hlut.

  Heldur þú að börn mótmæli fullorðinni manneskju sem býður upp á fyrirbæn? Ég efast um það. Ekki gleyma því að hér er verið að tala um börn. Og að bjóða eigi börnunum upp á þessa þjónustu án vitundar foreldra. Það þykir mér siðferðislega mjög vafasamt.

 8. Gunnar Jóhannesson skrifar:

  Ekki var ég að gera Birgi Baldurssyni upp skoðanir heldur aðeins að túlka málflutning hans. Sú túlkun fól ekki í sér staðhæfingu heldur miklu fremur spurningu. Ég sagði: “En ef …”

  Af hverju ætti fólk ekki að treysta því að ekki sé um trúarlega innrætingu að ræða? Ég spyr! Hvað veldur þessari tortryggni? Vinaleiðin hefur verið rækilega kynnt fyrir öllum sem eiga í hlut. Það ætti enginn að þurfa að velkjast í vafa um það hvað vinaleiðin snýst um. Skólastjórnendur sem og foreldrafundur samþykktu vinaleiðina. Það segir margt. Ekkert foreldri þeirra barna sem ganga í umrædda skóla ætti að vera sér ókunnugt um það hvað vinaleiðin er og hvað hún felur í sér. Hvert foreldri hefur að sjálfsögðu öll tækifæri til þess að ræða við barn sitt um vinaleiðina hvort sem til þess kemur að þjónustan sé þegin eða ekki. Enda þótt að einstaklingar séu guðlausir þá er engin ástæða til þess að véfengja fagleg vinnubrögð presta og djákna í viðleitni sinni við að styðja við æsku landsins né heldur er ástæða til þess að efast um heilindi þeirra og fyrirætlanir á þeim grundvelli einum að viðkomandi sé ekki sammála eða hafi aðrar skoðanir. Það er ekki verið að þvinga einn né neinn til nokkurs. Hér er um valfrjálsa þjónustu að ræða.

 9. Arnold Björnsson skrifar:

  Gunnar skrifar:

  Af hverju ætti fólk ekki að treysta því að ekki sé um trúarlega innrætingu að ræða?

  Vegna þess að skilgreiningin á hvað felst í “Vinaleið” er á mjög gráu svæði eins og lesa má hér. Hér að neðan er lýsing á því hvað ber fyrir augu í því rými sem þessi viðtöl fara fram í Varmárskóla og Lágafellsskóla:

  Faðir vor er í ramma á vegg og sjö boðorð voru í einlægni skrifuð á blátt blað. Auglýsingamiðar um fundartíma alls barnastarfs kirkjunnar í Lágafellssókn og Jesúmyndir eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að og geta fengið miða og mynd

  Og hér er skilgreiningin á hvað felst í Vinaleið

  Hlutverk djákna í skólum er m.a.:

  • djákni er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar
  • djákni veitir kristilega sálgæslu og stuðning
  • djákni er tengiliður milli skóla, heimila og kirkju
  • djákni hefur bæna- og helgistundir fyrir nemendur og starfsfólk skólanna bæði í skólunum og í kirkjum safnaðarins
  • djákni aðstoðar kennara og starfsfólk að taka á erfiðum málum og undirbúa þau.
  • djákni veitir áfallahjálp
  • djákni leiðbeinir inni í bekkjum s.s. um góðan bekkjaranda, góða siði tillitsemi, umburðarlyndi, ræðir við börnin um kristin gildi, lífið og dauðann, svarar spurningum sem upp koma við andlát aðstandenda, stöðvar einelti o.s.fr.
  • djákni aðstoðar kennara við sérstök verkefni í kristnum fræðum s.s. kynning á kirkjuhúsinu sjálfu og kirkjulegum munum.

  Með þessu móti og ýmsu öðru er djákni í VINALEIÐ tengiliður á milli uppeldi, menntunar og trúarlífs, tengiliður á milli heimili, skóla og kirkju.

  Ég ítreka að barninu býðst að fara í svona viðtal án vitneskju foreldra. Börn eru áhrifagjörn og veita ekki mikla mótstöðu.

  Ég get því miður ekki varist tortryggni eftir lestur greinar Þórdísar Ásgeirsdóttur.

 10. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:

  Takk fyrir svör, Halldór og Gunnar.
  Ég er hins vegar ekki ýkja hrifinn af innihaldi þeirra því þið farið í hringi kringum kjarna gagnrýninnar.

  Megin punktur gagnrýni minnar og margra fleiri er sú að trúarleg starfsemi, hvort sem hún kallast þjónusta eða trúboð, á ekki rétt á sér innan veggja ríkisrekinna skóla landsins. Þegar manneskja sem býður þjónustu sína í skóla er á vegum trúflokks er ekki hægt annað en að flokka þá þjónustu sem trúarlega, burt séð frá því hvert innihaldið er. Kærleikur, sálgæsla eða annað skiptir ekki máli í því sambandi. Siðmennt hefur (réttilega) verið neitað að kynna Borgaralega fermingu í skólum landsins út frá þessum sömu rökum. Siðmennt er ekki trúfélag en félagið aðhyllist ákveðnar lífsskoðanir og er því ekki hlutlaus aðili. Börn í skólum landsins eiga rétt á því að fá hlutlausa fræðslu frá aðilum sem eru ekki á vegum neinna trú- eða lífsskoðunarfélaga. Þetta eru grundvallar mannréttindi barna um allan heim og samþykkt af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

  Ágætu prestar og djáknar! Reynið að skilja þetta og setja ykkur í spor annarra. Ykkur dugir ekki að vera með góðar meiningar. Þið þurfið, rétt eins og allir aðrir, að halda starfsemi ykkar á réttum vettvangi. Lifið og lærið!
  kveðja
  Svanur Sigurbjörnsson

 11. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:

  Í grein sinni segir Halldór

  “Í annan stað hefur kirkjan ávallt lagt áherslu á fræðslu um trúarsannindin. Með tíð og tíma varð sú áhersla upphafið að fyrstu háskólum Evrópu, og lærdómi hér á landi á þjóðveldisöld og síðar. Fræðslan var rík hjá siðbreytingarmönnum og allar götur síðan með þeim árangri að Íslendingar voru flestir læsir og skrifandi á síðustu öldum. Rætur íslensks skólastarfs eru þannig að finna í fræðsluhefð kirkjunnar.”

  Þetta er ótrúlegur málflutningur. Það skiptir ekki máli hver kenndi hverjum síðustu aldir í umræðunni um trúarlegt starf skólum í dag. “..fræðslu um trúarsannindin”. Hvílíkt orð! Þetta er akkúrat það sem maður vill ekki að komi fyrir í grunnskólum landsins, þ.e. að einhver segist ætla að kenna þeim um “trúarsannindin”. Kristin trú eru bara sönn þeim sem á þau trúa og hafa yfirgefið rökhugsun (sbr orð félaga þíns Gunnars Jóh) sína að hluta til að svo megi verða. Sagan réttlætir ekki trúarlegt starf í skólum. Börn eiga að vera í friði frá trúaráhrifum innan skólanna. Þess utan geta trúfélögin hamast við að boða sínar skoðanir.

 12. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Í framhaldi af umræðunni hér að framan er ástæða til að geta þess að nú er hægt að nálgast upplýsingar um Vinaleiðina og þær siðareglur sem um verkefnið gilda á vef kirkjunnar. Þar segir meðal annars:

  • Ávallt skal kynna Vinaleiðina fyrir foreldrum/forráðamönnum barna. Þeir veiti samþykki sitt fyrir því að börnin séu frjáls að leita stuðnings Vinaleiðarinnar.
  • Vinaleiðin er þjónusta af hálfu Þjóðkirkjunnar við skólabörn, en ávallt á forsendum skólans (sbr. http://kirkjan.is/biskupsstofa/?stefnumal/kirkja_og_skoli ) og að höfðu samráði við foreldra/forráðamenn.
  • Vinaleiðin er ekki trúarleg boðun, enda þótt trúarleg efni geti eðlilega borið á góma í sálgæsluviðtölum. Slík umræða er þó ávallt að frumkvæði barns eða foreldris/forráðamanns og út frá eigin lífsviðhorfi þess.
 13. Sigurður Hólm Gunnarsson skrifar:

  Ég geri fastlega ráð fyrir því að þú meinir að siðareglur hafi verið skáldaðar upp í kjölfar gagnrýni á Vinaleiðina.

  1.
  Í nýju siðareglunum segir:

  “Ávallt skal kynna Vinaleiðina fyrir foreldrum/forráðamönnum barna. Þeir veiti samþykki sitt fyrir því að börnin séu frjáls að leita stuðnings Vinaleiðarinnar.”

  Í skilgreiningu á Vinaleið á sömu vefsíðu Þjóðkirkjunnar stendur skýrum stöfum:

  “ekki þarf leyfi foreldra til að nemandi komi í sálgæsluviðtal.”

  Ég endurtek EKKI ÞARF LEYFI FORELDRA. Kallast þetta ekki að segja ósatt?

  2.
  Í nýju siðareglunum segir:

  “Vinaleiðin er ekki trúarleg boðun, enda þótt trúarleg efni geti eðlilega borið á góma í sálgæsluviðtölum. Slík umræða er þó ávallt að frumkvæði barns eða foreldris/forráðamanns og út frá eigin lífsviðhorfi þess.”

  Eins og áður eru þessar siðareglur í andstöðu við skilgreiningar á sömu síðu um Vinaleið:

  “Auglýsingamiðar um fundartíma alls barnastarfs kirkjunnar í Lágafellssókn og Jesúmyndir eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að og geta fengið miða og mynd.”

  Þetta er eins og að segja: “Pólitískur áróður fer ekki fram á skrifstofu skólans, EN myndir af frambjóðendum Framsóknarflokksins og auglýsingar um fundi flokksins í hverfinu eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að og geta fengið miða og mynd.”

  Á sömu síðu segir:

  “HLUTVERK djákna í skólum er m.a.:
  djákni er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar
  djákni veitir kristilega sálgæslu og stuðning”

  og kristileg sálgæsla er samkvæmt biskupsritara:

  “Markmið sálgæslunnar er ekki hvað síst sjáanlegt í í skriftum hjá prestinum sem boðar fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni. Þar er lagður grunnur að endurnýjun í lífi einstaklingsins er leiðir til betra lífs, sátt við Guð og heim.”

  “Sálgæsla er það að veita umhyggju, stuðning, hlustun, skilning, á kristnum forsendum.”

  “Sálgæslan er ein af meginstoðum kirkjulífsins, sá andi sem svífur yfir vötnunum og hefur áhrif bæði á tilbeiðslu, prédikun, boðun og fræðslu. Hún hefur það víðtæka markmið að veita manneskju leiðsögn á vegi trúarþroska og trúarstyrkingar, í ljósi sögu manneskjunnar og á lífsgöngu hennar, sérstaklega hvað varðar spurninguna um tilgang lífs og dauða, spurningar er snerta innstu þræði mannlífsins.”

  “Í kristinni sálgæslu er umfram allt verið að auka sem mest tengingu við grunn kristinnar trúar, vísa í táknmál trúarinnar, og ekki hvað síst með skírskotun í hjálpræðissöguna, til lífs, dauða og upprisu Krists.”

  Er hægt að álykta annað en að nýskáldaðar siðareglur séu annað en helberar lygar?

  Að lokum vil ég vitna í ágætan guðfræðing sem skrifar á vefinn annall.is. Hann hittir naglann á höfuðið þegar hann segir:

  “Um þessar mundir er mikið rætt á vefnum um Vinaleiðina. Mér finnst mikilvægt að koma að smá innleggi um orðanotkun. Hér er notast við hugtök eins og viðtöl, spjall, samtöl, sálgæslu, meðferð, meðferðarviðtöl og sálgæsluviðtöl. Ég geri ekki kröfu um að áhugafólk um samskipti hafi muninn á öllu þessu á hreinu. Ekki hef ég það. Hitt er ljóst að það er mjög óæskilegt að sérfræðingar smætti hugtök eins og sálgæsla til þess að styrkja röksemdafærslu sína.

  Sálgæsla í kristnum skilningi án virkrar nærveru Guðs (í huga þess sem veitir þjónustuna) verður aldrei annað en viðtal eða spjall. Nærvera Guðs hefur að sjálfsögðu áhrif á andrúm samtalsins. Þessi áhrif eru þeim mun sterkari ef sálgætirinn hefur verið kallaður af kirkjunni til samtalsins og köllunin er viðurkennd með fyrirbæn og handayfirlagningu áður en lagt er af stað. Með því að smætta Guð og nærveru hans til að ná yfirhöndinni í rökræðum er að mínu mati verið að gera lítið úr Guði ásamt því að lítilsvirða köllun og vígslu sálgætanna.”

  Ég vil hvetja ykkur, starfsmenn Þjóðkirkjunnar, til að vera heiðarlegir í ykkar málflutningi ykkar. Ekki skálda reglur og búa til staðreyndir í þeim eina tilgangi að reyna ná yfirhöndinni í rökræðum. Sannleikurinn er sagna bestur auk þess sem Guð ykkar á að hafa sagt: “Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.”

  Kær kveðja,
  Sigurður Hólm Gunnarsson
  Varaformaður Siðmenntar

 14. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég treysti lesendum þessa pistils og þessarar umræðu fyllilega til að leggja sjálfstætt mat á heimildirnar.

  Skjalið sem ég vitnaði til í ummælum mínum hér að ofan hefur að geyma þær siðareglur sem eru í gildi um Vinaleiðina í dag og er tilraun til að skýra forsendur þess verkefnis. Að hengja sig í aðrar heimildir og hunsa þessa verður einungis skilið sem tilraun til að afvegaleiða umræðuna.

  Erindin sem Sigurður vitnar til eru góðra gjalda verð, en hvorugt þeirra fjallar beint um Vinaleiðina eins og hún er í dag. Síðan þau voru flutt hefur t.d. verið samþykkt fræðslustefna kirkjunnar og lögð fram skýrsla um kirkju og skóla. Í þeim kemur fram afstaða kirkjunnar til þeirra samskipta og tekin eru af öll tvímæli um það að kirkjan lítur ekki á skólann sem vettvang trúboðs.

  Að kalla siðareglur skáldaðar er í besta falli misheppnaður brandari, í versta falli ósvífni. Slíkur málflutningur segir meira um Siðmennt en Þjóðkirkjuna.

 15. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Skjalið sem ég vitnaði til í ummælum mínum hér að ofan hefur að geyma þær siðareglur sem eru í gildi um Vinaleiðina í dag og er tilraun til að skýra forsendur þess verkefnis.

  Hvenær var þetta skjal búið til?

 16. Sigurður Hólm Gunnarsson skrifar:

  Skjalið sem þú vitnar til er viðbragð við málflutningi Siðmenntar og annarra og gengur þvert á það sem stendur í öðrum heimildum kirkjunnar og skólanna. Í þeim kynningarplöggum sem eru á netinu hjá þeim skólum þar sem Vinaleiðin er í boði er talað um kristilega kærleiksþjónustu.

  Vinaleiðin er alls staðar skilgreind sem kærleiksþjónusta og kærleiksþjónusta er skilgreind af Þjóðkirkjunni sem virkt trúarstarf. Þegar við hjá Siðmennt og aðrir hafa bent á þetta þá er fullyrt að þetta sé ekki trúarstarf. Þegar við bendum svo aftur og aftur á ykkar eigin heimildir þá er göldruð fram einhver yfirlýsing sem segir að Vinaleiðin sé samt ekki trúboð. Lýsing á starfseminni, orð djákna, orð guðfræðinga, orð starfsmanna kirkjunnar, orð starfsmanna skóla, orð foreldra og upplýsingar á vefnum lýsa samt engu nema trúarstarfsemi. Einhver ein yfirlýsing í áróðursstríði skiptir engu máli.

  Eins og einn guðfræðingurinn benti réttilega á er verið að “…smætta Guð og nærveru hans til að ná yfirhöndinni í rökræðum er að mínu mati verið að gera lítið úr Guði ásamt því að lítilsvirða köllun og vígslu sálgætanna.”

 17. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Erindin sem Sigurður vitnar til eru góðra gjalda verð, en hvorugt þeirra fjallar beint um Vinaleiðina eins og hún er í dag. Síðan þau voru flutt hefur t.d. verið samþykkt fræðslustefna kirkjunnar og lögð fram skýrsla um kirkju og skóla.

  Til hvaða tilvitnana ertu að tala um þegar þú talar um “erindin sem Sigurður vitnar til”?

 18. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Hjalti: Í færslu sinni vísar Sigurður til tveggja erinda sem flutt voru fyrir nokkru, annars vegar erindis Þorvalds Karls Helgasonar og hins vegar erinda Þórdísar Ásgeirsdóttur. Það eru þau sem ég á við.

  Tilvitnanir í Þórdísi kynnir Sigurður með orðunum „skilgreiningar á vinaleið …“. Þær hefjast á þessum orðum: „ekki þarf …“, „auglýsingamiðar um fundartíma …“, „Hlutverk djákna í skólum …“. Eins og ég nefndi í ummælum mínum að framan þá eru þetta tilvitnanir í erindi sem var flutt árið 2003 og lýsti Vinaleiðinni í þeim tiltekna skóla á þeim tíma.

  Tilvitnanir í Þorvald Karl kynnir Sigurður sérstaklega og þú ættir ekki að vera í vandræðum með að leita þær uppi.

  En ég ítreka það sem ég sagði að framan:

  Erindin eru bæði góðra gjalda verð, en hvorugt þeirra fjallar beint um Vinaleiðina eins og hún er í dag. Síðan þau voru flutt hefur t.d. verið samþykkt fræðslustefna kirkjunnar og lögð fram skýrsla um kirkju og skóla. Í þeim kemur fram afstaða kirkjunnar til þeirra samskipta og tekin eru af öll tvímæli um það að kirkjan lítur ekki á skólann sem vettvang trúboðs.

  Þetta er að mínu mati það sem mestu máli skiptir.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6377.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar