Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Sigur skynseminnar

Rodney Stark er prófessor í félagsvísindum og höfundur umdeildrar bókar sem út kom á sl. ári: Sigur skynseminnar - Hvernig kristindómurinn leiddi til frelsis, kapítalisma og framfara Vesturlanda. Bókin er afar fróðleg og læsileg og sannfærandi. Höfundur staðhæfir með sannfærandi rökum að grundvöllur yfirburða Vesturlanda í tækni, menningu, viðskiptum og stjórnmálum í samanburði við aðra menningarheima, sé að kristindómurinn lagði áherslu á skynsemi mannsins. Hann heldur því fram að það sé ekkert nema sögufölsun að halda því fram að kirkja og kristni hafi staðið gegn framförum.

Kristindómurinn er oft ásakaður fyrir að hafa staðið gegn þróun þjóðfélagsins í tímans rás. Goðsögnin um hinar myrku miðaldir lifir góðu lífi í kennslubókum og almennri orðræðu. Margir Íslendingar eru sannfærðir um að þá fyrst hafi heimurinn kynnst tækni framförum og þróun í vísindum, listum og þekkingu, þegar kirkjan var kveðin í kútinn af veraldarhyggjunni og allra handa andkristnum hreyfingum og hugmyndafræði. Það er hinn algildi túlkunarlykill að sögunni sem beitt er hér á Vesturlöndum, að orsök frelsis og framfara í þessum heimshluta sé að kirkju og trú hafi verið vikið til hliðar, afhelgunin sé rót frelsis og tækniframfara. Þessu andmælir Rodney Stark sterklega í bók sinni. Hann leiðir sterk rök gegn því að framfarir vestrænnar siðmenningar hafi fyrst hafist með því er Vesturlönd gerðu upp við kristindóminn.

Stark segir að það sem hafi komið vestrænum landkönnuðum á 17. öld mest á óvart er þeir kynntust menningu Suður Ameríku, Kína og Indlandi, og eins Islam, var tæknilegir yfirburðir þeirra sjálfra. Margir menningarheima lögðu stund á alkemiu, en hvers vegna var það aðeins á Vesturlöndum að sú list þróaðist í efnafræði? Hvers vegna var Evrópa öldum saman eina menningin sem átti gleraugu, reykháfa, áreiðanlegar klukkur, nótnaskrift og skipulagðan landbúnað? Stark heldur því fram að ástæðan sé heimssýn kristninnar og hvaða augum hún lítur skynsemina og getu mannsins til að hafa áhrif á umhverfi sitt og heim.

Kristindómurinn þróaði notkun skynseminnar, og því voru Evrópumenn færir um að þróa tækni, markaðsviðskipti, stjórnkerfi og hugtakið einstaklingsfrelsi, sem aðrir heimshlutar þekktu ekki á miðöldum.

Það var kirkjan sem stofnsetti háskólana, og margir af merkustu vísindamönnum fortíðar voru trúmenn, og jafnvel líka prestar. Hið merkasta við niðurstöður Stark er að hann heldur fram miðlægri stöðu skynseminnar í kristindómnum, og að hann sýnir fram á að það er trúarbrögðin, það er kristindómurinn, en ekki upplýsingin og síðar afhelgunin, sem er megin drifkrafturinn í evrópskri menningu.

Hin mikla áhersla á skynsemina á rætur að rekja til hinnar kristnu guðsmyndar. Trú kristindómsins á persónulegan Guð, skaparann, lauk upp fyrir hugmyndum um að heimurinn væri aðgengilegur skynsemi manns og rökhugsun. „Þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum“ segir Páll postuli. Í því viðhorfi er fólginn hvati að sannleiksleit sem hefur haft áhrif ekki aðeins á trúarhugsun heldur líka afstöðu til náttúrunnar og lögmála hennar. Stark heldur því fram að það sé einmitt hin ópersónulega guðsmynd t.d. Taoisma og Buddisma sem sé meginástæða þess að þessi trúarbrögð þróuðu ekki vísindi á sama hátt og Evrópa.

Kristin trú gengur út frá því að Guð hafi tilgang með heiminn og að maðurinn geti leitað og fundið merkingu og tilgang lífsins. Guð gæðir manninn skynsemi - til viðbótar við hæfileikann að trúa - sem er tæki til að skilja betur reglu Guðs, tilgang og vilja. Stark sýnir fram á hvernig áherslan á skynsemina hafi líka haft áhrif á afstöðu til ritningarinnar sem verkaði gegn hvers konar bókstafshyggju. Andstætt Gyðingdómi og Islam, sem álíta textann lögmál, sem ekki verði hnikað við, álítur kristin trú ritninguna opna fyrir túlkun. Maðurinn er hvattur til framfara, að eflast og þroskast í þekkingu, visku og skilningi gagnvart leyndardómum lífsins. Greinilega má sjá hvernig hugsuðir eins og Ágústínus og Tomas Aquinas nota skynsemina er þeir brjóta orðið til mergjar. Ágústínus sagði í bók sinni „Borg Guðs“:

Ákveðin atriði sem varða kenningarnar um hjálpræðið sem við getum enn ekki skilið…munu um síðir ljúkast upp fyrir okkur.

Ágústínus gladdist yfir framþróun guðfræðinnar, sem og framförum í jarðneskum efnum og efnislegum gæðum: „Hvílíkar undursamlegar framfarir hafa ekki áunnist fyrir mannlega iðju og atorku í listvefnaði og byggingarlist, í landbúnaði og siglingafræðum!“ og svo heldur hann áfram að dásama stærðfræðikunnáttu, nákvæmari mælingar og tölfræði, og svo framvegis.

Grundvallarhugsun í kristinni guðfræði allt frá frumbernsku hennar er að Guðs orð og sannleikurinn verði ekki einasta skilinn úr frá forsendum trúarinnar, heldur þurfi líka að notfæra sér skynsemina. Af sömu ástæðu þróast kennisetningar kristninnar og eru settar fram í aldanna rás. Það er þessi víxlverkan trúar og skynsemi sem hefur frjóvgað vestræna menningu svo ríkulega.

Stark sýnir fram á að hugtakið „hinar myrku miðaldir“ eigi hreint ekki rétt á sér. Það standist ekki í ljósi staðreynda um framfarir í viðskiptum og landbúnaði, í byggingalist og stjórnarfari. Þar hafi Evrópa miðaldanna tekið öðrum heimshlutum fram. Kirkjan, og ekki síst klaustrin hafi leikið þar lykilhlutverk. Ástæðuna sé að finna í hugmyndagrunni og heimsmynd kristninnar. Sjá má t.d. rót efnahagslegra framfara í áherslu kristninnar á eignarréttinn og skjalfesting hans, og í því að unnt var að setja land að veði gagnvart skuldbindingum til langs tíma.

Áhersla Starks á að það sé einmitt kristindómurinn sem hafi valdið mestum framförum í sögu mannsandans er æði ögrandi andmæli gegn hinum afhelgaða hugsunarhætti samtímans. Þar er það viðtekin kredda að kirkjan og kristnin séu megin andstæðingar framfaranna og dragbítar þróunar vísinda og menningar. Stark sýnir fram á að það sé ekki aðeins rangt heldur beinlínis sögufölsun. Og það að slík ranghugsun sé ráðandi meðal okkar sé í raun afturför evrópskrar menningar, sjálfsþekkingar og þróunar.

Ég mæli eindregið með þessari áhugaverðu, hressilegu og vekjandi bók.

Rodney Stark: The Victory of Reason. How Christianity Led to Freedom, Capitalism and Western Success, Random House, New York, 2005.

Um höfundinn12 viðbrögð við “Sigur skynseminnar”

 1. Torfi Stefánsson skrifar:

  Já, ég gæti trúað að þetta sé umdeild bók. Fullyrðingin í undirtitlinum einum nægir til að menn leggi varann við: Hvernig kristindómurinn leiddi til frelsis, kapítalisma og framfara Vesturlanda.

  Nú líta mjög margir svo á að vestræna frelsishugtakið, t.d. með sinni ofuráherslu á einstaklingsfrelsi, sé ekkert til að hreykja sér af enda höfum við mörg hræðileg dæmi um útflutning þess til þriðja heimsins. Þá er kapitalisminn einnig mjög umdeilt fyrirbæri og einnig framfaratrú skynsemishyggjunnar og þar með Vesturlanda.
  Fullyrðingin um yfirburði “Vesturlanda í tækni, menningu, viðskiptum og stjórnmálum í samanburði við aðra menningarheima,” er einnig vægast sagt hæpin. Hér sjáum við mjög gott dæmi um rationalistíska heimsvaldastefnu sem ég tel vera mjög varhugavert af kristinni kirkju að taka undir.
  Það er gleðilegt að kirkjan eigi bandamenn sem víðast en það er ekki sama á hvaða forsendum, né hvernig slíkur stuðningur er settur fram.
  Í dag er þörf á virðingu og skilningi milli trúarbragða, ekki einhliða yfirlýsingu um yfirburði einna slíkra yfir öðrum.

 2. Steindór J. Erlngsson skrifar:

  Ég hef ekki lesið bókina sem hér er fjallað um og leit á google scholar sýnir að enn hafa ekki birst ítarlegir fræðilegir ritdómar um bókina. Í júní birtist stuttur ritdómur í National Catholic Reporter eftir Darrell nokkurn Turner, sem sagður er skrifa trúarbragðahluta Encyclopedia Britannica Book of the Year. Í ljósi þess að hér er um kristið (kaþólskt) blað að ræða hefði mátt ætla að viðbrögðin þar á bæ endurspegluðu gleði herra Karls Sigurbjörnssonar með innihald bókarinnar. Reyndin er nú hins vegar allt önnur. Turner endar þennan neikvæða ritdóm með því að benda á að The Victory of Reason innihaldi „mikið af gagnlegum upplýsingum ef maður greinir á milli staðreynda Dr. Starks og ályktananna sem hann dregur af þeim“.

  Karl hefur það eftir Stark að „það sem hafi komið vestrænum landkönnuðum á 17. öld mest á óvart er þeir kynntust menningu Suður Ameríku, Kína og Indlandi, og eins Islam, var tæknilegir yfirburðir þeirra sjálfra.“ Af hverju er ekki minnst á vísinda- og tækniafrek Forn-Egypta og Babýlóníumanna, sem fundu upp ritmálið, og forn-Grikkja? Menning þeirra byggði á fjölgyðistrú og hnignun þessara menningarsvæða sýnir berlega þá sögulegu staðreynd að menningarsvæði rísa og hníga. Hvað með þá staðreynd að Endurreisnin á m.a. rætur sínar í þeirri sögulegu staðreynd að lærdómur og vísindi forn-Grikkja barst til Evrópu á síðmiðöldum frá hinu íslamska menningarsvæði? (íslamskir fræði- og vísindamenn komu í veg fyrir að lærdómur forn-Grikkjanna tapaðist að eilífu).

  Mér virðist Karl falla í sömu gryfju og þeir sem hann og Stark gagnrýna, þ.e. að alhæfa allt of mikið, þegar sagt er að Stark sýni „fram á að það er[u] trúarbrögðin, það er kristindómurinn, en ekki upplýsingin og síðar afhelgunin, sem er megin drifkrafturinn í evrópskri menningu“. Hvað með orð hins heimsþekkta breska guðfræðings Alister McGrath að „í sínum nútímabúningi er trúleysið án efa meðal mestu afreka mannshugans“. Þessi orð lét hann falla í bókinni The Twillight of Atheism (2005) þar sem hann rekur sögu trúleysishreyfingarinnar frá upphafi hennar í frönsku byltingunni fram á okkar dag. Ein megin ástæða þess að trúleysishreyfingin komst á flug er að mati McGraths sú að „ef Guð er ekki til, þá er mannsandanum engin takmörk sett“ og „ekki þarf að virða og viðhalda guðlega ákvarðaðri félags- og stjórnmálaskipan“. Með því að kippa Guði út úr samfélagsumræðunni „var allt hægt, þar á meðal stofnun nýs samfélags sem frelsað var undan oki einræðis og frönsku kirkjunnar“. Trúleysishreyfingin er því nátengd sögu málfrelsis og lýðræðis í vestrænni menningu eins og berlega má sjá í Frelsinu (1859) eftir John Stuart Mill. Sama má segja um þróunarkenninguna.

  Rætur þróunarkenningarinnar á síðari hluta 18. aldar lágu í þroskunarfræðilegum hugmyndum (epigenesis: sú kenning að frjóvgað egg þroskist í fóstur og síðan fullþroskaðan einstakling) sem gengu gegn ráðandi hugmyndum (preformation: sú kenning að fullmótað dýr eða planta í smækkaðri mynd sé í kynfrumu), er kirkjan studdi eindregið. Þessar deilur voru ekki bara vísindalegs eðlis því þær snérust líka um pólitík. Bandaríski sagnfræðingurinn Peter Hanns Reill fjallar ítarlega um þetta í bókinni Vitalizing Nature in the Enlightenment (2006). Hann segir preformation kenninguna hafa stutt hugmynd vélhyggjunnar (mechanism) um Guð sem hinn æðsta arkitekt sem gerir ekki mistök. Í þessu ljósi, heldur Reill áfram, er ekki að undra að klerkar allra helstu kristnu safnaða í Evrópu studdu kenninguna. Reill segir þá staðreynd að kenninguna hafi auðveldlega mátt snúa upp í trúarlegan boðskap hafi sannfært marga um að meðtaka preformation.

  Hugmyndin um hina guðdómlegu preformation var einnig aðlöguð að hinum félagslega og stjórnmálalega veruleika … Með því að hafna hugmyndinni um raunverulega breytingu, gaf preformation til kynna að pólitísk og félagsleg kerfi sem byggðu á aðgreiningu við fæðingu væru samsvarandi stigskiptingu náttúrunnar. Hver sem ásetningur þeirra var, smíðuðu náttúrulegu vélhyggjuheimspekingarnir kraftmikið tungumál sem ‘verjendur’ (apologists) gátu tekið ófrjálsri hendi til þess að réttlæta einkarétt konunga og síð-17. aldar trúarleiðtoga á valdinu” (bls 59-60).

  Þessi óréttláta misskiptings valds og auðs, þar sem kirkjan og konungarnir fengu nánast allt, varð síðan kveikjan að Frönsku byltingunni 1789, sem seint verður kennd við hugmyndafræði kristninnar á þeim tíma.

  Í niðurlagi umfjöllunar sinnar segir Karl hina viðteknu skoðun þá „að kirkjan og kristnin séu megin andstæðingar framfaranna og dragbítar þróunar vísinda og menningar. Stark sýnir fram á að það sé ekki aðeins rangt heldur beinlínis sögufölsun.“ Ég tel mig nú hafa sýnt fram á að kirkjan hafi á stundum staðið í vegi fyrir því sem við köllum framfarir. Kirkjan sem stofnun var Þrándur í götu baráttu framsækinna trúmanna og trúleysingja fyrir lýðræði og málfrelsi, sem guðlastákvæðið í lögum hér á landi ber enn vitni um. Það er hins vegar sögufölsun að halda því fram að raunvísindin og kirkjan hafi alltaf átt í stríði, þó dæmin sem ég týni til hér að ofan og mörg fleiri sýni að “stríðsátök” áttu sér stað. Þetta geri ég að sérstöku umfjöllunarefni í greininni „Það getur verið gaman að ræða við gáfaðan heiðingja“: Samskipti trúarbragða og raunvísinda í tímans rás“, þar sem ég legg áherslu á margbreytileika sögunnar þegar samskipti trúar og raunvísinda eru annars vegar.

  Steindór J. Erlingsson
  http://www.raunvis.hi.is/~steindor/

 3. Birgir Baldursson skrifar:

  Ég tel mig nú hafa sýnt fram á að kirkjan hafi á stundum staðið í vegi fyrir því sem við köllum framfarir. Kirkjan sem stofnun var Þrándur í götu baráttu framsækinna trúmanna og trúleysingja fyrir lýðræði og málfrelsi, sem guðlastákvæðið í lögum hér á landi ber enn vitni um.

  Í þessu samhengi mætti benda á bók Níelsar Dungals, Blekking og þekking.

 4. Skúli skrifar:

  Margbreytileiki er lykilorðið í þessu sambandi enda tímabilið langt, hugtökin flókin, gildismatið ólíkt og fjölmargir áhrifaþættir sem koma þar við sögu.

  Bók Dungals endurspeglar aðeins eina hlið á þessu og heimildarnotkunin er slík að ritið er hvorki gagnlegt til vísindabrúks né til alþýðufræðslu.

  Að mínu mati þá skiptir það máli fyrir það hvernig menning okkar hér í norðurkrika Vesturlanda hefur þróast, hvernig trúin vék fyrir veraldarhyggjunni á mikilvægum sviðum mannlífsins - í anda kenninga Lúthers.

  Ekki síður hitt hvernig samfélagsgerðin mótaðist m.t.t. Hústöflunnar þar sem innra skipulag var við lýði og friðarskeið tók við af innanlandsófriði miðalda. Og loks voru dómþingin í tengslum við sóknarkirkjur Norðurlanda þýðingarmikill farvegur samræðu og lýðræðislegrar uppbyggingar.

 5. Birgir Baldursson skrifar:

  Mér þykja það heldur ódýrar mótbárur við bók Dungals að vísa til þess að heimildanotkunin sé takmörkuð. Væri ekki vænlegra að gá að gæðum heimildanna í stað þess að einblína á fjölda þeirra?

 6. Matti skrifar:

  Alan Wolfe er ekki jafn hrifinn af bókinni og biskup.

 7. Óli Gneisti skrifar:

  Hið augljósa varðandi heimildanotkun Dungals er að hún er ekkert ólíkt því sem gekk og gerðist á hans tíma. Þar að auki er það ennþá þannig að bækur sem á Íslandi kallast “alþýðleg fræðirit” nefna yfirhöfuð ekki heimildir eða hafa kannski bara bókaskrá aftast með lista yfir bækur sem voru notaðar.

 8. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Steindór J. Erlingsson ræðir um Blekkingu og þekkingu og Níels Dungal í grein sinni „Það getur verið gaman að ræða við gáfaðan heiðingja“. Hann skrifar þar:

  Hvernig í ósköpunum gat læknir hér á landi um miðja síðustu öld viðað að sér öllu því efni sem þarf til þess að skrifa um allt þetta efni? Við þessari spurningu er einfalt svar því að undanskildum fimmta kaflanum var áðurnefnd bók bandaríska sagnfræðingsins Andrews Dicksons Whites, A History of the Warfare of Science with Theology in Christendom,[51] sem til er í frumútgáfu á Landsbókasafni-Háskólabókasafni, ein aðalheimild Níelsar.

  Og síðar segir hann:

  […] Þetta kemur glöggt fram hjá Andrew Dickson Whites, sem með A History of the Warfare of Science with Theology in Christendom var ekki að færa rök fyrir gildi guðlauss heims, eins og Níels Dungal hélt, heldur var bókin tæki Whites til þess að berjast gegn áhrifavaldi sértrúarhópa innan bandaríska háskólasamfélagsins.

  Það er erfitt að skilja þetta sem annað en áfellisdóm yfir heimildanotkun Níelsar Dungals.

 9. Matti skrifar:

  Bók Andrew Dickson Whites er ekki umdeild. Vissulega var hún skrifuð í ákveðnum deilum innan háskólasamfélagsins, en engan hef ég séð rökstyðja að bókin sé ekki góð og vel rökstudd. Ég hef meira að segja spurt sérstaklega út í þetta og fengið þau svör að bókin sé vönduð. Skil því ekki hví það ætti að vera áfellisdómur að styðjast við hana að stórum hluta. Svo ég endurorði, það eru gæði bókarinnar sem skipta máli, ekki ástæður þess að hún var skrifuð.

  Varðandi heimildirnar, þá er heimildaskrá bókarinnar hér, bls: 515, 516-517 , 518-519 .

  Fróðlegt væri að skoða ýmis “alþýðleg fræðirit” sem Þjóðkirkjan hefur gefið út síðustu hundrað árin og bera saman heimildanotkun.

 10. Steindór J. Erlingsson skrifar:

  Þegar rætt er um heimildanotkun Dunglas þá verðum við hafa í huga að hann eins og margir samtímamenn hans trúðu því að trú og raunvísindi hafi alltaf átt í stríði, þetta var almenn skoðun. Þessu til stuðnings var m.a. annars vísað í bók Whites. Enn er nokkuð algengt að bókin sé túlkuð sem áreiðanleg heimild og í greininni vísa ég í því sambandi til Britannicu, þar sem bókinni VAR á síðasta ári lýst sem annarri af “framúrskarandi” bókum Whites. Nú er búið að taka út þessa lýsingu á bókinni, loksins!. Það var ekki fyrr en með bók Moores The Post-Darwinian Controversies: A Study of the Protestant Struggle to Come to Terms with Darwin in Great Britain and America 1870–1900 (1979) sem hið “sanna” eðli bókar Whites kom í ljós, þó það megi greina með ítarlegum lestri á inngangi bókarinnar.

  Dungal hafði ekki bók Moores undir höndunum, ekki frekar en stjarneðlisfræðingurinn, er ég vísa í í greininni, sem árið 2003 notaði hann bók Whites til að draga þá ályktun að sagan “opinberi langt og stormasamt samband milli trúar og raunvísinda”. Stjarneðlisfræðingurinn gat hins vegar nálgast bókina og því er hægt að gagnrýna hann fyrir lélega heimilda notkun; nokkuð sem erfitt er að ásaka Dungal um.

  Ég ætla að enda þetta á því að vísa beint í Britannicu, en þar segir um White:

  In 1865 White’s dream of a state university for New York—based on liberal principles with reference to religion, coeducation, race, and the teaching of science unhampered by religious dogma—was realized when Cornell University was chartered.

  Eins og hér má sjá gerði White greinarmun á “religion” og “religious dogma”.

 11. Steindór J. Erlingsson skrifar:

  Ég skil ekki af hverju mönnum er svona umhugað um að verja bók Dungals. Er það kannski af því hann er í “rétta” liðinu? Bókin var skrifuð fyrir rúmum fimmtíu árum (og styðst við enn eldri heimildir) og er barn síns tíma. Sagan og skilningur okkar á henni breytist sem betur fer með auknum rannsóknum. Á sama hátt og við styðjumst ekki lengur við 50 ára gamlar bækur um sögu Íslands er ekki heillvænlegt að ríghalda í bók Dungals, því innihald hennar er EKKI í samræmi við það sem best er vitað í dag.

 12. Óli Gneisti skrifar:

  Munurinn á bókum um Íslandssögu og bók Dungals er augljós, Blekking og þekking er sú eina sinnar tegundar. Það er enginn að halda því fram að það væri ekki hægt að skrifa betri bók um efnið í dag en það hefur bara ekki verið gert, allavega ekki íslensku. En það er alveg tilefni til, með sérköflum um það hvernig íslenska kirkjan hegðaði sér.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7730.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar