Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bernharður Guðmundsson

Og vonarneistinn varð veruleiki!

Grænn akurinn bylgjaðist í golunni og litrík blómin brostu við okkur , glæsilegur fjallahringurinn umvafði gróskuna og glaðir sólargeislar lýstu og ljómuðu. Þetta var stórfalleg sjón – en jafnframt skelfileg.

Við vorum í Kólumbíu, uppi í fjöllunum norðan við höfuðborgina Bogota. Akurinn fagri nærði kókaplöntuna sem ber blöðin sem fíkniefnið kókaín er unnið úr. Þessi mikla fegurð vísaði fram til mannlegra þjáninga og niðurlægingar.

„Hversvegna í ósköpunum er leyft að rækta þessi eiturefni og það fyrir allra augum?“ spurði ég.

„Hvaða kosti hafa bændurnir“ spurði Manuelo, fyrirliði í þróunarstarfi kirkjunnar,

„Þeir hafa lært hjá okkur margskonar leiðir til að efla landbúnað sinn, rækta nytjajurtir og annast um kvikfénað. En þeir fá svo lágt fyrir afurðir sínar að þeir lifa ekki af því og gera þeir þó ekki miklar kröfur. Milliliðirnir mata hinsvegar krókinn og geta samt selt vörur þeirra á lægra verði en þarlendar vörur kosta. Til þess að komast af , verða þeir að rækta eiturefni sem þeir vita að veldur þjáningum og dauða. Skelfilegur vítahringur.“

• • •

Það var síðar þennan sama dag að Manuelo sagði mér frá vonarneistanum sem kannske leyndist handan við hornið.

Hann hafði heyrt um Havelaar starfið sem Hollendingar höfðu komið á laggir til þess að skapa markað á Vesturlöndum fyrir unnar vörur þróunarríkjanna. Það væri reyndar mörg ljón í vegi, flutningamál, umbúðir og aðlögun vörunnar að vestrænum stöðlum, fyrir nú utan fyrirstöðu kaupmangaranna.

Þetta var fyrir rúmum 10 árum og það er sannarlega gleðiefni að þessum þætti þróunarstarfanna , markaðssetningu og viðskiptatengslum , hefur fleygt fram. Undir yfirskriftinni „Fair Trade“ kemst nú mikið magn af margvíslegum afurðum að sunnan til neytenda á Vesturlöndum og tryggt er að framleiðendur fái eðlilega þóknun fyrir framleiðslu sína sem jafnframt tryggir þeim og fjölskyldum þeirra mannsæmandi líf.

Hjálparstarf kirkjunnar er að kynna þetta starf hérlendis, enda hafa kirkjurnar hvarvetna verið í fararbroddi til þess að efla „Fair Trade – sanngjörn viðskipti“ í löndum sínum.

Oft hófu kirkjurnar starfið með því að nota einvörðungu te og kaffi til nota í safnaðarstarfinu, síðar komu aðrar afurðir, hunang, sykur, sultur og korn og prestar urðu kröftugir talsmenn þessara viðskipta. Það er komið á sterkt og gott eftirlitskerfi með gæðum og sanngirni viðskiptanna. Víða í þróunarlöndunum hefur orðið gjörbreyting á afkomu fólksins þar sem Fair Trade – sanngjörn viðskipti hafa náð fótfestu.

• • •

Það er erfitt að þiggja langvarandi hjálp utanfrá, það dregur úr sjálfsvirðingu og sjálfstrausti þess er þiggur. Sanngjörn viðskipti – Fair Trade- eru einfaldlega hrein og klár viðskipti jafnstæðra aðila. Fátt gefur sjálfsvirðinguna jafn dyggilega til baka en að eiga aðild að slíkum viðskiptum. Fair Trade er hluti þróunarstarfsins, lokakaflinn,og einn sá mikilvægasti. Þar getum við öll átt aðild að með því að kynna og kaupa vörurnar. Það er okkar þróunarstarf.

Nýlega sá ég viðtal við Manuelo með mynd í fréttablaði tengt þróunarstörfum Lúterska heimssambandsins. Hann hefur gránað í vöngum og grennst enda verið undir miklu álagi um árabil.

Hann var úti við akur og ég þekkti fjallahringinn fyrir norðan Bogota. En nú óx þar ekki kókaplöntur heldur sykurreyr.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Og vonarneistinn varð veruleiki!”

 1. Carlos skrifar:

  Það er stundum hægt að kaupa ávexti og grænmeti merkt “Fair trade” í Melabúðinni við Hagamel í Reykjavík. Þegar ég ber t.d. mangóávöxt að nefi mér, finn ég að þar er ávöxtur sem er í betra ásigkomulagi en sumt af því sem er selt í gegnum stóru fyrirtækin. En hann er líka þrisvar sinnum dýrari en söluvara Chiquita eða annarra. Sama gildir um bananana … það er m.ö.o. munaður fyrir sum okkar að versla “fair”.

  Sem sýnir okkur hve öfugsnúið þetta allt er. Ef svarið við eiturlyfjaframleiðslu og neyslu er ekki fólgið í dýrri löggæslu og meðferðarúrræðum (að maður tali ekki um þjáningu einstaklinga) hér heimafyrir (oftast greitt með skattpeningum okkar), þá er þrefalt hærra verð á suðrænni matvöru ekki of mikið framlag heimilis til betri heims.

  Spurning um hvort maður fylgir Guði eða bankabókinni.

 2. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Frábær grein og tímabær áminning varðandi Fair trade.

 3. Ragnheiður Sverrrisdóttir skrifar:

  Loksins er „réttlát“ verslun komin á skrið hjá okkur. Nú er það á ábyrgð okkar „ríku“ að kaupa til að styrkja fátæka á sjálfbæran hátt. Þegar kaffi fór að berast hingað fyrir nokkrum árum fannst mér það vont en núna hafa gæðin aukist og það er bara fyrsta flokks kaffi. Langar til að geta fengið líka expresso en það kemur örugglega síðar. Í nýjast blaði Neytendasamtakanna var kynnig á „Réttlátri verslun“ svo þaðan er stuðningur.
  Ég hef séð þessar vörur í Nóatúni - ekki í Bónus. Hef ekki athugað Hagkaup en er sagt að þar séu þær til.
  Aukum réttláta viðskiptahætti og sýnum náunganum kærleika í verki!

 4. Bjarni Þór Bjarnason skrifar:

  Kærar þakkir fyrir frábæra grein. Orð í tíma töluð.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3881.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar