Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Leggjum perlu í sjóð minninga barnanna okkar

Þriggja ára drengur gekk inn í kirkjuna. Eftirvæntingin skein úr hverri hreyfingu og stór augun gleyptu í sig allt sem fyrir þau bar. Hann var að koma í sunnudagaskólann í fyrsta sinn. Kirkjuklukkurnar hringdu virðulega og hann leiddi pabba sinn. Þeir feðgarnir ætluðu að vera saman í sunnudagaskólanum í dag. Mamma átti að fá að sofa út.

Snáðinn settist við hlið föður síns á einn kirkjubekkinn og horfði beint upp í loftið. Það var hátt til lofts og risastór ljósakróna hékk niður úr loftinu. Strákurinn horfði allt í kringum sig. Hvar er Jesús? hvíslaði  hann. Pabbinn brosti í kampinn og reyndi að útskýra fyrir syni sínum að það sé ekki hægt að sjá Jesú. Strákurinn var þó ekki af baki dottinn með það.

Orgeltónarnir liðu virðulega um kirkjuna. Svona tónlist hafði hann aldrei áður heyrt. Hann spurði pabba sinn ótal spurninga um orgelið og organistann. Pabbinn reyndi að svara eftir bestu getu.

Nú kom presturinn inn. Strákurinn varð orðlaus eitt augnablik. –Er þetta Jesús? Spurði hann og augun galopnuðust. Pabbi hans brosti aftur og hvíslaði að honum að þetta væri presturinn. Guðsþjónustan hófst. Fullorðnir og börn tóku þátt í því sem fram fór en svo var börnunum boðið að koma upp að altarinu og mynda kór. Drengurinn ákvað að taka þátt í því. Hann var svo heppinn að kunna sönginn: -Jesús er besti vinur barnanna.

Nú áttu börnin að fara í annan sal. Flestir foreldrarnir fóru með þeim. Þar fengu strákurinn og pabbi hans að sjá skemmtilegt brúðuleikrit, hlusta á fallega Biblíusögu með myndum og syngja fjöruga hreyfisöngva. Svo kom trúðastelpa. Hún var fyndin. Hún botnaði ekkert í  söngnum sem þau höfðu verið að syngja en leiðbeinandinn í sunnudagskólanum útskýrði sönginn fyrir henni. Nú skildu allir sönginn mikið betur, bæði trúðastelpan og krakkarnir. Krakkarnir fengu svo alls konar hristur og hljóðfæri og máttu spila. Svo var sungið meira. Leiðbeinandinn sagði þeim sögu um lítið barn sem hafði verið að fikta í útvarpinu heima hjá sér og hækkað og lækkað rosalega mikið í því. Svo fékk leiðbeinandinn litla stelpu til að þykjast vera litla barnið og krakkarnir áttu að þykjast vera útvarpið. Þau sungu B-I-B-L-Í-A og litla barnið„hækkaði” og„lækkaði” í útvarpinu. Þetta endaði með rosalega háum tóni og allir fóru að skellihlæja.

Þegar stundinni var lokið fékk hvert barn fallega bók að gjöf. Bókin hét Brosbókin. Svo fengu allir límmiða til að líma í bókina og fallegan sunnudagaskólapoka til að geyma bókina í.

Fullorðna fólkið fékk sér kaffisopa en börnin fengu sér djús og kex og nú máttu þau lita myndir úr biblíusögunni sem þau höfðu fengið að heyra.
Það var gaman í sunnudagskólanum. –Kannski ég hætti bara í leikskólanum og byrji í sunnudagaskólanum, sagði snáðinn við pabba sinn. En pabbinn útskýrði fyrir honum að sunnudagskólinn væri bara á sunnudögum og þeir skyldu fara aftur næsta sunnudag.

Hvers vegna ætti ég, sem foreldri, að fara með barnið mitt í sunnudagaskólann?

Í sunnudagaskólanum fá börnin öðru vísi uppeldisleg áreiti en þau eru vön í daglega lífinu. Helgi kirkjunnar og hátíðlegur blær messunnar gefur barninu tækifæri til þess að útvíkka sjóndeildarhring sinn og upplifa sjálft sig í nýjum aðstæðum þar sem það er öruggt með forledrum sínum.

Í sunnudagaskólanum er ekki talað um flókna guðfræðilega hluti. Þar er áherslan fyrst og fremst lögð á það að kenna börnunum að elska náungann eins og sjálf sig. Þau læra fallegar bænir og skemmtilega söngva og barnasálma að ógleymdum biblíusögunum. Þar eru sögur af Jesú í öndvegi. Þar læra þau að leita styrks í trúnni þegar þau eru hrædd eða þegar þeim líður illa. Einnig læra þau að biðja fyrir öðrum leggja alla hluti í hendur Guðs. Þetta er gert á einfaldan hátt og lagt upp með reynsluheim barna á sunnudagaskólaaldri. Burt séð frá trúarlegu uppeldi öðlast börnin almenna þekkingu. Almenn þekking er m.a. fólgin í því að þekkja sögur Biblíunnar. Í sunnudagskólanum má heyra sögur eins og um miskunnsama Samverjann sem hjálpaði manni í vanda. Þar má líka heyra sögur eins um Örkina hans Nóa og margar fleiri sögur sem börnum finnast skemmtilegar. Í fræðsluefni sem lagt er til grundvallar í barnastarfi um allt land fá börnin að kynnast 33 völdum Biblíusögum.
Með því að fara með barnið sitt  í sunnudagaskólann er foreldri að skapa gæðastund með því og leggja perlu í sjóð minninga þess. Það er óumdeilanlegt að við foreldrar eigum stóran þátt í því að móta minningar barnanna okkar.
Margir af þeim sem eldri eru muna efitir helgi sunnudagsmorgnanna þegar messan hljómaði í útvarpinu og sunnudagssteikin kraumaði í ofninum. Hvaða minningar viljum við gefa börnunum okkar til að ylja sér við þegar þau vaxa úr grasi?

Sunnudagaskólar eru starfræktir í öllum kirkjum á höfuðborgasvæðinu. Hvernig væri að kíkja?

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3306.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar