Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Þar sem réttlæti og friður kyssast

Trú og togstreita
Trú og trúarbrögð hafa verið í kastljósi umfjöllunarinnar allra síðustu daga. Það er ekki nýtt að þegar trúmál tengjast átökum og deilum, ná þau athygli fjölmiðla og heimspressunnar allrar. Nú síðast hafa ummæli Benedikts páfa XVI um samband ofbeldis og trúar vakið sterk viðbrögð, ekki síst vegna þess að skilja mátti hann á þann veg að íslömsk trú tengdist sérstaklega þeim hætti að útbreiða trúna með valdi sverðsins.

Þá minntist heimsbyggðin í upphafi síðustu viku hryðjuverkaárásarinnar á New York og Pentagon sem átti sér stað fyrir fimm árum. Í framhaldi af því hefur verið rifjað upp hvernig átök og spenna ólíkra menningarheima hafa sett mark sitt á heimsmálin í auknum mæli á þeim tíma sem síðan er liðinn. Áhugaverðar spurningar hafa vaknað, eins og t.d. hvort stríð, eins og það stríð sem nú geisar í Írak í nafni breiðari baráttu gegn hryðjuverkum, og við Íslendingar studdum, geti nokkuð annað af sér en aukið ofbeldi, meiri spennu og dýpri tortryggni milli fólks. Er heimurinn öruggari í dag en fyrir fimm árum? Þeirri spurningu er alls ósvarað og ekki öruggt að svo sé – þrátt fyrir það fjármagn og mannauð sem hefur verið fórnað í nafni stríðs gegn hryðjuverkum. Eitthvað er brogað við þá aðferðarfræði sem iðkuð er í heiminum í dag til að vinna góðum hlutum, friði, öryggi og frelsi, brautargengi. Valdbeiting og stríðsrekstur leiðir kannski til þess að annar aðilinn hafi betur í átökum en fullnægir tæplega þeim markmiðum sem við viljum setja okkur í mannlegu samfélagi.

Tíðar fréttir og fréttaskýringar um trúarlega togstreitu vekja auðvitað upp þá tilfinningu að úr ranni trúarbragðanna sé einskis að vænta annars en vandræða og óróa. Fullyrðingar á borð við þá sem heyrðust í sumar um að ef engin trúarbrögð væru til, stæðu tvíburaturnarnir ennþá, bera vitni um að fólk rekur sig óþyrmilega á ofbeldisfullar birtingarmyndir trúarbragðanna og ræktar jafnvel með sér fælni í þeirra garð, hvaða nafni sem þau nefnast.

Geta trúarbrögðin stuðlað að sátt fremur en átökum?

Yrði heimurinn öruggari án trúarbragða? Nei, en þvert á móti myndi dýpri þekking á trúnni og innilegri guðrækni verja okkar gegn því að bregðast við ótta með örþrifaráðum. Þetta segir Raymond Helmick prófessor og jesúítaprestur, sem ásamt Rodney L. Petersen framkvæmdastjóra Guðfræðistofnunar í Boston, tekur þátt í ráðstefnunni Sáttaleið til friðar, sem Kjalarnessprófastsdæmi efnir til í Hafnarfjarðarkirkju næstkomandi föstudag.

Helmick hefur bent á að þar sem trúin sé stór og órjúfanlegur hluti sjálfsmyndar manneskjunnar, gæti þeirrar tilheigingar hjá valdhöfum að misnota trúarsamfélagið og nýta sterka samstöðu sem getur skapast á grundvelli trúarinnar, í þágu eigin hagsmuna. Þetta ferli sé hins vegar miklu fremur félagslegt en trúarlegt.

Þetta og margt fleira áhugavert er að finna í umfjöllun Helmicks og Petersen um tengsl trúar og átaka – og trúar og sátta – og sem við í íslensku þjóðkirkjunni fáum tækifæri til að kynnast á föstudaginn. Þeir Helmick og Petersen hafa hvor með sínum hætti þróað kenningar um hvernig nálgast megi ágreining þannig að raunveruleg sátt náist í kjölfar erfiðra deilna og átaka. Reynsla þeirra af sáttaferli og sáttamiðlun nær til að mynda yfir starf í Norður Írlandi, Landinu helga, löndum fyrrum Júgóslavíu, Austur Tímor og Suður Afríku.

Hugmyndafræði sáttaleiðarinnar virðist vera mikilvægari boðskapur í dag en nokkru sinni fyrr. Í henni sjáum við allt aðra nálgun á ágreining og átök heldur en sú valda- og hernaðarnálgun sem við sjáum svo oft hjá valdhöfum heimsins. Í heimsókn þeirra Helmicks og Petersen gefst frekara tækifæri til þess að kynnast því hvað felst í kenningum þeirra um félagslegt sáttaferli og hvernig fyrirgefning, sáttargerð og réttlæti geta leitt til heilbrigðs samfélags.

Lykilhugtök í félagslegu sáttaferli: fyrirgefning, sáttargjörð, réttlæti og samfélag

Á ráðstefnunni í Hafnarfjarðarkirkju verður skoðað nánar hvernig sáttaleiðin nálgast ágreining og hvaða leiðir hafa reynst vel til að skapa sátt í heilbrigðu samfélagi.

Félagslegt sáttaferli (social healing) hefst með því að auðkenna rætur þess ágreinings sem ríkir. Það getur krafist þess að við lærum að þekkja kerfisbundið ofríki þótt það snerti okkar eigin hagsmuni ekki beint – og að við lærum að greina viðhorf og venjur sem kynda undir ágreiningi í staðinn fyrir að höfða til þess sem sameinar þá sem deila. Ágreiningur er óhjákvæmilega fylgifiskur mannlegra samskipta og holdgerist í þeim einstaklingum og hópum sem takast á í hvert sinn. Ágreiningurinn leiðir í ljós einhvern mun, eitthvað sem er ólíkt með þeim sem deila. Hann getur stigmagnast og þróast í ólíkar áttir sem sumar leiða til hreins niðurrifs en sumar til aukins velfarnaðar og sátta. Sættir þýða ekki alltaf að ólíkir aðilar fallist á sama skilning þótt stundum sé það svo. Fjölbreytileiki getur hvoru tveggja auðgað samfélag og skapað ágreining innan þess. Félagslegt sáttaferli felur í sér að þróa jákvæð viðhorf og venjur sem vinna samfélaginu í hag.

Fyrirgefning er leið sem rýfur vítahring andúðar og ofbeldis sem heldur fólki föngnu í síendurteknu niðurrifi. Það að syrgja getur verið upphafspunktur sáttaferlis meðal einstaklinga og innan samfélags.

Sáttargjörð á sér stað þegar einstaklingar eða hópar fara að móta líf sitt í jákvæðum tengslum við aðrar manneskjur og aðra hópa. Hún fer í gang þegar fólk lærir að fást við það sem aðgreinir það frá hinum, þannig að það stuðli að nýjum skilningi og nýjum nálgunum á hvernig sambúð getur verið háttað.

Réttlæti sem reisir við og endurnýjar. Fyrirgefning getur leitt til sáttagjörðar sem leysir úr læðingi endurnýjað traust og réttláta gagnvirkni. Þetta er myndin sem er dregin upp í Davíðssálmi 85 um staðinn þar sem “elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast”. Samskipti sem byggja á slíku réttlæti geta endurnýjað og reist við. Að sættast við annað fólk en ekki bara umbera það, þýðir að báðir aðilar þurfa að breyta nálgun sinni til að sönn endurnýjun og viðreisn geti átt sér stað. Þetta er eitthvað sem fólk þarf að vera tilbúið til að gera.

Samfélag þróast í hlutfalli við samvinnu og sameiginlegan skilning. Samfélagið máir ekki út það sem greinir fólk að og gerir það ólíkt, en vex og þroskast samhliða því sem við viðurkennum ólíka reynslu fólks og hvernig hún getur auðgað það sem við eigum sameiginlega. Heilbrigt samfélag er gestrisið og opið. Mælikvarði þess hve umhugað samfélaginu er um hið félagslega sáttaferli liggur í því hvernig það býður utanaðkomandi aðila velkomna. Hvert samfélag býr yfir eigin þekkingu og leiðum til að læra nýja hluti, sem leiðir síðan til ákveðinna aðgerða. Trúarsamfélög sem hluti af hinu stærra samfélagi, geta verið sérstakur vettvangur sáttaferlisins þótt félagslegt niðurrif geti líka nærst innan þeirra. Kirkjan er ein gerð mannlegs samfélags. Þetta samfélag er grundvallað á fyrirgefningu vegna sáttagjörðar og verður trúverðugt í ljósi réttlætis sem reisir við og endurnýjar.

Hugmyndafræði sáttaleiðarinnar, sem hér hefur örlítið verið velt upp, en hægt verður að kynnast betur á ráðstefnunni í Hafnarfjarðarkirku á föstudaginn, snertir fyrst og fremst samskipti hópa sem þurfa að lifa saman en hafa ólíka sýn, ólíkar hefðir og jafnvel ólíka hagsmuni. Við getum auðvitað spurt okkur hvort eitthvað slíkt sé uppi á teningnum hér á Íslandinu okkar – eða hvort þessi veruleiki eigi bara við þau svæði sem ná athygli heimspressunnar og trúar- eða þjóðernishópar takast á. Hvernig er ágreiningi og fjölbreytileika mætt í samfélaginu okkar? Erum við tilbúin til að hlusta á sjónarmið minnihlutahópa og opna augun fyrir misrétti og valdbeitingu sem er e.t.v. stunduð í skjóli valds og fjölda? Getum við lært eitthvað af hugmyndafræði sáttaleiðarinnar, hvernig fyrirgefning, sáttargerð og réttlæti geta leitt til heilbrigðs samfélags?

Ráðstefnan “Sáttaleið til friðar” verður haldin í Hafnarfjarðarkirkju föstudaginn 22. september kl. 10-18.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Þar sem réttlæti og friður kyssast”

  1. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

    Það er fengur í umfjöllun af þessu tagi, einmitt núna og því lofsvert framtak af hálfu Kjalarnessprófastsdæmis, að efna til ráðstefnu um tengsl trúar og átaka – og trúar og sátta.

    Vonandi að þið náið eyrum fólks og fjölmiðlunga sem yfirleitt eru uppteknari af sundurlyndi en sátt…

  2. Gunnþór Þ.Ingason skrifar:

    Mjög góð kynning á umfjöllunarefni og aðferðum þeira merku manna sem fengist hafa við það vandasama verk að slökkva ófriðarelda og miðla sáttum og friði á átakasvæðum og verða fræðarar og fyrirlesarar á ráðstefnu um friðarstarf í H.f.kirkju. Hún gæti haft tímamótaþýðingu fyrir hlutverk Íslands í samskiptum þjóða sem vettvangur viðhorfa og verka sem miða að
    bættum heimi eins og leiðtogafundurinn var vissulega sem haldinn var hér á landi fyrir nú réttum 20 árum.Ráðstefnan vísar á þörfina fyrir slíkt hlutverk og hvetur til þess að við því sé tekið fagnandi í kjarki og trú.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4750.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar