Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Magnea Sverrisdóttir

Já, ég er djákni …

Það eru margar skemmtilegar athugasemdir sem koma upp þegar við djáknar erum spurðir út í starf okkar. Uppáhalds athugasemdin mín er þessi„Leiðinlegt að þú skulir ekki hafa ráðið við grískuna, þú sem hefðir getað orðið góður prestur? Ég er djákni, ekki prestur, ég hef enga köllun til að verða prestur og hef aldrei lært grísku.

Djáknar gegna þeirri þjónustu innan kirkjunnar sem almenningur og jafnvel kirkjunnar fólk á erfitt með að skilgreina. Ef við einföldum myndina þá getum við sagt að allir vita að organistinn spilar á orgelið, kirkjuvörðurinn sér um að viðhalda kirkjunni og taka á móti fólki og presturinn skírir, fermir, giftir, jarðar og prédikar. En hvað gerir djákninn?

Það væri þægilegt að geta svarað þessu í einu orði og málið væri þar með útkljáð kærleiksþjónusta eða díakonia. En hvað er kærleiksþjónusta?

Kærleiksþjónusta er þjónusta við fólk á grundvelli kærleikans. Eins og kemur fram í Stefnu og starfsáherslum þjóðkirkjunnar 2004-2010 ? Með kærleiksþjónustu er átt við það hlutverk kirkjunnar að bera umhyggju fyrir náunganum og koma honum til hjálpar ? Sú þjónusta getur verið í margvíslegu formi. Vegna margbreytileika þessarar þjónustu er erfitt að tengja hana einhverjum ákveðnum verkefnum. Það er ekki þar með sagt að starf djákna sé losaralegt á þeim forsendum að það sé illa skilgreint.

Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni, okkar hlutverk er ekki að þjóna fólki á einn ákveðinn hátt. Heldur á forsendum kærleikans grundvallað á kristinni trú sem þýðir að mæta fólki þar sem það er, alveg eins og prestar og annað fólk sem hefur starfað innan kirkjunnar og gert um aldir. Ef að myndin er einfölduð er sérstaða djákna sú að þeir hafa eingöngu þessari skyldu að gegna en eru ekki að auki í „hefðbundnari ?hlutverkum eins organistar eða prestar.

Það er alls ekki þar með sagt að prestar og annað starfsfólk kirkjunnar sinni ekki eða hafi ekki sinnt þessum málaflokki. En í annasömum prestaköllum veitir ekki af aukahöndum til kærleiksþjónustu, sérstaklega nú á tímum í þessu hraða samfélagi sem að við lifum í.

Fögnum því að kirkjan hafi þjóna á sínum snærum sem veita þjónustu sem er ekki niðurnegld heldur hafa tíma til þess að sitja við sjúkrabeð hins sjúka, heimsækja fólk og biðja með því, fara í ferðalög með eldri borgara og drekka djús með börnum og hlusta á hvað gerðist í skólanum í dag. Þetta virðast allt frekar hversdagsleg verkefni, það getur vel verið, en þau eru engu að síður mikilvæg þjónusta fyrir þá sem hennar njóta.

Kirkjan vill senda út vígða þjóna til þessarar þjónustu á grundvelli trúarinnar. Það eru djáknar. Djáknar koma með sína sérmenntun til starfa innan kirkjunnar og þar með víkka þá þjónustu sem fyrir hendi er. Djáknar sem eru t.d. hjúkrunarfræðingar og kennarar sem geta með sinni menntun og reynslu styrkt kirkjuna. Sem sagt djáknar eru ekki „wannabe“ prestar heldur eru þeir djáknar. En betur má ef duga skal ! Díakonía er endalaust verkefni og við þurfum öll að leggjast á eitt til að sinna henni.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Já, ég er djákni …”

 1. Vilhjálmur Goði skrifar:

  Þetta var gaman að lesa. Ég vissi þetta ekki og mér þykir þetta mjög athyglistvert og mér þykir gott að vita að þessi staða sé yfirleitt til.

  Þegar ég var lítill þá langaði mig til að stofnaður yrði her sem myndi senda “hermenn” til fjölskyldna þar sem væri eitthvað ójafnvægi í tilfinningamálum og öðrum praktískum málum sem tengist því að fjölskyldur geti lifað hamingjusömu lífi og þessir hermenn myndu slá upp herbúðum hjá fjölskyldum og væru þar þangað til “mission accomplished” sem væri kannski að fá eiginmanninn til að hætta að lemja konuna og allskonar mál.

  Mér fannst alveg kjörið að skylda fólk til að gegna svona herþjónustu á Íslandi í stað hefðbundins hernaðar. Og svo gæti líka fólk á öllum aldri tekið þátt.

  Djáknaembættið heyrist mér komast ansi nálægt þessum æskudraumi mínum.

  Gangi þér vel í báráttunni!

  kveðja
  Villi Goði

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5992.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar