Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Gílead

Þessi bók rauk strax upp metsölulistann í Bandaríkjunum og hefur farið sigurför, og er nú að koma út í nágrannalöndum okkar. Höfundur hefur unnið til verðlauna bókmenntagagnrýnenda og Pulitzer verðlaunanna. Vinsældir bókarinnar komið á óvart, því sjaldgæft er að bók sem rituð er út frá svo eindregnum kristnum og biblíulegum forsendum nýtur slíkrar athygli. Það er sannarlega þakkarefni, þessi bók á brýnt erindi.
Ég mæli eindregið með Gilead. Lesturinn er ekkert minna en trúarreynsla. Sjaldan hefur ég upplifað slíka skáldsögu. Undursamlegar persónulýsingar, áhrifarík frásögn, glögg innsýn í umbrotatíma og átök, og veru kirkjunnar og prestsþjónustunnar, og djúp og íhugul guðfræði.

Skáldsagan er sett upp sem bréf, langt bréf prests í smábæ, Gilead, í Iowa. Bærinn er reyndar nefndur eftir borg sem víða er minnst á í Biblíunni, sögusvið átaka, en þaðan kom líka smyrsl, læknislyf sem eftirsóknarvert var.

Séra John Ames ritar syni sínum, sjö ára. Sjálfur er presturinn kominn að áttræðu, og er veill fyrir hjarta. Hann veit sig eiga skammt eftir ólifað og er í mun að gera syni sínum grein fyrir sér, sögu sinni, uppruna og lífssýn. Presturinn missti ungur fyrri konu sína og dóttur, og bjó síðan einn, uns hann kvæntist á efri árum yngri konu. Bréfið er ritað á baksviði sárs saknaðar yfir þeim missi sem í vændum er, og mikillar gleði yfir þeirri ást og hamingju sem hann hefur notið með konu sinni og syni.

Presturinn segir sögu sína og föður síns og afa, sem báðir voru prestar.

Sögupersónurnar eru fjölbreyttar og lifandi. Afinn sem var kappsfullur baráttumaður fyrir réttindum svartra og barðist í þrælastríðinu, eld og brennisteinsklerkur sem sveiflaði orðsins brandi af ákafa og skaut af byssu sinni í prédikunarstólnum til að eggja söfnuð sinn áfram í baráttunni. Faðirinn sem friðarsinni, með óbeit á stríðsæsingi gamla mannsins og öfgum. Ósætti þeirra og árekstrar eru viðvarandi. Gamli maðurinn tók kröfu Biblíunnar um örlæti bókstaflega, og gaf allt sem hann átti – og miklu meir en það. Hann átti það til að rífa þvottinn af snúrum tengdadóttur sinnar til að gefa þurfandi lín eða föt, og iðulega kom hún að búrinu hálftómu þegar einhvern þurfandi hafði borið að garði. Svo er einn presturinn enn, vinur sögumanns og kollega, Boughton. Samræður þeirra vinanna og samskipti, vinátta og örlög, setja mark sitt á framvindu sögunnar.

Grunnsaga Biblíunnar skín gegnum lífssögu þessara kynslóða, mynstrið í bréfinu er eins og endurómur sögunnar af Abraham, Ísak og Ísmael. Og grunnstefið er náðin. Sjaldan hefur maður séð eða lesið eins áhrifaríkar lýsingar á mildu afli náðarinnar og í þessari bók.

Sagan er borin uppi af djúpri samkennd og mannúð, og yndislegri hlýju og húmor. Þetta er fjölskyldusaga og trúarsaga, og aldarspegill. Tónninn er hlýr, takturinn hægur, hljómbotninn djúpur og endurómurinn langur. Maður les þessa bók hægt og nýtur hverrar síðu, myndirnar eru skýrt dregnar, stundum stíga þær fram eins og hægfara myndskeið í áhrifaríkri kvikmynd, sem enduróma síðan lengi í sálinni. Skondnar smásögur og skrítlur, djúpar íhuganir og hnittnar athugasemdir eru ofnar inn í frásögnina á listilegan hátt.

Trúin á og gleðin yfir lífinu í öllum þess tilbrigðum skín í gegnum allt. Guð, lífið, dauðinn, trúin, þessi grunnstef mynda uppistöðu bókarinnar, lofgjörð um vináttuna, gæfu og gleði lífsins. Hún er frábærlega vel skrifuð í látleysi og hógværð, laus við alla væmni og tilgerð. Bókin er eins og fersk og svalandi lind. Þessa bók les maður hægt og með hjartanu.

Marilynne Robinson: Gilead. (Picador. Farrar, Straus and Giroux, New York.2004)

Um höfundinn3 viðbrögð við “Gílead”

  1. Jón Helgi Þórarinsson skrifar:

    Áhugavert efni fyrir presta og kannski einnig fjölskyldur presta og greinilega einnig afar vel skrifuð bók. Er bókin til í bókabúðum hér á landi eða þarf að panta hana að utan?

  2. Vigfús Ingvar Ingvarsson skrifar:

    Er þetta ekki bókin sem sr. Gunnar Björnsson var að lesa glefsur úr í sinni frábæru þýðingu á prédikunarnámskeið í fyrra?

  3. Kristín Þórunn skrifar:

    Jú, þetta er sú hin sama. Það jaðraði reyndar við trúarreynslu að hlýða á þann flutning á prédikunarnámskeiði Kjalarnessprófastsdæmis í fyrra.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4166.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar