Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Kölluð til frelsis

Eitt árið enn verða Reykvíkingar og nærsveitarmenn vitni að skemmtilegum og litríkum hátíðahöldum undir fána gay pride.  Að vanda er þátttaka og viðvera almennings geysi góð og þeim sem til þekkja ber saman um að Reykjavík Gay Pride hafi mikla sérstöðu í hinsegin hátíðahöldum fyrir það hve fjölskylduvæn hún er og hversu almenna skírskotun hún hefur.  Kjarni hátíðarinnar er að sögn aðstandenda hennar gleði og stolt, sem snertir töluvert aðra strengi en hefðbundin þögn og skömm sem hefur svo lengi umvafið málefni samkynhneigðra.

Samkynhneigð og trú

Að þessu sinni voru trúmál nokkuð áberandi í dagskrá og umfjöllun hátíðarinnar.  Í fyrsta sinn er Regnbogamessa hluti af opinberri dagskrá gay pride en Hallgrímssöfnuður í Reykjavík hýsir í samstarfi við hinsegin daga guðsþjónustu þar sem prestar þjóðkirkjunnar og fríkirkjunnar í Reykjavík þjóna, ásamt bandarískum presti sem prédikar.  Þá var áhugahópur samkynhneigðra um trú, Á.S.T., sýnilegur í gleðigöngu laugardagsins.  Á.S.T. stendur einnig fyrir frekari kynningu og samtali um trú og trúabrögð í framhaldi af hinsegin dögum nú í vikunni.

Eins og oft áður þegar trú og samkynhneigð ber á góma, snýst umræðan um hjónaband vs. staðfest samvist og aðkomu kirkju og trúfélaga að þeim gjörningi.  Svo er einnig raunin nú.  Í leiðurum dagblaða sem og viðtölum og ávörpum í tengslum við hinsegin hátíðina kom iðulega fram sú skoðun að það eina sem standi út af borðinu til að fullum rétti og jafnri stöðu sé náð sé að trúfélögum verði leyft að gefa saman fólk af sama kyni.

Það segir mikið um sterka stöðu kirkjulegra athafna í samfélaginu, að málin skuli snúa við ráðamönnum og öllum þorra fólks eins og raun ber vitni.  Það að þjóðkirkjan hafi viljað taka smá en upplýst skref í sem víðtækasti sátt, hefur ekki mætt miklum skilningi utan frá.  Umhugsunarvert er fyrir okkur sem störfum í kirkjunni að ekki hefur tekist á trúverðugan hátt að setja fram afstöðu kirkjunnar, sem ræður gangi mála í samtalinu um hjónabandið og staðfesta samvist.  Fyrir upplýstum almenningi sem og kjörnum fulltrúum á alþingi Íslendinga, vefst sá greinarmunur sem þjóðkirkjan hefur viljað halda fram þegar kemur að stöðu hjónabandsins gagnvart öðrum sambúðarformum.  Segja verður að sá munur verður vart studdur með öðrum rökum en þeim sem lúta að hefð og því hvernig hlutirnir hafa verið, sérstaklega þegar málum er lagalega háttað þannig að fólk í staðfestri samvist hefur alveg sömu réttindi og skyldur og fólk í hjónabandi.  Spurningin fyrir þjóðkirkjuna í þessu máli hlýtur því að vera sú hvort köllun hennar lúti fyrst og fremst að því að standa vörð um tiltekna fjölskylduskipan og heiðra viðteknar hugmyndir um samspil kynhlutverkanna.

Þjóðkirkjan og staðfest samvist

Mér þykir sem sagt umhugsunarvert hvað þjóðkirkjunni hefur illa tekist að fóta sig í umræðunni um hjónaband og staðfesta samvist og hve brösuglega gengur að útlista blæbrigði sambúðarformanna sem við drögum fram úr hinni kirkjulegu hefð.  Þó er ýmislegt vel þess virði að halda fram í þessu samhengi.  Á prestastefnu í apríl sl. var lögð fram ályktun kenningarnefndar þjóðkirkjunnar um staðfesta samvist (sjá http://www.kirkjan.is/?frettir/2006?id=170).  Þessi ályktun liggur til grundvallar umræðu og frekari ákvarðana innan stofnana þjóðkirkjunnar og því er fróðlegt að sjá hvað þar segir um samkynhneigð og staðfesta samvist.  Of langt mál er að tíunda alla umfjöllun kenningarnefndar hér en rétt að benda á við hve ólíkan tón kveður í ályktun nefndarinnar miðað við málflutning ýmissa annarra trúfélaga, eins og dæmi er um í heilsíðuauglýsingu á bls. 33 í Morgunblaðinu laugardaginn 12. ágúst sem „samvinnuhópur kristinna trúfélaga“ stendur að.

Ályktun kenningarnefndar sem lögð var fram á prestastefnu 2006 er svohljóðandi:

 • Þjóðkirkjan kallar fólk til fylgdar við Krist og áréttar í boðun sinni og breytni boðskap hans um kærleika, manngildi og samábyrgð. Þjóðkirkjan metur alla jafnt án tillits til fjölskyldustöðu, í samræmi við kærleiksboðskap Krists.
 • Þjóðkirkjan heldur á lofti biblíulegum og kristilegum gildum sem styðja gott líf, stuðla að réttlæti og standa vörð um velferð allra, sérstaklega þeirra sem af einhverjum ástæðum eru misrétti beittir.
 • Þjóðkirkjan viðurkennir að kynhneigð fólks sé mismunandi og ítrekar að samkynhneigðir eru hluti af kirkju Krists og lifa undir fagnaðarerindi hans.
 • Þjóðkirkjan vill styðja allt kristið fólk í viðleitni þess til að temja sér ábyrgan lífstíl og hvetur alla, jafnt samkynhneigða sem gagnkynhneigða, til að hlýða köllun Krists til náungakærleika og ábyrgðar í kynlífi, sambúð og fjölskyldulífi.
 • Þjóðkirkjan styður hjónabandið sem sáttmála karls og konu á forsendum hins kristna kærleika. Þjóðkirkjan styður ennfremur önnur sambúðarform á sömu forsendum.
 • Þjóðkirkjan styður þá einstaklinga af sama kyni sem vilja búa saman í ást og trúmennsku og staðfesta samvist sína og skuldbindingar. Þjóðkirkjan heimilar prestum sínum að blessa sambúð þeirra samkvæmt þar til ætluðu formi.

Það er trú mín að það sem hér kemur fram sé upplýsandi og hjálplegt í yfirstandandi samtali um trú og samkynhneigð.  Eins má hver sem vill sjá að langur vegur er frá því sem hér er áréttað um afstöðu þjóðkirkjunnar til samkynheigðra og staðfestrar samvistar frá þeim málflutningi sem kemur fram í auglýsingunni titlaðri „Frjáls úr viðjum samkynhneigðar“ í áðurnefndri auglýsingu „samvinnuhóps kristinna trúfélaga“.

Til lækningar þjóðunum

Íslenska þjóðkirkjan er hluti af samfélagi lútherskra kirkna um allan heim.  Fyrir þremur árum þinguðu þessar kirkjur undir merkjum Lútherska heimssambandsins í Winnipeg í Kanada.  Yfirskrift heimsþingsins var Til lækningar þjóðunum (For the Healing of the World).  Þessi orð eru sótt í síðustu bók Biblíunnar, Opinberunarbók Jóhannesar, þar sem lýst er lífsins tré og áhrifum þess á líf þjóðanna:

Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum (Op 22.2).

Þetta þema lækningarinnar, í víðasta skilningi orðsins, lá til grundvallar þingstarfanna og umræðu allrar.  Eitt af þeim sviðum sem hugað var að, voru aðstæður fjölskyldna, hvar lækningar væri þörf í samhengi fjölskyldulífs og hvað það væri sem ógnaði réttlæti og kærleika í nærsamfélagi okkar.

Það sem ógnar fjölskyldum, sem griðarstað umhyggju og öryggis, var í huga þátttakenda ofbeldi ýmis konar, fátækt, sjúkdómar, neysla áfengis og fíkniefna, sem og örar samfélagsbreytingar.  Innan lútherskra kirkna búum við að ólíkri reynslu og sjónarhornum á fjölskyldulíf og fjölskyldugerðir, sem helgast meðal annars af ólíkum bakgrunni og fjölbreyttum menningarsvæðum.  Það er því heljarmikil áskorun að hlú að réttlæti og lækningu í fjölskyldum í samhengi fjölbreytileika hefða og menningar.

Þessi atriði sköpuðu heitar umræður á heimsþinginu, ekki síst þegar þau voru skoðuð í ljósi breyttra kynhlutverkra og mismunandi kynhneigðar.  Málefni fjölskyldna og kynja eru vitaskuld samtvinnuð menningu hvers og eins og umfjöllun á kirkjulegum vettvangi er þar ekki undanskilin. Þegar kemur að málefnum samkynhneigðra eru einstaka kirkjur mjög misjafnlega í stakk búnar.  Ólíkar guðfræði- og samtalshefðir hafa áhrif á hvernig fjallað er um málið en fyrst og fremst stjórnar menningarlegt samhengi því hvernig kirkjurnar nálgast það.  Allt þetta gerir samtal og samstarf í kringum þetta mál flókið og viðkvæmt.  Það breytir því samt ekki að kirkjurnar lifa í þannig samfélagi að viðfangsefni einnar verður viðfangsefni allra hinna.  Þess vegna hafa lútherskar kirkjur skuldbundið sig til að halda áfram að huga að málefnum fjölskyldna, hjónabands og kynhlutverka, og stuðla að einlægu og tillitssömu samtali um það hvernig við vinnum að réttlæti og lækningu í aðstæðum þeim tengdum.

Þetta er mikilvægt fyrir þjóðkirkjuna fyrir tveggja hluta sakir.  Annars vegar draga ákvarðanir á borð við þessa fram hina alþjóðlegu vídd íslensku þjóðkirkjunnar og minnir okkur á að það sem við segjum og gerum hefur áhrif á líf annarra kirkna og kristinna bræðra og systra út um allan heim.  Hins vegar láta þær okkur í té, sérstaklega í því samhengi sem hér er um rætt, ákveðinn umræðugrundvöll fyrir málefni fjölskyldu og nærsambanda.  Kirkjan er kölluð til að fara að fordæmi meistara síns og frelsara, að mæta fólki í þeim aðstæðum sem það er, og losa það úr viðjum skammar og helsis, sem það sjálft eða umhverfi þess hefur vafið það í.

Heil og frjáls, stolt og glöð

Tilefni þessarar greinar er sú umræða sem hefur skapast í kringum hinsegin hátíð í Reykjavík, hvað varðar trú og samkynhneigð og afstöðu þjóðkirkjunnar.  Þjóðkirkjan speglar auðvitað ekki skoðun allra kristinna trúfélaga, eins og glögglega má sjá af því dæmi sem hér var tekið.  Henni hefur heldur ekki tekist eins og best verður á kosið að draga fram það sem hún álítur skipta mestu máli í samtalinu um hjónaband og staðfesta samvist.  En hún tekur þátt í því samtali og álítur það farsælt og gott að það fari fram með opin augu, á nærgætinn hátt og í sem víðtækastri sátt.

Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir, segir í Jóhannesarguðspjalli.  Stærstu skilaboð gleðigöngunnar í borginni okkar eru að samkynhneigðir knýja á um réttlæti og lækningu inn í það samfélag sem hefur haft tilhneigingu til að viðhalda misskiptingu og ójafnrétti á grundvelli kynhneigðar.  Þessi skilaboð tekur þjóðkirkjan alvarlega og vill bregðast við þeim.

Um höfundinn11 viðbrögð við “Kölluð til frelsis”

 1. Magnús Erlingsson skrifar:

  Hver er munurinn á vígslu og blessun að skilningi guðfræðinnar? Þessari spurningu hef ég velt upp í hópi presta, samstarfssystkina minna, bæði í samtali og netspjalli og hefur orðið fátt um svör. Meðan við getum ekki útskýrt fyrir okkur sjálfum þann guðfræðilega mun sem er eða er ekki á vígslu og blessun þá er þess ekki að vænta að almenningur skilji afstöðu kirkjunnar. Líklega verður afstöðu Þjóðkirkjunnar í þessu máli best lýst með því að segja að hún sé á báðum áttum og prestar séu sammála um að vera ósammála þegar talið berst að hjúskap homma og lesbía. Kirkjuleg vígsla raðhjúskapar (vígsla hjónabands í annað og þriðja sinn) sýnir ennfremur að Þjóðkirkjan er í hjúskaparmálum tæplega samstíga Jesú Kristi, sem sagði að það sem Guð hefði tengt saman mætti maður eigi sundur skilja.

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Í þessu sambandi má líka benda á að orðið vígsla í samhenginu hjónavígsla, er á margan hátt óheppilegt fyrir umræðuna. Eins og sr. Kristján Valur Ingólfsson bendir á sjónvarpsþættinum Lífið og tilveran á NFS í morgun, þá vísar orðið vígsla í því samhengi til alls annars en þegar það er notað t.d. um prestsvígslur eða þegar kirkjur eru vígðar (sbr. benedictio og ordinatio á latínu).

  Þá er samkvæmt málnotkun einnig talað um borgaralegar hjónavígslur, með enga kirkjulega skírskotun. Samkvæmt þessu er kirkjuleg hjónavígsla samansett úr hinum lögformlega gjörningi sem prestur framkvæmir sem vígslumaður í umboði veraldlegra yfirvalda annars vegar og blessunarathöfn (benedictio) hins vegar. Það er því enginn grundvallarmunur á þeirri blessun sem fer fram í hjónavígslu í kirkju og þeirri blessun sem á sér stað yfir staðfestri samvist.

 3. Carlos Ferrer skrifar:

  Það er því enginn grundvallarmunur á þeirri blessun sem fer fram í hjónavígslu í kirkju og þeirri blessun sem á sér stað yfir staðfestri samvist.

  Miðað við það að ekki er grundvallarmunur sé á blessuninni og hjónavígslunni, þá er djúpstæður ágreiningur presta illskiljanlegur óinnvígðu fólki. Greinarmunur blessunar og vígslu hjálpar ekki að mínu mati, þar sem við helgum hjón til sambands þar sem þau eru frátekin fyrir hvert annað. Er það ekki inntak vígslunnar (ordinatio), að tiltekinn hlutur, hús eða einstaklingur sé helgaður til ákveðinna verka?

  Mér finnst Magnús vekja gilt sjónarmið, þar sem við förum afar frjálslega með helgi hjónabands annars vegar (sbr. raðbrúðkaupin), en stöndum í vegi fyrir því að samkynhneigðir geti gengið í hjúskap.

 4. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þarfan pistil Kristín Þórunn.
  Þú tekur upp málefnalega umræðu um samkynhneigð, trú og kirkju og er það vel við hæfi í samhengi gleðidaga samkynhneigðra.

  Í pistlinum eru mörg atriði sem verðskulda íhugun og umræðu. Eitt vekur þó sérstaklega athygli, en það snertir ályktun kenningarnefndarinnar sem þú tekur upp -að því er virðist- eins og hún var lögð fyrir prestastefnuna í vor EN þó ekki! Orðalagið er örlítið breytt og eftirfarandi 5. liður er horfinn:
  “Þjóðkirkjan álítur enga eina skipan fjölskyldunnar réttari en aðra. Kristur ávarpar alla jafnt án tillits til fjölskyldustöðu.”

  Í þinni upptalningu fellir þú sem sagt út þennan veigamikla lið ályktunarinnar en umorðar hann inn í fyrsta punkt sem þú tilgreinir. Sú umorðun hefur hins vegar í för með sér MIKLA efnisbreytingu, því sitt hvor forsendan liggur að baki því: að “meta alla jafnt án tillits til fjölskyldustöðu” og að “álíta enga skipan fjölskyldunnar réttari en aðra”. Önnur forsendan lýtur að jafnræði einstaklinga. Hin að jafnræði fjölskyldugerða.

  Hverig stendur á þessari breytingu á texta ályktunarinnar? Það mætti ætla að hér væri á ferðinni ný útfærsla kenningarnefndar og þar með svar við eftirfarandi spurningu sem þú berð upp í pistli þínum:

  “Spurningin fyrir þjóðkirkjuna í þessu máli hlýtur því að vera sú hvort köllun hennar lúti fyrst og fremst að því að standa vörð um tiltekna fjölskylduskipan og heiðra viðteknar hugmyndir um samspil kynhlutverkanna.”

  Kannski hér sé þá bara sleginn afar kunnuglegur taktur fyrir komandi kirkjuþing: Vill þjóðkirkjan styðja jafnræði allra fjölskyldugerða eða vill hún “standa vörð um tiltekna fjölskylduskipan…”?

  Hvað skyldi okkar þríeini Guð svo vilja? Hver ætli treysti sér til að svara því!

 5. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  “Það segir mikið um sterka stöðu kirkjulegra athafna í samfélaginu, að málin skuli snúa við ráðamönnum og öllum þorra fólks eins og raun ber vitni.”

  Hér kemur KÞT inn á atriði sem enn er mjög ríkjandi þáttur í samfélagsgerð okkar og margir hafa vissulega bent á: Vægi kirkjuathafna. Ég bæti við: sem ‘rite du passage’. Við þekkjum þetta. Jarðarfarirnar eru augljósasta dæmið. Gríðarlega fjölsóttar, svo að annar eins boðunarakur kristinnar trúar fyrirfinnst varla. Við nýtum okkur þetta og erum þakklát samfélaginu fyrir þennan sjálfsagða akur, rétt eins og engin önnur leið sé fær út úr þessu lífi en með kirkjulegri jarðarför.

  Athafnir á borð við skírn, fermingu og giftingu eru líka eins og gefinn hlutur í hverri fjölskyldu, eða hvað? Akurinn er plægður allt frá fæðingu: Það er beðið eftir því að barnið í fjölskyldunni sé skírt, fermt og vonast er eftir því að það gifti sig og stofni til eigin fjölskyldu. Þetta er myndin sem við nemum í uppvextinum: Af hinni hamignjusömu fjölskyldu. Við viljum öll tileyra slíkri mynd, þótt myndir okkar kunni að vera af ólíkum fjölskyldugerðum.

  Við vitum að þetta er einmitt grundvöllurinn að ósk samkynhneigðra para um vígslu í kirkju. Að þau séu ‘inni í myndinni’ og fái alveg sömu ATHÖFN þegar þau “giftast” sínum. Ekkert meira en það. Bara það sama og ‘hinir’. Þau fengu sömu athöfn þegar þau voru skírð og fermd. Enginn krafði þau þá um skilríki ástarinnar.

  “Ráðamenn” -að minnsta kosti margir þeirra- virðast ekki í vafa um það að þau sem vilja ganga í staðfesta samvist eigi að fá að velja um form athafnarinnar, eins og þau sem ganga í hjúskap. Að þau sem það vilja geti stofnað til staðfestrar samvistar í kirkju. Þetta er nánast eins og sjálfsprottin ósk úr samfélagi sem elst upp við ákveðnar kirkjuathafnir. Vill þjóðkirkjan þiggja þennan akur? Má það heita vígsla? Svona rétt eins og við látum það óáreitt að kalla það vígslu þegar brú er formlega opnuð og þegar markaðstorg er vígt til opinberrar notkunar? Ekki rísum við þá upp og mótmælum hástöfum. Skiptir orðið “vígsla” allt í einu svona miklu máli þó svo merkingarsvið þess sé greinilega fyrir langa löngu komið út um víðan völl?

  Kirkjan hefur undanfarið verið að búa til athöfn sem fengið hefur heitið “blessun staðfestrar samvistar”. Sú athöfn er ný í athafnaflóru kirkjunnar. Þó er hún alveg hliðstæð þeirri athöfn sem fram fer þegar hjón hafa gifst borgaralega og koma síðan til kirkjunnar til að fá blessun Guðs/kirkjunnar yfir sambandið. Hvers vegna er þessi nýja blessunarathöfn þá svona ófullnægjandi? Hvers vegna gengur svona illa að ‘markaðssetja’ hana í samfélaginu?

  Svarið er einfalt: Við erum VÖN öðruvísi athöfn. Það er engin hefð fyrir því hér að fara fyrst til sýslumannsins. Næstum allir fara BARA í kirkjuna. Það er í kirkjunni sem fólkið segir stóra já-ið og gengur frá pappírunum. Það er venjan. Allt annað er ‘öðruvísi’. Það man enginn annað en að svona hafi þetta alltaf verið hjá okkur!

  Við getum alveg látið framtíðina skera úr um það hvort blessunarathafnir hjúskapar og staðfestrar samvistar ná fótfestu og verða vinsælar. Kannski slík athöfn verði eini aðkomumöguleiki kirkjunnar að stofnskrá fjölskyldnanna, ef lagalegi þátturinn verður tekinn frá trúfélögunum. Viljum við missa þann akur sem fylgir sjálfsögðum giftingarathöfnum? Skiptir öllu hvort þær eru blessun eða vígsla? Hver er hin guðfræðilega dýpt á bak við þá aðgreiningu sem við höldum í?

  Samfélag okkar er búið að viðurkenna fjölskyldur samkynhneigðra. Við erum fordæmi þjóðanna, eins og sr. Pat Burngardner frá MCC benti svo fallega á í predikun sinni í Hallgrímskirkju í gær. Við megum öll vera stolt af framtaki okkar því fjölskyldur samkynhneigðra hafa fengið sína ’stofnskrá’ viðurkennda sem jafngilda hjúskaparlögunum, nokkuð sem alls ekki er í höfn víðast hvar. “Ráðamenn” okkar hafa séð til þess að allir séu jafnir að þessu leyti. Við tökum undir og fögnum réttarbótum -þótt ekki sjáist margir ‘kirkjunnar menn’ fagna með Gay Pride.

  En “ráðamenn” -margir hverjir- vilja líka að allir séu jafnir að kirkjusiðum. Viljum við það? Getur þjóðkirkjan vígt í staðfesta samvist? Hvert er umboðið ‘að ofan’?

  Guðrún Ögmundsdóttir alþingiskona boðaði það í ræðu á Lækjartorgi á Gay Pride að áfram yrði unnið að því á alþingi í haust að trúfélög sem þess óska fái heimild til að vígja í staðfesta samvist! “Ráðamenn” virðist sem sagt reiðubúnir til að færa okkur þennan akur á silfurfati! Hvað vill þjóðkirkjan? Hvað getum við? Höfnum við boðinu?

  Viljum við styðja jafnræði ALLRA fjöslyldugerða og stofna til staðfestrar samvistar í kirkju - eða “standa vörð um tiltekna fjölskylduskipan”?
  Hvað ætli persónur guðdómsins: faðir, sonur og heilagur andi hafi um málið að segja? Eru þeir e.t.v. ósammála eins og kirkjan öll?

  Enn og aftur stöndum við frammi fyrir þessum stóru spurningum -dauðþreytt af þessari löngu Exodusgöngu- og vitum ekki hvað við eigum að gera -eða hvað?

 6. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk Hulda fyrir þína skörpu athugasemd. Útgáfa ályktunarinnar sem ég vísa til í pistlinum mínum er til orðin EFTIR að biskup brást við athugasemdum og umræðum sem áttu sér stað á prestastefnunni í vor. Það hefði ég auðvitað átt að benda á. Þetta verður sem sagt sú útgáfa sem unnið verður frekar með. Ferlinu er hins vegar ekki lokið - til að mynda verður álitið þýtt og sent til systurkirkna í Lútherska heimssambandinu og Porvoo kirknanna, með það fyrir augum að þær geti sent inn spurningar og athugasemdir. Það er því alls ekki óhugsandi að textinn eins og hann er núna, eigi eftir að taka einhverjum breytingum, áður en yfir lýkur.

 7. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæl sr.Kristín. Vel skrifaður og jákvæður pistill. En það er sama hversu jákvæður fulltrúi Þjóðkirkjunnar er á meðan þessi hluti ályktunar Kenningarnefndar stendur : “Þjóðkirkjan styður hjónabandið sem sáttmála karls og konu á forsendum hins kristna kærleika. Þjóðkirkjan styður ennfremur önnur sambúðarform á sömu forsendum”. Því spyr ég þig,
  styður þú að Þjóðkirkjan breyta þessari ályktun í :”Þjóðkirkjan styður hjónabandið sem sáttmála tveggja einstaklinga á forsendum hins kristna kærleika”?

 8. Kristín Þórunn skrifar:

  Eins og spurning sr. Þórhalls virðist bjóða upp á einfalt og skorinort svar, þá ber að gæta að einu. Ef þjóðkirkjan stendur að því álykta um eitthvert atriði, svo sem hjónabandið og staðfesta samvist, gerir hún það í gegnum stofnanir sínar sem til þess eru ætlaðar. Hér á ég til að mynda við prestastefnu, biskupafund og kirkjuþing - en kirkjuþing hefur skv. lögum æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Það er með öðrum orðum ekki hlutverk neins einstaklings að segja til um hvað þjóðkirkjan sendir frá sér. Það sem stendur núna í texta kenningarnefndar, og þú vitnar til, lýsir ákveðnum veruleika, burt séð frá því hvað mér finnst að eigi að standa þar. Þá er textinn sem hér um ræðir til umræðu og umhugsunar núna og því getum við litið á hann sem tilraun til að kalla fram sameiginlegan skilning þjóðkirkjunnar á því sem sr. Þórhall fýsir að vita: hvort þjóðkirkjan styðji hjónabandið sem sáttmála tveggja einstaklinga af óskilgreindu kyni eða sem sáttmála karls og konu.

  Hins vegar má benda á að einmitt þetta atriði - hvort hjónaband (marriage) sé skilgreint sem sáttmála karls og konu - er mjög til umræðu á sviði löggjafans víða um heim. Í Bandaríkjunum hafa forstöðumenn margra trúfélaga bundist sammælum um að mótmæla því að þessi skilgreining verði bundin í stjórnarskrá USA, á forsendum mannréttinda eingöngu. Dæmi um þveröfuga nálgun las ég í frétt af kristnum lögfræðingum í Nígeríu sem á árlegum fundi sínum nýverið ályktuðu um að “sexual chaos” væri eitt það helsta sem ógnaði þessari fjölmennustu þjóð Afríku, og áttu þá við þá ógn sem félagslegum stöðuleika stendur í þeirra huga af gay marriages. Læt hið svæsna niðurlag fréttarinnar fylgja hérna óþýtt:

  “Adamu (president of Nigeria’s Christian Lawyers Fellowship) said also homosexuality had attracted the wrath of the Christian lawyers. For this reason, he said, the Christian lawyers are “working with the leadership of the Church and like-minded institutions to see that marriage is defined in the constitution”, as a union between a man and a woman. He noted that a bill concerning this was before the country’s legislature.

  Christian lawyers had undertaken to ensure that gay marriages would be legislated against, Adamu said. “Gay relationships must not only be condemned as being un-Christian, they are against our societal values and norms,” he said, explaining the alarm of the lawyers about same-sex marriages, which are also strongly opposed by Nigerian Anglican Archbishop Peter Akinola.” (tekið af fréttasíðu ENI)

  Þessi tegund orðræðu eru því miður engum framandi, sem hefur rætt málefni samkynhneigðra á samkirkjulegum vettvangi. Við þennan tón kveður all víða, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

 9. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Nei sr.Kristín, ég spurði ekki um afstöðu Þjóðkirkjunnar á þessari tundu sem liggur fyrir opinberlega í þessum texta Kenningarnefndar. Ég spurði um þína persónulegu afstöðu eftir að hafa lesið þinn góða pistil. Hver er þín niðurstaða?

 10. Kristín Þórunn skrifar:

  Gott hjá þér sr. Þórhallur að spyrja frekar um það sem þú fékkst ekki svar við. Um mína skoðun, persónulega og prívat, má segja tvennt. Annars vegar er hún frekar óáhugaverð sem slík, í þessu samhengi, þar sem við erum jú að vinna að því að ná konsensus - sem felst í því að allir geta þurft að láta af sinni fastmótuðu skoðun til að ná sameiginlegri lendingu. Hins vegar vil ég alveg deila því með þér að mér þætti verra ef afstaða þjóðkirkjunnar útilokaði þá niðurstöðu að hjónaband geti náð yfir annað en lögfestan félagsskap karls og konu. Þetta segi ég, vitandi að ekki munu allir í mínu trúfélagi geta skrifað upp á þennan skilning, hvað þá öll mín trúsystkini um víða veröld.

  Mér finnst hreinlega þyngri rök styðja að inntak hjónabands - hvort sem við lítum til áþreifanlegra þátta eins og gagnkvæmrar framfærsluskyldu og barnauppeldis eða huglægra þátta eins og kærleika og trúmennsku (sem kirkjan leggur nú ekki lítið upp úr)- hljóti að geta náð yfir tvo karla eða tvær konur sem bindast hvort öðru með lögmætum hætti.

  Að mínu viti þarf hins vegar ekki að skilgreina hjónabandið sem kynhlutlaust til að gefa prestum leyfi til að framkvæma staðfesta samvist. Nóg er að breyta lögum þannig að prestar megi framkvæma þessa athöfn á sama hátt og þeir koma að hefðbundinni hjónavígslu. Og ég held að það væri góð lending sem kæmi til móts við óskir margra, sbr. svar Huldu hér að ofan um mikilvægi athafna í lífi fólks.

 11. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  Í framhaldi af mörgu athyglisverðu sem hér hefur komið fram, hef ég skrifað sérstakan pistil sem birtist fljótlega hér á tru.is undir heitinu “Gifting í staðfesta samvist?”

  Það er mikilvægt að bæði leikir og lærðir velti fyrir sér þeim möguleikum sem nú eru ýmist til staðar eða eru á döfinni varðandi hjúskaparlöggjöf okkar. Því um leið og möguleikarnir snerta samfélagið þá snúa þeir beint að þeim athöfnum sem kirkjan hefur framkvæmt og vill framkvæma á sviði fjölskyldunnar. Það kemur okkur öllum við.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6681.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar