Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Kristinn Ólason

Hvíldardagur, hvíldar- og fagnaðarár

Svokölluð heilagleikalög í 3. Mósebók 17-26 fjalla um margvísleg svið mannlífsins. Þar er meðal annars fjallað um hátíðir og hátíðisdaga (sbr. einnig 2. Mósebók 23 og 5. Mósebók 16). Í 3. Mósebók 23 er kveðið á um löghátíðir Drottins. Fyrst er nefnd hátíð sem halda skal vikulega á sjöunda degi: hvíldardagurinn. Aðrar hátíðir skal halda árlega: páskarnir ásamt hátíð hinna ósýrðu brauða,  hátíð frumgróðans, viknahátíðin (= hvítasunna), nýársdagurinn, friðþægingardagurinn og laufskálahátíðin.

  Fjöldi hátíðanna er í samræmi við heimsmynd sem byggist á grunngildi tölunnar sjö. Vikan er sjö dagar og á fyrsta degi sjöunda mánaðar hefst nýtt ár! Framsetningin minnir óneitanlega á sköpunarfrásöguna í 1. Mósebók 1.1-2.4a þar sem segir að Guð hafi skapað alheiminn á sex dögum og hvílst á sjöunda degi. Sjöunda daginn blessaði hann og helgaði og þar með fullkomnaðist sköpunarverkið.

  • • •

  Hvíldardagurinn nýtur því sérstakrar helgi í samanburði við aðra vikudaga (sjá einnig Jesaja 58.13-14). Það þarf því ekki að koma á óvart að hvíldardagsákvæði boðorðanna tíu í 2. Mósebók 20.8-11 er rökstutt með tilvísun til sköpunarsögunnar. Á hinn bóginn vekur athygli að í 5. Mósebók 5.12-15 eru færð rök fyrir sama ákvæði með tilvísun til réttinda vinnandi fólks og dýra til að hvílast frá vinnu sinni.

  Ákvæðin um hvíldarár og fagnaðarár í 3. Mósebók 25 tengjast allflókinni umfjöllun um jarðir og ábúðarréttindi, hús og íbúðarréttindi (k. 25-26). Sögulegan bakgrunn slíkra ákvæða má vafalaust rekja til erfiðrar reynslu þjóðar, missi lands, sjálfstæðissviptingar og útlegðar. En jafnframt sýna þau hugmyndir um nýtt upphaf í landi forfeðranna. Þessar væntingar byggjast á þeirri sannfæringu að Guð einn eigi landið (sbr. 3. Mósebók 25.23-24). Það setur þeim sem búa í landinu tilteknar skorður varðandi eignarhald og ráðstöfun jarða. Röskun á eignarhaldi, skuldasöfnun og þrældómur eru skilgreind sem tímabundin skerðing á þeim lífsgæðum sem Drottinn tryggir öllum íbúum landsins.

  • • •

  Eins og fyrr segir miðast upptalning hátíða í 3. Mósebók 23 við tímamörk sem ná yfir heilt ár. Í 3. Mósebók 25 er kveðið á um hátíðir sem ná langt út fyrir þau mörk, en einnig á forsendum tölunnar sjö. Á sama hátt og sjöundi dagur og sjöundi mánuður hafa sérstöðu í dagatalinu skal hvert sjöunda ár, svo og sjö sinnum sjöunda hvert ár, njóta sérstöðu, það er hvert fertugasta og níunda ár (eða fimmtugasta eftir því sem talið er).

  Þetta er meðal annars athyglisvert þegar haft er í huga að útlegð Ísraelsmanna í Babýlon stóð yfir í fjörutíu og níu ár. Það kann að skýra tengslin við kröfuna um að endurheimta glatað land. Sjöunda hvert ár er hvíldarár. Þá skal hvíla landið og vernda það gegn ofnýtingu og ofbeit. Fertugasta og níunda hvert ár skal vera sérstakt fagnaðar-, friðþægingar- og frelsisár, því þá mega allir hverfa aftur til landareignar sinnar.

  Fram að fagnaðarári voru möguleikar hinna efnaminni sem misst höfðu eignir sínar einkum bundnir við velvilja efnamanna úr frændgarði eða að fjölskyldan hagnaðist svo á tímabilinu að hún gæti leyst til sín áhvílandi veð. Á fagnaðarári ber hins vegar lánardrottnum skylda til að fella niður skuldir efnalítilla meðbræðra og systra og veita frelsi þrælum og ambáttum. Frásagan í Nehemía 5 varpar skýru ljósi á skilninginn sem birtist í ákvæðunum í 3. Mósebók 25.

  Um höfundinn

  

  Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2930.

  
  Pistlar
  Postilla
  Almanak
  Spurningar