Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Hvenær verðum við með?

Um karl-miðlægni kirkju og trúarbragða

Ég hef lesið með miklum áhuga fréttir af heimsráðstefnu trúarleiðtoga, sem æðsti yfirmaður rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Alexy patriarki Moskvu og alls Rússlands, bauð til í Moskvu 3.-5. júlí sl. Frá Íslandi sóttu ráðstefnuna Karl Sigurbjörnsson, biskup þjóðkirkjunnar og Bjarni Randver Sigurvinsson, sérfræðingur í málefnum þvertrúarlegra samskipta. Til ráðstefnunnar voru boðnir leiðtogar helstu kristinna kirkna heims, Islam, Gyðinga, Búddista, auk fulltrúa Hindúa, Síka og Shintó. Megin umræðuefni ráðstefnunnar voru samræða ólíkra siðmenninga, leitin að nýjum leiðum til friðar og réttlætis í samskiptum þjóða heims og hvernig sigrast má á hryðjuverkum og hleypidómum.

Í frétt á kirkjan.is 11. júlí er meðal annars fjallað um lokaályktun ráðstefnunnar og kemur margt umhugsunarvert þar fram. Áhugavert er að sjá fulltrúa ólíkra trúarhefða og menningarheima sameinast um að draga fram mikilvægi trúarbragðanna sem vettvang þess sem hlúir að hugsun, menningu, siðgæði og samfélagi mannanna. Ályktunin heldur jafnframt fram þeirri lykilstöðu sem trúarbrögðin hafa til að skapa forsendur til sátta, friðar og samtals milli menningarheima.

Ráðstefnan í Moskvu var sérstaklega mikilvæg vegna þess að þar voru saman komnir til samtals óvenju margir háttsettir leiðtogar trúarbragða og deilda innan þeirra. Enda báru titlar þeirra sem viðstaddir voru þess merki: Sjeikar, ajatollar og yfirmúftar, patríarkar og höfuðbiskupar, kardínálar, biskupar, erkibiskupar og yfirbiskupar, æðstuprestar og munkar. Dömur mínar og herrar: þetta eru leiðtogar kirkna okkar og trúfélaga. Hvað eiga þessir einstaklingar sameiginlegt? Þeir eru allir karlar.

Um leið og ráðstefna af þessu tagi vekur með mér bjartsýni og gleði yfir samhug og einlægni trúarleiðtoga til að beita sér í þágu þess sem er til góðs fyrir alla, óháð trúarbrögðum og menningarbakgrunni, minnir hún líka óþyrmilega á þá staðreynd að málefni trúarbragðanna, kristinnar kirkju sem annarra, eru alfarið í höndum karlmanna. Það er óneitanlega einsleitur – og þar af leiðandi snauður – hópur sem ræðu og miðlar málefnum trúar og trúarbragða í heiminum í dag. Þarna hefur lítil sem engin breyting orðið frá örófi alda. Og það sem verra er, engin vísbending er um að breytinga sé að vænta úr þessari átt.

Sé mannval á heimsráðstefnu trúarleiðtoga marktækur mælikvarði á stöðu kvenna innan kirkna og trúfélaga, eru samkomur af þessu tagi í besta falli dapurleg áminning um skort á næmni trúarleiðtoga fyrir mikilvægi framlags kvenna í samfélagi trúaðra en í versta falli staðfesting á kerfisbundinni útilokun trúarbragðanna gagnvart áhrifum og ákvörðunum kvenna.

Tilfinning mín er að hvoru tveggja geti verið tilfellið. Innan þeirrar hefðar sem ég þekki best, kristinnar kirkju, hafa guðfræðingar í vaxandi mæli bent á áhrif feðraveldisins og hinnar karlmiðlægu hugsunar á kenningar og heimsmynd kristinnar trúar. Frá dögum ritningarinnar til vorra daga hafa raddir og andlit kvenna verið máð út og haldið til hliðar til að skapa pláss fyrir framlag og hugsun bræðra þeirra. Líklegt þykir mér að eitthvað svipað sé uppi á teningnum í öðrum trúarhefðum. Þessi inngróna hefð mótar og styður hugmyndir þeirra sem enn ráða á málefnum kirkju og trúarbragða. Enn sjá þeir ekki þörfina og bjargræðið sem felst í því að taka konurnar með að því borði samfélags og samtals þar sem málum trúarinnar er ráðið.

Það er nefnilega bjargföst trú mín að góð og rétt markmið sem tjáð eru í ályktun heimsráðstefnu trúarleiðtoga um að byggja betri framtíð fyrir fjölskylda mannkyns, náist aðeins þegar konur fá að sjást og heyrast – líka í hópi trúarleiðtoga.

Um höfundinn8 viðbrögð við “Hvenær verðum við með?”

 1. Grétar Einarsson skrifar:

  Þetta er nú aldeilis frábær grein. Orð í tíma töluð. HÚRRA! Það er mikið áhyggjuefni hvernig hin karlmiðlæga hugsun heftir kirkjuna sem ætti svo sannarlega að vera öllum fremri í öllum málum sem snerta heill einstaklinga og fjölskyldna. Það er sorgleg staðreynd að einmitt trúarstofnanir hísa og viðhalda gamaldags karllægum feðraveldis hugmyndum sem víða um heim viðhalda misrétti. Það er hægt að hafa hér langt mál en sem hommi og kristinn maður hlít ég að spyrja sömu spurningar fyrir homma og lesbíur og Kristín Þórunn spyr fyrir hönd kvenna; hvenær verðum við með? Því í hinni karlmiðlægu feðraveldis hugsun sem heldur konum til hliðar felst líka “hómófóbía” sem skaðar og meiðir einstaklinga og fjölskyldur og þar með, á einn eða annan hátt, heil samfélög og ekki síst, í tilfelli kristinnar trúar (sem ég þekki best til), kirkjan sjálf.

 2. Sigrún skrifar:

  Þörf og góð áminning Kristín Þórunn. Vakning er líka orð sem kemur í hugann, það þarf að vekja okkur, konur og karla til markvissra aðgerða en líklega fyrst og síðast breytingar þörf á hugarfari. Þessi pistill á heima á forsíðu kirkjan.is hvers vegna var hann ekki þar að finna???

 3. Guðbjörg Jóhannesdóttir skrifar:

  Gott innlegg Kristín Þórunn. Athygli vert er að skoða samsetningu nýkjörins Kirkjuþings í þessu sambandi.

 4. Jón Helgi Þórarinsson skrifar:

  Fín hugvekja Kristín Þórunn. Sýnir hve mikið verk er enn framundan varðandi jafna stöðu karla og kvenna innan kristinnar kirkju víða um heim. Þó margt hafi breyst í okkar norrænu og vestrænu kirkjum þá er víða pottur brotinn eins og dæmið um kirkjuþing minnir á, þar sem að formið, einmenningskjördæmi, vinna að mínu mati gegn jafnréttissjónarmiðum, þó margt fleira komi til. Hins vegar tel ég rétt að biskup Íslands sæki svona samkomu þó aðeins karltrúarleiðtogum sé boðið, en koma þarf ofangreindum sjónarmiðum mjög markvisst á framfæri innan hins kristna samfélags. Dugar það til? Veit ekki. En ljóst er að við höfum sjálf enn um sinn næg verkefni á þessu sviði eins og Grétar bendir einnig á.

 5. Arnfríður Guðmundsdóttir skrifar:

  Kærar þakkir, Kristín Þórunn! Það er alltof sjaldan sem minnt er á þessa mjög svo dapurlegu stöðu mála. Alltof oft er látið líta svo út sem „við“ höfum náð svo langt, að jafnréttismálin séu í góðum farvegi innan hinnar kristnu kirkju, sem er svo langt frá því að sé raunin, eins og þessi ráðstefna ber svo glöggt vitni um. Réttindi kvenna eru svo sannarlega ekki hátt skrifuð innan hinnar alþjóðlegu kristnu kirkju, þó að ýmislegt hafi mjakast í rétta átt á síðustu áratugum. Og þá er hollt fyrir okkur að líta okkur nær og skoða málin hér heima. Hvert er t.d. kynjahlutfallið á nýkjörnu kirkjuþingi? Ég hef hvergi séð tölur um það. Á þar síðasta kirkjuþingi var ein kona. Hlutfallið batnaði verulega á síðasta kirkjuþingi, en hver er staðan nú? Fróðlegt væri að sjá þær tölur. En staða kvenna batnar vissulega ekki bara með hagstæðari tölum. Hún batnar ekki fyrr en á sér stað hugarfarsbreyting, já ekkert minna en vakning, á meðal hinnar kristnu kirkju. Hér er ekki um pólitískt rétttrúnaðarmál að ræða (eins og sumir vilja halda fram) heldur trúfesti við grundvallargildi hins kristna boðskapar, sem leggur áherslu á gildi allra, óháð, kyni, kynþætti, stétt, kynhneigð og öllu öðru sem kann að greina okkur að. Kærar þakkir, Kristín Þórunn, fyrir þessa þörfu áminningu. Það er frábært að vita til þess að rödd þín fær nú að heyrast á Kirkjuþingi. Við þurfum kröftuga málsvara jafnréttisins þar!

 6. Jakob Hjálmarsson skrifar:

  Já, satt er orðið. Við getum þó kannski ekki mikið gert við því hvernig aðrar kirkjur haga málum sínum enda höfum við ekki efni á að gera athugasemdir nema að við höfum tekið til heima hjá okkur. Ég álít að við þurfum að koma á bindandi kerfi þar sem konur og karlar skipast með jöfnuði niður á embættin. Fléttulistar tíðkast hjá ýmsum stjórnmálaflokkum og kvótar eru settir. Við höfum oft vikist undan með kauðslegu tómlæti að gæta réttarins í þessum efnum. Nú er liðinn sá tími sem karlar í klerkastétt höfðu umtalsvert lengri starfsreynslu en konur og nauðsynlegt að senda þau skilaboð að ekki verði það liðið að fram hjá konum sé gengið. Tam þar sem tveir prestar þjóna er auðsætt að þar sé bæði karl og kona.
  Jón Helgi bendir á kosningafyrirkomulagið til kirkjuþings. Það má ekki kjósa eftir því að fjórum árum liðnum. Því verðum við að hafa breytt áður. Dræm kosningaþátttaka krefst þess að auki. Við verðum að finna nýtt fyrirkomulag; td. þar sem þingið er myndað af td. héraðsnefndum landsins eða öðrum embættum sem þá lúti ákvæðum sem tryggja jafna kynjaskiptingu. Ellegar þá að kirkjuþing verði allsherjarsamkoma (td fjóra hvert ár) sem fjallar um meiriháttar samþykktir og kýs verulega stærra kirkjuráð en nú er sem gegnir þá löggjafarundirbúningi. Fleiri hugmyndir óskast og sömuleiðis að þær verði þróaðar.

 7. Magnús Erlingsson skrifar:

  Ef litið er á kynjahlutfallið á kirkjuþingi þá blasir eftirfarandi við: Af tólf prestum eru einungis tvær konur. Af sjaután leikmönnum eru átta konur og verður kynjahlutfallið ekki jafnara þar. Athygli vekur með prestana að kynjahlufallið er jafnt í 1. og 3. kjördæmi eða á suðvesturhorninu. Hins vegar sker það í augun að frá landsbyggðinni kemur enginn kvenprestur. Augljóst er að leikmennirnir í kirkjunni er mun meðvitaðri um jafnréttissjónmið heldur en við prestarnir.

 8. Kristín Þórunn skrifar:

  Það hefur verið gaman að lesa athugasemdirnar við pistilinn minn. Þakkir til þeirra sem hafa lagt orð í belg. Af viðbrögðunum má ráða að staða mála er ekki einungis konum í kirkjunni áhyggjuefni. Umræða um jafnréttismál (ef við notumst við það heiti) er soldið snúin því við hneigjumst alltaf til að reka samtalið á einstökum dæmum sem að auki heyra ekki undir sama aðila. Þegar kosið er á kirkjuþing, er það hin frjálsa samviska hvers og eins sem ræður atkvæðinu og erfitt að binda hendur fólks þegar kemur að frjálsum kosningum. Þannig að landsbyggðarklerkum, sem fengu bara að kjósa einn vígðan fulltrúa fyrir sitt kjördæmi, er vonandi ekki alls varnað í þessum málum. Öðru máli gegnir um Reykjavík eystra, en það er önnur saga…..
  En svo er líka ótalmargt sem hægt er að gera, EF vilji og skilningur er fyrir hendi. Nýjasta dæmið um andvaraleysi þjóðkirkju elítunnar í þessum málum er að í annars stórglæsilegum hátíðahöldum í Skálholti vegna 950 ára afmælis biskupsstólsins þar, var engri konu treyst til að taka þátt í helgihaldi, þótt margir prestar hafi komið þar við sögu. Hvers konar skilaboð eru það? Hvaða sýn og afstöðu miðlar þessi einhliða uppstilling þegar kirkjan vill minnast og þakka fyrir sögu sína? Er enn ekki pláss fyrir konurnar?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5214.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar