Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þórhallur Heimisson

María Magdalena

Um þessar mundir er verið að frumsýna hér á landi kvikmyndin Da Vinci lykillinn sem byggir á metsölubók Dan Browns. Bókina og efni hennar er óþarfi að kynna. Hún hefur vakið mikla umræðu og það mun kvikmyndin örugglega líka gera.

Í bókinni er sett fram hörð gagnrýni á kirkjuna og því haldið fram að sú saga kristninnar sem við teljum okkur þekkja, sé ekki annað en blekking kirkjumafíu fjórðu aldar. Þar er einnig sagt að Nýja testamentið sé tilbúningur sömu mafíu, að María Magdalena hafi verið eiginkona og barnsmóðir Jesú og að leyniregla hafi varðveitt þessa þekkingu gegn ofríki kirkjunnar í gegnum aldirnar. Það er ekki ætlun mín að ræða þessar kenningar hér, en þau sem áhuga hafa geta komið á kvöldvöku í Hafnarfjarðarkirkju að kvöldi uppstigningardags þar sem fjallað verður nánar um þetta mál.

En hver var eiginlega María Magdalena? Hvar kemur María Magdalena við sögu? Oft í gegnum tíðina hafa menn spunnið upp sögusagnir í kringum Maríu Magdalenu, meðal annars haldið því fram að hún hafi verið gleðikona, þvert á guðspjöllin. Það sem mestu máli skiptir nú þegar deilt er um sögu Maríu Magdalenu er þó þessi spurning: hvenær verður hennar saga að okkar sögu? Af hverju skiptir hún okkur svona miklu máli? Það var einn dapran morgun að María Magdalena og nokkrar konur voru á leiðinni að gröf einni til að smyrja líka látins manns, manns sem þær höfðu haldið að væri frelsarinn, Messías.

Þessi maður var hinn krossfesti Jesús Kristur frá Galíleu. Hvernig leið Maríu Magdalenu á göngunni? Allar vonir hennar voru að engu orðnar um þennann mann. Hún hefur kannski hugsað til þeirra daga sem hún hafði átt með Jesú, þegar hann rak úr henni illann anda eða þegar hún fékk að sitja við fætur hans með hinum lærisveinunum og hlusta á hann.

Kannski var hún enn í áfalli eftir föstudaginn þegar maðurinn sem hún hafði trúað á var hæddur, hýddur og síðan krossfestur í smán. Enginn veit hvað hún hugsaði um á meðan hún gekk með vinkonum sínum í átt til grafarinnar að smyrja líkið eins og siður var. En hún hefur örugglega verið að hugsa um hin sorglegu endalok meistara síns.

Hvað sem hún var að hugsa um þá breyttist allt er hún kom að gröfinni. Hún varð fyrir mesta undri lífs síns, sem um leið var undur lífsins. Enginn líkami var í gröfinni. Jesús var á lífi. Guð hafði reist hann upp frá dauðum til nýrrar tilveru til að sýna henni og okkur leiðina til lífsins.

María Magdalena mætti honum, fyrst allra, upprisnum. Og María Magdalena var fyrst til að flytja gleðiboðin um upprisuna. Þar með varð hennar saga að okkar sögu.

Jesús Kristur, hinn upprisni, hann var lykillinn að dulmáli lífsins og dauðans. Úr leyndardómi dauðans kom líf því Guð hafði opnað dyrnar til lífsins með Jesúlyklinum. María Magdalena var ekki kona Jesú. Hún var svo miklu, miklu meira. Hún var postuli postulanna, lærisveinn Jesú sem sýndi öllum öðrum leiðina, líka okkur.

Að leita að lyklinum að Da Vinci lyklinum er að leita að lyklinum að því hver Jesús Kristur var- og er. Sem vitni að upprisunni, fyrsta vitnið, sem sú fyrsta er skildi hvað Guð er að gera fyrir okkur í Jesú Kristi, er María Magdalena svo miklu dýrmætari en ef hún væri aðeins einhver meint kona Jesú.

Því hún og vitnisburður hennar er lykillinn að allri sögunni.

Að eiga þá trú, með Maríu Magdalenu og ótölulegum fjölda kristinna karla og kvenna aldanna það er að eiga nýtt líf í samfélagi við hinn lifandi Jesú Krist. Það er að eignast eilíft líf eins og María Magdalena vill benda okkur á. Það er hinn sanni lykill tilverunar.

Um höfundinn10 viðbrögð við “María Magdalena”

 1. Karl Guðmundsson skrifar:

  Virkilega góð grein Þórhallur!

  Ég veit að forstöðumaðurinn okkar í US hefur verið með rað predikanir um DaVincy lykilinn sem þér gætu þótt áhugaverðar.

  http://www.clcdayton.com
  Þú velur Media ->Sermons
  Þar er að sjálfsögðu fleira áhugavert.
  Kær kveðja,
  Karl

 2. Þorvaldur Tryggvason skrifar:

  Sæll Þórhallur,
  Mér finnst þetta frekar slök lykkja til að beina athygli fólks að smáatriðum í stað aðalatriða. Hinar raunverulegu spurningar sem bókin vekur eru þær sem þú forðast:
  “hverskonar samsuða er trúarrit okkar (sbr. algera ósamkvæmni gamla og nýja testaments), af hverjum er hún samin eða samantekin, og í hvaða tilgangi”
  Sögulegar staðreyndir sýna ekki huggulega mynd af þessari stofnun hér, ekki frekar en á tímum krossferðanna, galdraofsókna osfrv. Erfitt er að hugsa sér hvernig trúað fólk á að treysta kirkjunni fyrir sáluhjálp sinni - né hvernig kirkjan getur enn gert tilkall til trúverðugheita. Nú er hinsvegar tækifæri til að segja satt, viðurkenna óþverrann úr fortíð og taka gagnrýni. Hreinsið til og viti menn, Jesú minnkar ekki við það. Kirkja okkar tíma á að kljúfa sig frá allri hugsun um veraldlegt vald, því þannig einungis getur nú breytt rétt. Er hún svo vonlaus að gott þyki enn að sami háttur sé uppi og áður, þ.e. lygar og rangfærslur til að halda valdi yfir trú fólks og líferni.

 3. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæll Þorvaldur og þakka þér. Já, það er rétt að best er að segja ætíð sannleikann. En ég skil ekki alveg hvernig viðbrögð þín beinast að grein minni um Maríu Magdalenu? Ég er aðeins að fjalla hér um Maríu og hennar sögu, ekki alla kirkjusöguna. Það er gert í öðrum greinum hér á tru.is
  Kveðja Þórhallur

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég verð að taka undir með Þórhalli hér, við skulum halda okkur við pistilinn og efni hans. Það er vissulega rétt að Da Vinci lykillinn vekur upp margar spurningar. Við höfum einmitt reynt að fjalla um nokkrar af þeim hér á vefnum. Ef lesendum finnst vanta umfjöllun um fleiri atriði þá getur verið tilvalið að bera fram spurningu.

 5. Steinunn skrifar:

  En hvernig getur þú verið viss um að María hafi ekki verið eiginkona Jesú? Er það ekki möguleiki.

 6. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæl og þakka þér fyrirspurnina. Við höfum nokkrar heimildir um líf og starf Jesú þó sumar séu mjög takmarkaðar. Best eru rit Nýja testamentisins, skrifuð 15-65 árum eftir krossfestinguna. Síðan eru skrif Jósefusar sagnameistara um gyðingastríðin, skrifuð ca.50 árum eftir krossfestinguna. Þá taka við rit kirkjufeðra og gnostisku ritin, skrifuð 70-250 árum eftir krossfestinguna. Engin þessara heimilda minnist á að Jesú hafi verð giftur.

 7. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Það gæti verið gagnlegt að kíkja á pistil Magnúsar Erlingssonar og umræðurnar í samhengi þessarar umræðu. Magnús segir meðal annars í einum ummælum:

  Kirkjan leggst ekki gegn því að Jesú séu eignaðir mannlegir eiginleikar, enda væri slíkt á skjön við vitnisburð Nýja testamentisins. Þá myndi það engu breyta um fagnaðarerindi Jesú Krists ef í ljós kæmu sannanir um hjónaband hans og Maríu Magdalenu. Vek hér athygli á að sumir postulanna eins og Símon Pétur voru kvæntir.

 8. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Einmitt.

 9. Ásta skrifar:

  Gröfin var tóm þegar María Magðalena kom að henni en hvernig er vitað að líkið hafi ekki einfaldlega verið fjarlægt af mönnum, þeim hinum sömu og krossfestu Jesú. Hvar mætti María Magdalena Jesú upprisnum?

 10. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæl Ásta, þetta eru góðar spurningar sem menn hafa velt upp frá fyrstu tíð kristninnar. Margir óvinir safnaðanna héldu því til dæmis fram að líkama Jesú hafi verið rænt úr gröfinni. Ýmislegt rennir þó stoðum undir upprisufrásagnirnar. Í fyrsta lagi þá er það næsta víst að ef óvinir Jesú hefðu rænt líkama hans, þá hefðu þeir sýnt hann til að sanna að hann væri ekki upprisinn. Í öðru lagi þá voru konur varla vitnisbærar á dögum Jesú. Ef einhver hefði viljað skálda uppp upprisusöguna, hefði hann örugglega látið Pétur vera fyrsta vitnið. Það að konur mæta Jesú fyrstar er ein sterkasta sönnunin á áreiðanleika frásagnarinnar. Þú getur lesið nánar um þetta á pistli Arnfríðar Guðmundsdóttur Postuli postulanna. Í þriðja lagi vitnuðu postularnir um að hafa mætt Jesú upprisnum með því að deyja fyrir trú sína píslarvættisdauða. Konurnar mættu Jesú upprisnum við gröfina samkvæmt Guðspjöllunum.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 8637.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar