Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Örn Bárður Jónsson

Da Vinci lykillinn og mælistika mömmu

Nýlega fór ég að sjá kvikmyndina um Da Vinci lykilinn sem er svo sem ekki til frásögu færandi nema fyrir þá sök að ég hafði með mér um 180 manns í bíó. Stærstur hluti þeirra sótti síðan fund að sýningu lokinni þar sem ég fjallaði um kenningar sögunnar og svaraði fyrirspurnum.

Saga Dan Browns og myndin gefur okkur guðfræðingum gullið tækifæri til að fræða fólk um tilurð Nýja testamentisins, um aðferðirnar sem beitt var við val á ritum í Biblíuna.

Mælistikan

Til að útskýra aðferðina sem beitt var tók ég með mér gamla mælistiku sem móðir mín notaði í vefnaðarvöruverslun foreldra minna upp úr miðri síðustu öld og líkti henni við kanón sem menn beittu forðum daga til að flokka ritin. Orðið kanón er komið úr egypsku og vísar til reyrstafs eða priks sem notað var til mælingar. Ég hefði alveg eins getað notað málband eins og smiðir nota nú til dags.

Mælistikan og Nýja testamentiðAðalatriðið er að fólk skilji líkinguna og að myndun helgiritasafns Nýja testamentisins var ekki samsæri vondra og valdasjúkra preláta og páfa heldur ritstjórnarvinna vandvirkra og heiðarlegra manna sem vildu varðveita vitnisburð hinna fyrstu votta að starfi Jesú Krists, dauða hans og síðast en ekki síst, upprisu hans.

Valið á ritum Nýja testamentisins var staðfest á fyrstu öldum kristni. Strax á 2. öld var til úrval rita sem helstu forsytumenn hins kristna samfélags viðurkenndu. Þar á meðal voru guðspjöllin fjögur sem eru í NT og mörg bréfa Páls postula. Mikilvægt var að varðveita frumheimildir og texta sem náðu allt til þeirra sem þekktu Jesú og numu boðskapinn af vörum hans eða vörum fylgjenda hans. Textarnir urðu að hafa verið ritaðir af postulum Jesú eða lærisveinum postula og í notkun hjá söfnuðum sem stofnaðir voru af postulunum eða lærisveinum postulanna. Lengra mátti ekki líða frá upprunanum. Þetta var mælistikan - kanóninn.

Í myndinni er vísað til Níkeuþingsins þar sem rætt var um eðli Krists. Guðdómur Krists var ekki ákveðinn með atkvæðagreiðslu á 4. öld heldur staðfesti Níekuþingið árið 325 það sem haldið hafði verið fram frá öndverðu til að mynda með þessari játningu: Jesús Kristur er Drottinn! (Fil 2.11)

Mögnuð setning

Ítrekað kemur fram á síðum Nýja testamentisins að Jesús var ekki aðeins maður af holdi og blóði heldur var hann jafnframt guðleg vera. Mér þykir framsetning Jóhannesar vera einstaklega glæsileg í því sambandi og hef haldið því fram að magnaðasta setning veraldarsögunnar hljóti að vera þessi: o logos sarx egeneto, Orðið varð hold. Hér vísar logos, sem þýtt er sem Orðið, til speki Guðs, eilífrar viskur, kraftar og innsta eðlis hans. Að segja slíkt undur með þremur orðum er hrein snilld: Guð gerðist manneskja af holdi og blóði, hann varð eins og við. (Jóh 1.14)

Jesús vísaði sjálfur til guðlegs uppruna síns eins og til að mynda þegar hann staðhæfir að hann hafi verið til á undan Abraham: „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ (Jóh 8.58)

Nýja testamentið, sem var allt ritað á fyrstu öld og hlutar þess aðeins örfáum árum eftir krossfestingu Jesú og upprisu, er áreiðanlegt rit. Svo er ritstjórn vandaðra manna að þakka, þeir bjuggu til formúlu, kanón sem líkja má við mælistikuna hennar mömmu.

Um höfundinn5 viðbrögð við “Da Vinci lykillinn og mælistika mömmu”

 1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þetta er góð líking og gagnleg til skýringar. Það er líka komið inn á þetta í svari við einni spurningu hér á vefnum sem hefur að gera með þessar mælistikur eða mælikvarða.

 2. Marinó Hafstein skrifar:

  Fyrst birtist spámaðurinn. Síðan koma fylgjendurnir, sem eru kaþólskari en páfinn. Og að lokum stjórn trúarhópsins, sem svífst einskins til að halda völdum.

  Hvort atkvæðagreiðsla fór fram á þinginu í Nicaea 20. mai 325 eftir krist er auka atriði. Þar voru mjög skiptar skoðanir og þá sérstaklega hvort Joshua Jósefsson væri sonur Guðs og um endurrisuna, nú undirstaða kristinnar kirkju.
  Alla vega Konstatín mikli fékk það fram sem hann þurfti til pólitiskrar þarfa og sat þingið og réði öllu.Til að friða marga Rómverja , sérstaklega hermennina, voru óteljandi atriði tekin beint úr Mithra-trúnni.

  Hvað um apókryfur Nýja -Testamentsins? Þær voru örugglega skrifaðar innan þess ramma sem þú nefnir. Margt þar óþægilegt fyrir kristnakirju eins og henni hefur verið stjórnað sl. 1700 ár.

  Alla vega álít ég að kristinni trú, hinni upprunalegu og sönnu, stafi engin hætta á ef
  sannleikurinn komi í ljós.

  Engin trúarbrögð eru æðri sannleikanum.

 3. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Kæri Marinó.

  Forysta kirkjunnar í frumkristni vissi alveg sínu viti. Þess vegna setti hún til hliðar rit sem boða annað en birtist í vitnisburði postulanna og frumkirkjunnar. Við hefðum gert það sama í þeirra sporum, trúi ég. Allir sem að málinu komu vildu komast sem næst frumheimildum.

  Apokrýfuritin sem um ræðir eru rituð síðar en rit Nýja testamentisins og yfirleitt uppfull af gnostisisma og aríanisma og þar með í andstöðu við helstu kenningar kristinnar trúar.

  Varðandi meinta stjórn kirkjunnar í 1700 ár þá þykir mér þú aðeins sjá mistökin en ekki það góða sem gert hefur verið og komið var til leiðar.

  Þrátt fyrir allt er kirkja Krists merkast umbótahreyfing sögunnar!

  Bestu kveðjur,
  Örn B.

 4. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Er það rétt skilið hjá mér að greinarhöfundur telji að forysta kirkjunnar hafi tekist að varðveita texta sem voru ritaðir af postulum Jesú eða lærisveinum postula? Þá er líklega átt við önnur rit en rit Páls, td guðspjöllin og Pétursbréfin.

 5. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Sæll Hjalti Rúnar.
  Já, forysta kirkjunnar tókst að varðveita texta sem ritaðir voru af postulum eða lærisveinum þeirra. Páll hefur sérstaka stöðu enda þótt hann hafi ekki verið einn hinna tólf. Hann öðlaðist stöðu postula fyrir vitnisburð sinn sem lesa má um í bréfum hans og ekki síst í Postulasögunni sem Lúkas skráði að menn halda.

  Þú spyrð um Pétursbréfin tvö. Talið er að hið fyrra sé eftir postulann. Ireneus (140-203), Tertúllíanus (150-222), Klemens frá Alexandríui (155-215) og Orígenes (185-253) telja allir að Pétur hafi ritað bréfið. Ljóst er að þetta bréf er mjög snemma talið vera eftir Pétur postula og nýtur almennrar viðurkenningar sem slíkt.

  2 Pétursbréf var eitt síðasta ritið til að hljóta sess í helgiritasafninu - kánón Nýja testamentisins. Gerðist það á kirkjuþingi sem haldið var í Laódíkeu árið 372. Helsti áhrifavaldur þar um var Aþanasíus frá Alexandríu og svo Ágústínus. Margir fræðimenn efast um að Pétur sé höfundur þess og benda á að stíllinn sé annar. Sumir fræðimenn telja að Barnabas hafi aðstoðað Pétur við ritun 1 Pétursbréfs en að Pétur hafi sjálfur ritað 2 Pétursbréfið og það skýri frávikin í stíl. Lesa má um Barnabas í Postulasögunni 13. kafla.

  Lúther hafi mismikið dálæti á ritum NT. Hann hafði mestar mætur á Jóhannesarguðspjalli, þá bréfum Páls og fyrra Pétursbréfi. Þá komu hin guðspjöllin þrjú en óæðri sess höfðu Hebreabréfið, Jakobsbréf, Júdasarbréf og Opinberunarbókin sem honum fannst of torræð en að hans mati átti opinberun að opinbera en ekki hylja.

  Ég vona að þetta svari spurningum þínum.

  Bestu kveðjur,
  Örn B

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6852.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar