Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Da Vinci lykillinn - bannaður múslimum og kristnum?

Margt áhugavert kemur fram í dagsljósið um þessar mundir. T.d. það að Færeyingum er ekki treystandi til að horfa á Da Vinci lykilinn í eigin bíóhúsum og að á Indlandi bætist kristnum hópum sem vilja hunsa hina umtöluðu bíómynd óvæntur liðsauki hjá múslimskum bræðrum sínum.

Ég veit ekki hvort er meira tímanna tákn. Færeyingar er sérstök stærð í trúarflóru Norðurlandanna og þar eru sterkir straumar íhaldsamrar heimatrúboðskirkju sem hefur ekki á sér neitt frjálslyndisyfirbragð. Færeyjar eru biskupsdæmi í dönsku þjóðkirkjunni sem hefur landfræðilegrar og menningarlegrar stöðu sinnar vegna mótast af öðrum hlutum en móðurkirkjan danska. Þess vegna er komin upp sú staða að færeyskir bíóeigendur vilja ekki tefla stöðu sinni og afkomu í neina tvísýnu með því að taka Da Vinci lykilinn til sýningar.

Engin skoðunarkönnun í gangi núna.

Þegar bók Dan Browns um Da Vinci lykilinn kom út, sýndu kristnir menn víða um heim strax sterk viðbrögð við því sem þeir upplifðu sem viðsnúning og lygar um trú sína og það sem hún byggir á. Nú þegar sögunni hefur verið varpað á hvíta tjaldið skapast enn stærri hreyfing þeirra sem finnst að sér og sinni trú vegið. Viðbrögðin eru sterkust hjá rómversk-kaþólskum en ekki bundin við þá eina. Og ein áhugaverðasta hlið þessa máls er hvernig sumir múslimar taka framsetningu Da Vinci lykilsins á sögu og persónu Jesú til sín.

Heimsbyggðin er enn að átta sig á þeim frústrasjónum sem komu upp á yfirborðið eftir myndbirtingu Jótlandspóstsins á spámanninum Múhameð. Og nú er sem einhverjum múslimum þyki höggvið í sama knérunn, þar sem hinn vestræni skemmti- og neysluarmur nútímans tekur fyrir annan spámann sem múslimar heiðra og hafa í hávegum - Jesú Krist. Á Indlandi hafa til að mynda talsmenn múslima lýst yfir stuðningi við þá kristnu bræður sína sem vilja banna sýningar kvikmyndarinnar. Hvort sem hvatinn kemur frá þeirra eigin særðu trúartilfinningu eða samstöðu með öðrum indverskum minnihlutahópi er afstaða þeirra ljós og þeir eru reiðubúnir að láta verkin tala til að leggja áherslu á mál sitt.

Mér finnst þetta óendanlega áhugaverð staða sem er komin upp. Vegna þess að þessi stuðningur indverskra múslima og hótun um að beita ofbeldi til að fá fram vilja sinn, dregur fram ólíka grundvallarhætti þessara tveggja trúarhefða í samtímanum og setur hina indversku kristnu í eilitla snúna stöðu. Kristnir menn hafa yfirleitt ekki, hvort sem þeir tilheyra meirihluta eða minnihluta, farið fram með eins systematískum hætti og múslimar með kröfuna um að trú þeirra, boð og bönn, séu virt. Hvernig bregðast þeir við núna, þegar útrétt hönd múslima býður þeim til heilagrar baráttu við hið afhelgaða Vestur? Hvort ætla þeir að meta meira, eigin trúarlega sómakennd sem býður hnekki við spekúlasjónir um hjónaband Jesú og Maríu eða fyrirmynd frelsara síns sem bað fylgjendur sína að slíðra sverðin og elska óvini sína?

Alltént hlýtur þá múslimska samfélagið í Færeyjum að anda léttar.

Um höfundinn11 viðbrögð við “Da Vinci lykillinn - bannaður múslimum og kristnum?”

 1. Ævar Kjartansson skrifar:

  Flottur pistill, ætla að vitna í hann í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 núna á eftir,miðvd 16.5.06

 2. Baldur Andrésson skrifar:

  Í pislinum er talað um “trúarlega sómakennd” kristinna,í þessu tilviki á Indlandi sem andstæðu við “ósósmaviðhorf” múslima væntanlega. Alkunna er að saga kristinnar kirkju er uppfull af obeldi í hennar þágu, ofstæki, ofsóknum og upphlaupum,sem leitt hafa til þjóðarmorða í nafni hins kristna kross! Kristniboðssaga S-Ameríku er eitt dæmið,krossferðirnar annað,saga Rannsóknarréttarins enn eitt,nýlendusögu Afríku má nefna og þá ekki síður aldalönga,blóðuga Evrópusögu sem var mörkuð af heilögum trúarstríðum milli kristinna fylkinga. Samlíkingin á “sómakærum kristnum” og”islömsku ósómafólki” er í senn röng og ósiðleg.Enn er “kristni” sjálfbirgingurinn á ferð. Enn lifa fordómarnir góðu lífi.

 3. Torfi Stefánsson skrifar:

  Ég er nú ekki sammála að þetta sé flottur pistill hjá Kristínu Þórunni, til þess er háðið í garð Færeyinga og múslíma of ósmekklegt, né þeirri fullyrðingu Ævars í pistli hans á Rás 1 nú rétt í þessu að frjálslyndi íslensku kirkjunnar komi fram í því að ekki sé amast við kvikmyndinni hér á landi.
  Ég vil minna á umræðu sem átti sér stað fyrir um 25 árum sem sýnir vel íhaldsemi íslenskrar kristni. Þá var kvikmynd Martin Scorsese, Síðasta freisting Krists á krossinum, sýnd í íslenskum kvikmyndahúsum.
  Hópur manna, bæði innan og utan þjóðkirkju, sendi þá bréf til ríkissaksóknara um að stöðva sýningu myndarinnar. Rökstuðningur þeirra var m.a. sá að myndin væri alvarlegt guðlast sem særi trúarskoðanir manna, auk þess sem hún væri fölsun og afskræming á lífi Jesú eins og það kæmi fram í Nýja testamentinu. Kunnuglegt ekki satt?
  Einkum var það samband Jesú og Maríu Magðalenu sem fór í taugarnar á þessum rétttrúuðu mönnum. Einnig fór það í taugarnar á þeim að Jesú var látinn freistast í myndinni og geta það með syndgað (með að geta hugsað sér að giftast Maríu og eignast með henni börn).
  Reyndar var tekið fam í upphafi myndarinnar að hún sé frjáls túlkun á guðspjöllunum en ekki endursögn, og er því hæpið að tala um fölsun.

  Þáverandi biskup Íslands, Pétur Sigurgeirsson, tók undir þessi mótmæli við sýningu myndarinnar, talaði um óhæfuverk og að myndin væri því varhugaverð.
  Já, það er ekki langt síðan íslensk kirkja og kristni brást við á sama hátt og færeysk kristni gerir í dag.
  En við höfum jú breyst á þessum 25 árum sem liðin eru, og orðið miklu frjálslyndari eða hvað? Kannski. Líklegra þykir mér þó að kirkja og kristni þori ekki að mótmæla sýningu myndarinnar um Davinci-lykilinn því almenningsálitið er annað í dag en fyrir 25 árum.

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég tek undir þakkir fyrir pistilinn, hér er komið inn á mikilvægar spurningar.
  Það verður að segjast að ég þekki ekki nægilega vel til mótmælanna sem urðu þegar Síðasta freisting Krists var sýnd hér á landi til að geta tjáð mig um þau af viti, en hef fylgst aðeins með umræðunum í kringum þessa mynd. Ég sé bæði mynd og bók sem gott tækifæri til að ræða um frumkristni og um ýmsar mikilvægar spurningar sem snerta fyrstu árhundruð kristninnar, um tilurð Nýja testamentisins, hugmyndir um Jesú Krist sem sannan Guð og sannan mann, hlutskipti kvenna í kirkjunni og konurnar sem tengdust Jesú og sitthvað fleira.

  Við þetta vildi ég bæta að hægt er að nálgast meira efni um Da Vinci lykilinn á yfirlitssíðu hér á vefnum. Við munum hafa hann sem einskonar tema hér á trú.is fram í næstu viku.

 5. Torfi Stefánsson skrifar:

  Já, ég er sammála því að kirkjan noti þetta tækifæri sem gefst með sýningu myndarinnar um Da Vinci lykilinn til að kynna ritunarsögu Nýja testamentisins og þær deilur sem komu upp með kenningum Markions og Ariusar. Sýning myndarinnar gefur þannig kirkjunni ágætt tækifæri til að kynna sögu sína á jákvæðan hátt en ekki með því að fordæma þá skoðun sem fram kemur í Da Vinci lyklinum.
  Því miður var þetta tækifæri ekki nýtt þegar Síðasta freistingin var sýnd hér árið 1988. Hún var gagnmerk guðfræðileg pæling um eðli Krists, sannur Guð og sannur maður, og um friðþægingarverk hans. Enda byggði sú mynd á skáldsögu hins fræga gríska rithöfundar, Niklos Kazantzakis, sem er gott dæmi um hina grísk-kaþólsku hefð: að hafa mennsku Krists í hávegum.
  Já, sem betur fer hefur kirkjan lært sitthvað á þessum 28 árum sem liðin eru frá þeim tíma er hún reyndi að fá Síðustu freistinguna bannaða.
  Ég vil að lokum taka undir með Baldri Andréssyni um fordómana og sjálfsbirgingsháttinn sem birtist í grein Kristínar, og var svo endurtekin í pistli Ævars Kjartanssonar á Rás 1.
  Kirkjan hefur ekki efni á að gera lítið úr öðrum. Henni er nær að líta í eigin barm og rækta betur sinn eigin garð.

 6. Jón Helgi Þórarinsson skrifar:

  Mér finnst þessi pistill Kristína Þórunnar skemmtilegur (menn þurfa líka að hafa smá húmor til að lesa hann) og áhugaverður þar sem spurt er hvort að íhaldssamir kristnir menn ætli að ganga til liðs við múslima um að krefjast þess að myndin verði bönnuð. Það er alls ekki sjálfsagt að leyfa allt - ekki heldur allar kvikmyndir - en hver er mælikvarðinn hvað skal leyft eða bannað? Lög - almenningsálit - álit minnihlutahópa??
  Þessar spurningar eru áleitnar og mér finnst ljóst að þær munu mæta okkur í vaxandi mæli næstu árin, og þá muni fornir fjandmenn e.t.v. sameinast, þ.e. bókstafstrúarmenn, gegn nýjum óvinum sem eru frjálslyndari trúmenn. Má ekki sjá þetta nú þegar í viðbrögðum við öðrum heitum málum sem við erum að glíma við?

 7. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

  Þökk kærlega fyrir pistilinn Kristín
  Aðeins vil ég mótmæla þeim athugasemdum sem fram koma varðandi fortíðarvanda kristninnar. Í pistlinum er verið að fjalla um atburði samtímans og því er best að dvelja við orð höfundar pistilsins í því samhengi sem þau eru skrifuð en ekki að hverfa inn í fortíðina og horfa í myrkrið sem við finnum þar. Margt og marga má gagnrýna í sögu kristninnar en höldum okkur á tíma bíóhúsa og kvikmynda….og í fordómum samtímans

 8. Grétar Einarsson skrifar:

  Einkar skemmtilegur og góður pistill hjá Kristínu Þórunni. Ég er alveg sammála Irmu Sjöfn að við þurfum að huga að samtíma okkar en ekki hugsa sífellt um fortíðina. Margt hið vonda sem áður hefur verið gert er víti til varnaðar og margt hið góða er fyrirmynd. Þetta eru spennandi tímar fyrir kirkju og kristni; Da Vinci Code og Júdasarguðspjall. ekkert nema gott um þetta að segja því viðbrögðin og áhuginn við þessu öllu sína að fólki stendur ekki á sama og áhuginn er mikill. Ég verð þó að segja að viðbrögð t.d. kaþólsku kirkjunnar þykja mér bera vitni um kirkju sem er ekki í takt við samtíma sinn því mikilvægari mál kalla á athygli og aðgerðir. Ein bíómynd verður kirkju og kristni ekki að falli enda væri hún þá löngu fallin.

 9. Eðvarð T. Jónsson skrifar:

  Það er ekki færeyska heimatrúboðið sem hefur lagst gegn sýningum á Da Vinci lyklinum. Færeyska heimatrúboðið (indre missionen) hefur aldrei verið sterk trúarhreyfing í Færeyjum nema á afmörkuðum stöðum á Austurey. Það er færeyska bræðrasamkoman, baptistarnir í Þórshöfn og víðar, sem hafa beitt sér fyrir sýningarbanninu enda eiga nokkrir meðlima þeirra kvikmyndahúsið þar sem sýna á Lykilinn. Ef séra Kristín þekkir ekki muninn á á færeyska heimatrúboðinu og bræðrasamkomunni gæti hún aflað sér upplýsinga hjá færeyskum starfssystrum eða bræðrum - það er fróðlegur kapítuli í kristnisögu Norðurlanda á síðari öldum.

 10. Liv skrifar:

  Ég er ekki allveg að skila það að það stendur bannað múslimum og kristnum.Múslimar eða íslam eða það getur líka þýdd sem Múhameð trúari koma da vinci code.Ég meina það Kaþóllikar er eina fólkið sem tóku það nærri sér.Kristni fólk er með talfresli eða málfresli.Svo afhverju ekki bannað fyrir kalþóskar fólkið. En kaþólkir trúa á meira Maríu mey heldur en Jesús.Ég meina það , það er til Maríubæn og María þetta og María hitt.

 11. Jón Kristniboði skrifar:

  Mér fannst Da vinci lykillinn
  með þeim betri myndum sem ég hef séð lengi.

  Og mætti banna ansi margar hryllings-myndir áður en þessi mynd yrði bönnuð.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7738.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar