Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Guðmundur Örn Jónsson

Allt hefur sinn tíma

Ég kvíði svo fyrir
snjónum
sagðir þú og horfðir með áhyggjusvip
út í sólglitrandi sumarið

lokaðu bara augunum
fyrir þjáningum mannanna
en þá sérðu ekki heldur
hamingjuna
fegurðina
gleðina

Þannig eru ljóð Jórunnar Sörensen sem bera heitin „5″ og „6″. Þessi orð Jórunnar hafa fylgt mér býsna lengi og eins og ævinlega er með góð ljóð þá tala þau ætíð til manns, koma fram með nýjan boðskap inn í nýjar aðstæður. Stundum hafa þessar ljóðlínur fyllt mig angist og depurð og stundum hafa þau blásið bjartsýni og hamingju í brjóst mér. Núna er þetta ljóð mér þörf áminning um að njóta augnabliksins, að vera ekki svo upptekinn af því sem koma skal að ég gleymi núinu.

Þegar eldri stelpan mín fæddist var auðvitað um mikla hamingju að ræða, en ég var alltof oft upptekinn af því hvaða kúnstum hún myndi næst taka upp á, ég hlakkaði alltaf til þess þegar hún kæmist á „næsta stig“ því þá gæti hún gert eitthvað meira og stórkostlegra. Þetta varð auðvitað til þess að ég missti nánast af því þroskaskeiði sem hún var stödd á í það og það skiptið.

Með tíð og tíma hefur mér lærst að slaka á og njóta þess að vera í núinu með báðum stelpunum mínum. Það er einmitt kjarni málsins og gildir alltaf í samskiptum við börn og fullorðna, ef út í það er farið. Manni hættir því miður oft til þess að plana framtíðiðina svo mikið að maður gleymir því að það eina sem er öruggt er að við erum til einmitt núna.

Ég er ekki að kalla eftir einhverju ábyrgðar- eða stefnuleysi hjá fólki, heldur að benda á að þó sólarlandaferð eftir eitt ár sé ágætt markmið, svo langt sem það nær, þá gæti kannski einmitt núna verið rétti tíminn til að eyða svolitlum tíma með þeim sem þér þykir vænt um.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Allt hefur sinn tíma”

  1. Bolli Pétur Bollason skrifar:

    Gott hjá þér Örri, greina hismið frá kjarnanum. Ég á tvær stelpur, auk þess fékk ég strák á fæti. Þetta er gott innlegg inn í fjölskyldustefnu borgarinnar, sem er víst ekki til. Ætli Vilhjálmur láti hendur standa fram úr ermum?? Ég ætla að nota sumarleyfið til þess að kynnast börnunum mínum betur!!!!

  2. Árni Svanur skrifar:

    Takk fyrir þennan fína pistil, það er mikilvægt að minna á gildi góðra fjölskyldustunda og nú-sins. Ég hef einmitt svipuð markmið í mínu sumarfríi og Bolli nefnir: Að taka frá góðan tíma fyrir litla hnátu.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3243.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar