Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Arna Grétarsdóttir

Undirbúningur sem ekki má gleymast

Undirbúningur fyrir brúðkaupsdaginn getur verið mikill og margvíslegur. Það er ýmislegt sem þarf að skipuleggja bæði hvað varðar hina kirkjulegu athöfn sem og veisluna. Mikill tími fer í að undirbúa þennan eina dag, allt upp í ár eða jafnvel meira, enda ein af mikilvægustu stundum lífsins bæði fyrir brúðhjónin sjálf og svo fjölskyldur þeirra.

Einn er sá undirbúningur sem oft vill falla í skuggann af hinum ytri umbúðum og það er að undirbúa hjónalífið sjálft. Það þarf nefnilega að undirbúa það heit sem gefið er fyrir lífið á stóra deginum. Hjónaefnin þurfa að huga að því hvernig þau ætli að fara að því að halda heitin sem þau gefa hvort öðru um að lifa saman í hjónabandi það sem eftir er, því það er nú ásetningur allra sem velja veg hjónabandsins.

Flest pör sem ákveða að gifta sig eiga að baki samband, þó mislangt sé. Í þann tíma sem parið hefur verið saman hefur ákveðinn undirbúningur átt sér stað. Á þeim tímamótum sem hjónavígslan er í lífi fólks er því gott að staldra við og fara í gegnum það samskiptamynstur sem mótast hefur í sambandinu. Þarna kemur ekki bara við sögu parið sjálft heldur einnig nærfjölskylda og vinir. Skoða þarf hvernig samskiptin eru og hvort hægt sé að bæta þau á einhverjum sviðum. Einnig er gott að fara í gegnum það hvernig og hvaða áhrif þau hafa sem við umgöngumst á sambandið. Þarna er átt við fjölskyldur beggja, vini og vinnufélaga. Það er nauðsynlegt fyrir pör að móta sér sameiginlega framtíðarsýn, skoða viðhorf hvors annars til barnauppeldis, trúarafstöðu og lífsgilda. Þetta eru atriði sem all flestir hafa skoðanir á en hafa kannski ekki komið í orð. Einnig er mikilvægt að ræða verkaskiptingu innan heimilisins og ákveða þarf hvernig henni sé best háttað. Samtal og samstaða um fjálmál heimilisins, fjárskuldbindingar og þess háttar er nauðsynleg öllum pörum að fara í gegnum sem ganga í hjónaband því hjónabandssáttmálinn gefur skýrari línur en sambúðarformið um sameiginlegan fjárhag.

Að lokum er það stóra spurningin: Hvers vegna vilt þú ganga að eiga NN? Það er gott að kunna að koma hugsunum sínum og tilfinningum í orð og jafnvel skrifa niður á blað og lesa fyrir elskuna sína.

Gleymið ekki þessum mikilvæga undirbúningi og ræðið við prestinn ykkar. Þetta er undirbúningur að stórkostlegu verkefni sem gefur tóninn fyrir allt ykkar hjónalíf en verkefnið sjálft varir lífið út.

Gangi ykkur vel og Guð blessi ykkur.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Undirbúningur sem ekki má gleymast”

  1. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

    takk fyrir góð orð. Samtal sem kirkjan þarf að eiga við hjónaefni..minna á aðundirbúningurinn er fyrir lífið en ekki yndislegt laugardagssíðdegi

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3478.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar