Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl V. Matthíasson

Spilafíkn

Í starfi mínu sem prestur á sviði áfengismála hef ég nokkrum sinnum fengið það verkefni að ræða við spilafíkla. Spilafíkn getur stundum dulist lengur og betur en áfengissýki eða önnur fíkninefnaneysla. Það er vegna þess að spilafíkilinn ber ekki fíkn sína utan á sér með sama hætti og áfengissjúklingar og líkamlegir tilburðir verða ekki eins áberandi. En engu að síður endar hún með sama hætti og hjá alkahólistum, þ.e. geðveiki eða dauða, nema mikið inngrip eigi sér stað.

Ég var að tala við eiginkonu spilafíkils um daginn og sagði hún við mig að spilafíknin væri það versta sem hún hefði kynnst á ævi sinni. Hún hafði líka kynnst alkahólisma og fannst sem hann væri hjómið eitt samanborðið við spilafíknina. “Hann getur bara komið einn daginn og sagt að íbúðin sé farin.”

Þó ég sé hafi ekki starfað lengi að þessum málum þá tek ég undir þetta. Menn verða helteknir og þegar þeir standa við kassann eða spilaborðið þá lifa þeir þá vissu að síðasta tap hafi bara verið til þess að næsti vinningur verði meiri. Í spilafíkninni hverfur fíkillinn algerlega frá raunveruleikanum og gefst mammoni fullkomlega á vald. Og þegar hin óendanlega sigurvissa um gróðann sem er að koma verður að hryllilegu tapi þá upplifa menn heiftarleg svik og óendanlega höfnun, jafnvel frá Guði. Og þegar slíkt endurtekur sig aftur og aftur í einvíginu við “einhenta bandíttinn” tekur við geðveiki og jafnvel dauðinn.

Til þess að komast út úr þessum verða menn að upplifa andlega vakningu og eignast trúna og traust á þann Guð sem gefur nýjan kraft og tilgang í lífinu.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Spilafíkn”

 1. Sveinbjörn K Þorkelsson skrifar:

  Ég fagna allri umræðu um spilafíkn svo fólkið í landinu átti sig á að þetta er ekki aulaskapur, heldur alvarlegur fíknisjúkdómur. Og svo að fregnin berist til allra þeirra sem sjúkir eru orðnir af fjárhættuspili - að ástand þeirra er alvarlegt, eyðileggjandi fyrir þá og ekki síður fyrir fjölskyldur þeirra.

  Karl V. segir ‘’Í spilafíkninni hverfur fíkillinn algerlega frá raunveruleikanum og gefst mammoni fullkomlega á vald'’ Þessi fullyrðing um að gefast á vald Mammons er í besta falli vafasöm, en í versta tilfelli villandi. Vissulega er peningahlið fíknarinnar áhugavert umræðuefni, peningar er það EFNI sem spilafíkillinn notar til að komast í ákveðið ástand eða til að flýja ákveðið ástand. Hann getur einnig lagt hluti undir í veðmálum og hlutir hafa verðgildi. Margir spilafíklar staðfesta það að þegar þeir voru langt gengnir af þessum sjúkdóm - þá skiptu peningarnir ekki máli. Menn standa t.d. við spilakassa og fá stóran vinning(eftir margra klst. spilamennsku) og þeir verða svekktir, æ - nú þarf ég að standa hér áfram og áfram. Þeir vita sem er að vinning taka þeir ekki út úr vélinni, nema þeim sé hent út á lokunartíma staðarins.
  Spilafíklar sem fyrrum stunduðu eingöngu spil eða leiki þar sem hæfni þeirra ‘’nýttist vel'’(action gamblers) - eru komnir einn daginn í spilakassa spilamennsku (það lægsta af öllu lágu, finnst þeim). Af hverju, jú, þeir þurfa að fá FIXIÐ sitt, þó þeir eigi enga möguleika að fá þarna svo stóran vinning að það myndi vinna upp tap seinustu daga, eða vikna (sem oft er málið hjá spilafíklum). Eru spilafíklar peninga gráðugt fólk, eru þeir nískir? Þeir fara oft mjög óvarlega með peninga, strá þeim í kringum sig, þá sjaldan sem þeir eiga pening.

  Í meðferð við spilafíkn þarf m.a. að kenna spilafíklinu um verðgildi peninga, stjórnleysið er algjört hjá fíklinu. Hjálpa þarf honum til að setja upp girðingar milli hans og peninga, eða aðgans hans að peningum (fyrst um sinn), engum heilta manni dettur í hug að alkanum sem er að útskrifast úr afvötnun á Vogi sé afhent brennivínsfleigurinn, eða hassið sem hann náði ekki að klára áður en hann lagðist inn - en var meða á sér við komu. Semsagt, já spilafíknin kemur sterklega inn á peninga, Mammon, en málið er flóknara. Oft má sjá að spilafíklar hafa einmitt mjög barnaleg viðhorf til peninga, hafa jafnvel verið andsnúnir fjármagni og eignum þegar þeir voru yngri. Þetta er flókið mál, en við tölum stundum um Bakkus, að vera á valdi Bakkusar og vissulega má segja að spilafíkillinn sé á valdi Mammons á líkan hátt og alkohólistinn á valdi Bakkusar. Og þá er ég kominn í hring:) Að hófdrykkjufólkið geti notið Bakkusar, líkt og þeir sem meðhöndla peninga á eðlilegan hátt, en spilafíklar geti ekki umgengist peninga á eðlilegan hátt. Það er rétt, vil þó undirstirka að græðgi er ekki drifkrafturinn hjá virkum spilafíklum og þeir umgangast peninga eins og um skít sé að ræða.

  Kveðja, Sveinbjörn K. Þorkelsson,
  óvirkur spilafíkill.

 2. Karl V. Matthíasson skrifar:

  Sæll Sveinbjörn.

  Takk fyrir góða athugasemd þína og mikinn fróðleik.

  Ég von að þér hafi líkað að öðru leyti við greinina mína þó þetta með Mammon hafið snert þig neikvætt, en þó vil ég geta þess að hugsun mín var eiginlega sú sama og þú stingur upp á í niðurlagi athugasemda þinna:

  “…en við tölum stundum um Bakkus, að vera á valdi Bakkusar og vissulega má segja að spilafíkillinn sé á valdi Mammons á líkan hátt og alkohólistinn á valdi Bakkusar.”

  Reyndar er annar vandi oft í svona umræðu: sá að menn leggja stundum misjafnan skilning i hugtökin.

  Svo finnst mér staðhæfingin: “Í spilafíkninni hverfur fíkillinn algerlega frá raunveruleikanum”.. vera frekar málið en ekki framhaldið: .. og gefst mammoni fullkomlega á vald.” Kannske hefði verið betra að segja: ” og gefst “Fixinu” algerlega á vald”

  Eftir stendur alltént að sá sem “gefst á vald” einhverri fíkn verður að hljóta/eignast/fá/upplifa einhvers konar andlega vakningu til að komast frá fíkninni.

  Í aukinni umræðu um tölvuleiki barna og unglinga þá má líka spyrja: Eru sumir net - tölvuleikir þannig gerðir að þeir miða að því að fá spilandann síðar í peningaspil á netinu. Þekkir þú eitthvað um þetta?

  Bestu kveðjur

  Karl V. Matthíasson

 3. Sveinbjörn K Þorkelsson skrifar:

  Ég er þér hjartanlega sammála þegar þú talar um að hugtakabrengl veldur oft erfiðleikum í svona blogg umræðum.

  Eins og þú sérð þá verður upphafleg athugasemd mín að litlu sem engu í lok greinarinnar
  (hjá mér),þar sem ég virðist hafa hrokkið við þegar þú talar um að gefast Mammoni á vald.

  Það er reyndar þannig að spilafíklarni sjálfir sjá oft vanda sinn eingöngu sem SKULDAVANDAMÁL
  og á meðan svo er halda þeir áfram að spila og öll aðstoð aðstandenda (í peningum eða öðru) fer fyrir lítið. Þegar þeir sjá að vandinn feldst ekki í skuldunum, heldur þurfi þeir að
  leita sér hjálpar vegna alvarlegs sjúkdóms
  - þá er von um bata.

  Varðandi tölvuleikina, þá hef ég lítið lesið um það, en oft heyrt því haldið
  fram að þeir undirbúi fólk fyrir spilkassanna,
  en fólk tapar sér svosem alveg í leikjunum án þess að verða spilfíklar. Leikjafíknin er nokkuð umtöluð núna, allavega mætti tala þar um leikjaáráttu.

  Við verðum einnig að muna að fjárhættuspil er víða og megum ekki einblína á netið og spilakassa. Þeir sem vilja banna fjárhættuspil gleyma því hvað þetta er samofið mannleglu lífi, langt aftur í siðmenningunni. Erfitt væri að banna teninginn,eða hark, eða að félagar leggi undir í spilum (án þess að um ógnarstjórn væri að ræða)
  Ég er hlyntur fræðslu svo að þeir sem veikjast af þessri skæðu fíkn sæki sér hjálp!!

  Og ég er á móti því að hafa spilakassa í sjoppum og víðar nánast á almannafæri, en ég geri mér enga gyllivon um að við vinnum stóra sigra - við sterk öfl er að eiga og allststaðar í heiminum eru yfirvöld á hröðu undanhaldi.

 4. Karl V. Matthíasson skrifar:

  Já þetta er svo sannarlega rétt hjá þér. Hvað ætli margir ungir menn hafi tapað í “sakleysislegum” sjoppuspilakössum í dag (gær)? Minna aðgengi hlýtur að hafa áhrif í þessu efni. Og auðvitað ætti að taka “fíknina” mikið meira inn í námið en gert er núna og fyrr. Börn skilja miklu meira en við höldum. Takk fyrir Sveinbjörn og vegni þér vel

  Karl

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3673.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar