Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Ægisson

Oviedo-dúkurinn

Í Oviedo á Norður-Spáni, í lítilli kapellu, Cámara Santa, áfastri dómkirkju borgarinnar, er að finna dúk einn, ofinn. Hann er u.þ.b. 84 x 53 cm að stærð, ævaforn og blettóttur og rifinn að hluta, ekkert sérstakur á að líta í fljótu bragði, sýnir t.d. enga mynd eða neitt slíkt, en hefur þótt dýrmætur fyrir einhverra hluta sakir, og þess virði að geyma í traustri hirslu. Að því er sagnir herma var þessi klútur notaður til að hylja andlit Jesú eftir krossfestinguna, eins og lög mæltu fyrir um að skyldi gert til að misbjóða ekki sómakennd þeirra, er leið áttu framhjá, ef áverkar voru miklir. Annað hlutverk þessa klæðaplaggs var að draga í sig blóð og aðra vessa, er upp úr sakamanninum komu rétt fyrir og á dauðastundinni.

Í 20. kafla Jóhannesarguðspjalls segir frá því, að tveir lærisveinar hafi komið að gröf meistara síns á páskadagsmorgni, annar dálítið á undan, og hann „laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.“

Hér er m.ö.o. um tvo hluti að ræða. Hið fyrrnefnda vilja kristnir meina að sé Tórínó-líkklæðið, og hið síðarnefnda Oviedo-klúturinn.

Talið er, að hann sé til að byrja með í vörslu Péturs, og er m.a. um það stuðst við ritaða heimild frá 4. öld. Ítalskur pílagrími, ókunnur, en frá borginni Piacenza, getur þess næst árið 570, að í helli einum skammt frá Markúsarklaustri í landinu helga, við ána Jórdan, hafi verið, þegar hann fór þar um, sjö nunnur og þær „gætt andlitsdúks Krists“. Og nestoríanski biskupinn Isodad frá Merv, þar sem nú er Túrkmenistan í Mið-Asíu, nefnir árið 850 eða svo, og byggir á gömlum austrænum munnmælum, að Jósef frá Arímaþeu hafi afhent áðurnefndum postula klæðið, er hafi látið það á höfuð sér og borið eins og kórónu, þegar hann bað fyrir sjúkum með handayfirlagningu. Þaðan sé komin fyrirmynd að vefjarhöttum eða túrbönum leiðtoga kirkjunnar (sbr. biskupsmíturnar, er væru þá næsta skref í þróuninni).

Sömmu áður en Persar ráðast á Jerúsalem, sem var árið 614, er dúknum komið undan til Alexandríu í Egyptalandi. Um það leyti er hann kallaður Sudarium Domini. Árið 615 fer hann sjóleiðina ásamt mörgum öðrum helgigripum til Spánar, í þar til gerðri kistu sem nær landi í Cartegna árið 616 og er flutt þaðan rakleiðis til Sevilla.

Árið 657 er búið að flytja örkina heilögu í borgina Toledo. Og í kjölfar innrásar mára, árið 711, er dýrgripunum komið í felur enn norðar, á fjallinu Monsacro. Árið 761 eru þeir í San Vicente-klaustrinu í Oviedo.

Árið 1030 er kistan opnuð í fyrsta skipti, og er þar að verki biskup einn, Ponce að nafni. Á bjart ljós að hafa streymt upp þaðan, og blindað nokkra viðstadda. Hinn 14. mars árið 1075 er hún opnuð öðru sinni, en nú formlega, að viðstöddum m.a. Alfonso VI konungi, og innihaldið kannað og skráð, og árið 1113 er hún ríkulega búin silfri að utanverðu, eins og hæfir. Eykst nú hróður borgarinnar, sem margir taka að sækja heim næst á eftir Santiago de Compostela.

Árið 1765 er klæðið loks skoðað rækilega og því lýst; var það gert að beiðni Filipusar II.

Árið 1965 fer ítalskur prestur og sérfræðingur, Guilio Ricci, til Norður-Spánar í leit að „sveitadúk“ Jóhannesarguðspjalls, og þar með eru vísindin komin í spilið. Er hann fyrstur til að ámálga þá skoðun opinberlega, að tengsl séu á milli klæðanna í Tórínó og Oviedo. Árið 1987 er settur á laggirnar um 40 manna hópur sérfræðinga, Centro Español de Sindonología, til að rannsaka plaggið, og frá 1988 hefur verið farið nákvæmlega ofan í saumana á því, og beitt allri nýjustu tækni.

Niðurstaðan er sú, að til þessa hafi ekkert fundist, sem gefi til kynna að um fölsun geti verið að ræða. Þvert á móti bendi allt til þess, að hér sé í raun höfuðklútur Jesú Krists, settur á hann nýdáinn á krossinum, og nokkrum sinnum eftir það. Og ekki verði heldur litið framhjá skyldleikanum við líkklæðið. Ef dúkurinn og það eru lögð hvert að öðru næst samsvörun bletta hvað framhliðina varðar í alls 70 atriðum, þar á meðal er skegg nákvæmlega eins, sem og lengd nefsins, og við bakhliðina í 50. Blóðflokkurinn er AB í báðum tilvika. Og frjókorn í tauinu styðja hið langa og mikla ferðalag; þau eru dæmigerð fyrir Jerúsalem, Norður-Afríku, Toledo og Oviedo, en engin tenging er við Istanbúl, Frakkand, Ítalíu eða önnur lönd Evrópu.

Einn og sami einstaklingur kom við hvort tveggja.

Sjá nánar um þetta á www.shroud.com/heraseng.pdf, þar sem er að finna greinargerð sérfræðinganna, frá 1998. Og einnig á www.shroud.com/guscin.htm.

Og þar með er kenning efasemdamanna, um að einhver á 13. eða 14. öld eða jafnvel síðar (Leonardo da Vinci, 15. og 16. öld) hafi þarna leikið á umheiminn varðandi Tórínó-líkklæðið, að engu gerð. Það verður nefnilega aldrei hrakið, að Oviedo-klæðið hefur verið á Spáni frá 7. öld.

Guð lætur ekki að sér hæða.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Oviedo-dúkurinn”

  1. Þór Hauksson skrifar:

    Takk fyrir Sigurður fyrir allveg ágætis grein. Bæði fræðandi og skemmtileg aflestrar. Las hana reyndar í mogganum og aftur núna Takk fyrir!

  2. Guðni Már Henningsson skrifar:

    Ég les allar þínar greinar af miklum áhuga. Þær eru fróðlegar, uppbyggjandi, vel skrifaðar og greinilega engu til kastað. Og að lokum síðbúnar þakkir fyrir að hafa stolist til að lesa greinar þínar um jól í útvarpið. Guð blessi þig og starf þitt.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3962.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar